31.03.2017 17:37

Úr Föðurtúnum Páls Kolka

Mannlýsingar og aðrar lýsingar úr Föðurtúnum Páls Kolka:

A Hafnaætt er kennd við Sigurð Árnason hreppsstjóra sem flutti frá Ytri-Ey árið 1840, vitur maður og sveitarhöfðingi(d. 1879, 80 ára). Hann var "lágur meðalmaður á vöxt, hálsstuttur, jarpur á hár og smáeygður, en málrómurinn heldur heldur ógildlegur, hefur kæk lítinn í andliti, teygir lítið eitt fram andlitið og deplar við augum nokkuð svo." Þessi lýsing Gísla Konráðssonar ætti einnig að flestu við Árna í Höfðahólumm sem mun hafa verið líkur afa sínum. Þeir Hafnamenn ýmsir hafa og sérstakan yfirsvip, eru með breitt enni og skútbrýndir. bls. 18

B Snjólétt er á Skagabæjum og góð beit til fjöru og fjalls. Voru til skamms tíma hafðir sauðir í Víkum og lágu þeir við opið hús norðan undir Digramúla.

C Fagurt er að líta yfir Húnaflóa og til Strandafjalla af Króksbjargi um miðnæturskeið á vorin því að þá er útsýni opið alla leið til Hornbjargs.

D Frá Hofi var Jón Árnason þjóðsagnaritari. Hofsprestakall var frekar rýrt og fengu það oft frumbýlingar. Þar þjónaði á öndverðri síðustu öld síra Þorvarður Jónsson, er síðast var prestur á Prestbakka á Síðu og var 1. kona hans Anna, dóttir Skúla stúdents á Stóruborg. Síra Þorvarður var og um tíma kapellán hjá föður sínum, síra Jóni Þorvarðarsyni á Breiðabólstað í Vesturhópi. Hann bjó við fátækt á Hofi og reri undan Brekku með konur einar að hásetum. Hann var "grannvaxinn og kurteis mjög um sig, fríður sýnum, ræðumaður góður og raddmaður, en drykkjugjarn nokkuð og óeirinn við öl. Var hann og kallaður kvensamur" og svo var um þá frændur fleiri.

E Skammt fyrir sunnan Harastaðaá eru jarðirnar Háagerði og Finnsstaðir og er sú síðari nú lögð undir íbúa Höfðakaupstaðar svo að ekki er búið það lengur, en graslendi er þar mikið og gott. Um miðja nítjándu öld bjó í Háagerði Jón bóndi Jónsson(d. 1865) "búþegn góður og lagvirkur, heldur skjótlegur og vel viti borinn" Hann átti margar myndarlegar dætur og er um þær þessi vísa:

                            Að Háagerði helst ég vildi stýra

                            gjarðafleyi því að þar

þykja meyjar fegurstar.

Þrjár af Háagerðissystrum urðu myndarhúsfreyjur: á Finnsstöðum, Spákonufelli og Árbakka. Einn bróðir þeirra Háagerðissystra var Björn hreppsstjóri á Veðramóti, faðir Haralds leikara og þeirra systkina. Annar var Ólafur á Finnsstöðum, faðir Björns símsstjóra á Seyðisfirði. Ein af Háagerðissystrum var Hlíf, móðir þeirra Daníelssona, Árna bónda á Sjávarborg og Andrésar í Blaine, þingmanns Wasingtonfylkis, önnur var Björg kona Bjarna Jónssonar á Hofi í Vatnsdal en móðir Halldóru ritstýru Hlínar og þriðja Sigurlaug, gift Birni, er drukknaði með Brandaskarðsbræðrum 1879, Jóhannessyni. Þeirra dóttir var Björg, kona Jónasar í Bandagerði í Eyjafirði, Sveinssonar, Kristjánssonar ríka í Stóradal, en þau voru foreldrar Sigurlaugar, konu Jónasar útvarpsstjóra Þorbergssonar.

F Á Ytri-Ey bjó Arnór Árnason sýslumaður og kammerráð á árunum 1847-59, einkennilegur maður og flumósa, sem ýmsar skrýtnar sagnir lifa um. Hann hafði ráðsmann þann, er Hjalti hét, bróðir Bergs Thorbergs landsstjóra. Sýslumaður fylgdist sjálfur lítt með búskapnum og vísaði jafnan til Hjalta síns. Það kom fyrir, er hann var spurður um, hve margar kýr hann hefði í fjósi eða hvað smalamaður hans héti að hann gat svarað þessu í einu:"Hann Hjalti minn veit það", kallaði síðan í ráðsmanninn og spurði:"Hjalti minn, Hjalti minn! Hvað heitir helvítis smalinn okkar núna Hjalti minn? " Arnór reisti á Ey timburhús, sem síðan var stækkað er jörðin var keypt undir Kvennaskóla Húnvetninga, sem starfaði þar 1882-1901, en var síðan fluttur að Blönduósi. Á húsi Arnórs sýslumanns voru karldyr voru karldyr gegnt suðri, en bakdyr til norðurs. Kvöld eitt guðaði maður á suðurgluggann, en sýslumaður ansaði ekki lengi vel. Maðurinn barði þess fastar og hrópaði:"Hér sé Guð." Leiddist þá sýslumanni þófið, kom út í gluggann og hrópaði á móti:"Hvað er þetta maður, hér er enginn guð. Farðu til andskotans að norðurdyrunum."

G Gömul kona sem kom að Þingeyrum í tíð Olsens yngra skýrði svo frá, að þá hefði verið þar baðstofa mikil og voru járnkengir í sumum rúmstokkunum. Við þá höfðu verið fjötraðir sakamenn, en þeir Ólsens feðgar gengdu báðir sýslumannsstörfum um tíma og voru síðastir í langri röð umboðsmanna hins erlenda valds á Þingeyrum. 

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569109
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 20:24:26