10.06.2017 10:59

Gömul kynni GB & IJ

                                Gömul kynni

Ingunn Jónsson frá Melum var húsfreyja í Grímstungu, Hofi og á Kornsá og skrifaði gagnmerka minningabók, Gömul kynni, um samferðamenn sína. Í formála rifjar dóttir hennar Guðrún Björnsdóttir upp minningar úr foreldrahúsum:

Í huga mínum  leikur þó alltaf sérstaklega mikill ljómi um einn atburð bernskuáranna, enda finnst mér, að hann einn mundi nægja til að sýna, hve miklum skilningi og nákvæmni við mættum hjá foreldrum okkar:

         Það var stórgrenjandi hríð. Pabbi og vinnumennirnir brutust í fjárhúsin tveir og tveir saman því að varla þótti fært einum manni. Illviðrið buldi með heljarþunga á þakinu og hvein við gluggana og í strompinum. Okkur krökkunum var kalt og við vorum hrædd við óveðrið. Allar sögur sem við höfðum heyrt um menn, sem urðu úti í hríðum, rifjuðust upp fyrir okkur. Hræðslan og ömurleikinn lögðust svo þungt á okkur að við fórum að skæla. Við höfðum ekki einu sinni rænu á að hlusta á sögurnar hennar mömmu, sem venjulega voru þó það allra skemmtilegasta. En nú höfðum við enga eirð á að sitja kyrr. - Þá segir mamma, að nú sé best að búa til "sumar og sólskin". Þetta þótti okkur svo skrýtið, að við rákum upp stór augu og þurrkuðum burt tárin í skyndi. En mamma sagði við skyldum sækja litlu hrífurnar okkar fram í skála og svo skyldi hún lána okkur stóra togpokann sinn. Toginu mættum við dreifa um allt baðstofugólfið og hafa það fyrir hey. Þetta þótti okkur auðvitað þjóðráð. Vinnukonurnar nöldruðu eitthvað um, að aldrei á sinni lífsfæddri ævi hefðu þær vitað annað eins og hvernig allir skapaðir hlutir væru látnir eftir þessum krökkum, en því skeyttum við vitanlega ekki neinu. - Og að vörmu spori voru hrífurnar komnar inn og ullardreifin um allt gólfið. Við rökuðum, rifjuðum, sættum og bundum. - Laugu litlu sendum við eftir hádegiskaffinu, en máttum ekki vera að setjast nema augnablik því að nú var sólskin og brakandi þurrkur. - Mamma var náttúrlega með í ráðum um heyþurrkinn og í hvað tóttir heyið var sett. Stúlkurnar voru löngu hættar að nöldra og fylgdust af áhuga með heyvinnunni. Enginn heyrði lengur til hríðarbyljanna og var vitanlega var engum kalt í glaða sólskininu.

         Allt í einu opnaðist hlerinn yfir baðstofustiganum og pabbi rak höfuðið upp um lúkugatið, allur fannbarinn, með klakaklepra í skegginu og sagði brosandi:"Nú það vantar ekki sólskinið í bæinn, þó að Kuldaboli hamist úti."

 

Gömul kynni/Ingunn Jónsdóttir

                                      Hannes stutti

Hagyrðingur einn orti þessa vísu um Hannes í gamni:

Hannes liðugt ljóðin sniðug semur

upplífgandi Ísland vort

er fljúgandi gáfnaport.

 "Þessi vísa hefði mátt vera" sagði Hannes, þegar hann heyrði hana, "ef hann hefði haft seinni partinn svona:"

                            Beita penna flinkur fer

                            frægðarmennið skáld gott er.

         Einu sinni skrifaði Hannes móður minni ljóðabréf. Það var svo illa skrifað, að varla var mögulegt að stafa sig fram úr því. En það eru nú fleiri en Hannes, sem ekki eru væmnir við lofinu, þeir eigi lítið fyrir því.

         Það var uppáhaldslist Hannesar, að yrkja undir dýrum bragarháttum og helst nokkuð tvírætt, en mest þótti honum þó varið í að botna erfiða vísuhelminga, sem hann sagði að enginn hefði getað botnað áður. Ein af þeim var þessi:

                            Hosa liggur haugnum í

                            hún er þar að jótra.

Hannes bætti við:

                            Í hroða- ódauns hæli því

hefir lengi slórt, bja.

Eiginlega ætlaðist hann til, að þetta væri fyrri parturinn. Önnur vísan var þessi:

                            Handa fólki hefir tólk

hræring mjólk og drafla

Hannes botnaði:

                            Tróð sá smjólk* í hítarhólk.

                            Herra Kólk** réð afla.

