19.12.2019 22:34

Rask

         Hugsað stórt í litlu landi

"Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur, en týn þó eigi að heldur þinni tungu" er ívitnun í Rasmus Kristian Rask sem var einstakur hæfileikamaður og eldsál. Tungumálakunnátta hans og framlag til samanburðar-málfræði er þekkt víða um lönd en auk þess var hann sérstakur áhugamaður um íslenska tungu og hafði mikil áhrif á íslenska málhreinsun á 19. öld og þróun tungunnar í átt til málsstaðals 20. aldar.

Rask var frumkvöðull að Hinu íslenska bókmenntafélagi sem gaf út þessa bók og stendur enn í blóma. En Rask var umdeildur þrátt fyrir þessa miklu og varanlegu arfleifð sem hann skilur eftir og í bókinni er greint frá ýmsum átökum en einnig mörgum áföngum í lífi hans.

Rasmus Rask hugðist taka saman málfræði fyrir eins mörg mál og honum ynnist tími til og ætlaði vinna að henni út frá tungumálinu sjálfu í stað þess að þvinga hana inn í fastmótað málfræðilegt líkan eins gert hafði verið í alltof ríkum mæli til að mynda með hinu latneska og þýska reglukerfi  málfræðinnar. Rask nam við Lærða skólann í Óðinsvéum á táningsaldi sínum. Hann fékk þá hugmynd að taka upp íslensku sem þjóðtungu þó hann vísaði því síðar á bug sem barnalegri hugdettu, en þeir skólafélagarnir gerðu tilraunir með dulmál og leynistafróf. Svo er sagt, að þegar Rask fletti upp í bók, ummyndaðist andlitið og engu var líkara en að hann ætlaði að gleypa alla bókina í sig. Það að hugsa og skrifa niður hugsanir sínar varð honum svo öflug ástríða að þarfir líkamans og ef til vill öll tilfinning fyrir líkamanum var látin sitja á hakanum.  Hann ofbauð heilsunni með vitsmunum sínum.

Dyrnar að uppgötvunum hans í  málvísindum lágu um íslenskuna. Enginn kennara Rasks í Óðinsvéum kunni það tungumál. En hann tók til við íslenskunám einn og óstuddur. Danska þýðingin samhliða frumtextanum íslenska var allt og sumt sem hann hafði undir höndum til þess að læra málið. Á sama hátt vann hann einnig að yfirgripsmikilli orðabók eftir því sem hann barðist í gegnum fleiri íslenskar bækur á næstu árum. Í þessari orðabók tilgreindi hann ekki aðeins danska merkingu orðsins, heldur einnig hvað það þýddi á öðrum germösnkum málum - sænsku, þýsku, hollensku, ensku o. s. frv.  Með þessi heimagerðu uppsláttarrit í höndunum tók hann saman allt málfræðikerfi íslenskunnar og þau urðu síðan grundvöllur að fyrstu stóru ritgerð hans: Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske sprog, kom út í Khöfn 1811.

Rasmus gaf Íslendingum þeirra fyrstu málfræði, fyrstu heildarlýsingu á tungumáli þeirra og íslenska varð sú tunga sem hann bar öll önnur heimsins tungumál saman við. Hann kvað hana vera eitt stórkostlegasta tungumál heimsins - vegna þess að hún hafði varðveitt svo mörg upprunaleg orð og orðmyndir og hafði orðið fyrir svo litlum áhrifum af öðrum málum.

Í námi sínu í Lærða skólanum hafði Rask lært fornmálin, grísku, hebresku og latínu og nýmálin, þýsku og frönsku. En á þessum árum lærði hann líka upp á eigin spýtur - auk íslenskunnar - ensku, sænsku, fornensku, hollensku, frísnesku, færeysku og grænlensku. Þar í Óðinsvéum snæddi Rask hádegisverð einn dag í viku hjá fósturforeldrum Níelsar Matthíasar Petersen verðandi málsvísindamanns og vinar og strákunum tveimur, 10 og 13 ára varð fljótt einkar vel til vina. Peterson lýsir Rask svo: Hve smávaxinn hann var, leiftrandi augnaráðið, léttleikinn, á hvern hátt hann hreyfði sig og stökk um, yfir borð og bekki og loks búningur sveitastráksins, ljósblá treyja og buxur með gljáandi tölum, gaf okkur öllum fyrirheit um félaga sem ætti eftir að veita okkur mikla kátínu og varð brátt í miklu uppáhaldi okkar allra. 

Höf. lýsir námi og lífi Rasks í Khöfn: Sá lífsstíll sem hann hafði tamið sér í Óðinsvéum og gekk nærri heilsunni, fylgdi honum á Garði - of lítill svefn, of mikil vinna og á stundum of lítið að borða. Petersen, vini hans úr Lærða skólanum, farast svo orð: Þarfir hans var harla fábrotnar; það sem hann vann sér inn notaði hann til bókakaupa. Fyrstu árum dró hann fram lífið á þurru súrdeigsbrauði og vatni; sárasjaldan gat hann veitt sér  heitan málsverð; þá er nauðsyn loksins rak hann til þess gekk hann að kvöldlagi - venjulega íklæddur þykkri yfirhöfn því að hann fyrirvarð sig fyrir neyð sína - ofan í kjallara þar sem hann gat fengið slíkan rétt fyrir fimm skildinga.

