07.12.2010 17:09

Frá Bollastaðabændum


Skýringar JI á bændarímu
Friðgeirs Árnasonar Hvammi
 

Bollastaðir 56 vísa

        Guðmundur var son Gísla Guðmundssonar, sem búið hafði lengi á Bollstöðum eða frá því fyrir 1840. Með vissu veit ég ekki hvenær hann byrjaði búskap. Gísli átti Margréti Björnsdóttur frá Auðólfsstöðum. Var hjónalíf þeirra ekki með ágætum, varð Ólafur bróðir hennar stundum að tala milli þeirra. Ólafur dó 1837 og nokkru fyrr hefur hefir Gísli verið farinn að búa. Til marks um að ekki hafi verið ástsemd með þeim hjónum er það sagt um Gísla, að hann hafi aldrei minnst konu sinnar eftir að hún var dáinn öðru vísi enn svo: Hún Margrét sem hérna var. 
        
Gísli var búhöldur mikill, heyjabóndi svo mikill að í flestum árum fyrnti hann öll hey frá sumrinu áður og oft meira. Alltaf setti hann á sömu skepnutölu hvernig sem heyjaðist. Safnaði hann töluverðum peningum. Heldur þótti hann strangur og reglufastur. Átti hver hlutur sinn stað og mátti ekki skeika svo hann yrði ekki vondur. Svo var hann reglufastur að ávallt varð að láta teymingana af sömu hestunum á sömu ugluna á skemmuþilinu á sumrin meðan meðan hestar voru notaðir mest og þesslegt hafði verið með annað en nægan og góðan mat vildi hann láta fólk sitt hafa og lítið þótti honum til þeirra koma sem ekki héldu vel saman fé sínu. Taldi hann það höfuðnauðsyn hverjum manni að verða efnalega sjálfstæður. Óhlutdeilinn hafði hann verið um annarra hagi út á við og kom sér vel við nágranna.

        Guðmundur var yngstur barna hans. Sögðu gárungarnir að hann hefði aldrei stofnað til barns fyrr en það síðasta var dáið. Guðmundur tók allt fé eftir foreldra sína en nokkur ár lifði Gísli eftir að hann fór að búa. Guðmundur giftist tvítugur. Var kona hans María Guðmundsdóttir frá Valadal. Hún var ekkja eftir Guðmund Magnússon frá Hvammi. Átti hún eina dóttur af því hjónabandi, Ingibjörgu að nafni. Hennar fékk Baldvin Einarsson, hálfbróðir frú Guðlaugar fyrri konu síra Hjörleifs prófasts. Bjuggu þau í ýmsum stöðum. Varð þeirra hjónaband ekki farsælt. Skildu þau að lokum, fór hann til Amiríku 1883 með tvær dætur þeirra, Maríu og Guðlaugu, hinar mannvænlegustu stúlkur, en eftir varð hjá móður sinni yngsta dóttirin, Þórunn Ingibjörg að nafni. Varð hún einhver fegursta og gáfaðasta stúlka sem Bólstaðarhlíðarhreppur hefur átt í seinni tíð. Fór hún til Danmerkur og giftist þar Stefáni Stefánssyni lækni á Jótlandi. Fór Ingibjörg að lokum til dóttur sinnar eftir lát stjúpa síns, hjá hverjum hún hafði verið ráðskona í nokkur ár eftir lát móður sinnar.

         Eftir að Baldvin kom til Amiríku tók hann saman við Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Eldjárnsstöðum sem fór sama vorið og hann til Amiríku. Áttu þau saman eitt barn og skildu svo. Hef ég síðan ekkert heyrt af honum né dætrum hans.

         Þau Guðmundur og María áttu saman nokkur börn en ekki komust nema tvö af þeim til fullorðins aldurs, Gísli og Sigurbjörg. Gekk Gísli menntaveginn en drukknaði af skipi að Sjáland mig minnir 1884. Sigurbjörg giftist Pétri Péturssyni frá Valadal.

         Guðmundur gerðist hinn gildasti bóndi. Var hann um langt skeið einn efnaðasti bóndi sveitarinnar og mjög við öll mál hreppsins riðinn, fyrst meðan hreppstjórar höfðu þau öll og eftir að hreppsnefndir tóku við nokkrum hluta þeirra og mörg ár var hann sýslunefnarmaður. Hafa fáir eða engir komið meira við sveitarstjórnina en hann og eftir að pöntunarfélög voru stofnsett, varð hann formaður pöntunarfélags hreppsins og deildarstjóri. Var svo með flestöll félags- eða framfaramál sveitarinnar að Guðmundur var meira og minna við þau riðinn og gaf ávallt góða raun þó misjafnlega væri honum þakkað. Sáttanefndarmaður var hann lengi og reyndist í því mörgum framar. Var svo um langt árabil að ekki þótti ráðum ráðið nema hann kæmi þar til.

