24.02.2017 22:37

Sigurður frá Selhaga

Kveð ég dalinn kæra minn

Nokkrar vísur og æviatriði Sigurðar frá Selhaga

og móður hans, Sólveigar ljósmóður

 

Einar Halldórsson fæddist á Gili í Svartárdal árið 1907 og var yngsti sonur Sólveigar Guðmundsdóttur ljósmóður og bónda hennar Halldórs Hjálmarssonar. Einar varð skammlífur, var bílstjóri á Akureyri og lést rúmlega hálfþrítugur. Foreldrar hans höfðu flutt austur yfir Blöndu 1905 og var þá hvorutveggja að ljósmóður vantaði í sveitina og hálfir Botnastaðir voru lausir til ábúðar. En þar bjuggu þau aðeins árið og voru síðan 2 ár á Gili en fluttu síðan upp á Skörð, að Selhaga og bjuggu þar í áratug eða svo. En sá nýfæddi Einar var skírður þar á Gili og góðir nágrannar komu í kaffið og voru skírnarvottar, Stefán Eyjólfsson Fjósum, móðurbróðir Klemensar Þorleifsson kennara, Sigfús Eyjólfsson þá leiguliði á Botnastöðum en synir hans Guðmundur á Eiríksstöðum og Jósep á Torfustöðum urðu síðar raddfrægir jarðeigendur í Svartárdalnum og traustir karlakórsfélagar en þriðji skírnarvotturinn var Sigurlaug Knudsen prestsfrú á Bergsstöðum. Eldri synir hjónanna voru vísnasafnarinn Sigurður sem er rót  þessara skrifa, Guðmundur sem fóstraður var út á Refasveit og Hafsteinn sem náði háum aldri eins og Sigurður bróðir hans, var viðloða Húnavatnssýslu fram eftir ævi en lést i Reykjavík.

Elsti bróðirinn, Sigurður kennir sig við Selhaga, er tíu ára þegar fjölskyldan flytur þangað uppeftir en fer í vinnumennsku þegar hann hafði þroska til og var t.d. í kaupamennsku í Bólstaðarhlíð og á Brún og minnist þess staðar sérstaklega þegar heimþráin lætur bæra á sér:

                                     Þegar lífsins ramma rún

raun mér skapar stríða

svífur hugur heim að Brún

horfinna saknar tíða.

Foreldrar bræðranna fluttu úr héraðinu 1924 og Sólveig ljósmóðir og Einar, yngsti bróðirinn, bjuggu síðar á Akureyri en bæði heimilisfaðirinn Halldór og Hafsteinn eru í Húnaþingi við

manntalið 1930, þá er Halldór hjá góðum grönnum þeirra í Vatnshlíð, en Pétur bóndi þar var unglingur þegar þau fluttu í sveitina og skráir söguna um bændurna sem vildu endilega banka upp á hjá nýkomnu hjónunum á Botnastöðum af því þá langaði svo í kaffi. Sú saga er hér að neðan í Viðbót 5. Enn segir Pétur frá því þegar hann var staddur á hlaðinu Selhaga í maímánuði 1913 að vitja ljósmóður, þegar Herdís kona hans átti von á fyrsta barni þeirra. Þá rifjast upp fyrir honum vornóttin á Botnastöðum 8 árum áður.

Söknuð falinn seytla eg finn

sálar innst um kynni
er kveð ég dalinn kæra minn
kannski í hinsta sinni.

