21.06.2017 06:59

Úr fórum Jóns Borgfirðings

Ferðir Jóns Borgfirðings um Húnaþing, mannlýsingar og samskipti hans við Jón Árnason og fleiri héraðsmenn:

                                     Ferðir Jóns Borgfirðings um Húnaþing,
                   mannlýsingar og samskipti hans við Jón Árnason og fleiri héraðsmenn:

Úr dagbók: Veturinn 1853-54 las ég hjá Jóni Árnasyni bókaverði, sem var í húsi ekkju Sveinbjarnar Egilssonar rektors og vísindamanns í Rv., las ég ýmsar bækur og æfðist í að rita sæmilega. Á jólanóttina hélt Magnús Grímsson cand theol ræðu í stólnum.

Fyrstu bóksöluferðir: Eftir nýárið 1853 var eg fenginn með öðrum manni, sem Kr. Gunnlaugsson hét, ættaður að norðan, til að fara bóksöluferð vestur fyrir Egil bókbindara, Sveinbjörn Hallgrímsson rithöfund, Einar Þórðarson prentara og Jón stúdent Árnason (þjóðsagnasafnara). Í þeirri ferð var 5 vikur. Þá voru snjóar miklir og frosthörkur. Ég fór um Mýra- og Hnappadalssýslu og komst lengst að Staðastað í Snæfellsnessýslu, þar sem þá bjó síra Sveinn Níelsson(fyrr prestur að Blöndudalshólum).

Sumar 1854 Nú fór ég að hugsa um kaupavinnu og fýsti mig fara norður í land. . . . Í Víðidalstungu var mér ókenndum vel tekið hjá Thorarensen. Þar byrjaði ég söluna og hélt henni áfram austur Húnavatnssýsluna. Í Steinnesi var þá síra Jón Jónsson, en á Sveinsstöðum bjó vel greindur hreppsstjóri, Ólafur Jónsson. Þaðan hélt ég austur yfir Ása og fann síra Þorlák á Auðólfsstöðum. Hann var lítill vexti. . . . Um þetta leyti snjóaði mikið á fjöll og fékk eg slæma ferð þar sem eg fór yfir þau, um eystri Laxárdalinn og ofan að Gunnsteinsstöðum, þar sem hinn vel greindi hreppstjóri Jóhannes Guðmundsson bjó. Nú hélt ég vestur Ása og að Sauðanesi, þar sem Jón hreppstjóri ríki bjó, dugnaðarmaður mikill(dáinn 15. júní 1857) Þar dagaði mig uppi vegna illviðris, sem þá gerði í tvo daga, 23.-24. September. Var þá bæði svo mikið hvassviðri að fáir mundu slíkt og kafald svo mikið að ekki var ratljóst milli bæja. Í þessu veðri urðu skipsskaðar og tvær kirkjur, Reykhóla- og Gufudalskirkjur, fóru í spón. - Þegar veðrið batnaði, hélt ég áfram vestur sveitir og kom að Þingeyrum, þar sem Ólsen umboðsmaður bjó, sá sem hrundið var frá þingmennsku sem varafulltrúa 1853.