*Smálki = kæfa,  ** Átti að ver Þorbjörn Kolka

         Þegar nýlega var hætt að selja vínföng í Skarðsstöð, kom Hannes þar eitt sinn. Þeir voru þá staddir úti bræðurnir, Bogi Sigurðsson kaupmaður og Björn bróðir hans, síðar bankastjóri. Þegar Hannes nálgast þá, tekur hann ofan hattinn og heldur honum fyrir aftan bak, gengur svo til þeirra, hneigir sig og segir:

                            Þeir selja ei staup af sumbli neinu

                            sem er bending nýungar.

                            Sælir kaupmenn, herrar hreinu

hjálendingar Geirmundar.

þ.e. Geirmundar heljarskinn


Þá kem ég að því heimilinu, sem mestur vandi er að skrifa rétt um, Kornsárheimilinu í tíð Lárusar Blöndals sýslumanns, stærsta heimilinu í dalnum , mest um talaða og misjafnast dæmda. Kona Lárusar sýslumanns var Kristín Ásgeirsdóttir Finnbogasonar, er bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi og síðar á Lundum í Stafholtstungum. Voru þau hjón þá flutt fyrir fáum árum að Kornsá og höfðu reist þar stórt og vandað íbúðarhús úr timbri, þrátt fyrir harðindi og óhagstæða verslun. - Lárus sýslumaður var hið mesta glæsimenni og samkvæmismaður. Hann unni öllu fögru, einkum söng og var sönggáfa hans og raddfegurð við brugðið. Börn hans voru líka öll söngvin og sum svo af bar.  - Kornsárheimilið var fjölmennt í þá daga. Börnin voru tíu sem upp komust. Þrír af bræðrunum voru í latínuskóla og hinn fjórði í Möðruvallaskóla.

Vinnufólkið var margt og auk þess skrifari sýslumannsins og barnakennari á vetrum. Og eins og eðlilegt var á jafnstóru heimili var þar oft verkafólk, sem ekki var beinlínis heimilisfast svo sem vefarar, spuna- og saumakonur, því mest var unnið af fatnaði heima. Þó er ótalið það, sem ef til vill setti mestan svip á heimilið og mestri fyrirhöfn olli, og það voru gestirnir. Svo mátti segja að þar væri aldrei mannlaust - bæði af innlendum og útlendum gestum. Margir áttu erindi við sýslumann, en þeir voru heldur ekki fáir, sem þangað komu einungis til að skemmta sér. Að sjálfsögðu lenti þetta mest á herðum húsmóðurinnar, enda hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar, þekkt nokkra konu, sem mér finnst að mundi hafa verið slíkum vanda vaxin, sem frú Kristín Blöndal. Og það því fremur sem efnin voru ekki mikil. Og þó fundu gestir aldrei að neitt vantaði. Þeirri kynslóð, sem nú er að vaxa upp, þætti það líklega ævintýri eða jafnvel lygasaga, ef maður færi nú að segja frá því, að á þessu stóra heimili voru öll föt unnin í höndunum.

Engar prjónavélar, nema hinar iðnu hendur kvenfólksins, til að prjóna plögg á allan þennan hóp. Engar kembingarvélar eða spunavélar. Sýslumannsfrúin í hinni stóru Húnavatnssýslu, sem gekk þó að öllum innanbæjarverkum með stúlkum sínum, þvoði þvott með þeim, sá um matreiðslu og allt annað, unni sér þó ekki hvíldar, meðan hún talaði við gesti sína, heldur hafði prjóna í hverri stofu sinni til þess að grípa í, ef hún settist niður litla stund. - En unga fólkið var nú heldur ekki alið upp í iðjuleysi á þeim dögum og gamla fólkið sagði að héldi maður að sér höndum, sæti maður undir 7 púkum og hampaði þeim áttunda, en fáir vildu verða til þess.

         Eigi verður því neitað, að frú Kristín, sem var mjög örlynd og stórorð kona, var ekki svo varfærin í dómum um fólk sem æskilegt hefði verið og eignaðist hún fyrir það ýmsa óvini, sem reyndu að gjalda henni í sömu mynt. Varð af því meira og misjafnara um hana og hennar heimili talað, þó að sumt væri það að ástæðulitlu.

         Lárus Blöndal var vinsælt yfirvald og hverjum manni velviljaður og mátti hið sama um hann segja og Eysteinn konungur sagði um sjálfan sig, að hann óskaði þess, að allir færu glaðir af sínum fundi.


Flettingar í dag: 166
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 141
Gestir í gær: 72
Samtals flettingar: 528230
Samtals gestir: 109694
Tölur uppfærðar: 5.3.2021 04:15:11