         Guðmundur var með stærri mönnum að vexti, gildvaxinn og hraustmenni mikið. Glímumaður í besta lagi svo að fáir stóðust hann, dökkjarpur á hár og skegg, hörundsfagur, réttleitur með nokkuð stórt nef, hafið upp framan. Hann var seinmæltur og fastmæltur og velti völu. Málfar hans var mjög í fornlegum stíl, manna gagnorðastur og var sem orð hans hefðu meiri kraft og áhrif en annarra þó sömu væru, málrómurinn sterkur og skýr en ekki hár en heyrðist flestum betur þó langt væri til. Napuryrtur var hann oft svo að flestum sveið undan sem fyrir urðu en ekki hafði hann slíkt við að jafnaði og þá í glettum en ekki reiði. Sem dæmi um orðatiltæki hans er það að eitt sinn lagðist orð á mikinn söguburð frá einum bæ til Skagafjarðar og sumur miður sannur. Undruðust menn hvernig þeim sögum væri komið. Sagði Guðmundur þá: Það kvað liggja þráður þarna úr NN nöfinni norður um Skarðið. Öðru sinni var það að leit var gerð á heiðina að vori því fé  hafði sloppið venju fremur til heiðar. Var leitarkostnaðinum jafnað niður áður en leitin var gerð eftir líkum og getu þeirra sem hlut áttu að. Þótti mörgum miklu jafnað á mann einn búlausan sem þótti hlédrægur og fjárfastur. Sagði Guðmundur þá:"Það verður að taka upp á þessum grútargeplum eins og á þeim tollir." Þá voru hin tvíræðu tilsvör hans svo sem eitt sinn að tilrætt var um nákvæmni og gagnrýni Erlends Pálmasonar, sagði Guðmundur: það ver sig engin lús fyrir honum. 
        Annað skipti var það að þeir töluðu saman síra Guðmundur Helgason - um kenningar og lærdóma trúarbragðanna - ásamt fleiru. Samsinnti Guðmundur margt hjá presti en bætti svo við: Prestarnir ljúga nú ekki öllu. Þannig væri lengi hægt að telja svo sem sérkennileg orðatiltæki sem mjög einkenndu hann. Svo sem það, að eitt sinn var talað um mann sem þótti stórbokki og stundum leit ekki við mönnum sem yrtu á hann, einkum ef þeir voru við sem hann taldi standa ofar, sagði Guðmundur þá: Það er ekki smámenna að eiga orð við hann síðan hann hljóp í þetta þóttaspik.

         Á fyrstu búskaparárum sínum byggði Guðmundur beitarhús fram á Skálafelli, hafði þar áður verið skothús sem legið var við á vetrum til refadráps. Var nafnkunnastur þeirra er þá veiði stunduðu Oddur skytta sem um eitt sinn bjó á Sellandi. Hygg ég hann hafi verið faðir Bjarna á Eiríksstöðum. Líkaði Gísla kalli illa sú nýbreytni. Sagði það yrði til að setja hann Gvend á höfuðið en það rættist ekki, bæði er mikið skemmra að flytja þangað hey framan úr flánum og styttra til góðrar beitar hvort heldur er fram um flárnar eða niður í Selland, brekkurnar sem mjög eru jarðsælar og hlýlegar einkum síðari hluta vetrar.

         Guðmundur byrjaði að byggja upp bæ sinn 1864 eða 5, byggði hann þá baðstofuna, þá sem enn er. En fyrir 1880 var hann búinn að byggja allan bæinn nema skemmu og ekki mun stofan að öllu fullgjör fyrr en um 1890. Stendur þessi bær að öllu óbreyttu nema rifinn var veggur milli búrs og gangna og þiljað þar maskínuhús.

         Er teikningin af bænum fullgjörðum.

         Stóð hagur Guðmundar lengi með blóma, var hann ávallt góður heyjabóndi og hjálpaði í harðindum sem oft urðu í búskapartíð hans, einkum veturinn 1859 þegar hin nafnkunna heyfúlga Skjaldbreið seldist hjá Kristjáni í Stóradal og 1869 sem var eitt hið mesta hungurvor á mönnum og skepnum sem komið hefur í seinni tíð hér um slóðir.

