12.09.2017 21:13

Sr. Jón Guðnason -- Mt. 1860 Háagerði í Spákonufellssókn & Erlendur á Holtastöðum

       sr. Jón Guðnason Prestsbakka

Sumarmessan í ár, verður í  Prestbakkakirkju í Hrútafirði sun. 19. ág. sjá hér neðar, en nú aukum við fróðleik við um þátt séra Jóns Guðnasonar í menningu Hrútfirðinga, nemenda við Reykjaskóla og héraðanna við flóann, en hann sat Prestbakka 1928-´48:

Jón var fæddur og uppalinn í Hrútafirði og öllum hnútum kunnugur þar um slóðir. Guðni, faðir hans, starfaði við verslunina á Borðeyri og þangað komu bændur og búalið vestan vestan úr Dölum og norðan af Ströndum. Vafalaust hefur sonurinn heyrt föður sinn segja frá skiptum sínum við þann sundurleita hóp. Að loknu guðfræðiprófi lá leið séra Jóns í Dali vestur. Þar þjónaði hann í tólf ár, lengst af búandi á Kvennabrekku. Á Alþingi sat hann í tvö ár fyrir Dalamenn. Þar með gafst honum tækifæri til að skoða mannlíf og málefni héraðsbúa frá öðru sjónarhorni. En stjórnmálaþrasið hefur fráleitlega átt við guðsmanninn. Til heimahaganna hvarf hann og settist að á Prestbakka. Þar sat hann til ársins 1948 eða í tuttugu ár alls. Við Reykjaskóla kenndi hann frá upphafi skólahalds og var þar skólastjóri í viðlögum. Þangað leitaði fjöldi unglinga víðs vegar að úr fyrrgreindum sýslum. Varla hefur nokkur þeirra horfið svo á braut að kennarinn hafi ekki kynnt sér ætt hans og uppruna. Suma studdi hann fjárhagslega. Jafnframt lagði hann svo fyrir að leynt skyldi fara. Að prestsþjónustu lokinni fluttist séra Jón til Reykjavíkur. Þar lét hann hvergi deigan síga við fræðistörfin.Erl.Jónsson/Að kvöldi dags Rv. 2010 bls. 164


Í sumar ætlum við að syngja messu í Prestbakkakirkju í Hrútafirði sunnudaginn 19. ágúst 2018, sóknarpresturinn sr. Guðni á Melstað er tilbúinn, organisti fram boðinn og kastljósi ætlum við ekki aðeins að varpa á vísnavefinn/http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=30551  heldur einnig og enn frekar á sr. Jón Guðnason, sem kom í Hrútafjörð til sóknarbarna sinna 1928, var kosinn í nefnd til að undirbúa stofnun héraðsskólans á Reykjum og varð síðan stjórnandi skólans fyrstu misserin og kennari frá ´34-´48 er Jón varð þjóðskjalavörður og flutti suður.

Framvinda skólamálsins var hröð eftir að Strandamenn og Vestur-Húnvetningar ákváðu að sameinast um byggingu skólans. Flutningaleiðir voru í upphafi á sjó því veglaust var um blautar mýrar einskílómetra leið heim að Reykjum og ófært hestvögnum. Allt timbur, sement og járn var flutt á sjó, en mölin fannst á tanganum. Miklu af efninu var komið í land við Reykjatanga, en sumu á Borðeyri og þangað var talinn klukkutíma róður í logni.

