27.05.2017 18:38

Um hvíta blaðið og boð milli sálna

Hvíta blaðið sem ber boð milli sálna

Hulda á Höllustöðum var minnistæð vinum sínum og samferðamönnum, hér birtast brot úr eftirmælum úr Tímanum ásamt tengli þar sem finna má frumheimildina. En fyrst birtist hennar eigin lýsing á matarvenjum á fyrri hluta tuttugustu aldar.  Kennari var Hulda Pálsdóttir á sínum ungu árum, sinnti hún því starfi um vetur en var heima á Guðlaugsstöðum á sumrin. Sjálf gekk hún í Kvennaskólann á Blönduósi 1924-5 og tók gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Ak. 1928. Hún kenndi síðan í Bólstaðarhlíðarhreppi 1928-30 suður í Borgarfirði 1930-31(Lundarr. og Skorradalsskólahverfi). Már sonur hennar safnaði saman ávörpum hennar og hugvekjum úr handritum hennar og sömuleiðis er þar að finna fróðleik um gengna sveitunga og ættmenni hennar.

Hulda svaraði spurningalista um matarvenjur á fyrri hluta tuttugustu aldar:

Undirrituð man ekki vel eftir matarvenjum fyrr en á öðrum tug aldarinnar. Ekki man ég eftir fráfærum og má það vera að þegar þær voru lagðar niður hafi eitthvað breyst matarræði og fróða menn hefi ég heyrt segja að matarskorturinn um aldamótin hafi stafað af því að hætt var að færa frá. Að sjálfsögðu voru matarvenjur ólíkar á bæjum eftir því hvar þeir voru staðsettir og líka eftir efnahag. Við sjóinn var etinn fiskur og sjófang en í afskekktum sveitum kjöt og silungur og lax ef veiðiár eða vötn voru í landareigninni. Þeir sem voru duglegir að fara til grasa höfðu mikla björg af því. Ekki held ég að mikið hafi verið notað kálmeti nema þá út úr neyð. Sem barn heyrði ég gamalt fólk tala um njólagraut og hvannarætur. Ekki þótti þetta merkileg fæða og njóli þótti niðurleysandi. Konu þekkti ég, sem hafði sem ung stúlka verið send suður að Reynivöllum í Kjós til að framast á prestsetrinu. Þetta var fyrir aldamót. Hún sagði að prestsfrúin hefði saltað fulla tunnu af káli. Ég spurði hvaða káli en hún hélt að það hefði verið rófukál. Eitthvað hefir samt verið um annað kál samanber orðtakið sautján hundruð og súrkál og nítján hundruð og grænkál. Þetta er mjög gömul orðatæki. Einnig þetta: Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Þegar ég man fyrst eftir mér, líklega um 1913 var til rófugarður heima á Guðlaugsstöðum þar sem ég ólst upp, en ekki man ég eftir kartöflugarði þá strax. Upp úr 1920 fór að þykja áhugavert sakir hollustu að nota garðamat og kálmeti til fjölbreytni, einkum þó kartöflur og rófur. Einnig hvítkál, spínat og grænkál í jafninga.

Á nítjándu öldinni, að mig minnir um 1844 var stofnað hér í sveit félag sem kallað var Framfarafélag. Blettur er hér í túninu, niður við Blöndu, sem heitir Akur. Sennilegt þykir mér, að bændur sem voru í Framfarafélaginu hafi reynt að rækta korn ásmat með ýmsu öðru en allt koðnaði þetta niður í harðindunum 1882 og fram til aldamóta. Sem smábarn man ég eftir því einu sinni, að ég sá korn malað. En upp úr 1920 fór að flytjast inn ómalað korn. Sumir voru að kaupa þetta og mala heima og baka úr því heilhveitibrauð. 1874 var stofnað hér í sveit Kvenfélag og það var eiginlega vísir að kvennaskóla. Þar var leiðbeint með þrifnað, matargerð, skrift og reikning. Fyrsta kvenfélag landsins var samt stofnað í Rípurhreppi í Skagafirði að mig minnir. Nýlega er komin út um það vönduð bók, en ég get ekki vitnað í hana því hún er í láni.