Skörðin liggja upp frá Þverárdal og þar er finna 5 hundruð jörð, Selhaga sem var stöðugt í byggð meðan Bólstaðarhlíðarhreppur var þéttsetinn eins og upp úr 1900 þegar foreldrar Sigurðar fluttu austur yfir Blöndu. Þau höfðu áður leitað sér staðfestu á tveim jörðum í Svínavatnshreppi en fluttu austur yfir jökulfljótið þegar hálf jörðin á Botnastöðum stóð til boða. Móðir Sigurðar var ljósmóðir og það hefði átt að tryggja þeim öruggari búsetu. Þau fluttu 1905 að Botnastöðum en sú bygging entist þeim aðeins eitt ár, næstu tvö árin voru þau á Gili en fluttu þá upp í Skörð, fengu Selhaga til ábúðar og bjuggu þar í röskan áratug. Í manntalinu 1920 segir að þau séu komin til prestsins á Bergsstöðum, eiginmaðurinn hefur þar titilinn hjú, en hjúkrunarkonan sem Sólveig ljósmóðir er nú orðin, er þar húskona og yngsti sonur þeirra er þar einnig í skjóli þeirra, orðinn 13 ára. Sá næstyngsti, Hafsteinn er 16 ára vinnumaður á næsta bæ, Leifsstöðum í Svartárdal.

En við Selhaga kennir Sigurður sig, þar er "rýrt fjallakot í þröngum dal" segir Pétur í Vatnshlíð í þættinum af Sólveigu ljósmóður. Hún var fædd á Fossi í Arnarfirði 1. maí 1873 og kom að vestan til náms í Kvennaskólanum á Ytri-Ey 1895 og lauk síðar námi í ljósmóðurfræði í Reykjavík 1900. En í millitíðinni hafði hún kynnst Halldóri Hjálmarssyni sem ólst upp á Öxl í Þingi og þau giftust 1897. Hann átti þá heima í Brekkukoti og elsti sonur þeirra Sigurður fæddist 29. apríl 1898. Þegar Sólveig hafði lokið námi sínu var hún skipuð ljósmóðir Svínvetninga en hjá Hlíðhreppingum var hún síðan ljósmóðir 1905-1914. Fyrstu tvö árin eftir aldamótin bjuggu þau hjónin á Litla-Búrfelli, en tvö næstu bjuggu þau í Tungunesi. En þegar þau fluttu austur yfir Blöndu 1905 vantaði þar ljósmóður og hálfir Botnastaðir voru á lausu. Það hefur freistað fátækra hjóna sem áttu fáa kosti.

Hlíðarsel, Þverfell, Meingrund, Kálfárdalur og Selhagi voru bæirnir á Skörðunum, en þeir síðastnefndu voru þeir einu sem voru metnir sér, Selhagi 5c en Kálfárdalur 10c. Á kirkjuleiðinni til Bólstaðarhlíðar var góðbýlið Þverárdalur 30c jörð nokkuð brattlend en Botnastaðir var kirkjujörð frá Bólstaðarhlíð og metin á 20c. Næsti jörð þar sunnan við var áðurnefnt Gil í Svartárdal 5c en vel í sveit sett.

Sigurð son sinn hefur Sólveig orðið að skilja við sig meðan hún lauk ljósmóðurnáminu í Reykjavík 1899-1900. Hann var fæddur 29. apríl 1898 og hefur því verið ársgamall. En móðir hans kom norður að loknu náminu og tók í fyrstu við ljósmóðurstarfi hjá Svínvetningum eins og áður sagði en fluttu síðar austur í Hlíðarhrepp og bjuggu lengst í Selhaga.Pétur segir um Skörðin:"Þarna eru harðindi mikil á vetrum og erfitt allra aðdrátta, enda þurfti bóndinn oft að bera og draga á sjálfum sér nauðsynjar handa heimili sínu í ófærð og hríð. Það var oft þröngt í búi hjá bændunum, sem bjuggu á þessum kostarýru kotbýlum. Og þó gátu þeir verið léttir í lund og lífsglaðir." Það varð Selhagabræðrum mikill gleðidagur þegar pabbi þeirra setti timburgólf, hvítt og hreint í Selhagabæinn. Þetta var orðið eins og hjá prestinum, hægt að sitja á pallinum og leika sér að leggjum og völum án þess að buxurnar óhreinkuðust. En best var þegar sumardýrðin þurrkaði upp vetrarvætuna og blómin fóru að spretta. Sigurður var um fermingu þegar hann orti:

                            Geisli sumarsólar hlýr

signir jarðarveginn

                            Sko, hve blómin brosa hýr

                            á bakkanum hinu megin.