Skólinn var settur 7. jan. 1931 og þá voru aðeins 7 mánuðir liðnir frá því bygging húsanna hófst, og þau voru nánast lítið meira en fokheld. Ólafur H. Kristjánsson, síðar skólastjóri Reykjaskóla, var í fyrsta nemendahópnum og hefur tekið saman bók um héraðsskólann, starf nefndanna og síðar skólans sem sameinaði öðru meir byggðirnar við Húnaflóa. Sr. Jón var þar skólastjóri 1930-32, kennari 1934-´48 og fékk fögur eftirmæli hjá nemendum sínum:"Sr. Jón var að mínum dómi ágætum eiginleikum búinn til að umgangast og stjórna ungu fólki og leiðbeina því. Hann var maður sem unglingurinn bar virðingu fyrir og hlýddi fúslega" segir Vatnsdælingurinn Guðlaugur Guðmundsson sem kom til skólans 1931. Ef hann fór í kaupstað á Borðeyri vildi hann helst vera gangandi: "Þá get ég hugsað," sagði hann, "hafi ég hest þá þarf ég að hugsa um hann." Hann var mikill göngumaður segir frændi hans Þorvaldur Jónsson Hólmavík. Kennarinn Jóna Þórunn Vigfúsdóttir þakkar þessum kennara sínum fyrir að hvetja hana til að takast kennslustörf á hendur og gleymir ekki stórum hlut konu hans á mannmörgu heimili menningar og fræða þar sem húsbóndinn var oft að heiman.

"Séra Jón var fríður maöur sýnum, kvikur í hreyfingum,  myndarlegur á velli og hófðinglegur í fasi, skýr í hugsun og  framsetningu. Hann var manna hressilegastur i bragði, skemmtinn og gamansamur, og hafði á  hraðbergi einkennileg tilsvör  manna, hnyttinyrði, vísur og smásögur, sem krydduðu hversdagsleikann og brugðu leiftri yfir menn og málefni. Hann var þrekmenni og gat verið fastur fyrir, en gekk að hverju verki glaður og reifur. Hann naut því í senn virðingar og

vinsælda þeirra fjölmörgu, sem umgengust hann eða áttu við hann erindi. Ritverk hans munu vissulega varðveita nafn hans frá gleymsku, en meira er þó verð vitneskjan um hjartahlýjan drengskaparmann, sem að baki þeim bjó." Þannig lýsir samstarfsmaður Jóni, Bjarni Vilhjálmsson skjalavörður í minningagrein í Mbl.

Barna Jóns og Guðlaugar konu hans Bjartmarsdóttur frá Neðri-Brunná getur Bjarni þannig:

1.    Guðrún, rithöfundur og kennari, gift Guðmundi Einárssyni kennara, Reykjavik.

2.    Ingólfur, rithöfundur og kennari, Reykjavik, kvæntur  Margrétu Guðmundsdóttur.

3.    Torfi, kennari og lögregluþjónn, Reykjavík, kvæntur Ragnhildi Magnúsdóttur kennara.

4.    Eiríkur, lektor við Kennaraháskólann, kvæntur Guðbjörgu Kristjánsdóttur kennara.

5.    Leifur, lögregluþjónn í Reykjavík, dáinn 1970, kvæntur Ingibjörgu Eyþórsdóttur.

6.    Soffia, dáin 1973, gift Jóhanni Hallvarðssyni símvirkja í Reykjavik.

7.    Anna, gift Sveinbirni Markússyni kennara

 

Tilvísanir:

 Minningagreinar í Tímanum um Jón Guðnason: http://timarit.is/files/11955066.pdf#navpanes=1&view=FitH

Minningagrein í Mbl.: http://timarit.is/files/16672375.pdf#navpanes=1&view=FitH


Erlendur Jónsson bókmenntafræðingur segir um Reykjaskóla:
Væri sjónum rennt úr með firðinum austanverðum staðnæmdist augað við hvíta stórbyggingu í klassískum hallarstíl. Höllina þá teiknaði sjálfur Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson. Ætla mátti að húsi því hefði verið valinn staður þar úti á tanganum til þess öðru fremur að stækka og fegra svipmót byggðarinnar þeim megin fjarðarins. Hitt var sönnu nær að á þessum stað einum var unnt að hita hús með vatni frá sjóðheitum hver sem kraumaði og vall þar skammt upp af tanganum. Svo vildi líka til að ríkið átti tangann og hitaréttindindin. Hvort tveggja réð vali staðarins. Vestur-Húnvetningar og Strandamenn höfðu í sameiningu stofnað þar til skólahalds og reist þetta glæsilega hús undir lok þriðja áratugarins, vafalaust fyrir hvatningu hins mikla manns, Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem þá var kennslumálaráðherra. Var skólanum gefið nafn eftir heiti nærliggjandi jarðar og látinn heita Héraðsskólinn á Reykjum. Formlega var skólinn settur í ársbyrjun 1931. Fór athöfnin að nokkru gegnum útvarpið.