        Sem eðlilegt var hélt Guðmundur marga vinnumenn um dagana og suma lengi. Einn af þeim hét Björn, kallaður Hlaupa-Björn(Guðmundsson) manna frástur á fæti. Er það til marks um léttleik hans að eitt sinn þá hann hafði hleypt út fénu á Skálafelli, hljóp hann norður að Brúnastöðum í Tungusveit, beið eftir kaffinu en var þó kominn aftur nógu snemma til að láta féð inn um kvöldið á Skálafelli.

         Heimili Guðmundar var friðsamt, hann var sjálfur spaklátur og kona hans hófsöm í orðum en þótti um of aðfinnslusöm einkum við unglinga sem ef til vill hefur að einhverju átt þátt í því að ekki þótti fólk sem ólst þar upp ekki mannast eins og líkur stóðu til. Mjög voru þar fastar reglur um allt og þrifnaður í besta lagi, stranglega voru húslestrar ræktir því húsbændur voru trúaðir. Kom það oft fyrir að Guðmundur var fenginn að tala við úthafning líka, einkum fátæks fólks því hann gerði sér það ekki til fjárgróða. Þótti það takast ætíð vel, því maðurinn var stílfastur og gagnorður.

         Betra reyndist fé Guðmundar en flestra annarra var svo meðan Koghill keypti sauði á fæti að hann gaf einni til tveim krónum hærra fyrir hvern sauða hans en öðrum hér í austursýslunni. Sagði hann svo frá að þeir feðgar hefðu aldrei fengið kind að til kynbóta, hvorki hrút né á þar til 1885 að Guðmundur fékk hrút hjá Helga í Rugludal sem átti mjög gott fé. Sagðist honum svo frá að það hefði orðið til spillingar í fénu. Á jarðabótum byrjaði hann ekki fyrr en um 1880 eða litlu fyrr, var hann aldrei stórtækur á þær.

         Síðari hluta hans gekk bú hans mjög saman, mun hann hafa farið í skuldir við byggingar og skólakostnað og í þriðja lagi að hann var ekki varkár með að hleypa inn á sig annarra fé, einkum ómyndugra sem hann var vergi?(fjárhaldsmaður) en fé það mun vart hafa ávaxtast svo í búinu sem þurfti. Eftir að Sigurbjörg dóttir hans giftist og fór að búa á Bollastöðum hafði Guðmundur lítið um sig og smádróst saman búið. Fóru kraftar hans smáþverrandi uns hann 1901 lagðist í rekkju sem dauðlúinn maður er einskis þarfnaðist annars en hvíldar. Lá hann svo um tíma eins og maður sem bíður eftir að fá að sofna. Svo fór líka um hann, hann lá nokkuð svo þreyttur að hann gat sig lítið hreyft uns hann að lokum lagði aftur augun og sofnaði með öllu þjáningalaus og opnaði augun ekki aftur. Síra Ásmundur sem var hjá honum þegar hann dó sagði að þar hefði sér auðnast að sjá mann deyja náttúrulegum dauða.

         Geta verður þess að Guðmundi hætti til að drekka í samkvæmum og kaupstaðaferðum, varð hann þá oft í meira lagi stórorður því hann var að eðli skapmikill og kom þá fyrir að hann lenti í ryskingum.

         Eitt sinn varð honum að taka fram hjá. Varð það ei til að kæla sambúð þeirra hjóna svo opinbert væri. En hald sumra var að undir niðri hefði þó orðið færra með þeim hjónum á eftir. Barn þetta átti hann með Jóhönnu Steingrímsdóttur sem síðar varð kona Helga Benediktssonar á Svínavatni. Barn það dó strax eftir fæðingu. Lét María sér farast sem drengilegast og skörulegast við Jóhönnu. Hún átti þá heima á Bergsstöðum.

         Eftir Guðmund bjó Pétur tengdason hans á Bollastöðum. Græddist honum vel fé, varð hann hinn mesti stólpabóndi og hinn vinsæasti. Ávann hann sér traust og hylli allra sem til hans þekktu. Varð hann mjög viðriðinn flest opinber mál sveitarinnar og þótti sýna þar fullan drengskap en enginn var hann skörungur. Ekki gerði hann mikið til umbóta jörðinni nema nokkuð að túnasléttun, þó ekki í stórum stíl og nokkuð að viðreisn peningshúsa. Tilraun gerði hann með votheysgerð en heppnaðist ekki vel.

Flettingar í dag: 104
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515481
Samtals gestir: 104677
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 16:29:14