Hún Sólveig í Selhaga varð ljósa margra Hlíðhreppinga á árum sínum í sveitinni og tókst líka á hendur ýmsar svaðilfarir þeirra vegna. Flestar voru þær yfir Svartárdalsfjall. Í þætti sínum rifjar Pétur upp eina söguna, þá sótti Jón vinnumaður í Hvammi Sólveigu fyrir Vilborgu á Hóli.  

Auk sona sinna fóstruðu Selhagahjónin, Arnljót Ólafsson Pétursson, langafabarn sr. Arnljóts á Sauðanesi og telpu tók Sólveig að sér eftir að hún kom til Akureyrar. Meðan Sólveig var heima í sveitinni, lauk hún námsskeiði í hjúkrun hjá Jónasi Kristjánssyni lækni á Sauðárkróki 1920 og tók þá aftur upp þráðinn sem hjúkrunarkona hjá hjúkrunarfélagi Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshrepps. Hún stundaði það starf til ársins 1924 þegar hún flutti til Akureyrar.

Elsta syni hjónanna, Sigurði frá Selhaga, eiga Húnvetningar og aðrir vísnaunnendur að þakka mikið vísnasafn sem hann dró saman í tómstundum sínum og gaf síðan Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Þar geymist tungutak margra skálda, sagnamanna og hagyrðinga. Honum var það þakkarefni að hafa valið þetta hlutskipti:

                            Lífs á svæði lán mig bjó

lítt að gæðum sínum

                            Hálfáttræður finn ég fró

er fletti ég skræðum mínum.

Jörðin Selhagi tilheyrði Skarðabæjum eins og Kálfárdalur og Sigurður tekur upp hanskann fyrir sinn sveitarhluta ef honum þótti þörf til bera:

                            Í fögrum hlíðum frjáls er hjörð

fjalls við þýða blæinn

                            Yndi er að ríða upp á Skörð

á vorblíðan daginn.

Hér finnur Sigurður svar við vísu Ingibjargar frá Valadal: Tíðum ýtum tjáist hörð/tapast hlýtur gleðin./Aumt er að líta upp á Skörð/eru þau hvít og freðin.

Um bernskustöðvarnar yrkir Sigurður:

                            Enginn gleymir æskurann

                            ástin geymist falin

                            Oft því dreymir útlagann

aftur heim í dalinn.

         Í manntalinu 1920 er fjölskyldan kom fram að Bergsstöðum, það eru hjónin og yngsti sonurinn. Hafsteinn er 16 ára vinnumaður á Leifsstöðum. Þau fjögur ár sem Sólveig átti eftir að dvelja í sveitinni var hún hjúkrunarkona hjá Hjúkrunarfélagi Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa. Pétur í Vatnshlíð lýsir Sólveigu svo:"Hún var myndarleg kona. Hún var há vexti, svipmikil og sviphrein. Greind var hún og glaðlynd að eðlisfari. Lengst af bjuggu þau hjón við erfiðan efnahag og mun hin stórbrotna kona oft hafa fundið til þess, einkum er gesti bar að garði eða einhver fátækur þurfti hjálpar við. Sólveig hafði löngun til að gefa fátækum og til að hjálpa öllum sem áttu bágt, en var oftast með "hálftómar hendur". Hún fann til fátæktar sinnar, en taldi sér enga vansæmt að henni, hafði enga minnimáttarkennd gagnvart þeim, sem efnaðir voru og stóðu ofar í mannvirðingastiganum. Þetta mætti víst segja í færri orðum. Hún var höfðingjadjörf og lét ekki fátæktina smækka sig."

