18.01.2020 16:49

Úr syrpu Jónasar Illugasonar

mmmm


Úr syrpu

Jónasar Illugasonar Eiríksstaðakoti árið 1905

Neðar á síðunni er fyrirlestur IHJ: Til hvers karlakór? Fluttur í Hæðargarði 24. febr. 2016

Jónas Illugason 1865-1954 varð sextugur 12. júní 1925 og gæti hafa skrifað þessa ritgerð á því ári eða ári fyrr þar sem hann miðar sig við 1874. Hann tekur fyrir einn málaflokkinn eftir annan, þeir verða 17 alls:

1. Trúmál

2. Menntun

3. Efnahagur og viðskiptalíf

4. Vinnufólk og verknaður

5. Fæði og klæðnaður

6. Þrifnaður

7. Húsakynni og byggingar

8. Skemmtanir

9. Bakkus og alkóhól

10. Skáldskapur

11. Heilbrigði

12. Pólitík

13. Sögur sem valdið hafa orðtökum í sveitinni

14. Talshættir

15. Handverksmenn

16.       menn

17. Vegir og ferðalög

JI hefur hikað við að nota orðið fræðimenn með nr. 16, skrifar aðeins seinni hluta orðsins en skilur eftir eyðu - og er enn óskrifuð. Nokkra kafla skrifaði ég upp í fyrstu viku góu 2020, en handritið er varðveitt á Héraðsskjalasafni A-Hún á Blönduósi

Hér hefur Jónas formála sinn:

Það er ávallt vandi að minnast liðins tíma því manni hættir við að fegra það sem geðfellt er í endurminningunni en aftur sverta hitt um of. Svo er það, að á meðan maður er í fullu fjöri verka atvikin ekki eins á og þegar ellin færist yfir.

Þegar ég nú í byrjun 7. tugar aldurs míns - f. 12. júní 1865 - lít til baka og horfi á sveitina sem ég er borinn og barnfæddur í, sýnast mér furðu miklar breytingarnar. Ætla ég nú að fara rúm 50 ár til baka eða til ársins 1974, þessa merka árs þegar útvirki ófrelsis og kúgunar hrundu fyrir atlögum Jóns Sigurðssonar og samherja hans. Þetta herrans ár er mér minnisstætt þó ég væri ekki nema hálfs níunda árs þegar það byrjaði. Árið gekk í garð með afar hörðum vetri, hríðum og jarðbönnum og urðu mikil brögð að heyleysi um vorið en skepnudauði mun ekki hafa orðið til muna meiri en venja var til á þeim árum. En þrátt fyrir illviðrin og ýmsar erfiðar kringumstæður manna var ávallt óvanalegur gleðiblær yfir mönnum þegar þeir fundust og um vorið meðan menn voru að basla við heysóknir - oft langa og örðuga leið, uppgefnir og armæddir - hlógu þeir og gerðu að gamni sínu því frelsið var að halda innreið sína í landið.

Sólin rann upp yfir frjálsu landi og jafnvel élin voru að berja á ófrelsinu og gera það landrækt.

Það mætti halda að fólk hefði efnt til mikils skemmtifundar þar sem allir virtust vera hrifnir og glaðir en á það heyrði ég aldrei minnst en margan heyrði ég lofa Guð og árna landi og lýð allrar blessunar í hans nafni og það víst af heilum hug.

Á mörgu hefur orðið stór breyting í sveit þessari á þessu 50 ára tímabili, sumt og flest til bóta að mínu áliti en sumt hefur hnignað og það ískyggilega mikið. Skal nú leitast við að sanna þetta hvoru tveggja.

1.    Trúmál:

Árið 1874 voru hér tveir prestar og þrjár kirkjur. Voru kirkjur þá yfirleitt miklu betur sóttar en nú, var oft fjölmennt við kirkjur og mikið og margvíslegt skrafað, bæði andlegt og veraldlegt. Ekki voru þá hljóðfæri í kirkjum en það er víst að, að fólk var þá ekki síður hrifið af söngnum en nú því hér voru þá margir velraddaðir menn og oft hljómur mikill í kirkjunni þegar menn fóru í tvísöng og voru ögn hýrðir af víni sem ekki var þá mjög ótítt. Þetta breyttist mjög við komu séra Stefáns M. Jónssonar, hann var söngmaður mikill og söngfróður. Varð þá sú breyting á, að eins og enginn þyrði að nota hljóðin og horfði stundum til vandræða með að svara presti og ekki örgrannt fyrir kæmi að hann mætti svara sér sjálfur. Eftir því sem mig minnir komu orgelharmonium í Bergsstaða- og Bólstaðarhlíðarkirkjur á árunum 1879 og 1880. Hólakirkja var rifin 1882 og kom aldrei orgel í hana. Varð það til þeirra bóta að oftast var einhver til að byrja sönginn, en framan af var oft lélegur söngur í báðum kirkjunum, einkum á Bergsstöðum en þetta hefur tekið miklum umbótum síðan um aldamót því smám saman hafa fleiri og fleiri lært nokkuð til söngs svo nú má víst telja að söngur sé oftast sæmilegur.

Ýmsir kirkjusiðir hafa mjög breyst: Þannig var það föst venja að allir gerðu bæn sína með byrgðu andliti meðan meðhjálparinn las bænina og faðirvor, bæði undan og eftir messugjörð. Var bænagerð eftir messu haldið þar til búið var að klykkja út, mátti þá oft sjá tár á auga á eldra fólki. Þessi siður hélst fram um aldamót. Fór hann þá mjög að leggjast niður og er nú með öllu horfinn. Þegar ég man fyrst sá ég margt af elsta fólkinu hneigja sig í hvert sinn er Guð og Jesús var nefndur í kirkjunni og þegar það fór út úr kirkjunni signdi það sig og sneri sér sólarsinnis til útgöngu, en þetta lagðist niður með elsta fólkinu. Nú er meðhjálparinn hættur að lesa faðirvor og ekki er það mjög fátítt að farið sé að leika fjörug danslög og önnur viðlíka andleg lög strax og presturinn er kominn frá altarinu og ekki minnist ég þess að fólk nú hópi sig saman eftir messu til að  til að tala um predikunina en það var mjög alsiða framan af þessum umræddu 50 árum og miklu þoldu menn betur þá en nú að talað væri um syndirnar af prestinum, álitu víst að það væri í hans verkahring að áminna syndarana, en svo lítur út að sumir álíti nú að þeim köllum komi slíkt ekki við framar. Sýnist mér meira bera á þessu eftir að andatrúin fór að smeygja sér hér inn.