Þaðan hélt ég vestur í Miðfjörð og kom að Melstað. Þar bjó þá síra Böðvar Þorvaldsson, gamall orðinn, en kempulegur maður. Þórarinn sonur hans var kapellán hjá honum, hár maður og grannur að vexti. Nokkru framar er Staðarbakki, þar sem síra Gísli* bjó, faðir Þórarins og Vigfúsar, bréfamanna frá Akureyri til Reykjavíkur. Síðan hélt ég áfram yfir Hrútafjarðarháls svo yfir Holtavörðuheiði ofan í Norðurárdal . . . og kom heim til Reykjavíkur 7. október eftir þessa löngu en þó slysalausu ferð og afhenti fyrir seldar bækur 110 rbd. (Í Húnavatnssýslu kusu að þessu sinni 15 menn af 147, sem á kjörskrá voru. Sá er fyrst var kosinn varafulltrúi, sr. Jón Jónsson í Steinnesi, skoraðist undan starfinu vegna heilsubrests og embættisanna. Var þá þegar á staðnum kosinn annar varamaður og fékk Runólfur M. Ólsen flest atkvæði. Þótti þetta vafasöm aðferð og var kosning hans í þingbyrjun dæmd ógild með 11 atkv. gegn 10.) *Síra Gísli Gíslason á Staðarbakka(síðast á Gilsbakka d. 1860) var kvæntur Ragnheiði Vigfúsdóttur, sýslumanns á Hlíðarenda, Þórarinssonar og áttu þau margt barna. Meðal þeirra var sr. Skúli á Breiðabólstað, er manna best ritaði þjóðsögur, sem sjá má í safni Jóns Árnasonar og Gísli síðari maður hinnar þjóðkunnu Vatnsenda-Rósu. Vigfús Gíslason sem hér er nefndur var póstur um skeið milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hann varð bóndi að Samkomugerði í Eyjafirði, d. 1897. Þórarinn bróðir hans drukknaði ungur.

Aftur í Reykjavík Nú settist eg að þar sem eg var áður. Stundum ritaði eg sögur fyrir Jón Árnason bókavörð og stundum innfærði eg akta fyrir Jón Pétursson assessor, bróður Péturs prestaskólakennara og Brynjólfs, sem dó í Kaupmannahöfn. 1854 Ég fór í bóksöluferð 1. febrúar . . . þá sneri eg til baka og kom að Staðastað til hins mikla prests Sveins Níelssonar . . . Sunnudaginn 21. apríl komst eg suður eftir langa útivist og hafði selt alls fyrir 160 rbd., bækur Egils bókbindara fyrir 82 dali, Einars prentara fyrir 53 dali. Jóns Árnasonar bókavarðar 10 dali, Sveinbjarnar Hallgrímssonar 11 dali og bækur annarra fyrir 10 dali. Svo sat eg í ró og næði heima og ritaði fyrir Jón Pétursson assessorm en ekki þótti mér það atvinnuvegur til framtíðar.

Ferð til æskustöðva 1860 17. júní kom Eggert Bríem sýslumaður og bað mig ferðast suður í Reykjavík. Eg fór af stað næsta dag . . . og var um nóttina á Steinsstöðum(í Öxnadal). Þaðan fór ég að Miklabæ en varð að bíða þar hálfan dag því að Bríem sýslumaður var ekki til með bréfin og breytti þeim, því að daginn áður datt hann af baki fyrir framan Fremri-Kot og gekk úr liði á honum öxlin. Þaðan fór ég að Hnausum til Jósefs Skaftasen læknis. Hann er stór maður vexti, rauðleitur í andliti og rautt skegg, ófríður til munnsins og harðmæltur. Hann er búmaður. Þaðan fór ég fram að Hvammi og fékk þar samferð með síra Jóni Blöndal, Benedikt bróður hans og frú Blöndal. Síra Jón fór suður til að afsala sér brauðinu, það var komið í óstand fyrir honum, skildi við konuna því að hann hélt við dóttur Örum gamla faktors.

