31.03.2017 22:31

sr. Gunnar Ármason skrifar um vöggustöðvar kórsins

Lýsingar manna, ætta og sveitar er sr. Gunnar Árnason skráði í söguriti sínu Tónar í tómstundum:  

Neðar lýsingar af Sneisarfólki mest e. HHSnæhólm fyrrum bónda þar

A     Fyrstu áratugi síðustu aldar bjó í Finnstungu Jónas Jónsson Sveinssonar hreppsstjóra í Sauðanesi. Jónas var nettmenni, merkur bóndi og góður félagsmaður. Eftir hann tók Tryggvi sonur hans við jörðinni (d. 1952) Hann var kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur Guðmundssonar hreppsstjóra, síðast í Hvammi á Laxárdal.

         Tryggvi í Finnstungu var dökkur yfirlitum, grannvaxinn, beinn í baki og léttur á fæti. Verkmaður góður og lét sér annt um alla búsýslu. Hann sótti Flensborgarskóla á æskuárum sínum en var að mestu sjálfmenntaður. Frábært snyrtimenni, prúður og kurteis, allra manna vandaðastur að virðingu sinni. En tilfinninganæmur svo að honum blæddi oft. Honum var tamt að hugsa hvert mál sem vandlegast og leitaði jafnan sátta í deilum manna. Enginn var honum meiri félagsfrömuður í sveitinni og sparaði hann hvorki tíma né fé til að efla þau samtök er horfðu til menningar og samstarfs. Karlakórinn var óskabarn hans og segir gjör frá því síðar.

 

B      Næstfremsti bær þeirra sem nú eru í byggð í Blöndudal er Eyvindarstaðir, landnámsjörð og stórbýli, enda fylgdi henni lengi afréttur sveitarinnar, Eyvindarstaðaheiði, sem nær að Hofsjökli. Bærinn stendur á sléttum bakka undir grösugum hálsrótunum og túnið sléttara og hægara en annars staðar í dalnum áður fyrr. Á ofanverðri 19. öld bjuggu þau hjónin Gísli Ólafsson og Elísabet Pálmadóttir á Eyvindarstöðum. Hann var þar fæddur en Elísabet á Sólheimum í Svínavatnshreppi og stóðu kunnar ættir að báðum. Þau eignuðust 23 börn og komust mörg þeirra upp þótt dauðinn kvistaði þá tíðum svo ungskóginn að mörg systkini voru lögð í eina gröf þegar landfarsóttir geisuðu.

         Þau Eyvindarstaðasystkin voru mannvænlegur hópur, vel vaxin og kvik í hreyfingum, snerpumikil, örlynd nokkuð, lífsglöð og gleðigjörn. Söngvin voru þau svo að frábært þótti, enda rómað um næstu héruð. Var það föðurarfur. Svo sagði merk kona sem var við saumaskap eitt vorið á Eyvindarstöðum, að systkinin hefðu oft, þegar gott var veður á kvöldin, farið niður á túnið og sungið svo að barst yfir um ána og um dalinn. Var henni það ógleymanlegt. Óvíða var um hríð meiri gleðskapur á bæjum, ef gest bar að garði en á Eyvindarstöðum. Síðar bar straumur tímans þau sitt í hvora áttina jafnvel vestur um haf. Ein systirin, Ósk, giftist Jóni Jónssyni, Þorsteinssonar og bjuggu þau á Eyvindarstöðum fram á þriðja tug síðustu aldar. Þeirra synir voru þeir Þorsteinn og Gísli söngstjórar.

C     Sé farið þvert austur yfir háls frá Eyvindarstöðum má kalla að stefnt sé á Bergsstaði, austan ár í Svartárdal. Þar var prestsetur frá fornu fari og allt til ársins 1926, er Gísli Pálmason systursonur Óskar á Eyvindarstöðum hafði makaskipti á föðurleifð sinni Æsustöðum í Langadal og Bergsstöðum. Bjó þar síðan til dauðadags. Auk þess að kirkja er á Bergsstöðum var þar og póstafgreiðsla fram undir miðja öldina og því gestkvæmt mjög fyrr og síðar.

D     Eiríksstaðir eru næsti bær fyrir utan Bergsstaði, austan ár, en löng bæjarleið þar í milli og oft illfært yfir Bergsstaðaklif á meðan þar var ekki ruddur vegur. Í byrjun aldarinnar bjó á Eiríksstöðum Ólafur Gíslason frá Eyvindarstöðum og Helga Sölvadóttir. Synir þeirra voru Gísli skáld og Hannes er fyrst bjó eftir foreldra sína á Eiríksstöðum áður en hann flutti til Blönduóss.

