06.05.2017 17:34

Af Steinvöru og Sig. Pálmasyni

                  Um Æsustaði
snerist umhyggjusemin hennar ömmu, Jósefínu Pálmadóttur í Holti, og trúlega hefur henni stundum verið hugsað þangað þegar fjölskyldan var komin ofan af Laxárdal til búa í fleirbýli og þrengslum á 2 jörðum niðri í Blöndudalnum áður en þau fluttu út að Holti. En græna grasið var á Æsustaðaengjum og túni. Túngarðurinn, sem Pálmi faðir hennar hlóð, skýldi grösum og æskuslóðum Æsustaðasystkinanna. Garðurinn birtist á kápumynd á Stikli 2.

          Um vöggustöðvar Karlakórsins skrifar Gunnar prestur Árnason frá Skútustöðum í sögurit kórsins Tónar í tómstundum og nefnir þar Æsustaðabræður Gísla og Jón Pálmasyni, en hvorugur þeirra varð langlífur.

Þriðji bróðirinn, Sigurður kaupmaður á Hvammstanga, hafði ekki síður hlýjuþel til kórsins en bræður hans, og gestrisni í húsi hans þótti taka öðru fram þegar kórinn kom til Hvammstanga að syngja lögin sín sem stundum voru eftir frændur hans, Óskarsyni frá Eyvindarstöðum.

Heimildir benda til að bókin karlakórsins, sú sem saga kórsins var síðan skráð í, aðalheimild að Stikill 1, sé upphaflega gjöf frá Sigurði frá Æsustöðum og hafi orðið kórmönnum hvati til skrásetningar og þar urðu langdrýgstir Jónas Tryggvason og Guðmundur Jósafatsson.

Í sýslunni er sveitaval
segja þeir sem vita
því langmest  er í Langadal
af logni og sólarhita. Ók. höf.

           Sigurði var lögð í munn ofangreind staka. Af vísunni má marka af Sigurði hafi stundum nefnt veðursældina á æskuslóðunum undir Æsustaðafjallinu og tilefni komið þegar hafgoluna lagði af flóanum yfir nágranna hans á Tanganum.

           Sigurður eignaðist húnvetnska konu, Steinvöru Benónýsdóttir. Steinvör átti 8 systkinin og meðal þeirra Guðrúnu, Sveinbjörn og Valdimar Kamillus Benónýsbörn, sem öll voru snjallir vísnasmiðir og sjálf átti hún hægt að smíða stöku og kveðskap unni hún. Á Kambhóli, heiðakoti fram á Miðfjarðarhálsi, ólst Steinvör upp þar til faðirinn féll frá. Þá var Steinvör 10 ára og fór þá til uppeldis á prestsetrinu á Breiðabólstað. Steinvör sótti menntun til Kvennaskólans í Reykjavík og stundaði barnakennslu. Sjá afmælisgrein um Steinvöru hér neðar. Hér koma vísur systkina Steinvarar, Guðrúnar, Valdimars og Sveinbjörns, sem flutti til Vestmanneyja.


          Æsustaðasystkini: 1. Jón Jóhannes Pálmason Gautsdal, 1876 2. Guðrún Sólveig Pálmadóttir Bjarnastöðum 1878-1960 3. Gísli 1881-1881, 4. Sigurður 1881 5. Sigurður Pálmason Hvammstanga 1884-1972 6. Jósefína Þóranna Mörk, Holti 1887-1986 7. Gísli Pálmason Æsustöðum, Bergsstöðum 1898-1942. Æsustaðahjónin og foreldrar systkinanna voru Sigríður Gísladóttir frá Eyvindarstöðum, en alin upp hjá Jóhannesi á Gunnsteinsstöðum og Pálmi Sigurðsson frá Gautsdal.

Kemur biðill, hæ, hæ, hæ.
Húrra, ég verð kona.
Snýr til baka, æ, æ, æ
alltaf fer það svona. GBenónýsd.