Bar þar hæst ræðu Jónasar. En sú var hugsjón hans að héraðsskólarnir héldu unga fólkinu heima, forðuðu því frá að flytjast á mölina en sættu það við sveitalífið. Sá ágæti fræðimaður, séra Jón Guðnason á Prestbakka, kenndi þar fyrstu áratugina. Hann hafði setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og naut því velvildar Jónasar. Hann var upp frá því skólastjóri í viðlögum og setti öðrum fremur svip á heimavistarlífið. Að kvöldi dags bls. 26-27

Guðrún, dóttir séra Jóns á Prestbakka, var ráðin farkennari, rösklega tvítug. Hún var vel gefin, bókhneigð og draumlynd. Hún var að skrifa skáldsögu, þroskasögu fatlaðs drengs. Þótti mér meira en lítið merkilegt að sofa undir sama þaki og skáldkona sem var að setja saman bók! Stöku sinnum las hún upp úr handritinu fyrir okkur mæðgin. Þá var svo sannarlega hlustað með athygli. Söguna nefndi hún fyrstu árin. Bókin kom út ári síðar. Aðra sögu sendi hún frá sér sem hún nefndi Ekki heiti ég Eiríkur. Upp frá því eyddi hún ævinni í nám og ferðalög. Guðrún hafði góð tök á stíl og máli. Þar með var hún hið prýðilegasta efni í rithöfund.
En hún kaus að lifa lífinu fremur en að skrifa um lífið.

Að kvöldi dags bls. 67

Móðir höf., Erl. Jónsson, var orðin ekkja og var skipuð formaður skólanefndar, en vorið 1939 var hún að bregða búi.

Kringum aldamótin 1900 bjuggu á Óspaksstöðum hjón að nafni Guðni og Guðrún, sóma- og spektarfólk, mikils metið í sveit sinni. Auk þess að sinni búi sínu starfaði Guðni við Borðeyrarverslun. Miðaldra fólk mundi hann sem slíkan, en hann var þar pakkhúsmaður á kauptíðinni. Guðni var ekki aðeins greindarmaður. Hann var einnig vel látinn. Og þar að auki hagmæltur! Á Óspaksstöðum voru fæddir synir þeirra hjóna, séra Einar í Reykholti og séra Jón á Prestbakka, báðir sómi sinnar stéttar þegar fram liðu stundir. Að kvöldi dags bls. 106


Heimilisfólk í Háagerði 1860

1. Hjónin í Háagerði Jón Jónsson 63 og Guðríður Ólafsdóttir k. h. 50 ára
2. Sigurlaug 29 Húsfreyja á Harastöðum
3. Ingibjörg 28
4. Jóhann 20
5. Jósep 19 bóndi á Finnsstöðum
6. Björg 17 ára Húsfreyja Árbakka í Spákonufellssókn, síðar Reykjavík
7. Björn Jónsson 13 ára, bóndi í Háagerði. Bóndi hreppsstjóri og dannebrogsmaður á Veðramóti í Gönguskörðum.
8. Hlíf Jónsdóttir 12 ára húsfreyja á Harastöðum og Ingveldarstöðum ytri, fór 1900 til Vesturheims frá Vakursstöðum
9. Ástríður Jónsdóttir 10 ára húsfreyja á Spákonufelli og Finnsstöðum
10. Valtýr Guðmundsson 1 árs, 11/3 1860 - 22/7 1928 Tökubarn í Háagerði. Stofnandi og ritstjóri Eimreiðarinnar. Síðast prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn. Þjóðkunnur stjórnmálamaður. Barnlaus.