Síra Jón er gáfumaður, söngmaður mikill og klerkur góður, þykir samt harður húsbóndi, siðavandur fyrst, en það breyttist og nú er hann farinn að drekka. Hann er lítill maður, ljósleitur í andliti, jarpur á hár, nefið lítið bogið, en liður á og nokkuð langt. Benedikt bróðir hans er bóndi og er vænn maður, þrekvaxinn og limaður vel. Þar sem eg hefi lýst síra Jóni þar hefi eg lýst frú Blöndal, hún er skörungur mikill og hin frískasta og atkvæðamesta kona sem ég hefi kynnst við. (Kona síra Jóns Blöndal var Arndís Pétursdóttir bónda í Miðhópi, Péturssonar. Síra Jón fékk lausn frá prestsskap 28. júní  1860, gerðist þá verslunarstjóri í Grafarósi og síðar kaupstjóri Kaupfélags Skagfirðinga) Frá Hvammi fór ég sama daginn og svaf með fyrrnefndu fólki í tjaldi við svonefndan Skúta. Næsta dag fórum við að Norðlingafljóti. Þá sá eg, laugard. 23. júní kl. 3, eftir 6 ára fjarveru, Borgarfjarðarfjöllin rísa himinhá úr hafi . . . Frá sr. Þórði Árnasyni á Mosfelli fór ég fór ég á fimmtudaginn og kl. 3 í Reykjavík, þangað sem ég hefi unað ævi minni best. Eg afhenti Jónassen yfirdómara bréfin og ýmsum öðrum. Um kvöldið fann ég minn trygga vin, Jón stúdent Árnason, drakk hjá honum púns og var þar til kl. hálftólf. Um nóttina gisti ég hjá Guðrúnu nokkurri, ekkju. Hver dagurinn hafði verið öðrum betri, er ég var á leiðinni.

Sumar 1861 Þetta sumar ferðaðist eg suður. 2. júní fór eg fram að Munkaþverárkirkju, en svo var ákveðið, að eg færi suður með Sveini Skúlasyni og Jóni á Gautlöndum á Þingvallafund, kosinn á hann fyrir Eyjafjarðarsýslu og svo til að selja bækur fyrir mig og Svein. Fimmtudaginn 20. júní fórum við af stað og komum um nóttina kl. 3 að Steinsstöðum, sváfum þar fram undir nón og fórum í miklum hita að Silfrastaðastekk hinn 21. og tjölduðum þar um nóttina. Daginn eftir fórum við að Miklabæ, þar yfir vötnin og vestur að Tungunesi til Erlendar bónda. Hann er ríkur maður, vænn og gestrisinn, en geðveikur. Hann fylgdi okkur um nóttina að Sólheimum til Jóns bónda, en þaðan fylgdi Jón okkur að Reykjum á Reykjabraut sunnudagsmorguninn 23. júní. Þaðan fórum við að Hnausum, en sumir að Þingeyrum og sváfum það sem eftir var dagsins. Næsta dag fórum við fram að Grímstungu. Slóst þá í ferð með okkur Jósef Skaftason læknir og einnig Ólafur alþingismaður á Sveinsstöðum. 25.júní fórum við að Kalmanstungu og höfðum fengið hita og blíðviðri. Við sváfum þar fram á daginn og fórum af stað að kvöldi hins 26. Fyrir neðan Skúlaskeið mættum við Páli Vídalín frá Víðidalstungu á norðurleið. Við héldum áfram um nóttina, en þegar kom upp á Langamel(eða hrygg?) fór að spillast veður og gerði landsynning með rigningu. Eg varð einn eftir, því að eg þurfti að gera við á hesti, reið síðan sem unnt var þar til eg náði þeim í Brunnum, því þar biðu þeir eftir mér. Nú héldu allir áfram, en þegar kom ofan á Hofmannaflöt, fór veðrið að batna, Í Jórukleif má sjá marga steina úr móbergi og hafa margir ferðamenn rist nöfn sín á þá.

Á Þingvöllum Kl. 10 hinn 27. júní komum við á Þingvöll. Þá var kominn hiti og sólskin, er hélst þann dag út, sem og alla daga, er Þingvallafundur er haldinn. Þá var forseti fundarins kominn að Þingvöllum, Benedikt Sveinsson, Gísli Brynjólfsson, Arnljótur Ólafsson, Einar prentari, Sigurður málari, skólapiltur, sonur sr. Sigurðar á Útskálum, sr. Jón Melsteð, sr. Jón Jónsson á Mosfelli í Grímsnesi. Alls voru á fundi um 50 manns. Ekki var á fundi presturinn á Þingvöllum, sr. Símon Becg. Þingvallafundir eru ekki að hans skapi, því að hann vill sneyða hjá öllum félagsskap og gestrisni. Tveir fundir voru haldnir, hinn fyrri kl. 1 og hinn um kveldið kl. 11. - Um nóttina fór ásamt fleirum að Skógarkoti til Jóns bónda. Hann er góður búmaður, hefir byggt timburhús, hlaðið túngarð kringum túnið og aukið það. Hann er merkisbóndi og gestrisinn.