Hallar norður heiðina
hægt er þreytu að gleyma
þegar létta leiðina
ljósin okkar heima.GBenónýsd.

Oft ég sveina fer á fund
frá því greina sögur.
Veitir einatt unaðsstund
ástin hrein og fögur. GBenónýsd

Andi þinn á annað land,
er nú fluttur burt frá mér.
Bandað hef eg bleikan gand,
ber hann mig á eftir þér. VKam.

Borgar lampaljósum frá
léttum glampabrotum
aldan hampar úti hjá
Ægi kampavotum. VKam.

Oft er kátt í eyjunum.
Eldað grátt á dansleikjum.
Eftir slátt frá illvígum
auga blátt í drykkfelldum. Sveinbjörn Ágúst Benónýsson

Nóttin greiðir göngu frá
gefinn eyðist frestur.
Röðull heiðum himni á
hraðar skeiði vestur. Sv.Á.Ben.

                Að standast þjóðpróf
                       Steinvör á Hvammstanga er áttræð í dag e. Magnús Jónsson
      Steinvör er fædd í Kambhóli, sem er fjallakot framarlega á Miðfjarðarhálsi. Þetta er kannski orðið stórbýli nú á seinni hluta tuttugustu aldar, en þegar Steinvör var í heiminn borin, var það eitt með lélegustu kotum í Vestur-Húnavatnssýslu. Túnið gaf af sér rúmlega hálft kýrfóður, en kindabeit var úrvalsgóð og fjallagrös nærtæk, en þau voru fyrrum gott mannfóður. Benóný Jónsson og Jóhanna Guðmundsdóttir, foreldrar Steinvarar, bjuggu í Kambhóli. Þau áttu 9 börn á palli og voru bláfátæk. En þau voru fluggáfuð, hagmælt meira en i meðallagi og atorkusöm. Um þau mátti segja:"Þau áttu ekki af neinu nóg, nema von og kvæðum". Þau voru bæði jafnvíg á að gera glettnislega hringhendu um lítils verða atburði í fjallakotinu, en hver vísuhending var einis og sólargeisli í skortinum og fátæktinni. Símon Dalaskáld var þar stundum gestkomandi. Þá var eins og jólahátíð í baðstofukrílinu, þó veizlukosturinn væri lítið annað en dökkur grasagrautur. Léttar og liprar vísur flugu eins og sumarfiðrildi um lágreistan kotbæinn.
    Jóhanna húsfreyja var sálfræðingur. Börnin hennar ung og mörg voru hraust, heilsugóð og matlystug. Fjallagrasagrauturinn var rammur á bragð og krökkunum þótti hann ekki sælgæti. Jóhanna móðir þeirra vissi að þeim var lífsnauðsyn að borða sem mest af þessari kjarnafæðu, þessvegna skammtaði hún hverju barni fjórðahluta úr rúgköku ásamt litlum tólgarmola, en það kjörmeti máttu þau ekki bragða fyrr en þau höfðu lokið grasagrautnum.
Frumbernska Steinvarar, sem er áttræð í dag, leið við rýran matarkost, en andleg verðmæti voru þeim mun ríkulegri á afskekktu fjallabýli. Því til sönnunar er það, að systkinin hennar mörg ásamt hennj sjálfri, hafa mikla skáldgáfu, sem er rómuð af þeim sem ljóðlist unna. Þegar Steinvör var 10 ára kom gömul, kom marskálkurinn með ljáinn og sló stóran skára í Kambhólskotinu og lagði Benóný, föður hennar að velli. Jóhanna, móðir hennar, stóð þá ein eftir með stóram barnahóp, en úrræðin, forsjá stórrar fjölskyldu, voru kistulögð með húsbóndanum. Sveitarstjórn ráðstafaði heimilinu mannúðlega og kom börnunum fyrir í góðum stöðum. Hálfdán Guðjónsson, prófastur á Breiðabólstað, tók Steinvöru til uppeldis og þar var hún til 17 ára aldurs og þótti þá bera af ungum. Lífsins kynngi kallaði úr ýmsum áttum: Steinvör varð námsmey í Kvennaskólanum í Reykjavík. Eftir skólavistina stundaði hún barnakennslu á vetrum og átti margra kosta völ. Minnist Steinvör jafnan þessara ára með mikilli hlýju.