Ekki er síður breyting orðin á heimilisguðsdýrkuninni. Þegar ég man fyrst til voru húslestrar iðkaðir á öllum bæjum sem ég heyrði talað um og víðast sungið til lesturs einkum á föstunni en að líkum ræður að slíkur söngur hefur  verið ærið misjafn en líklega hefur Guð heyrt hann eins vel og margraddaða sönginn nú, enda þó orð færi af því að sums staðar væru allir sálmar sungnir með sama lagi. Fólkið líkti í auðmýkt hjarta síns eftir fuglunum. Þá var ekki síður misjafn lesturinn Víða á bæjum voru þeir ágætis lesarar að unun var að heyra, aftur voru sumir sem böggluðust við lestur, sannir vesalingar í þeirri grein og gekk hneyksli næst. Börnunum var þá alls staðar kenndar bænir of haldið til að lesa þær, einkum á kvöldin og ævinlega að signa sig þegar þau voru komin á fætur á morgnana. Mátti heyra á sumum bæjum að allir þuldu þegar þeir voru háttaðir. Ennfremur signdu sig flestir áður en þeir tóku til matar. Þá var það og siður að lesa bænir í hljóði þegar farið var af stað til kirkju eða í lengri ferðir. Tóku karlmenn þá ætíð ofan og lásu berhöfðaðir. Þá má telja það til guðrækni að gestir sem þágu mat ávörpuðu veitandann svo:"Guð launi matinn" eða "gefðu í guðsfriði."  Margt af þessum siðum er með öllu lagt niður. Húslestrar eru á stöku bæjum iðkaðir enn og börnum víðast eða alls staðar kenndar bænir en slælega mun víðast gengið eftir að þau lesi þær með fjálgleik.

2. Menntun:

Við byrjun þessa tímabils var enginn skólagenginn maður í hér í sveitinni nema prestarnir, en margir menn voru sjálfmenntaðir og það vel, sumir ágætlega. Bændur voru allir skrifandi að undanteknum þremur eða fjórum, aftur voru fáar konur sem kunnu skrift en vel læsar voru þær yfirleitt og margar betur en menn þeirra en svo var margt af eldra vinnufólki, sem hafði verið alla ævi í vinnumennsku, mjög illa að sér, sumt tæplega læst og hirti víst lítið um lærdóm. Þá var barnafræðsla aðallega fólgin í því að kenna börnum að lesa og kenna þeim kverið. Var þá ekki krafist meiri kunnáttu undir fermingu. Þó voru menn almennt vaknaðir til meðvitundar um að nauðsynlegt væri að börn lærðu skrift og nokkuð í reikningi, gerðu margir bændur sér mikið far um að mennta börn sín og það svo að fjöldi barna varð síst ver að sér en börn eru nú þó þau gangi í skóla vetur eftir vetur. Aftur varð margt af börnunum að láta sér nægja með kverið þar til ef þau urðu þess umkomin að útvega sér menntun sjálf og gerðu það mörg.

3. Efnahagur og viðskiptalíf

Allt þetta tímabil hafa verið margir góðir bændur hér og ávalt nokkrir vel efnaðir eftir íslenskum mælikvarða - en líka margir fátækir. Var enn meiri munur á efnum manna framan af tímabilinu. Þó voru hér nokkrir fjölskyldumenn sem hengu við bú með öllu félausir. Bæði höfðu þeir lítið undir höndum og höfðu það allt að láni. Heyrði ég suma þessa fátækari menn segja frá efnahag sínum. Var oftast að kýrin var ekki leigugripur og ekki heldur hrossin sem títt voru tvö, stundum eitt, en þá átti einhver vinurinn hjá þeim upphæð sem nokkurn veginn svaraði til gripanna. Öðru máli var að gegna með ærnar, þær voru leigupeningur oft sín úr hverri áttinni, sumar stundum langt að. Þá voru innanstokksmunir, heldur ekki miklir, eitt eða tvö rúmflet, vanalega fátækleg. Börnin lágu á heypokum og höfðu einhverja leppa til skjóls, stundum gæruskinn. Svo fór þetta nú batnandi uppeftir(miðað við efnahag) uns kom að stórbóndanum. Þeir höfðu margt gangandi fjár, einkum ær og sauði, var hér á fáeinum bæjum hundrað og þar yfir tvævetrir og eldri sauðir, ær um tvö hundruð og ef til vill fleiri. Kýr voru ævinlega eins og túnin fóðruðu, en hross voru yfirleitt mikið færri en nú, einkum ótamin.

Innanstokksmunir voru alls staðar fábreyttir og skrautlitlir og varla neitt af munum sem ekki þurfti til daglegrar notkunar. Á stöku stöðum voru til sterkar og vandaðar hirslur, einkum skatthol og nokkuð víða útskornir kistlar og stokkar. Smiðjur voru þá á fleiri bæjum en lélegar voru þær víða. Aftur var mikið til af smíðatólum á mörgum bæjum því hér voru þá margir smiðir. Rúmfatnaður var víðast slæmur, yfirsængur mjög fátíðar nema í hjónarúmum og ef gestarúm var til. Lítið heyrðist þá talað um að menn sem kallaðir voru bjargálna og þaðan af betur væru í skuldum. Þótti það líka vanvirða ef brögð voru að. Fáir eða engir voru hér peningamenn nema hafi það átt sér stað á árunum kringum ´80 með útflutningur var á lifandi fé til Englands.

