02.03.2017 22:31

Um Sagnakver SG og Hofskirkju

    Um Sagnakver Skúla Gíslasonar

á Breiðabólstað í Fljótshlíð

    (sjá neðar um Hofskirkju)

Skúli Gíslason  ólst upp í Vatnsdalnum 1832-37 með móður sinni, Ragnheiði dóttur Vigfúsar Þórarinssonar sýslumanns á Hlíðarenda. Ragnheiður kynntist manni sínumheima í föðurgarði, Gísla Gíslasyni síðar presti í Vesturhópshólum en þá var hann skrifari hjá sýslumanni en eftir skilnað þeirra flutti til vina sinna í Vatnsdal, í Hvammi og á Brúsastöðum.

Skúli var einn fjölmargra safnara sem Jón Árnason byggði þjóðsagnasöfnun sína á en árið 1947 gaf dr. Sigurður Nordal sérstaklega út sögur þær sem Skúli hafði safnað og sent Jóni til Reykjavíkur. Tilgangur SN með útgáfunni var kannski að finna nýjan og nettari flöt til að koma þjóðsögunum í hendur þjóðarinnar, frá sjálfum sér og kynnum sínum af þjóðsögunum segir SN frá í innganginum en þeir Skúli það einnig sameiginlegt að fara að lesa/hlýða fyrsta þjóðsögurnar í sömu sveit þó leið þeirra beggja lægi þaðan og þeir kæmu síðan í Vatnsdalinn eingöngu sem gestir. Steingrím á Brúsastöðum og síra Pál Bjarnason, föður hans á Undirfelli nefnir SN þegar hann rekur menntun Skúla frá æskuárum.

SN segir um Steingrím:"Þótt Steingrímur. Pálsson væri ekki settur til mennta, hefur hann átt kost meiri fræðslu í föðurhúsum en almennt gerist. Hann var greindur maður, gamansamur, hnyttinn í tilsvörum og lipur hagyrðingur, sbr. vísuna:

                                      Það er feil á þinni mey

þundur álabála

að hún heila hefur ei

hurð fyrir málaskála.

Kunni fólk í Vatnsdalnum enn margt frá honum að segja á æskuárum mínum. Hefur svo næmur drengur sem Skúli getað hlotið ýmsilega menntun á Brúsastöðum, sem hann hefur búið að síðan og auk þess eru þaðan ekki nema tvær örstuttar bæjarleiðir að Undirfelli þar sem síra Páll var þá enn prestur."       

Um sögumenn sína segir Skúli:"Allar þessar sögur(sjá sagnalistann hér neðar) sagði mér, 7-11 ára gömlum, Páll nokkur Ólafsson, próventukarl um sjötugt á Brúsastöðum í Vatnsdal. Hann var svo minnugur, að ég hef seinna séð, að hann muni hafa haft orðrétt eftir prentaðar sögur, er hann hafði heyrt, því ólæs mun hann hafa verið. Öll mörk og ættartölur sem hann heyrði, mundi hann, en mjög var hann greindarlaus og gerðu margir sér því að skyldu að ljúga að honum. En þess konar bábiljur mátti þekkja úr, því enginn átrúnaður fylgdi þeim. Set ég eina til dæmis: Turnar út í Kína eru svo háir, að þeir sem búa efst í þeim verða að beygja sig undir sólina. Þegar þeir deyja, er þeim fleygt út, því hæðin er svo mikil, að líkin eru fúin og orðin að dufti áður en þau koma niður. - Slíkar sögur er hægt að greina úr. Það mátti sjá á öllu, að hann trúði því, sem hann sagði. Framvegis merki ég sögur eftir hann með P.Ó. Annar helsti sögumaður minn var Einar Bjarnason frá Mælifelli, er ég kynntist við fyrir og eftir 1840. Hann var fróðleiksmaður, en undir eins fullur með hjátrú og jafnframt duli. Hann kunni sumar sömu sögur sem Páll, en breytingar sýndust vera í þeim frá honum sjálfum og álít ég hann miklu ómerkari. Hans sögur mun ég merkja E.B. en fylgi honum aðeins þar sem P.Ó. vantar. Aðrar sögur munu meira hafa verið almennir húsgangar og þá tilgreini ég ekki sögumenn."