Tvíburasystir Bjargar hét líka Björg, ólst upp hjá Steinunni ljósmóður og móðursystur sinni, var húsfreyja á Hofi í Vatnsdal en fór frá manni sínum og flutti suður með einkadóttur sinni, Halldóru Bjarnadóttur síðar kennara og ritstjóra Hlínar.

Jón Árnason bókavörður og þjóðsagnasafnari var systursonur Guðríðar húsfreyju í Háagerði, Steinunn systir hennar giftist Árna Illugasyni presti á Hofi og átti með honum 2 syni, Jón og Ólaf, sem var 2 árum yngri og lést í vöggu. Halldóra Bjarnadóttir segir um þennan kunna frænda sinn:
"Maddama Steinunn átti ekki annað barn á lífi en Jón Árnason, þessi einkasonur var á öðru landshorni, ókvæntur langa ævi.(eignaðist síðar konu og einn son) Hafði hún því minni aðstoð hans en skyldi og mun hafa þótt einmanalegt og því tekið móður mína í fóstur. Hún þráði að vera nær honum en það var ekki tiltækilegt eins og á stóð. Þegar móðir mín var um fermingaraldur, flutti maddama Steinunn að Auðkúlu til séra Jóns Þórðarsonar, sem var sonarsonur Árna manns hennar, giftur Sigríði Eiríksdóttur Sverrissonar. Þar fermdist móðir mín og þar andaðist maddama Steinunn. Á Auðkúlu var móðir mín enn um skeið sem vinnukona, einnig í Sólheimum. Minntist hún jafnan veru sinnar í Svínadalnum með vinsemd og virðingu."

Börn Háagerðishjóna telur HB upp, lýsir fyrst staðháttum:"Jón afi byggði sér nýbýli úr Finnsstaðalandi og gaf því nafnið Háagerði. Bæinn bar hátt og útsýni var fagurt yfir Húnaflóa . . . þarna bjuggu þau svo afi minn og amma og búnaðist vel þrátt fyrir mikla ómegð. Þrettán voru börnin sem öll komust til fullorðinsára. Urðu þau öll vel að manni, dugandi bændafólk. Þau voru heilsugóð og náðu háum aldri. Sjálfstæð urðu þau og vel efnum búin. Þetta eru nöfnin: Bræðurnir: Jón, Ólafur, Jóhann, Jósep, Björn, Systurnar: Ingibjörg, Margrét, Sigurlaug, Steinunn, Björg, Björg, Hlíf, Ástríður."

Sjá um Halldóru Bjarnadóttur og Háagerðisfólk:  http://stikill.123.is/blog/2016/06/28/750999/

            Erlendur á Holtastöðum    

Frásögn í Húnvetningasögu Gísla Konráðssonar

Erlendur reri frá Ásbúðum haustið 1796 eins og fleiri haust og aðrir Langdælingar eins og Björn á Auðólfsstöðum og Strjúgs-Jón, sem reru líka af Skaga, lágu við í Hafnabúðum. Miðvikudagsmorguninn fyrsta í vetri, 26. okt. reri Erlendur með aðeins 5 menn í stað 6-7 sem venjulega voru á skipinu. Skipið var sexæringur stöðugur sem Erlendur hafði fengið vestan af Ströndum. Veður var gott og lygnt þegar þeir lögðu frá landi en Erlendi formanni sýndist þó vindlegt þegar þeir komu milli skers og lands eins og kallað var. Þeir fóru út mið en skjótt tók loft að þykkna svo Erlendur lét þá hanka færi og halda á leið til lands. En áður en þeir næðu landi rauk á hið mesta sunnanveður og gerði svo mikinn ólgusjó að þeim miðaði ekkert. Þá gerði Erlendur akkeri úr ífæru, hákarlssókn og tveim sterkum önglum og batt við þrjú haldfæri með vaðsteinum. Krókarnir festust en hann þorði ekki að binda færin við skipið í þessu hafróti svo hann hélt í endann en slakaði stundum á. Varð hann þá gegndrepa af sædrifi og hafði ærna aflraun að halda svo lengi í strenginn. Leið fram á daginn. Tvö færin slitnuðu en Erlendur þreyttist. Um kvöldið slitnaði það þriðja sundur við botninn svo skipið rak í haf um nóttina. Nóttin varð þeim allógurleg í vetrarskammdegi í hinu mesta ofviðri en Davíð sonur Erlends sjóveikur.