Í Reykjavík 1861 Nú var eg í Reykjavík og hélt til hjá Valgerði ekkju meðan eg dvaldi þar. 1. ágúst gekk eg upp í Alþingissal til þess að hlusta á ræður þingmanna og sjá salinn. Þann dag fann eg líka Gísla Magnússon og Jón minn stúdent Árnason. 2. ág. var eg hjá Jóni Þorkelssyni og uppi í biblioteki. Næsta dag var eg uppi í bókhlöðu og hjá Hallgrími Scheving og Einari prentara. 4. ág. borðaði eg hjá Arnljóti kandidal, var síðan við messu, fann Pál Melsteð. 5. ág. bjó eg um biblíuna til Kaupmannahafnar fyrir Jón Árnason og var svo hjá honum um kvöldið. 6. ág. lauk eg við að búa um biblíuna, var uppi á þingi þegar rifist var um hjúalögin, síðan hjá Agli, borðaði hjá Th. Jónassen. 7. ág. var eg hjá Jóni Péturssyni assessor, uppi á biblioteki, borðaði hjá Torfa prentara, var svo á þingi um kvöldið. Þá var rifist um læknamálið. Næsta dag gekk eg út að Lambastöðum, en Ásgeir (Finnbogason bókbindari) var ekki heima. Þá fór eg til Baldvins prests hins kaþólska og seldi honum bækur. Kl. 1 fór eg upp í þingsal. Var þar rætt um læknaskólamálið . . . Næsta dag (11. ág.) var eg hjá Jóni Árnasyni og svo við messu. . . . - Næstu daga var eg uppi á kirkjulofti að telja Alþingistíðindin fyrir Jón Guðmundsson. . . 19. ág. var eg við, ásamt fjölda manns þegar sagt var upp þingi. 20. ág. fór eg að búa mig norður og eins 21. Þá um kveldið var þingveislan. Um daginn var haldinn bókmenntafélagsfundur og var eg þar ásamt öðrum. Þar var samþykkt að gefa út Reikningsbók Björns Gunnlaugssonar . . .

Palladómar um alþingismenn Áður en eg fer frá Reykjavík ætla eg að að lýsa dálítið þingmönnum og byrja þá á konungsfulltrúa, etazráði Jónassen. Hann er hár og grannur, viðræðugóður og þykir undirförull, bláleitur í framan, stórt nef, hrokkinhærður og svarthærður. Forseti, Jón Guðmundsson, grannur og pervisalegur, hvítleitur, með lið á nefi . . . Arnljótur Ólafsson, stór vexti, svart- og hrokkinhærður með svart skegg mikið, herðabreiður. Hann er smá- og hýreygður, seinmæltur og ekki liðugt um mál, hæðinn og klókur, en góður í viðmóti og sést ekki fyrir með skildingana.    https://is.wikipedia.org/wiki/Arnljótur_Ólafsson  Ólafur á Sveinsstöðum var kominn af þingi þegar eg kom þar. Hann er meðalmaður vexti, rauð- og hrokkinhærður og eins á skegg, frískur og snar, fljótmæltur og vel að sér.   http://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=444    - Ásgeir Einarsson er nokkur hár og þrekinn, svarthærður, holdugur í andliti, togin- og rauðleitur, með litið æxli á enninu ofan við augabrúnina hægri. Hann er vel hygginn og meinyrtur, fljótlyndur, spaugsamur og skemmtinn. Hann er búmaður og umsvifamikill í búsýslu. Hann er auðugur af fé  http://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=45   og https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%81sgeir_Einarsson     . . . Helgi Thordersen biskup er hár og gildur, hefir ístru, fríður ásýndum og snjallt málfæri. Hann var góður predikari á fyrri árum, lítill þingmaður, drykkjugjarn og svinnur en þægilegur í viðmóti. - Jón Hjaltalín landlæknir er hár og gildur, höfðinglegur ásýndum, málsnjall og hefir góðan og skáldlegan talanda, stífur á meiningu sinni, en frjálslyndur, skemmtinn og kátur, ör á fé.

