10.05.2017 20:01

Nokkrar línur á hörpu 2017

   Bréfið hér að neðan hef ég sent nokkrum félögum norður við Húnaflóa ásamt seinni ljóðabók Jóa í Stapa, Nýjum axarsköftum. Jói er slakur sölumaður þó hann sé skáld gott og ég nýt þess að fá bókakassa hjá honum til að senda út um dittinn og dattinn, nei þannig sendi maður ekki heldur velur sér viðtakendur. Ég þarf að fá annan kassa hjá Jóa áður en harpa er liðin og bréfið dottið úr gildi, en hér neðar er tölvupóstfangið, blessuð sendið mér línu að panta bók til að létta af mér vangaveltum, þær verða nógar samt! En alltaf er nú verið að kynna Húnaflóa vísnavef. IHJ

tölvupóstfang mitt: ihjstikill@gmail.com

sími/smess: 8652586


                            Orðsending á hörpu 2017

Hvað þarf stóran faðm um flóann? Húnaflóinn er nú ekki alveg hálft Ísland en staðsetning hans er einstök, öll sjávarvíðáttan, heiðar, stöðuvötn, elfur, dalir og strandir sem með honum liggja. Eyjar er kannski það sem helst skortir á dýrð flóans en því betur nýtur sín Grímsey í Steingrímsfirði og varphólmar vítt í flóanum.

Við sem búum/bjuggum hjá þessum stóra flóa getum eygt þar margvísleg verkefni, héruðin, sagan og menningin. Er eitthvað skemmtilegra en tengja, s. s. tímann við sig sbr. JHallgr., tengja byggðir, tengja samtíð sína við skáld fyrri alda, hrista af sér drepandi - og yfir öllu ríkjandi - makræði og halda til fundar við nýjar áskoranir. Þær gægjast upp úr næstu laut eða fela sig bak við hól.

Vísnavefurinn, þ. e. Húnaflóasafnið hóf sig til flugs 6. ág. 2014 og marga daga á liðnum misserum, hefur honum  bæst vísu, ljóði eða jafnvel textabrot með stöku. Kvæðasafnið fékk félagsskap með eldri vísnasöfnum, en helst þeirra er Bragi óðfræðivefur, sem er efnisríkur og vel unninn. Elstur er vefurinn Skagfirðinga. Nú í sumarbyrjun 2017 eru vísurnar á Húnaflóavef orðnar um 4400 eftir rúmlega 1100 skáld og hagyrðinga. Á þessu ári hefur kastljósi verið beint að Húnvetningnum og vísnasafnaranum Sigurði Halldórssyni frá Selhaga, en hann safnaði vísum í margar möppur og arfleiddi Héraðskjalasafnið á Blönduósi. Sjá Stikilsvefinn, stikill.123.is. Kveð ég dalinn kæra minn http://stikill.123.is/blog/2017/02/24/761266/

Í fyrra fór Jón Árnason að banka á dyr vefstjórans. Starf hans við þjóðsögurnar er skyld vísnasöfnuninni þó auðveldara sé að afla þeirra, rita þær upp af bókum, úr blöðum eða af tímaritasíðum. Jón fylgdist með uppvexti skólapilta á Bessastöðum og Reykjavík, var ritari og trúnaðarmaður Sveinbjörns Egilssonar, bréfaskipti þeirra Benedikts Gröndal, frásagnir Halldóru Bjarnadóttur Hlínarritstjóra af komu þeirra mæðgna á heimili Jóns, lituðu sumardagana 2016. Eins það að hitta sveitunga Jóns úti í Hofskirkju þegar sr. Bryndís sóknarprestur messaði þar sunnudaginn 28. ágúst. https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102

Nú stendur til að hafa aftur messu á öðrum á öðrum stað á næsta skaga sem prýðir flóann bláa. Stefnt er að guðsþjónustu á Tjörn á Vatnsnesi sunnud. 20. ág. og verður auglýst frekar á Húnahorninu. Húnaflóavefurinn verður þar kynntur áfram eins og í messuskrá eins og í Hofsmessunni í fyrrasumar og eins með stökuspjalli á Húnahorninu.  

Á Vatnsnesi er mikið framboð skálda en einhverjar vísur þeirra munu væntanlega prýða messuskrána.

Ný axarsköft heitir bókin sem bréfið fylgir og er seinni ljóðabók Jóa í Stapa. Jói býr í kjallaranum hjá Stefáni söngstjóra út á Norðurbrún 9 í Varmahlíð v/Norðurlandsveginn. Þar dregur hann björg í bú á haustin, fer stundum niður í búð að kaupa brauð, mjólk og sætar kökur. Hann bregður sér með strætó til Reykjavíkur þegar hann þarf að leita þar læknis, en hefur annars hægt um sig, skreppur í Krókinn af og til, en til þess notar hann bílinn sinn, fannhvíta rennireið. Já, Jói hefur margan vegginn reist fyrir sýslunga sína í Skagafirði eða Húnaþingi og síðast Sunnlendinga. Hann var með byggingaflokk og steypumót um árabil áður en hann flutti suður. En nú er Jói fluttur aftur í Skagafjörðinn og kinkar kolli til Glóðafeykis þegar hann kemur út á morgnana, fer að hella upp á kaffi fyrir þá Gísla nágranna sinn og svo taka þeir stöðuna á vaknandi degi.

Ekki má gleyma ættinni hans Jóa, kominni frá Snæbirni Halldórssyni presti sem flutti að Grímstungu um 1800 og þaðan kom Margrét Snæbjörnsdóttir að Auðólfsstöðum. Þessa sömu ætt eiga Litladalsmenn/Blöndudalshóla og Brúsastaðamenn í Húnaþingi og Flugumýrarhvamms- og Réttarholtsmenn í Blönduhlíð. Svo er Jói líka af Jóelsætt og fleiri góðum. Með sumarkveðju frá Selfossi 10. maí IHJ     

Og áfram strætó! - þó hann gangi ekki enn út á Vatnsnes   ihjstikill@gmail.com                      

Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515390
Samtals gestir: 104641
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 01:51:55