     Þegar Steinvör var tuttugu og fjögra ára gömul giftist hún Sigurði Pálmasyni, sem er þjóðkunnur maður að mikilli atorku og góðum manmkostum. Eftir nokkur misseri settust þau að á Hvammstanga, þar sem Sigurður opnaði sölubúð. Hann hafði þó fleira í taki til að byrja með, því hann var vel menntaður til ýmsra starfa. Verzlunarreksturinn var smár í sniðum til að byrja með, en óx með hverju ári, því Sigurður var úrræðamikill, orðheldinn svo af bar og greiðafús. Vinsældir þeirra hjóna urðu strax miklar í kauptúninu og öllum sveitum, sem sóttu þangað viðskipti. Sigurður hefur alla ævi verið hamhleypa til vinnu og rak löngum verzlun sína með litlum aðkeyptum vinnukrafti. Steinvör var líka verkamikil og verkhög.
     Ekki get ég lokið svo við þessa litlu afmælisgrein, að ég drepi ekki nokkuð á ævistörf þessara merku hjóna; þ. e. að segja sjálft þjóðprófið, sem hver og einn tekur með verkum sínum. Verzlunarrekstur Sigurðar Pálmasonar hefur dafnað og aukizt hægum en föstum skrefum fram á þennan dag. Þó hefur hið rótgróna lánsverzlunarfyrirkomulag verið þungur hemill á allri verzlunarstarfsemi. Aldrei veit ég til að Sigurður hafi neitað fátækum manni um vörulán, utan einu sinni, að hann lokaði stórum skuldareikningi fyrir örsnauðum barnamanni, sem átti ekki fyrir skuldum. En skuldarinn kunni lagið á Sigurði og sendi konu sína í búðina að biðja um vörulán. Sigurður sagði sem var, að um frekari lánsúttekt væri ekki að ræða. Konan fór þá að gráta, en við það fór Sigurði líka að vökna um augu og jafnharðan dró hann lokuna frá skuldareikningnum og konan fékk þá og framvegis það sem heimili hennar þarfnaðist. Þess vil ég geta, af því að ég er því kunnugur, að flestir eða allir vildu standa í skilum við þennan hjartahlýja mann, eftir því sem framast var unnt. Steinvör hefur staðið fyrir stóru heimili, með miklum dugnaði og höfðingsbrag, meira en hálfa öld. Oft hafa leitað skjóls í hennar húsakynnum gamalmenni og hrakningsfólk, en henni er lagíð að fara mildum móðurhöndum um hrjáða og hrellda.
      Steinvör er af þeim sem þekkja til hennar, sjaldan nefnd með föðurnafni, heldur ævinlega "Steinvör á Hvammstanga". Þetta kemur að einhverju leyti til af þvi, að föðurnafnið er svifaþungt og þó ekki síður vegna þess, að hún hefur um hálfrar aldar skeið, gefið staðnum reisn og virðingu með verkum sínum og miklum persónuleik.
      Ég, ásamt konu minni, færi þessari áttræðu konu hugheilar hamingjuóskir, með virðingu og þökk. Steinvör er hér í borginni um þessar mundir og heldur til hjá
dóttur sinni og tengdasyni, að Holtsgötu 6. Magnús Jónsson Úr Mbl. 22.ág.1968 bls. 22

Minningagrein um Steinvöru Benónýsdóttur: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1455508
Manntal 1890 Kambhóll: http://manntal.is/leit/kambh%C3%B3ll/1890/1/1920/12400/1350
Vísur ValdaKam: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=v0&ID=15241
Vísur Guðrúnar Benónýsdóttur: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=g0&ID=16069
Sveinbjörn Benónýsson Vestmanneyjum: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=15979


Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515382
Samtals gestir: 104636
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 01:17:34