____________

 

Þannig hefi eg lýst í stuttu máli alþingismönnum, er sátu á þingi 1861, ef það gæti leiðbeint seinni tíðar mönnum og sný nú frá Reykjavík norður á við.

Norður og heim Eg fór af stað með þingmönnunum kl. 1 22. ágúst og austur að Þingvöllum. Fengum við landsynningsrigningu og ofviðri. Eg fór að leita að hesti um kveldið og svaf í heyhlöðu um nóttina. Næsta dag fór eg upp að Skógarkoti að finna Jón bónda og varð samferða þaðan Indriða Gíslasyni (bróður Konráðs) upp á Hofmannaflöt. Þá komu hinir þingmennirnir. Um kveldið komum við að Kalmanstungu og vorum þar um nóttina. Fengum rigningu um daginn 24. ág. fórum yfir fjöllin í góðu veðri og komum kl. 12 að Grímstungu. Fórum að Hvammi og Hnausum 25., að Bólstaðarhlíð 26. og fengum rigningu báða dagana. 27. fórum við að Silfrastöðum í góðu veðri og 28. yfir Öxnadalsheiði að Steinsstöðum í kulda og norðannepju. 29. ág. var komið versta veður með krapa og hvassviðrisrigningu er hélst nokkra daga og féll svo mikill snjór á fjöll að ekki tók upp um haustið í þeirri öndvegistíð er þá var. Um daginn fór eg þó af stað og náði heim á Akureyri kl. 7 um kvöldið eftir hina löngu útivist. Eg var svo heima í tvo daga. Þá fór eg norður í Bárðardal að sækja konuna og börnin, er verið hööfðu þar fyrir norðan nokkrar vikur. Fyrsta daginn fór eg að Hlíðarenda, svo til baka að Ljósavatni og þriðja daginn að Varðgjá með konuna og börnin, en fór sjálfur heim. Sótti þau svo daginn eftir.

Ferðasögur eru oft góðar skemmtisögur, en þegar Jón Borgfirðingur var búinn að heimsækja og lýsa Húnvetningum, var svo spennandi að fylgjast með honum á alþingistímanum í Reykjavík og síðan ferðinni heim á Akureyri að sá kostur var einn uppi að lofa frásögninni að halda áfram. Sonur Jóns, Klemens varð þingmaður og ráðherra, og Klemens Tryggvason hagstofustjóri dóttursonur hans.  https://is.wikipedia.org/wiki/Klemens_J%C3%B3nsson    IHJ

Jón Borgfirðingur/wikipedia: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Borgfir%C3%B0ingur

Úr formála Finns Sigmundssonar: Eg tel ekki þörf á að fara mörgum orðum um þetta fyrsta kver. Eg hefi haft gaman af að lesa þessa þætti Jóns Borgfirðings, ef til vill ekki síst vegna þess, að upphaflega eru þeir ekki ætlaðir til prentunar. Sagan af bóksöluferðinni til Suðurlands sumarið 1861 er til í annarri útgáfu frá hendi Jóns, en þá gerð sögunnar las hann upp á fundi í Kvöldfélaginu í Reykjavík. Eg kaus heldur þá sögu, sem geymd er í dagbókinni. Þar kemur Jón til dyranna eins og hann er klæddur og skrifar eins og honum býr í brjósti. Frásögnin er fróðleg um margt, en að öðrum þræði er hún ágæt lýsing á Jóni sjálfum, hugsunarhætti hans og áhugaefnum.

Flettingar í dag: 113
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 141
Gestir í gær: 72
Samtals flettingar: 528177
Samtals gestir: 109680
Tölur uppfærðar: 5.3.2021 03:41:41