E      Nú hefur Guðmundur Sigfússon búið lengi á Eiríksstöðu og var fyrri kona hans Guðmunda Jónsdóttir frá Eyvindarstöðum (d. 1937).

F      Gil  er utarlega í Svartárdal, lítil jörð en farsæl. Stefán Sigurðsson hreppsstjóri og kona hans Elísabet Guðmundsdóttir frá Mjóadal bjuggu þar við mikla gestakomu og víðfræga risnu lengst þess tíma er ritgerð þessi fjallar um. Þorsteinn frá Eyvindarstöðum átti dóttur þeirra.

G     Fremst á Laxárdal, um 4 km upp frá Bólstaðarhlíð bjó Brynjólfur Bjarnason á öndverðri síðustu öld. Hann var sýslumannssonur frá Geitaskarði, en dóttursonur Bjarna skálds og amtmanns Thorarensen. Brynjólfur var heimsmaður mikill og þjóðkunnur fyrir gleðskap sinn og risnu. Hann var um hríð organleikari við Bólstaðarhlíðarkirkju.

H     Á Æsustöðum fremsta bæ í Langadal voru þeir aldir Jón og Gísli Pálmasynir og komu þar fyrst við sögu. Hafa þá nefndir verið þeir staðir sem Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps rekur dýpstar rætur til og einna mest koma við sögu hans.

Ofanritaður kafli er fremst í söguriti sr. Gunnars og nefnist Vöggustöðvar -- er ofurlítið styttur, höfundur hefur bæjatalninguna á Bólstaðarhlíð, sem sé í hjarta sveitarinnar, nefnir síðan Ártún og bræðurna Jón og Jónas nýfluttan til Blönduóss og kemur þá að Tungu, sjá A

Lýsingar af Sneisarfólki

 

Það sem hér fer á eftir varðandi Sneis, er að mestu frásögn Halldórs H. Snæhólms fyrrum bónda þar, nú(1950) verkamanns í Reykjavík.

A      Halldór hér maður Þorláksson frá Björk í Eyjafirði. Sonur hans, Halldór, ólst til 18 ára aldurs upp með Hildi Eiríksdóttur á Stóra-Eyrarlandi. Dóttir Hildar, Þorbjörg, giftist frænda sínum, Stefáni M. Jónssyni, sem þá var nýorðinn prestur á Bergsstöðum. Til þeirra hjóna fluttist Halldór með Hildi fóstru sinni og var þar í vinnumennsku uns hann tók að búa á Laxárdal (í Skyttudal, Kárahlíð, Mýrarkoti, Refsstöðum, Illugastöðum og Sneis). Halldór var með hærri meðalmönnum og samsvaraði sér vel að gildleika, beinvaxinn og karlmannlegur, dökkur á hár, rauðskeggjaður með grá augu. Hann var glíminn, skautamaður góður, söngvin, enda forsöngvari í Holtastaðakirkju um skeið, geðprýðismaður, góðlátur, glaðsinna og kíminn, en lét lítt hlut sinn, ef leitað var eftir með frekju. Kona Halldórs hét Ingibjörg Bjarnadóttir, kynjuð úr Húnavatnsþingi í föðurætt, en í móðurætt úr Skagafirði.

B      Ingibjörg var í smærra meðallagi, með hnarreist höfuð, hvöt í hreyfingum og létt í spori. Hárið skollitað, augun gráblá, andlitið fremur langleitt, en hrukkulítið. Hún var tilfinninganæm en stórlynd, hreinlynd og sáttfús, kaus helst hrein viðskipti og góðar efndir, hver sem í hlut átti. Ekki þoldi hún gálaust hjal né ómerkilegt orðaskvaldur og börnum sínum innrætti mannást og drenglyndi, sjálfstæði og dugnað. Voru henni tiltækir málshættir og mörg fyrirdæmi því til skýringar.

         Þau Halldór og Ingibjörg eignuðust 5 börn. Ólu að auki upp þrjú fósturbörn.

         Móðir Ingibjargar var Sigurbjörg Skúladóttir frá Skíðastöðum í Skagafirði. Dvaldi hún stundum á Sneis hjá dóttur sinni.

C     Sigurbjörg var lág vexti en öll líkamsbygging sver og grófgerð. Einkum voru öll liðamót og þó mest fingranna, gild og áberandi. Hún var kempuleg á bakið, herðarnar breiðar og ávalar, mittið stutt. Háralitur skoldökkur, ennið kúpt, nefið fremur stutt, en þunnt milli augnanna, sem ljósgráblá og lágu innarlega í höfðinu. Þau skutu glömpum og spegluðu öll veður hugans og eigindir sálarinnar. 

sr. Gunnar Árnason Af Laxárdal/Troðningar og tóftarbrot


Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569178
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 21:52:28