 Hann varð meistari afneitunarinnar. Samt óttaðist hann að slíta sér út á fleiri eða færri vélrænum einskisnýtum störfum í stað þess að vinna að því sem hann vissi að yrði ævistarf hans.

Kaflaheitin í bókinni eru:

1. Hjátrú og sekt

2. Lærði skólinn í Óðinsvéum - hið góða líf

3. Kaupmannahöfn - Aðeins kjánar vænta varanlegrar velgengni

4. Heimsins fyrsta íslenska málfræði

5. Meðal vina í óvinalandi

6. Þriðja hvert ár verð ég að betla hjá ríkinu

7. Ferðin til fyrirheitna landsins

8. Ritgerðin - hugsað stórt á tungu lítillar þjóðar

9. Umskipti

10. Ég vil hvorki særa né smjaðra

11. Borg í Rússlandi

12. Yfir gresjur Rússlands í deigtrogi

13. Orðin örlagaþrungnu

14. Ást á opnu hafi

15. "Holgeir danski" veldur vonbrigðum

16. Rasmus Rask og Grimm-bræður

17. Stafsetningarstríðið

18. Settur hjá

19. Trúlofunin

20. Velgerðarmennirnir kveðja

21. Ég óttast að það sé um seinan

22. Dáður eftir dauðann.

Í bókinni er heimilda- mynda og nafnaskrá og skrá yfir útgefin rit Rasmusar Rask

Kynning á bókinni, Rasmus Kristian Rask Rasmus Kristian Rask - Hugsað stórt í litlu landi eftir Kirsten Rask þýddri úr dönsku af Magnúsi Óskarssyni frá Tungunesi/Sölvanesi. Gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi 2019 

- Kynningin var fimmtudagskvöldið 19. des. 2019 í Bókakaffinu v/Austurveg Selfossi/IHJ


Glúmur yrkir vísu fyrir árið 1843:


Breiðfjörð skáldi Bólu tér:

"Braga þekkir leikinn

ef þú lifir lengur mér

ljóða máttu á beykinn". GlG

Vísuefnið er skráð hér neðar:

Oscar Clausen, Sögur af Snæfellsnesi, II, 86, segja frá ferð Bólu-Hjálmars til lækninga hjá Þorleifi í Bjarnarhöfn (1877). Tók Hjálmar sér gistingu á Stað í Hrútafirði þar sem Sigurður Breiðfjörð var fyrir, en á norðurleið. "Var prestsfrúin á Stað svo hugul að láta þriggja pela flösku af brennivíni á borðið hjá þeim til þess að hressa sig á um nóttina. ...Daginn eftir lögðu þeir ekki upp fyrr en eftir miðjan dag, en Sigurður reið á leið með Hjálmari og svo skiptust þeir á kviðlingum að lokum".

Sigurður, sem taldi sig ekki eiga langt eftir, á að hafa kallað yfir Hrútafjaðará:


Sú er bónin eftir ein
ei má henni leyna
ofan yfir Breiðfjörðs bein
breiddu stöku eina.


en hinn þá beygt sig eftir taðköggli, grýtt í áttina að Sigurði og sagt:

Ef ég stend á eyri vaðs

ofar fjörs á línu

skal ég kögglum kaplataðs

kasta að leiði þínu.


Sigurður dó 1846, en eftir meðferðina hjá Þorleifi lifði Hjálmar til 1875.


Sunnudaginn 12. jan. sendi ég/IHJ Rúnari á Skagaströnd og Glúmi vísur úr ljóði DSt. Vinnumaðurinn í Odda:

https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/ljod.php?ID=4154&fbclid=IwAR0qUHBo5cTlkSgsui6M-vTPe6XPpaKQuCHkKy8RnDi37TCAagzh9C59u28
:


Og fékk þetta góða svar frá Rúnari

Ekki er nýtt að veðra vá
vilji friði granda.
Tíðin virðist taka á
taugar margra landa.

Allir verða að una því,
í sér styrkinn magna.
Léttir raun að rýna í
rúnir kvæða og sagna.

Þó að kulda herðist hret,
hríði um margan blesa,
finn ég að ég inni get
unað við að lesa.

Per ardua ad astra ! 

Kveðja að norðan,

Glúmi sendi ég vísu:

Þegar geisa hregg og hríð

og höldum leiðir banna

verða skjól í vetrartíð

vísur góðskáldanna. IHJ

Glúmur skrifar aftur og spyr hvort ég hafi gert visuna, því var játað og bætt við að maður í ´ða af og til:

Dettur í´ða af og til

Ingi vinur Braga

stytta honum stundir spil

staka, fésbók, saga. GlG

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 127
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 515349
Samtals gestir: 104623
Tölur uppfærðar: 3.12.2020 08:39:00