Fasteignir hreppsins skiptust þá á færri eigendur en nú. Áttu nokkrir af efnuðustu bændunum tvær og þrjár jarðir og svo voru hér opinberar eignir - kirkjujarðir - og ein klausturjörð - nú í eyði og eign sveitarinnar en hinar eru keyptar af ábúendum nema ein, en  utansveitarmenn hafa alltaf átt lítið af fasteignum hreppsins - nú aðeins eina jörð - viðskipti manna voru fremur lítil, hvers við annan, einkum þeirra efnaðri. Mest öll skipti þeirra voru við verslanir en að öðru leyti leituðust þeir við að vera sem sjálfstæðastir og sjálfum sér nógir nema ef þeir þurftu að kaupa smíði af öðrum. Aftur á móti voru fátæklingarnir mjög oft í viðskiptasambandi við einhvern eða einhverja, stundum utanhreppsmenn. Fengu þeir oft og tíðum mestar stundum allar þarfir sínar hjá þessum mönnum eða út úr kaupstaðarreikningi þeirra. Tóku svo af þeim í fóður, slíkt er þeir gátu og létu svo gemlinga til þeirra að vorinu. Gekk þetta stundum svo langt að þeir höfðu kannski eina eða tvær veturgamlar kindur eftir eftir til að yngja upp með. Var þá hentugra að bráðapest eða aðrir kvillar gerðu slíkum mönnum ekki mikinn usla ef ærtalan átti að haldast við. Ofan á þessi óhagstæðu viðskipti bættist það, að fátæklingurinn varð að bíða að mestu með úttekt til vetrarins fram yfir nýár og fara þá labbandi með drógina í taumi - hvernig sem veður og færi var - og  og fá þá vöruna með uppsettu verði því þá var venjan að kaupmenn settu vörurnar upp við áramót en oftast munu þeir sem lánuðu svona út úr reikningi sínum hafa fengið matvörur með sama verði yfir allt árið svo þeir græddu  allt sem vannst á verðmun kindanna að vori og hausti og svo það sem uppsetningunni numdi enda urðu þeir mjög oft vel efnaðir menn en fátæklingurinn sóð alltaf í stað meðan hann gat fóðrað og alið upp. En bæri út af því varð þrot. Svo mátti heita að ekki væri talað um annan gjaldeyri manna á milli en sauðfé og fóður - eða vinnu sem var þá í lágu verði, hæsta vorkaup sem ég heyrði nefnt var kr. 1.50 á dag, flestir fengur 1 kr. á dag, sumir minna. Kaupfólk sem flest var sunnlenskt fékk kaup sitt vanalega greitt í smjöri og tólg, duglegir menn 2 fjórðunga á viku, (110 kíló) og bestu stúlkur þriðjungi minna. Svo voru vaðmál og dúkar skinn og hvers konar landvara, og svo kaupstaðarúttekt og innskrift til innanhéraðsmanna. Ekki var það neitt fátítt, að menn sem voru í húsmennsku og höfðu konu og börn, tækju skyr á eina viku eður svo um slátt. Gilti þá skyrtunna, 120 pottar fyrir einnar viku kaupi. Um peningar var naumast að tala.

Eftir að sauðasala hófst til Englands breyttist þetta nokkuð, varð þá á tímabili töluvert af gulli í umferð einkum eftir 1880 og fram yfir ´90. Þá byrjaði aftur hin mesta verslunarkreppa. Hélst hún í nokkur ár en undir aldamótin hættu allir hér fráfærum. Gerbreyttust þá viðskipti manna. Hurfu þá með öllu  gegnum milliliði enda voru þau mjög farin að minnka. Fóru á allir að versla sjálfir með sína  vöru og gerast  reikningsmenn verslana en um leið hurfu þá líka síðustu leifar sauðanna. Hafði þeim mjög fækkað þá undanfarin ár frá því farið var að vigta fé lifandi til útflutnings því þá gátu menn komið vænum kindum veturgömlum og geldum ám á markaðinn. Varð sú breyting mest til að losa fátækari mennina frá fyrri lánardrottnum. Því jafnhliða vigtinni komu vörupantanir, urðu þau viðskipti mönnum miklu hagstæðari en hin fyrri. Fengu menn nú mikið meira fyrir vörur sínar og útlendan varning allan stórum ódýrari. Þá skiptir þetta mestu eftir að fráfærurnar lögðust niður. Þá var farið að flytja dilkakjötið út saltað í kaupfélögunum. Fengu menn þá hartnær eins mikið fyrir dilkinn eins og áður fyrir veturgamla kind en losnuðu við að fóðra lambið og vanhöld minni. Skipti nú svo um að margir sem áður voru beygðir niður af örbirgð, réttu nú við og urðu sjálfstæðir. Fóru nú peningar að ganga í staðinn fyrir landaura sem hurfu þá með öllu sem gjaldeyrir. En með þessum velmegunarbreytingum fór eyðsla manna mjög vaxandi. Má segja að velmegunartímabil gangi yfir sveitina frá því um aldamót til 1923-4, fór þá heldur að draga slafur af mönnum því margur hafði spilað fulldjarft meðan allt stóð í háu verði en er verðfallið kom, vöknuðu menn við vondan draum. Þeir voru orðnir skuldugir og þurftu að fara að borga. Er nú svo ástatt fyrir mjög mörgum að þeir standa í djúpri skuldasúpu en ég efast samt um að meiri bústofn hafi nokkurn tíma verið í sveitinni á þessu tímabili en nú er. Því hann stendur miklu jafnara en áður auk þess eru nokkrir sem eiga fé á sparisjóðum og annars staðar.

7. Húsakynni og byggingar

Árið 1874 voru engir nýbyggðir bæir hér í sveitinni, flestir orðnir gamlir, að líkum frá tímabili góðu áranna á fyrri hluta 19. aldarinnar. Standa sumir þessur bæir en flestir þó nokkrum viðgerðum og þá með smábreytingum. Eru þrír bæir enn til sem áreiðanlega að mestu frá árunum 1820-40 ef ekki eldri og fjórir sem hafa mestöll framhús frá svipuðum tíma. Eru þessir bæir lítt fúnir að viðum en veggir stórskemmdir og mikið snöruð húsin. Hafa þeir að uppruna mest verið byggðir úr rekaviði og góðum fjalviði, þá teknum í kaupstað. Alltaf hafa menn verið að endurbyggja bæina en venjulegast byggt þá í svipuðu formi og áður, aðeins haft húsin nokkru hærri en þau vóru og að mun bjartari. En flestir yngri bæirnir eru veikari en þeir gömlu og byggðir úr verra efni, bæði að viðum og torfi. Og flestir nýrri veggir eru mikið verr gerðir en áður var, enda standa þeir illa. Sífellt að bila og jafnvel velta um. Nú á síðustu árum hafa þrír bændur byggt upp bæi sína með mjög endurbættu sniði hvað hæð húsanna snertir og rýmindi, eins mikið hægri umgöngu en sá ljóður er á þeim að þeir eru mjög kaldir og ekki vel heldir fyrir vatn svo mikið útlit er fyrir því að þeir endist ekki vel. Þá er eitt timburhús til frá fyrstu árum tíunda tugarins, er það vandað og gott hús svo koma fjórir bæir, sem eru að mestu timbur, voru tveir af þeim vel vandaðir en ber þó orðið á fúaskemmdum í þeim. Einn var sæmilega gjörður en einn svo illa að hærra varð ekki farið í hroðvirkni og illum frágangi.

