17.05.2017 21:52

Burtu sviptist húmsins dökka tjald

 Skáldkona frá Eiríksstöðum/Hóli

Víða stendur stoltur bær
strjálar rústir þegja.
En ef þú hlustar hafa þær
hálfu meira að segja.

Í vísunni hér að ofan birtast orð Þórhildar frá Hóli, en Vilborg móðir hennar ólst upp á Eiríksstöðum með bræðrum sínum Hannesi og skáldinu Gísla. Þórhildur flutti ung að heiman og var fjarlæg orðin okkur sem ólumst upp í dölunum um miðja öldina - nema helst í ljóðum sínum. Þau komu reyndar ekki út fyrr en allmjög var liðið á æviárin. Hún átti sterkan ljóðrænan streng í líkingu við skáldið Gísli frá Eiríksstöðum, móðurbróðir sinn.

Saman tóku staup og staup.
Stæltust hnefar krepptir.
Höfðu síðan hestakaup
og hlógu dátt á eftir.

Þessa lýsingu fá sveitungar Þórhildar og samskipti þeirra við grannana í Tungusveit, Efribyggð, Skörðum og Hólmi. Stafnsréttardagarnir, miðvikudagur með stóðrétt og fimmtud. fjárréttin, voru árshátíð sveitanna sem þangað áttu fjár að vitja. Þá var Marka-Leifi kátur segir í einni fjölmargra Stafnsréttarvísna, sem bragsnillingar gleðja okkur erfingja sína með þegar við flettum vísnasöfnum þeirra.

Bókina sína, Sól rann í hlíð, byrjar Þórhildur með glaðlegu og hlýju minningaljóði, sem heitir Rætur:

Glöð eg sótti hest í haga
heita, bjarta sumardaga.
Ætíð gerðist einhver saga
inni í dal og heima í bæ.
Svona var það sí og æ.
Ánægð hljóp um engi og grundir.
Alltaf eru þessar stundir
tengdar sól og sunnanblæ.

Þórhildi hitti ég eitt sinn, þökk sé vini mínum, Ögmundi Helgasyni sem átti hana að kunningja og lét mig njóta þess. Hún tók okkur prýðisvel, öldruð kona og höfðingleg. Við röbbuðum góða stund og þáðum góðgerðir. Þau eru bæði komin úr sjónmáli, en bækur lifa, Þórhildur var svo hugrökk að skíra bókina sína: Sól rann í hlíð. Þá mynd þekkja fleiri sem ólust upp í djúpum dali.       

Myndin er björt og glæsileg. Hún segir af ungri stúlku sem tekur fari suður og fer sjálf að haga lifi sínu. Þar verða brekkur, breiður og jafnvel keldur en Þórhildur eignast góða vini og fagurt líf sem hún hýrgar með skáldaflugi sínu.

Jakob Þorsteinsson minnist hennar og seinni manns hennar, rifjar upp þegar hún gekk til liðs við Húnvetningafélagið og  vinabönd tengdist í framhaldi af því.

Lækurinn átti skýran róm í ljóðum Þórhildar:

Eg helga ljóð mitt lækjanið
og lágum fjallahring
því þar var allt svo yndislegt
með álfabyggð í kring.
Svo kynnigmögnuð kyrrðin var
að hvíslaði gras og lyng.

Allt jafnast

     1.
     Eg minnist þeirra löngu liðinu daga
     það leiftar skært um horfin æskuvin.
     Þar sem eyrarrósin grær, þar sem elfan við mér hlær
     dvelur ástin mín við minninganna skin.
     - - -
    2.
   Þú bíður mín á björtum sólskinsdegi
   er burtu sviptist húmsins dökka tjald.
   Þegar löngu liðin ár verða líkt og þornuð tár
   aðeins lítið strik á tímans máða spjald. 


Vísur Þórhildar:    http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=16902   

Minningagrein Jakobs frá Geithömrum um ÞS    http://www.mbl.is/greinasafn/grein/48905/  

Skrá um systkinin 23 frá Eyvindarstöðum neðst á síðunni:   http://stikill.123.is/blog/2017/05/12/765011/  

Pistill af Steinvöru og Sigurði Pálmasyni frá Æsustöðum

Þá er Marka-Leifi kátur:   http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24880  

Gíslavaka Ólafssonar í Húnaveri lau. 9.6.2012    http://stikill.123.is/blog/2012/05/27/615595/    

Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515382
Samtals gestir: 104636
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 01:17:34