Nokkuð lygndi er lýsti á fimmtudaginn, veður gekk til útsuðurs svo þeir ætluðu að freista þess að ná Fljótum. Gekk það nokkuð en þegar þeir komu fyrir opinn Skagafjörð gerði aftur landsynning jafnóðan og áður og allt til kvölds. Rak þá nú aftur. Voru þeir illa haldnir af vosi og hungri. Þá bar austur en ekki í haf svo þeir komu um kvöldið allnærri landi austanvert við Ólafsfjörð. Þá gerði hið mesta veður ofan af landfjöllunum með ógurlegum fellibyljum svo að særokan tók hátt í loft upp en brjóthljóð í skipinu. Þá lagðist Jón Illugason fyrir, þrotinn og rænuskertur en Erlendi lá við bana af kölduflogum, dró sig þó í skipsbarkann og bað þá þrjá er uppi sátu að halda skipinu í horfi sem mættu og verjast áföllum. Hann blundaði nær miðnætti en reis síðan upp og settist undir árar en lét hina hvílast til skipta. Var Arnþór þrotinn og sjónlítill af særoki.

            Jón Illugason andaðist um dægramót á föstudaginn.

            Þá lygndi nokkuð en þeir voru svo máttfarnir að þeir fengu ekki við ráðið. Voru þeir komnir í vog mikinn, há fjöll voru að sunnan og austan en langt nes fram í sjóinn frá austurfjöllunum, en Erlendur hélt að væri Tjörnes og væntu þeir enn að þeir kæmust upp að. Þegar fullbjart var óx enn hvassviðrið og rak þá síðan allan daginn í haf uns fjöllin urðu lág og bláleit. Þegar náttaði gerði fjúk en veður og sjó lægði. Tóku þeir enn stefnu að landi. Þegar fjúkið stytti upp sáu þeir fjöllin á stjórnborða en á bakborða var hnjúkur, sem reyndist vera Grímsey. Erlendur ráðgaðist við Jón Ólafsson hvort stefna skyldi á fjöllin eða hnjúkinn. Hann var allmjög þrotinn og rænulítill. Þeir réðu af að stefna á fjöllin. Sátu þá eigi aðrir uppi en þeir tveir. Þeim gafst útnyrðingur með sjóleysu nóttina eftir en um daginn gjörði fjúk og svöluðu þeir þeir sér á snjó. Hresstist Erlendur við það en Jóni versnaði. Þegar birti upp aftur héldu þeir austur með fjöllunum. Þá lagði Jón upp ár því hann var yfirkominn, en Guðmundur tók til að bera við að róa á móti Erlendi.

            Í hálfbirtu á laugardaginn sá Erlendur hólma til vinstri handar, mikinn og flatan. Það var Flatey. Þar stefndu þeir að meginlandinu og settu á sandvík eina skammt frá bænum. Komst Guðmundur ekki út og varð Erlendur að styðja hann og taka við skipinu þótt máttfarinn væri. Menn, er voru að saga tré, komu þar að og brýndu skipinu. Það var Hjálmar Finnbogason bóndi í Vík á Flateyjardal. Kona hans hét Ólöf.

