11.05.2017 10:36

Vinátta frá Kvennaskólaárum

                                  Minningar Hulda Pálsdóttur úr Kvennaskólanum

           Það er eftirtektarvert, hvernig það unga fólk í skólanum laðast hvað að öðru, sem á sér svipuð áhugamál og er á líkri bylgjulengd. Oft endist sú vinátta alla ævina og aldrei eignast fólk eins nána trúnaðarvini og í skóla. Einnig vegna þess er það mikilsvert að ganga í skóla. Sjálf hefi ég ekki haldið tengslum haldið tengslum að ráði við skólasystur mínar úr Kvennaskólanum á Blönduósi, mikið fremur við skólasystkini mín úr gamla góða Gagnfræðaskólanum Akureyrar, sem varð að menntaskóla 1930 en í hann fór ég eftir að ég var í Kvennaskólanum. Samt eru mér ýmsar skólasystur mínar minnisstæðar þaðan.

          Laufey Jónsdóttir frá Ölvaldsstöðum var vinstúlka mín og við töluðum mikið saman, samt hafði hún meiri lífsreynslu því ég var bara 16 ára. Svo var Sólveig Jónsdóttir frá Ljárskógum, hún var nokkrum árum eldri, en báðar vorum við ljóðelskar og síðar komst ég að því að hún var ágætlega hagorð. Ég ímyndaði mér að hún gengi í sorg, en hún talaði um liðna ævi nema þá hve fagurt væri við Breiðafjörð um sólarlag. Mesta uppáhalds lag hennar og ljóð var held ég: Dánarkveðju við djúpsins rönd, dagsins er hverfur ljómar. Það kom fyrir, að frk Kristjönu(forstöðukonunni)  voru senda bækr, nýúkomnar til að selja. Ég man vel þegar hún kom með kvæðabók Herdísar og Ólínu Andrésdætra, settist fyrir innan borðið í stofunni og las kvæðið eða þuluna:"Renni renni rekkja mín, renni í hugarheima . . . " 

          Mikið vorum við allar hrifnar. Við Sólveig keyptum báðar bókina og sendum báðar heim hvor til sinna foreldra og ég man hvað Sólveig var glöð yfir bréfi, sem hún fékk frá Jóni litla bróður sínum, en hún hafði lagt fyrir hann að velja besta kvæðið og hann valdi: Gekk ég upp á gullskærum móður minnar. Ég held að hana hafi grunað að þarna væri að vaxa upp bæði skáld og söngmaður eins og kom á daginn. Eflaust hafa margar fleiri keypt bókina. Síðar voru fornar ástir eftir Sigurð Nordal sendar, en ekki ég að Kristjana læsi úr þeim, en ég keypti þær og sendi líka heim. Í þá tíð held ég að tæpast hafi verið gefið annað út en góðar bækur. . . .

         Nokkrar stúlkur voru frá Akureyri. Ein þeirra var Jenný Lúðvíksdóttir, myndarleg stúlka og viðfelldin, Önnur var Anna Árnadóttir, lagleg stúlka og vel að sér. Við vorum dálítið kunngar, hún var í yngri kantinum. Anna trúlofaðist Páli frá Skarði og það var eina trúlofunin í skólanum á þeim vetri. . . .

         Sumar stúlkurnar höfðu verið eitthvað í unglingaskólum áður. Ein af þeim var Sigríður Erlingsdóttir frá Sólheimum í Mýrdal. Hún var þroskuð stúlka og þekkileg. Úr fylgsnum hugans gægist fram hálfgleymd minning um Sigríði ásamt fleiri stúlkum, syngjandi inni á herbergi hennar kvæði Guðmundar Guðmundssonar:"Viltu með mér vaka er blómin sofa, vina mín og ganga suður að tjörn."   Þetta hálfgleymda atvik kemur stundum fram í hugann þegar ég heyri og sé í sjónvarpinu ungu nútímakonurnar, fallega af guði gerðar en fígúrulega tilhafðar, vera að hrista út úr sér fáfengilegar og grófar dægurlagavísur nútímans. Tískan er máttug.

         Úr Afmælisriti S.A.H.K.

          Það mun vera minnisstætt fleirum en mér að koma í Höllustaðaeldhús, hitta þar fyrir Huldu húsfreyju, stundum hjónin bæði, og gleyma sér við samræður, fréttir, ljóð, horfna granna, jafnvel ættfræði og aldrei var heimspekin langt undan. Stundin leið hratt. Hanna Dóra, bræður hennar eða aðrir heimilismenn bættust gjarnan í hópinn. Þetta rifjast upp þegar flett er ljósritum á greinum Huldu, sem Már sonur hennar setti mér í hendur eftir andlát móður sinnar, megi fleiri njóta! IHJ

Stikill 2/7 ´14 HP/Vetur á Kvennaskólanum: http://stikill.123.is/blog/2014/07/02/vetur-a-kvennaskolanum---hp/

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515395
Samtals gestir: 104643
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 02:30:19