Móðir mín fór við matreiðslu eftir Kvennafræðara Elínar Briem. Hún átti tvær útgáfur af þeirri bók, önnur var í mjög litlu broti en hin var í átta blaða broti. Ágætar bækur. Þar er líka sagt hvernig ætti að þrífa innanhúss, þvo þvotta og ýmsilegt sem óupplýstar stúlkur þurftu nauðsynlega að vita. Jónínubókin var nútímalegri en meira einhliða. Svo kom Helga með stóru bókina sína og litla bók þarfa um kálmeti og ber, að mig minnir. Sólveig var með afbragðs uppskriftir að gerbrauðum. Nú er rigning af uppskriftum en konur eru bara farnar að kaupa tilbúinn mat eða hálftilbúinn af því að þær eru ekki heima.

Daglegar máltíðir voru:

Kl. 8 að morgni kaffi með mjólk og sykri nema um sláttinn þá var borið brauð með og líka var farið heldur fyrr á fætur.

Kl. 9-10 var morgunmatur, stundum kallaður skattur. Venjulega var á borðum brauð, fyrst rúgbrauð, en síðarheilhveitibrauð líka, smjör, kæfa, niðurskorinn lundabaggi súr, fótasulta, gat líka verið úr kálfshausum saman við eða ungnautahausum, einnig súr. Svo var skyrhræringur og nýmjólk eins og hver vildi. Oft voru líka pressuð svið súr. Til hátíðabrigða var harðfiskur. Það gat verið riklingur, harðfiskur eða steinbítsriklingur. Stundum var veiddur silungur í heiðavatni, sem tilheyrði Guðlaugsstöðum, var hann þá oftast soðinn á morgnana og þá var bara brauð og viðbit með og bráðinn tólkur út á silunginn og sami spónamatur og slátur.

Næst var molakaffi kl. 12 og tuttugu mínútna hvíld. Hádegiskaffi.

Kl. 3 var miðdegismaturinn. Um sláttinn var hann fluttur á engjar því oft var langur vegur þangað. Hann var fluttur á reiðingshesti í þar til gerðum skrínumm hentugum og haganlega gerðum af afa mínum, sem var þekktur smiður. Í annarri skrínunni var mjólkurvellingur, nú kallað grjónagrautur. Í hinni var vel soðið spaðkjöt, tveir spaðbitar ætlaðir hverri stúlku og þrír hverjum karlmanni. Loks var bunki af emeleruðum skálum og hornspónum ásamt blóðmörskepp súrum. Allir höfðu vasahnífa og notuðu þá við að skera kjöt og slátur. Þetta var kostamikill og vel tilreiddur matur og það var gaman að borða úti og fá sér blund á eftir því nónhvíldin var klukkutími.

Kl. sex var miðaftanskaffi, molakaffi og tuttugu mínútna hvíld. Mjaltakonurnar fóru heim kl. 9, fengu kaffisopa og fóru að mjólka kýrnar. Hitt fólkið hætti kl. 10. Þegar það kom heim og var búið að fara út bleytunni, þ.e. áður en gúmmístígvélin komu til, var borðaður kvöldmatur. Það var venjulega smurt brauð og mjólk, slátur og volgur hafragrautur. Að sjálfsögðu var miðdegismatur fjölbreytilegri þegar borðað var heima. Að vísu var oft ket en stundum var soðning svo sem saltfiskur, sigin fiskur, bútungur og sums staðar var borðaður saltur silungur og rófur. Það var ekki svo afleitt. Smám saman óx kartöflurækt, en ekki var kartöflugarður á hverjum bæ. Um 1920 voru kartöflur orðnar algengar og ævinlega hafðar með fiski og líka með kjöti nema ef rófur voru til. Spurt var um sunnudagamat . . . .(afritaðar hafa verið hér 2 síður af 10) 

Úr minningagreinum: Eftir hana látna skrifaði Bóthildur frá Bergsstöðum eftirfarandi:

Hún var ekki bangin þó hún biði endalokanna og liði ekki vel, heldur jós hún úr sínum sagnabrunni gömlum sögnum svo unun var á að hlýða. Þó ekki væri skrifuð um hana nein bók þá átti hún nóg efni í margar bækur, bæði af því sem hún hafði ritað og því sem hún geymdi með sjálfri sér.

Arnljótur Guðmundsson húsasmíðameistari og bróðir Hannesar á Auðkúlu skrifar eftir frænku sína:

Eins og öll þessi systkini var Hulda forkur dugleg. Hún hafði erft þá ættarfylgju að vera raunsæ og velja heldur lengri en öruggari leiðina en þá styttri og vafasamari. Vinnumaður sem var eitt sinn á Guðlaugsstöðum sem saman þessa nafnavísu um þau systkini:

Hannes , Bergur, Björn, Guðmundur, Dóri/Hulda og Árdís hæverskar/heimasætur gullfagrar.