Öllum þessum nýrri byggingum er það sameiginlegt að þær eru kaldar og lítið útlit fyrir að þær endist lengi. . . . Einn maður er nýbúinn að byggja bæ sinn úr steinsteypu með járnþaki. Er bygging sú hin vandaðasta. Miðstöðvarhitun er í bæ þessum og einum bæ öðrum nýbyggðum. Á tíu bæjum er vatnsleiðsla og skólpræsla á þremur. Er mjög vaknaður áhugi manna fyrir slíkum þægindum sem fylgja vatnsleiðslum og skólpræslu. Auk þrifnaðar þá hafa peningshús tekið miklum umbótum hvað rýmindi snertir. . .

13. Sögur sem kveikt hafa orðtök í sveitinni

Á uppvaxtarárum Björns sýslumanns Blöndal í Hólum bjó bóndi sá á Fjósum  er Þorbergur hét. Hann var í betri bænda tölu, stór í lund og átti oft í þrasi við nágranna. Björn Blöndal var stundum með síra Birni í Bólstaðarhlíð, líklega eitthvað við nám. Hann kom þá nokkrum sinnum að Fjósum og þáði þar góðgjörðir. Þegar hann var orðinn sýslumaður hér í Húnavatnssýslu, var það eitt sinn á þingi að Bólstaðarhlíð að Þorbergur bar sig upp við sýslumann um einhverjar erjur sem hann átti þá í og vildi fá sýslumann til að hlutast til að hann næði rétti sínum hjá þeim er hann þóttist þá fara halloka fyrir. Sýslumanni þótti þetta smámunir einir og þótti Þorbergur vera með óþarfar ýfingar við menn. Varð þeim nokkuð sundurorða uns sýslumaður neitaði með öllu að sinna kærum Þorbergs. Sneri Þorbergur þá brátt frá og segir:"Það er auðséð að farið er að minnka um gamalær garnir á Fjósum núna."

Hefur þetta verið haft að orðtæki síðan ef fyrnst hefur yfir gerðan greiða.

II. Þorbergur á Fjósum var söngmaður á sinni tíð. Hann var raddmaður mikill og söng allra manna hæst. Eitt sitt við messu í Bólstaðarhlíð, settist maður að nafni Guðmundur og auknefndur stóri næst Þorbergi. Guðmundur var ölkær og í þetta sinn nokkuð drukkinn. Byrjar nú Þorbergur söng sinn að vanda og beljar mikið. Stendur Guðmundur þá upp, tekur í öxl Þorbergs, lítur framan í hann og segir:"Lætur þú oft sísona tetrið gott!". Þorbergi varð hvumsa við þetta og féll söngurinn. Varð af þessu hneyksli mikið í kirkjunni.

III. Presturinn var að predika í kirkjunni og lagði út af hinum rangfengna mammoni. Tilfærði hann með ýmsum dæmum hvernig menn söfnuðu ranglega fé, þar á meðal með rangri vog og mæli: Gellur þá við maður í kirkjunni og segir:"Nú er hann að skensa mig fyrir fiskinn!" Hafði maður þessi selt presti fisk.

IV. Jón hét maður. Hann hokraði á ýmsum stöðum og stundum í húsmennsku. Hann var ávalt félaus og svalt með köflum. Hann var maður hagastur, laundrjúgur en letingi hinn mesti svo hann komst í formannatölu í Ómennskuveri í Letivogum. Eitt sinn sagði hann að strákur á næsta bæ hefði stolið mat frá sér og lést mundi kæra hann til maklegrar refsingar því þó vottum yrði ekki við komið um stuldinn sagðist hann geta með kunnáttu sinni sýnt hver stolið hefði. Þá kvað einn hagyrðingurinn:

Heiður týnist, hækkar tjón

heiðri krýnist bófinn

Æran klínist ef hann Jón

ætlar að sýna þjófinn.

Þegar á þetta var minnst við strák, kvaðst hann ekki vera hræddur en sagði:"Það er um að gera að þræta (þrætta svo)þangað til maður verður saklaus." Var margrætt um þennan stuld. Þótti mörgum  oólíklegt að stolið væri mat frá þeim sem ekki ætti hann til en aðrir sögðu Jón hafa átt mat og þó hann kannski hefði ekki átt hann til þegar þjófnaðurinn var framinn, gæti það komið í einn stað niður. Báru þeir hver fyrir sig efnafræðina að ekki væri hægt að gera nokkurn að engu. Komst málið aldrei nema fyrir palladóm og varð véfangsmál og ónýttist.

15. Handverksmenn

Árið 1874 og lengi frameftir voru hér margir smiðir og hagleiksmenn. Þeirra helstir voru Árni Sigurðsson frá Stafni í Svartárdal (1803-1878). Smíðaði hann bæði járn og tré en einkum var hann orðlagður fyrir silfur og koparsmíð. Hann var þá orðinn gamall og dó litlu síðar en sonur hans Lárus erfði hagleik föðurins. Smíðaði hann allt hið sama og faðir hans en auk þess lagði hann fyrir sig úrsmíði og aðgerðir á alls konar maskínum. Varð hann orðlagður hér um nærliggjandi sveitir fyrir snilld sína á því sviði. Hann bjó lengi á Gili í Svartárdal og var kenndur við þann bæ. Eftir að hann hætti búskap flutti , fluttist hann norður að Marbæli til Árna hreppstjóra Jónssonar mágs síns og andaðist þar fyrir nokkrum árum úr krabbameini. Kona hans, Sigríður Jónsdóttir dó sömuleiðis úr krabbameini nokkru síðar. Dvaldi hún þá hjá syni þeirra hjóna, Ólafi kaupfélagsstjóra á Skagaströnd. Þá var annar smiðurinn, Klemens Klemensson í Bólstaðarhlíð, ættaður frá Höfnum á Skaga.  Hann smíðaði einkum tré og járn. Fékkst mikið við húsbyggingar framan af ævinni. Smíðaði hann að mestu tvær kirkjur, Bólstaðarhlíðar og Holtastaða. Þóttu þær á sinni tíð hinar prýðilegustu, einkum Bólstaðarhlíðarkirkja. Kláfasmiður var hann mikill og hefur hann verið hér síðastur þeirra sem trégirt hafa ílát. Hann var manna iðjusamastur og mikilvirkastur og hagsýnn í hvívetna. Þannig smíðaði hann legubekk sem hann hafði í stofu. Voru skápar í honum og læstar hurðir fyrir. Stóla smíðaði hann í baðstofu. Voru þeir sem kassi að neðan en þó voru renndir stuðlar í hornum. . Sætin voru stoppuð og fóðruð með loðnu kálfsskinni.  Sætin voru á hjörum að aftan svo að það mátti reisa þau upp á bakinu. Geymdi hann í stólunum ýmislegt svo sem hrosshárshnykla meðan verið var að vinna það á vetrum. Sem sagt hann hafði stólana fyrir þarfa hirslur fyrir kalla og konur eftir því sem við átti í hvert sinn. Klemens dó 2. maí 1883, sat hann þá á stól sínum og var að skera tóbak, orðinn um 88 ára Heyrði dóttursonur hans, sem inni var að járnið stansaði og leit til afa síns, var þá höfuð hans að hníga ofan í hendur hans og hann látinn.

