21.12.2019 05:56

Þórhalla Davíðsdóttir Blönduósi

Þórhalla Davíðsdóttir, kennari, fæddist í Reykjavík, 18. mars 1929. Hún lést 16. júní 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Davíð Árnason, f. 6.8. 1892, d. 17.7. 1983, fyrst bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, síðar rafvirki í Reykjavík, og Þóra Steinadóttir, f 5.8. 1902, d. 27.3. 1998, kennari. Frá 1930 störfuðu þau bæði fyrir Ríkisútvarpið allt til ársins 1963, fyrst á Eiðum í Eiðaþinghá og síðar í Skjaldarvík við Eyjafjörð. Systkini Þórhöllu voru sex, hálfsystkinin Arnbjörg, f. 1917, d. 2012, Benedikt, f. 1918, d. 2004, og Sigþrúður f. 1919, d. 1995, og alsystkinin Steinunn, f. 1930, d. 1937, Þóra, f. 1932, og Aðalsteinn, f. 1939.

Þórhalla giftist 21. september 1954 Sverri Sigurði Markússyni, f. 16.8. 1923, d. 28.11. 2009, héraðsdýralækni. Foreldrar hans voru Markús Torfason, f. 6.10. 1887, d. 29.8. 1956, bóndi í Ólafsdal í Gilsfirði og Sigríður Guðný Benedikta Brandsdóttir, f. 23.10. 1881, d. 8.12. 1949.

Þórhalla fæddist að Skólavörðustíg 5 í Reykjavík og bjó þar fyrstu æviárin. Árið 1938 fluttist fjölskyldan að Eiðum og síðar til Skjaldarvíkur 1952. Hún gekk í barna- og unglingaskóla, fyrst í Reykjavík og síðar á Eiðum. Gagnfræðaprófi lauk hún 1945 frá Akranesi og kennaraprófi 1950 frá Kennaraskóla Íslands. Á árunum í Skjaldarvík sinnti hún ýmsum störfum, var kennari við Hrafnagilsskóla, sinnti stunda- og einkakennslu og vann í Akureyrarapóteki. Þórhalla og Sverrir fluttu til Svíþjóðar þar sem Sverrir lauk dýralæknanámi sínu. Settust að á Blönduósi 1956, áttu svo heima í Borgarnesi frá 1973 til 2003, eftir það bjuggu þau í Kópavogi.

Útför Þórhöllu fór fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 22. júní 2018.

Með þessum fáu orðum viljum við minnast móður okkar Þórhöllu Davíðsdóttur. Mamma og pabbi kynntust þegar pabbi starfaði sem settur dýralæknir á Akureyri 1952-54. Eftir að námi hans lauk settust þau að á Blönduósi þar sem hann hafði fengið héraðsdýralæknisstöðu. Árin á Blönduósi urðu viðburðarík, oft erfið en einnig uppspretta nýs lífs því þau eignuðust börnin sín fjögur á fyrstu 5 árunum sem þau bjuggu þar. Fyrst Davíð Aðalstein, næst Sigríði Maríu, þá Sverri Þórarin og lestina rak Torfi Ólafur. Ætla mætti að það að vera fjögurra barna móðir hafi verið alveg nóg á þessum árum en mamma lét sig samfélagsmálin varða og tók m.a. virkan þátt í starfi kvenfélagsins. Við sveitarstjórnarkosningarnar 1966 var hún fengin til að taka 2. sæti á H-lista óháðra og Framsóknar sem felldi þáverandi meirihluta sjálfstæðismanna með 3 mönnum af 5. Hún tók við sem oddviti sveitarstjórnar 1968 þegar þáverandi oddviti flutti frá Blönduósi. Með þessu var brotið blað í sögu Blönduóss því þar með varð hún fyrsti kvenoddviti sveitarfélagsins. Eitt af þeim verkum sem hún fékk framgengt var að sveitarfélagið tæki þátt í kostnaði við uppsetningu búnaðar fyrir móttöku sjónvarpsútsendinga en það stóð ekki til að koma sjónvarpssendingum til Blönduóss fyrr en talsvert seinna. Með samningum um aðkomu sveitarfélagsins tókst að flýta þessu og íbúar fengu tækifæri til að fylgjast með tunglferðunum í sjónvarpi. Mamma keypti svarthvítt Radionette-sjónvarp, en það fyrsta sem horft var á voru einmitt téðar tunglferðir. Hún sinnti forfallakennslu við og við ofan á erilsamt uppeldisstarf sem hún annaðist að meira eða minna leyti ein því starf pabba krafðist oft á tíðum langra fjarvista í vitjunum í sveitinni en fyrstu árin gat þjónustusvæði hans spannað allt frá Skagafirði til Strandasýslu. Það féll líka í hennar hlut að afgreiða, ef nauðsyn krafði, dýralyf til bænda. Slíkar fyrirgreiðslur komu fyrirvaralaust og á öllum tímum dags svo starfsdagurinn var oft mjög langur og fjölbreyttur. Hún var mikill lestrarhestur en líka góður kokkur og hannyrðakona, uppi á vegg hangir Riddarateppi sem hún og faðir hennar saumuðu út. Á uppvaxtarárunum var nauðsynlegt að fara vel með hluti og fjármuni og það kunni hún. Hún tók slátur, útbjó kæfu, verkaði fisk eða bakaði brauð, fékk sér prjónavél og útbjó ullarflíkur á börnin, ofan á allt annað. Hún hafði einnig mikinn áhuga á þjóðlegum fróðleik, ætt- og sagnfræði. Í Borgarnesi sinnti mamma áfram fagi sínu og kenndi við og við, réð sig svo til Mjólkursamlags Borgfirðinga þar sem hún starfaði í mörg ár. Árið 2003 fluttu þau að Ásbraut í Kópavogi, eftir að pabbi lést flutti hún í Fannborg 8 og bjó þar til dánardags.