            Þar þáðu þeir alla hjúkrun. Voru þeir kaldir og rifið hörund af og Erlendur skemmdur mjög á höndum og sýktist. Var vakað yfir þeim nótt og dag í 16 daga og ætluðu menn þá hafa hrakið meira en 30 vikur sjávar(240-250 km) með landi fram auk þess sem í hafið bar. Margir góðir menn urðu til að liðsinna þeim og þeir Erlendur og Arnþór komust heim fyrir jólin og svo Jón en Guðmundur kom heim seinna um veturinn. Davíð lá eftir í örkumslum því hann var mjög kalinn á fótum. Hann bjó eftir það í Hólabæ og þar finnum við hann 1816, hefur stöðuna, fyrirvinna. Húsfreyjan er nær 20 árum eldri og þriðji heimilismaðurinn er húskona á sjötugsaldri.

            Guðrún kona Erlendar sendi honum peninga þegar hún frétti að hann væri lifandi, en hann lét ekki bera á þeim. Þótti hann ærið sínkur og ekki er vitað hverju hann launaði Hjálmari í Vík þegar hann kom vestur að Holtastöðum haustið eftir en lánaði honum hest austur.

            Um hrakning Erlendar kvað Pétur prestur gamli Bjarnarson þrjár rímur, Jón prestur Hjaltalín kvæði og Daði Níelsson, er kallaði sig gráa, tvær rímur löngu seinna fyrir bænastað annarra.

Erlendur bóndi Guðmundarson á Holtastöðum var það haust sem oft áður úr á Skaga. Gjörðu það margir Langdælingar, Björn bóndi Guðmundarson á Auðólfsstöðum og fleiri. Þar var og Strjúgs-Jón. Lágu flestir við á Hafnabúðum. Var það um haustið seint í október að Erlendur reri með fimm mönnum frá Ásbúðum á Skaga á sexæringi stöðugum er hann hafði fengið á Ströndum. Voru vanir að róa með sex eður sjö en þá var mannfátt. Erlendur var formaður en hásetar voru Davíð sonur hans 18 vetra og lítilmenni, Jón Ólafsson, Guðmundur Jónsson kallaður grillir, bróðir Katrínar á Ey konu Benedikts, húskarl Jóns Gíslasonar er fyrri hafði búið að Mörk en síðan bjó í Vallholti hinu ytra í Vallhólmi og getið er áður að var  ungur sveinn þá Arnes kom til föður hans. Jón Illugason var hinn fimmti, ungur og lítt heill. Arnþór hét maður Bjarnarson Ísakssonar er átti Helgu Bárðardóttur brotinnefs systir Högna skálds. Sá Arnþór bjó að Ásbúðum og hét Erlendur að flytja hann en kona hans vildi að hann reri því hún lá á gólfi.

 Húnvetningasaga II bls. 386-9

Minningarorð um Erlend í Bólstaðarhlíð: http://stikill.123.is/blog/2017/07/30/767924/


Erlendur Guðmundsson Holtastöðum 1749-1824
Ósk Erlendsdóttir 1792-1866 Holtastöðum og Sólheimum
Erlendur Pálmason 1820 - 1888 Tungunesi 
Ósk Ingiríður Erlendsdóttir 1859 - 1934 Bólstaðarhlíð 
Klemenz Guðmundsson 1892 - 1986 Bólstaðarhlíð og Botnastöðum/Húnaveri
Erlendur Klemensson 1922 - 1987 Bólstaðarhlíð

Erlendur Guðmundsson Holtastöðum 1749-1824
Ósk Erlendsdóttir 1792-1866
Elísabet Pálmadóttir Eyvindarstöðum & hálfsystir Guðrún Pálmadóttir Gautsdal
Sigríður Gísladóttir og Pálmi Sigurðsson tvímenningar og hjón á Æsustöðum
Jósefína Pálmadóttir uppalin á Æsustöðum, húsfreyja Mörk og Holti
Sigríður Ólafsdóttir ÁrtúnumFlettingar í dag: 123
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 514033
Samtals gestir: 103947
Tölur uppfærðar: 24.11.2020 09:39:46