Þá Sigurður Benediktsson á Auðólfsstöðum, bróðir síra Jakobs prests á Miklabæ, söðlasmiður en var bæði hagur á járn og tré. Fluttist hann að Botnastöðum og dó þar í mars 1875. Synir hans tveir, Klemens og Benedikt urðu söðlasmiðir. Bjó Klemens á Botnastöðum eftir föður sinn en varð skammlífur, bjó þá Benedikt þar fá ár en fluttist svo að Fjalli í Sæmundarhlíð. Er hann söðlasmiður hinn besti auk þess organisti og ágætur söngmaður, einkum bassamaður.

Sigurður hreppstjóri Sigurðsson á Æsustöðum 1829-1897, síðar á Skeggsstöðum og kenndur við þá jörð, söðlasmiður og mikill smiður á tré og járn andaðist á Sauðárkróki  1897. Sonur hans Þorsteinn Hjálmar 1873-1949 hefur dvalið í ýmsum stöðum, er nú bóndi í Stafni, söðlasmiður og hagur á járn.

Guðmann Sigtryggur Hjálmarsson 1900-1973 sonur hans, trésmiður góður, er nú til heimilis á Botnastöðum.

Illugi Jónasson frá Gili, söðlasmiður góður, en smíðaði lítið sökum fátæktar, dvaldi hér í sveit á ýmsum bæjum, dó 1900 hjá syni sínum Jónasi, nú bóndi í Brattahlíð. Hann lærði söðlasmíði en gjörði lítið að því, en hann hefur mikið lagt fyrir sig járn og trésmíði, hefur smíðað bæ sinn og baðstofur hér og þar. Hann er nú eini maðurinn í hreppnum sem smíðar líkkistur, annars eru þær sóttar  út úr hreppnum, flestar til Blönduóss. Þá eru taldir þeir menn er 1874 voru kallaðir smiðir og synir þeirra sem á iðju hafa lagt fyrir sig en auk þeirra voru margir menn sem eru búhagirs og sóttu fátt? smíði til annarra.

Jóhann Frímann Sigvaldason hreppsstjóri í Mjóadal 1833-1903, smiður góður á tré og vel hagur á járn, hinn trúvirkasti maður.

Jónatan Jónatansson timburmaður, fluttist að Þverárdal 1875 frá Flögu í Hörgárdal. Bjó um nokkur ár í Þverárdal, fluttist þaðan út í Engihlíðarhrepp og dvaldi þar á ýmsum stöðum og fór svo til Ameríku.

Verður ekki annað sagt en mikil hnignun hafi orðið hér í sveitinni í hagleik og smíði síðari hluta þessa tímabils.

Vefarar voru hér margir og sumir afburðagóðir, vóru þessir helstir: Guðmundur Jónsson á Hóli, síðar í Hvammi í Svartárdal, Halldór Konráðsson á Strjúgsstöðum, síðar á Móbergi. Björn Guðmundsson í Gautsdal(auknefndur Konungs-Björn), Sveinbjörn Benjamínsson í Eyvindarstaðagerði. Þessir allir voru hinir ágætustu vefarar og auk þeirra mjög margir, bæði kallar og konur sem ófu(váfu svo) fyrir heimili sín en nú eru engir sem vefa. Þeir fáu sem kunna það, iðka það ekkert. Tvær eða þrjár stúlkur hafa lært útvefnað en ekkert gert að því þegar námstíminn var á enda. Yfirhöfuð verður ekki annað sagt en öllum iðnaði hafi hnignað hin síðari árin nema helst prjóni, síðan prjónavélum fjölgaði.

17. Vegir og ferðalög.

Á fáu hefur orðið eins mikil breyting hér og vegum og ferðalögum. Árið 1874  var hér sem annars staðar öngir vegir nema götuslóðar sem hestafætur höfðu myndað á umliðnum öldum enda tóku allar ferðir langan tíma, einkum kaupstaðarferðir. Vegur í Langadal var þá víða mjög slæmur og seinfarinn. Sums staðar varð að fara fyrir ofan engin, uppi í fjalli eða þá neðan undir háum bökkum við Blöndu. Væri vöxtur í henni, flæddi hún víða upp í göturnar og það stundum svo að illfært var. Þessa leið urðu allir að fara sem ráku verslun á Skagaströnd eða Blönduós. Heyrðist oft um ýmsar slyðrur er menn komust í á þessari leið, einkum á haustin ef snjóar voru komnir og Blanda hlaupin upp í kröp. Nú er kominn svo vegur eftir Langadal að farið er á bíl alla leið af Blönduósi fram að Svartá og þaðan má aka kerrum langt fram í dalina. Áður var það almennur siður að vaka því sem nær dag og nótt í kaupstaðarferðum. Nú er slíkum ósið hætt. Haga menn sér sem líkast í ferðum að hægt er og við aðra vinnu. Meðan ekki var brú á Blöndu og ekki svifferja, voru menn ótrúlega djarfir að ríða hana. Voru oft farnar hinar verstu glæfraferðir við Blöndu, menn sundriðu hana hvað eftir annað, þannig vissi ég til að sami maðurinn sundreið hana 7 sinnum sama sumarið, þá svo mikla að hvergi náði niður í henni. Vitanlega meira og minna drukkinn í öll skiptin. Er furða að ekki skyldi oftar hljótast slys af slörkuhætti manna en raun varð á. En alla tíð hefur Blanda þótt ill við að eiga. Eru til margar vísur sem benda í þá átt, að hún hefur ekki þótt neitt leikfang. Það hefur verið til skamms tíma málvenja að nefna Blöndu sjaldan með nafni, heldur bara ána . . .                            Til hvers karlakór

    - flutt 24. febr. 2016 í Hæðargarði 31 af Inga Heiðmari Jónssyni      

 

U3A Reykjavík University of Third Age 

 - fyrirlestraröðin Húnvetnsk fræði - fimmti fundur

 

Karlakór! Til hvers?