         Sögurnar sem Skúli heyrði á þessu fyrsta æviskeiði sínu eru:

                                      Gottskálk biskup grimmi

                                      Guðbjartur prestur flóki

                                      Galdra-Loftur

                                      Páll lögmaður Vídalín

                                      Ámundi galdramaður

                                      Páll galdramaður

                                      Leirulækjar-Fúsi

                                      Séra Snorri á Húsafelli

                                      Svartidauði

                                      Skipreikinn

                                      Jóhann Fást

                                      Draugar hrökkva undan skoti

                                      Kölski kvongast

                                      Tungl og sól

                                      Reyðarhvalur

                                      Þú átt eftir að bíta úr nálinni.

                                      Hauskúpur galdramanna

Síðasti presturinn í Vesturhópshólum, Gísli Gíslason eftir sr. Pétur Ingjaldsson Höskuldsstöðum greinin hefst á bls. 127: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=962948
Hofskirkja við Húnaflóa - 
      birtist að stórum hluta í messupistli á Húnahorninu sumarið 2016 

Hofskirkja er elsta kirkjan við Húnaflóa og Jón Þórðarson prófastur á Auðkúlu og bróðursonur Jóns Árnasonar, tók það snjallræði þegar prestlaust var á Hofi 1868-1870 að fá þangað kirkjusmið og bjóða honum afnot af jörðinni þessi sömu ár. Þetta gekk svo vel eftir að Hofskirkja var vígð fyrsta sunnudag í níuviknaföstu 1870. Að vísu var þá eftir að ljúka innansmíðinni og var Stefán snikkari Jónsson frá Kagaðarhóli fengin til þess 13 árum síðar. Kirkjan hefur síðan fengið gott viðhald, var komin á þjóðminjaskrá 1988 þegar ákveðið var að ráðast í gagngerar endurbætur.

Kirkjusmiðurinn sjálfur hét Sigurður Helgason og kom vestan frá Gröf í Víðidal, bjó 1868-70 á Hofi og byggði kirkjuna, en fjórum árum síðar fæðist sonur hans Sigurður, þá bjuggu þau Guðrún Jónsdóttir kona hans á Ytra-Hóli. Hún var frá Undirfelli. Sigurður Sigurðsson var afi Sigurðar dýralæknis Péturssonar á Merkjalæk í Svínadal.

Kirkjuorgelið var áður í gömlu Hólaneskirkju og er gjöf til  Hofskirkju frá Kristjáni Hjartarsyni fyrrum organista á Skagaströnd. Þessi kirkja er því orðin fornt hús og söfnuðurinn samheldinn, bæði í því að sinna guðshúsinu og sækja þangað helgar tíðir. Burtflutt sóknarbörn hafa líka gjarna leitað heim í kirkjuna sína til að láta skíra börn sín eða gifta sig.

Og þennan bjarta sunnudag nutu vegfarendur um Skaga bláma flóans, útsýnis norður með glæsilegum Strandagnúpum og norður til Drangajökuls.Skyggnið var frábært og sóknarmenn fjölmenntu til kirkju sinnar og áttu þar góða stund.

Húnaflói/vísnavefur sem varð rúmlega 2 ára gamall í ágúst lagði nokkuð af mörkum til að undirbúa þessa guðsþjónustu og kynnti starf sitt í leiðinni.

Vísað er til:

Húnahornið/Messupistill frá sumrinu 2016: http://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102 
Húnaflóa - Kvæða og vísnasafn: http://bragi.info/hunafloi/
Vísa Jónmundar Halldórssonar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=27373
Halldóra segir frá Jóni frænda: http://stikill.123.is/blog/yearmonth/2014/12/

Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478550
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:53:22