Mamma átti dásamlegar stundir í dagvist Sunnuhlíðar síðustu árin þar sem umhyggjusemi og væntumþykja mætti henni.

Föður okkar kvöddum við 2009, nú kveðjum við ástkæra móður og þökkum foreldrum okkar fyrir öll þau yndislegu ár sem við áttum með þeim.

Davíð Aðalsteinn, Sigríður María, Sverrir Þórarinn og Torfi Ólafur.Jólabréf 2019 - IHJ

1.       Enn nálgast jól og enn rís sól á ný. Margt á maður að þakka frá nýliðnu ári og  ýmislegt kann að vinnast á því nýja. Félagsmál nýja ársins hefjast með Sögufélagsfundi í Hnitbjörgum við Blönduós mi. 15. jan. kl 14, í samstarfi við FEB í A-Hún. Þetta ætti að vera góður tími fyrir öldunga og bændur, en síður kennara og alls ekki verkamenn. En þetta er eins og heimurinn er, fullur með ójöfnuð - og gaspur. Þessi fundartími í lok hádegis er kannski ekki sá versti.

2.     Úr fjölskyldunni eru helstu fréttir að Rakel giftist Pétri sínum á sjálfri Jónsmessunni og þá skein sól í Ólafsfirði, Þorri Starrason nýstúdent bauð til veislu undir Vaðlaheiði þann 17. júní, Orri Snæberg var fermdur heima í Kópavogi, Þrúður lauk M.Sc.prófi í verkfræðinámi sínu með glæsibrag úti í Uppsala, Sigríður Embla sneri sér í haust alfarið að fyrirtæki sínu með fjölæringa og meira námi í garðyrkjuskólanum, við Harpa áttum úrvalsferð til Riga í maíbyrjun með Rakel og Pétri, tókum okkur svo orlofsvikuna á Blönduósi 19. nóv. - 26. nóv., og við hin erum svo eitthvað að puða marga daga, flest gegn launum, aðrir fyrir ánægjuna og grallarinn Harpa Guðrún 4ra ára verður sögu- eða myndefni  margan daginn. Nýr organisti, Guðmundur Eiríksson söngstjóri, tók við organistastarfi mínu/IHJ við Hraungerðis-, Villingaholts- og Laugardælakirkjur 1. ágúst. og Flóamenn kvöddu mig með fallegu og fjölmennu messukaffi í Þingborg 10. nóv.

3.     Í félagslífinu var markverðast að taka þátt í Jónshátíð Árnasonar 17. ágúst á Skagaströnd og messugerð á Hofi, fæðingarstað Jóns fyrir 200 árum. Þangað komu Ingibjörg Steinunn landsbókavörður og Guðni Th. forseti, oddvitar, sögufélagsmenn og fjöldi góðra gesta sem tóku þátt í málþingi í Fellsborg og forsetinn afhjúpaði minnismerki um JÁ undir Höfðanum. Takk fyrir veislu og umsjón Landsbókasafnsmenn og aðrir nefndarmenn. Við ráðgerum að halda guðsþjónustu og hafa messukaffi á þessum góða degi 17. ágúst nú í sumar, gefa vinum, sögumönnum og alls konar Jónum tilefni til að hittast, masa stund og gera sér ný stefnumót ef svo ber undir. Þá verður hásumar, strætó brunar um heiðar, kannski verður bjart vestur til Strandafjalla og gæti viðrað til gönguferðar á Spákonufell eða með stuðlabergi út við Kálfshamarsvík.

4.     Sögufélagið Húnvetningur hélt aðalfund sinn á Blönduósi í vor og þangað fengum við magnaðan og skemmtilegan fyrirlesara, Sigrúnu Magnúsdóttur þjóðfræðing og fv. ráðherra sem sagði okkur frá Hallgrími Scheving, merkilegum kennara við Bessastaðaskóla sem tengdist Fjölnismönnum og Jóni Árnasyni. Svo stefnum við Sögufélagsmenn að fundi í Hnitbjörgum um  miðjan janúar eins og sjá má hér að ofan.

5.     Hákarl var valinn fyrir þema í Byggðasafnsnefnd Húnvetningafélagsins í Reykjavík í vetur. Þremur fundum stóðum við fyrir í Húnabúð, þeir heppnuðust vel og tengdu okkur nokkuð við Byggðasafnið sem við eigum norður í Hrútafirði með grönnum okkar á Ströndum. Á Jónsmessu héldum við sumarmessu öðru sinni á Prestbakka, þar sem góðir vinir hittust, sungu saman sálmana við orgelið góða, íslenska og nýja. Guðmundur Ólafsson sagði okkur frá Finni fræðimanni á Kjörseyri, langafa sínum. Auglýst verður í tæka tíð ef framhald verður á sumarmessum næsta sumar.

6.     Gleðileg jól, kæru vinir og vandamenn, megi nýtt ár færa ykkur gæfu og gengi, þökkum samskiptin á því sem er að líða!

 

Harpa og Ingi Heiðmar

ihjstikill@gmail.com gsm. 8652586
Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 127
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 515349
Samtals gestir: 104623
Tölur uppfærðar: 3.12.2020 08:39:00