 

Við þykjumst sjá, svona á góðum stundum, hve mikil deigla mannlífið er og örðugt að sjá fyrir hvað eftir gengur þó ekkert sé til sparað í undirbúningi. Þetta kemur í hugann þegar skoða skal mannlíf á húnvetnskum dölum. Okkur býðst að velja um ýmsa glugga til að skoða fortíðina og menningarviðleitni sveitunganna fyrir tæpri öld. Góðar heimildir eru fyrir söngstarfi í sveitinni um og upp úr aldamótunum 1900, sérstaklega í útsveitinni, en Eyvindarstaðabræður, fyrstu söngstjórarnir og séra Stefán prestur á Bergsstöðum eru úr fremri hluta dalanna og sjálf Stafnsrétt, þangað sem drengir vaskir og daladrósir flykktust til, er innst í Svartárdalnum.  

 

Þeim þótti sjálfsagt kórmönnunum að ganga bæja milli og dala til að sækja æfingarnar á veturna og vorin, en þó var í frásögur var fært þegar Ágúst Andrésson, einn stofnendanna sem var fluttur úr dalnum til Blönduós, en tók sér ferð á hendur og rölti þessa 30 km sem voru fram í Finnstungu til söngæfingar. Svo þegar þangað er komið þá kom í ljós  að æfingin hafði verið flutt fram að Eiríksstöðum. Og Ágúst gekk þá þangað. Kannski tæpa 10 km til viðbótar og náði í einhvern hluta æfingarinnar. Og vonandi hefur hann fengið gistingu fremra áður en hann sneri heim til Blönduóss.

 

Þegar ég dvaldi með Lýtingum - nágrönnum Hlíðhreppinga - upp úr 1970 hitti ég þar öldunga sem höfðu sungið með frændunum Steina á Gili og Gísla á Bergsstöðum í göngunum fram á Eyvindarstaðaheiði, Þorsteinn söngstjóri hóf kveðskapinn þegar komið var í áfanga með vísunni:

                       Kveða er mér kvöl og þraut

                       kvæðin læt þó flakka

eins og þegar öskrar naut

undir moldarbakka.

Svo þegar leið á kveðskapinn gleymdist ekki að kveða:

Höldum gleði hátt á loft

helst það seður gaman

þetta skeður ekki oft

að við kveðum saman.

Eða Stafnsréttarvísuna Jóns Þorfinnssonar:

                   Nótt að beði sígur senn

sofnar gleði á vörum

við skulum kveða eina enn

áður en héðan förum.

Þeir Eyvindarstaðabræður, fyrstu söngstjórarnir, ólust upp með Ósk móður sinni sem var mjög músikölsk eignaðist orgel um 1895 og lánaði og spilaði á það í Bólstaðarhlíðarkirkju. Faðir bræðranna og eiginmaður Óskar, Jón Jónsson, giftist að þessu höfuðbóli en þó um skamman veg. Hann var snjall hagyrðingur, hélt sér nokkuð fram og hefur kannski fundist stundum sem hann ætti ráðríka konu, hana Ósk frænku mína. Henni man ég eftir á fyrstu árunum heima í Ártúnum meðan kalt steingólf með mottum var enn í eldhúsinu og Ósk söng við lítinn frænda: Hvað kanntu að vinna? Baggalútur minn! En hann hélt heil ósköp upp á hana og hún Ósk Gísladóttir lifði það líka - og þau bæði - að vera viðstödd vígslu Blöndubrúarinnar fremri 1951, þangað kom hún frá Blönduósi með Steina syni sínum á jeppanum hans. Þá voru þau Eyvindarstaðahjónin löngu skilin. 

En fyrsti söngstjóri karlakórsins var raunar Gísli sonur hennar, 22 ára að aldri og varð bóndi i á Eyvindarstöðum en entist ekki aldur, lést aðeins 34 ára.

Enn upphaf kórins var í árslok 1924, þá ákváðu 9 félagar á norðurloftinu í Bólstaðarhlíð að stofna Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Gísli æfði nýja kórinn þessa útmánuði því Þorsteinn bróðir hans og verðandi stjórnandi var þá norður í Skagafirði, á Hólaskóla. Þannig var Gísli söngstjóri til vors, en þá tók Þorsteinn við um fimm ára skeið en þá varð Gísli söngstjóri að nýju.

         Eftir andlát Gísli 1937 tók Þorsteinn við söngstjórninni en Gísli Pálmason frændi hans stjórnaði 2 ár og Jónas Tryggvason tók við 1945. Jónas hafði áður æft yfir vetrartímann meðan Þorsteinn vann við Reykjaskóla vestur í Hrútafirði, en Þorsteinn tekið við um vorið þegar hann kom heim að Gili. Jónas stjórnaði kórnum til 1952 þegar Jón bróðir hans varð söngstjóri en Jón ætlaði aðeins að taka þetta verkefni einn vetur, en þeir urðu reyndar 35. Jón var söngstjóri til 1987. 

         Laga- og ljóðasmíðar stunduðu kórfélagarnir, söngstjórarnir og kórinn hefur sungið lög eftir 5 þeirra:

1.     Gísla Jónsson

2.     Þorstein Jónsson

3.     Guðmann Hjálmarsson

4.     Jónas Tryggvason og

5.     Gest Guðmundsson

         Jónas sinnti einnig ljóðasmíðum og orti ljóð við sum laga sinna, gaf út ljóðabók árið 1959, árið sem hann flutti til Blönduóss. Ljóð Jónasar sigraði í samkeppni um Heklusönginn 1956, Sjá glæru. 

Með árunum fékk kórinn fjölbreyttari hlutverk, hann var kallaður til þegar héraðshátíðir voru, hann varð þátttakandi í Heklu sambandi norðlenskra karlakóra sem héldu samsöngva fjórða hvert ár, þeir gleymdu ekki að syngja fyrir sitt fólk heima í Þinghúsinu í Bólstaðarhlíð og síðar í Húnaveri og svo raddsettu söngstjórarnir sálma og sömdu lög fyrir jarðarfarir en sú hefð hefur orðið rík í Austur-Húnaþingi  að fá karlakórinn með söng að jarðarförum.