Hulda er af þeirri kynslóð sem lifði mestu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á Íslandi. Hún sá torfhúsin hverfa fyrir steinbyggingum og þúfur láta í minni pokann fyrir plóg og herfi, vegi teygja sig yfir ófærar keldur og ár hverfa undir brýr, en þegar átta að fara að setja Blönduó pípu var henni nóg boðið og setti sig alfarið á móti þeirri ráðagerð. Dæmi nú hver fyrir sig, því allir sem uppaldir eru í Blöndudal hafa einhvern tíma setið á árbakkanum, starað í iðuna og látið sig dreyma um framtíðina.

Þó Hulda væri alla tíð mikil félagshyggjukona, virti hún rétt einstaklingsins og setti sjálfstæði Íslands öllu ofar.

Sigríður Jónsdóttir (dóttir Önnu Guðmundsdóttur læknis Hannessonar) skrifar eftir frænku sína: Húsmóðirin Hulda varð mér, unglingnum, ráðgáta. Ég hafði aldrei kynnst svona konu. Hún gat allt, gerði allt, kom mjólk í mat og ull í fat, milli þess sem hún hugleiddi eilífðarmálin. Hún gaf sér líka góðan tíma til þess að tala við börnin. Hún vitnaði óspart í þjóðskáldin og fylgdist með öllum þjóðþrifamálum og menningarstraumum .

 Árið 1959 vildi svo skemmtilega til að Hulda var stödd í Reykjavík þegar við Stefán Hermannsson héldum brúðkaup okkar. Var hún að sjálfsögðu heiðursgestur. Ýmsir vinir föður míns voru þar viðstaddir(hann hafði látist árið 1957) þar á meðal Páll Ísólfsson, Níels Dungal prófessor og fleiri. Dungal hafði þá nýverið lokið við að skrifa bók um trúmál sem heitir Blekking og þekking. Þau Hulda áttu langt samtal. Fólk tók til þess hve Hulda hafði margt til málanna að leggja, fylgdi sínum skoðunum fast fram og gaf hvergi eftir. Árið 1975 urðum við hjónin fyrir þeirri sorg að missa einkadóttur okkar 10 ára gamla með sviplegum hætti. Skömmu síðar barst mér frá Huldu frænku minni, sem mér var ákaflega mikils virði að fá og hef æ síðan haft einhvers staðar nálegt mér. Upphaf bréfsins var á þessa leið: Bestu þakkir fyrir síðast. Mig langar til að skrifa þér, en veit þó að eflaust get ég ekkert sagt við þig, sem þú ekki þegar veist og hefir gert þér ljóst. En hvíta blaðið, sem ber boð milli sálna, er þó alltaf dálítið lífsmark og oftast velkomið. Ég held að eitthvað jákvætt svar sé til við öllu sem við mætum eða reynum á lífsleiðinni; en stundum er djúpt á því.Kannast þú ekki við kvæði Matthíasar: Sorg? Það er alveg stórkostlegt. Sorg: http://bragi.info/ljod.php?U=m0&ID=1008 

Sjá Tímann 14. jan. 1995 finndu þar bls. 18-19: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=282198

 

Formæður Huldu frá Guðlaugsstöðum hétu margar Guðrún:

Guðrún Sigurðardóttir 1699-1785 húsfreyja Saurbæ í Hörgárdal, tengdadóttir hennar var

Guðrún Halldórsdóttir 1725-1784 hfr. Ásgerðarstöðum Hörgárdal dóttir hennar

Guðrún Gísladóttir 1760-1837 hfr Sveinsstöðum í Þingi en dóttir hennar var

Guðrún Jónsdóttir 1796-1843 hfr. Sveinsstöðum en dóttir hennar var

Guðrún Erlendsdóttir 1820-1901 hfr. Refsstöðum og Orrastöðum sonur hennar var

Björn Eysteinsson Réttarhóli og Orrastöðum 1849 - 1939  en BjEy átti Guðbjörgu Jónasdóttur frá Tindum sem fyrstu konu en dóttir þeirra var

Guðrún Björnsdóttir Guðlaugsstöðum 1875-1955 og dóttir hennar var

Hulda Sigurrós Pálsdóttir Höllustöðum 1908-1995

Hulda Pálsdóttir skrifar minningar frá kvennaskólavetri sínum: http://stikill.123.is/blog/2014/07/02/vetur-a-kvennaskolanum---hp/

 

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515395
Samtals gestir: 104643
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 02:30:19