Frá fyrstu jarðarförinni sem kórinn söng við og var árið 1930 segir sr. Gunnar á Æsustöðum þannig:

Sr. Stefán M. Jónsson á Auðkúlu andaðist 17. júní 1930. Hann var vígður til Bergsstaðaprestakalls og hafði verið þar 10 ár. Síðan nágrannaprestur fjölda ára. Þegar hér var komið var Sigríður dóttir hans prestskona á Æsustöðum. Bæði fyrir tilmæli hennar og af ræktarsemi við þennan prestaöldung söng kórinn við jarðarför sr. Stefáns. Æfði kórinn vandlega undir þessa athöfn og þótti takst mjög vel. Mun þetta hafa verið í fyrsta sinn er hann söng við útför. Síðan hefur það verið oftar en talið verði og jafnvel við flestar jarðarfarir innan sveitar og allmargar utan hennar. Ekki hefur kórinn uppskorið að jafnaði annað en þakkir vandamanna fyrir þau ómök, -  enda ekki viljað annað þiggja. Karlakórinn annaðist að öllu leyti útför fyrsta söngstjóra síns, Gísla Jónssonar á Eyvindarstöðum, sóttu líkið norður á Sauðárkrók og fluttu að Bergsstöðum og fór jarðarförin þar fram við mikið fjölmenni. Þetta er úr söguritinu Tónar í tómstundum. 

Þegar Jón Tryggvason hvarf frá söngstjórn sjötugur að aldri tók við Gestur Guðmundsson söngvari á Blönduósi og stjórnaði kórnum næstu 6 árin. Þá kom til liðs Sveinn Árnason á Víðimel og hefur stjórnað kórnum síðastliðin 23 ár. Á þessum tíma hefur kórinn gert víðreist, farið í nokkrar ferðir til Norðurlanda og nú síðastliðið sumar fór kórinn til Bandaríkjanna og Kanada, söng á Íslendingahátíðinni í Mountain í Norður Dakota og á Íslendingadeginum á Gimli ásamt kór Hólaneskirkju Skagaströnd. Kórinn varð níutíu ára á síðast ári og þetta var afmælisferð.

Haustið 2012 fóru Sveinn söngstjóri og útsetjari Rögnvaldur Valbergsson að útsetja lög granna síns, Geirmundar Valtýssonar, og síðan að æfa þau með kórnum og hljómsveit frá Tónlistarskóla A-Hún. Þessi nýbreytni reyndist vinsæl, kórinn gerði víðreist með þetta efni og enn einn hljómdiskurinn var tekinn upp.  Og enn héldu þeir áfram og gerðu þeir skil lögum systkinanna Ellýjar og Vilhjálms. Á fyrsta díski kórsins, sem gefinn var út meðan Jón var söngstjóri og Gestur Guðmundsson stjórnaði þar einnig nokkrum lögum og söng einsöng, en þar voru eingöngöngu sungin lög kórfélaganna, flest eftir Evindarstaðabræður og Jónas. 

Komum við þá aftur að spurningunni: Til hvers karlakór? Ætli mönnum hafi þótt hann álitlegur pallur til þess að stíga í vænginn við heiminn - og meyjarnar, en nú eru kórmenn oftar rosknir og búnir að hlaupa af sér hornin og þá heldur fremur í þá sönggleðin, félagsskapurinn og svo ferðaþráin eins og sést frá síðustu árum kórsins þar sem þeir fara þriðja eða fjórða hvert ár í utanlandsferðir. Meðal stofnenda kórsins voru ráðsettir heimilisfeður, en ungu bræðurnir og Guðmundur tenór Sigfússon sem seinna varð mágur þeirra hafa verið áberandi í hópnum, söngur þeirra hefur glitrað í efri röddunum.

Áður var minnst á lagasmíð fyrstu söngstjóranna: Húnabyggð, Álftirnar kvaka, Ég skal vaka í nótt og fleiri lög voru frumflutt af kórnum og yfirleitt samin fyrir hann líka, héraðssöngurinn Húnabyggð var fyrst samin fyrir karlaraddir af einum stofnanda kórsins, Guðmanni Hjálmarssyni, en höfundur ljóðsins var héraðslæknirinn Páll Kolka. Karlakórinn var menningarstofnun sem naut velvildar og fékk kveðjur á tyllidögum frá sveitarstjórn, kaupfélaginu og gjafir, einnig frá sveitungum heima sem burtfluttum. Þeir sem hafa lesið bréf Elísabetar á Gili, tengdamóður Þorsteins söngstjóra, skynja þessa köllun að styðja við sönginn og þar með menninguna. Okkur síngjarnri samtíð finnst ótrúlegt hvernig fólk í miðri dagsins önn, sem hafði ekki handa milli meira en rétt fyrir nauðsynjum, hvað þessir aðdáendur söngsins lögðu hart að sér að stofna sjóði og gefa peninga til þeirra. Sjóðir hafa svo flestir farið hraklega. 

Eyvindarstaðabræður Gísli og Þorsteinn, Tryggvi í Tungu og Eiríksstaðafeðgarnir, Sigfús og Guðmundur voru allir í stofnendahópnum 1925 og þessir frumkvöðlar eiga allir sína afkomendur í karlakórinum 2016, Guðmundur Sigfússon yngri er afkomandi alnafna síns, tenórsöngvarans og bóndans á Eiríksstöðum og sömuleiðis Eyvindarstaðamanna því Guðmunda amma hans var systir bræðranna Gísla og Þorsteins. Bændurnir Tryggvi í Ártúnum og Guðmundur yngri í Finnstungu eru afkomendur Tryggva í Tungu.

Eftirspil


Í hverri messu þarf að vera prelúdíum og postludíum og þann sem hér masar langar til að bæta við þessa söguþanka ofurlitlum eftirmælum um fögnuð, þessum hughrifum sem við vitum aldrei hvenær við megum vænta, kannski þegar lóan syngur dirrindí út á bæjarhólnum eða við heyrum leikin í útvarpinu menúett eftir Boccerini eins og Axel Thorsteinson spilaði fyrst laga í morgunútvarpinu um miðja öldina. Jónas frá Tungu var söngstjóri, ljóðskáld en þó fyrst og fremst sjálfbjarga höldur sem gat öðrum miðlað og vildi öðrum miðla. Jónas flutti sig búferlum í tvígang um sína daga, fyrst úr föðurgarði ásamt Jóni bróður sínum þegar þeir byggðu íbúðarhúsið í Ártúnum og fluttu þangað 1948 en rúmum áratug síðar flutti Jónas í eigið hús út við Blönduós og eftir fyrsta vetur sinn þar á nýjum slóðum ávarpar hann sveitunga sinn sjötugan, Bjarna á Bollastöðum, sem hóf ungur búskap upp í Skörðum, á kotinu í Kálfárdal en hafði þegar hér var komið sögu keypt með Ingólfi syni sínum eina af kostajörðunum sveitarinnar þar sem fjölskyldunni búnaðist vel, það var stund til að fagna og fögnuður ríkti líka í hjarta Jónasar sem hafði eignast sitt eigið ríki í nýju húsi.

 

Ljóðið er þannig:

1.

Þér féllust ei hendur, í fangið þótt hvessti,
því svalviðrið sálina hressti.

2.

Í torleiði fjallanna fannstu þig sjálfan,
heilan, en aldrei hálfan.

3.

Við fáheyrða örbirgð á örreitiskoti
þinn andi bjó ávallt í sloti.

4.

Því margur í lágsveitum lognþokudagur
við fjöllin er heiður og fagur.

5.

Þú gekkst ekki hikandi á hólminn, né tregur.
Þú vissir hvert stefndi þinn vegur.

6.

Þú ávannst þér sigur á orrustuvelli
og hann er þinn heiður í elli.

 

Í upphafi fyrirlestrarins var spilað Þú vorgyðja ljúf, lag og ljóð Jónasar Tryggvasonar, einsöng með kórnum söng Gestur Guðmundsson en á eftir Ég skal vaka, einnig eftir Jónas, en þar söng Sigfús Guðmundsson einsöng.


          Söngstjóraannáll

1924 Hinn 28. des sem var sunnudagur hittust á norðurloftinu í Bólstaðarhlíð nokkrir söngfélagar og ákváðu að stofna karlakór

1925 vor Gísli Jónsson Eyvindarstöðum

1925 -´29 Þorsteinn Jónsson Gili

1929 -´36 Gísli Jónsson Eyvindarstöðum

1936 -´39 Þorsteinn Jónsson Gili

1939 -´41 Gísli Pálmason Bergsstöðum

1941 -´45 Þorsteinn Jónsson Gili

1945 -´52 Jónas Tryggvason Finnstungu&Ártúnum

1952 -´87 Jón Tryggvason Ártúnum

1987 -´93 Gestur Guðmundsson Blönduósi - var líka einsöngvari

1993 -´16  Sveinn Árnason Víðimel

Af formönnum kórsins er skráning óljósari en  söngstjóratal, en minnisstæðir eru þeir Guðmundur frá  Bergsstöðum, Þórður á Grund og Páll á Höllustöðum, einnig sr. Birgir Snæbjörnsson, sem kom í kórinn ´53 og varð ástsæll meðal félaga sinna.

Fyrstu 20 árin var ekki formleg stjórn en Tryggvi í Finnstungu var talinn fyrir stjórninni. Meðal formanna frá seinni tímum: Runólfur í Hvammi, Sigurður Ingvi Björnsson og Þorleifur Ingvarsson í Sólheimum.

 

Annálsritara hefur kórinn notið um sína mörgu daga enda væri annars litla sögu að segja:

Guðmundur Jósafatsson Austurhlíð safnaði efni til sögu kórsins fram um 1945

Sr. Gunnar Árnason Æsustöðum skráði sögu kórsins fyrir 35 ára afmæli, Tónar í tómstundum.

Jónas Tryggvason hélt dagbækur, söngskrár, félagatal fram yfir miðja öldina.

Guðmundur Tryggvason var ritari kórsins um sína daga, skrifaði nótur betur en nokkur nærlendis og handskrifaði Tóna í tómstundum.

Tryggvi Jónsson tók við eftir GT frænda sinn að skrá í árbókina en eftir honum kom

Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum og hefur haldið vel utan um skrásetningu á starfi kórsins síðustu áratugi - í aldarfjórðung, eða allt frá 1990.

Ingi Heiðmar Jónsson safnaði efni til kvers, mest úr kórbókinni - þeirri sem Sigurður Pálmason kaupmaður á Hvammstanga gaf kórnum með góðum spjöldum - en IHJ lét prenta samantekt sína, þ.e. Stikill 1


3. Skínandi sumarsólin

sendir geislana hlýju.
Gjafmilda gróðurmoldin
glæðir allt líf að nýju.

Nóttlaus er norðurhjarinn,
náttúran endurvakin.
Brátt verða ból og hlíðar
blómskrúði vorsins þakin. 

4. Oft söng eg ungur drengu

einn úti í náttúrunni

ættjarðar ljóðin ljúfu
lögin ég snemma kunni.

Hvarvetna á hveli jarðar,

hver sem er litarháttur,
alls staðar ómar söngur
eilífur töframáttur.

Ljóðið var samið fyrir Ágúst Andrésson, alls 4 erindi og hann flutti kórnum á fimmtugsafmælinu, þá orðinn 76 ára en söng engu að síður einsöng með kórnum - og gekk vel. 

Söngæfingin stóð í nærri 8 tíma - Dagb.JT

13. febrúar 1944 Söngæfing á Eiríksstöðum kl. 5 og stóð í tæpa 8 tíma eða til kl. nærri 3 um nóttina. Voru nú allir mættir og tókst æfingin eftir ástæðum mjög vel og miklum mun betur en ég hafði leyft mér að vonast eftir. Það var nú einmitt söngurinn sjálfur, sem náði sínum góðu áhrifum á hópinn, að minnsta kosti öðru hvoru en vissulega var minna rætt um framtíðina en oft áður og ég held raunar að það hafi verið það heppilegasta þegar tillit er tekið til allra kringumstæðna. En hvernig reiðir nú þessu af næsta laugardag ef það kemur þá á daginn sem hálft í hvoru er búist við -

Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar

 

Helstu einsöngvarar kórsins

Guðmundur Sigfússon Eiríksstöðum 

Jósef Sigfússon Torfustöðum 

sr. Birgir Snæbjörnsson Æsustöðum 

Sigfús Guðmundsson Húnaveri/Blönduósi

Jón Guðmundsson Eiríksstöðum 

Jóhann Már Jóhannsson Hrafnabjörgum

Svavar Jóhannsson Litladal 

Sigurður Ingvi Björnsson Guðlaugsstöðum  

Halldór Maríusson Finnstungu  

 
Þorleifur Ingvarsson Sólheimum 

Guðmundur Sigfússon Blönduósi  
Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 127
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 515349
Samtals gestir: 104623
Tölur uppfærðar: 3.12.2020 08:39:00