 

Viðbót 1 Heimilisfólk Selhaga 1910

Sólveig Guðmundsdóttir 22.06.72   húsmóðir

Sigurður Halldórsson    29.04.98     barn

Hafsteinn Halldórsson  14.04.04     barn

Einar Halldórsson                  17.08.07     barn

Guðrún Salvadóttir       19.03.27     niðursetningur

Halldór Hjálmarsson     19.11.70     húsbóndi

 

Viðbót 2

Frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum fluttu fjögur systkini norður í Húnaþing og var Herdís kona Péturs í Vatnshlíð eitt þeirra:

Eiríkur Grímsson Ljótshólum 1873-1932

Katrín Grímsdóttir 1875-1956

Ágústína Guðríður Grímsdóttir Haukagili 1883-1963

Herdís Grímsdóttir Vatnshlíð  1884-1971

 

Heimilisfólk Syðri Reykjum 1910

Grímur Einarsson 60 húsbóndi

Kristín Gissurardóttir 53 húsfreyja

Eiríkur Grímsson 28 sonur hjóna

Katrín Grímsdóttir 26 dóttir hjóna

Eyrún Grímsdóttir 20 dóttir hjóna

Ágústína Guðríður Grímsdóttir 18 dóttir hjóna

Herdís Grímsdóttir 16 dóttir hjóna

Ingibjörg Grímsdóttir 13 dóttir hjóna

Gissur Grímsson 22 sonur hjóna

Guðbrandur Guðmundsson 9 sveitarbarn

Margrét Halldórsdóttir 64 hjú

Gissur Grímsson 24 ára

 

Viðbót 3 Heimilisfólk í Vatnshlíð 1920

Pétur Guðmundsson     karl giftur f. 18.6. 1887 húsbóndi

Herdís Grímsdóttir        kona gift     f.15.11.84   húsmóðir

Kristín Pétursdóttir       kona           f. 09.05.13  barn

Guðný Þuríður Pétursd. kona          f. 25.5.20    barn

Lilja Þuríður Stefánsd   kona ekkja  f. 20.01.51  ættingi

Þórunn Elísabet Stefánsd  -    ekkja f. 1852        ættingi

Guðmundur Árnason    karl   ekkill f.19.12.81  fjármaður

 

Guðmundur fjármaður var sonur Maríu Daníelsdóttur 1840-1895 húsfreyju í Hlíðarseli á Skörðum. María var í Þórðarseli í Gönguskörðum Skag. 1845. Er nefnd Sigríður Daníelsdóttir í Skagf. 1890-1920 III

 

Viðbót 4  Heimilisfólk á Bergsstöðum 1920

Björn Stefánsson sóknarprestur ekkill f. 13.03.81 húsbóndi

Ólafur Björnsson          karl             f. 02.02.12  barn

Guðrún Jónsdóttir        kona ekkja  f. 08.11.64  húsmóðir

Helga Lovísa Margrét Jónsd.  ógift  f. 07.07.90  hjú

Helga Lovísa Jónsdóttir kona          f. 09.06.12  barn

Halldór Hjálmarsson     karl   giftur f. 15.11.71 hjú

Einar Halldórsson                  karl             f. 18.08.07 barn

Sólveig Guðrún Guðmunds.   Gift   f. 01.05.73 húskona

 

Viðbót 5  Vornótt á Botnastöðum:

Vorið 1905 minnir mig að væri gott. Í maí fór faðir minn, Guðmundur Sigurðsson bóndi í Vatnshlíð og ég, sem þessar línur rita, á uppboð vestur í Langadal. Faðir minn þurfti að fá sér púlshest, en svo voru þeir hestar kallaðir er notaðir voru til að bera bagga. Venja var að selja lifandi pening síðast og var því dagur að kveldi kominn er uppboðinu lauk. Á heimleið slóst í förina bóndi norðan úr Skagafirði, greindur og skemmtilega ræðinn. Einhverja hressingu höfðu þeir meðferðis, veðrið yndislegt og nú sýndist þeim engin þörf að flýta sér heim. Þeir þurftu oft að æja hestunum, taka tappann úr vasapelunum og fá sér bragð, enda orðnir góðglaðir. Þegar kom að Svartárdalsfjallinu fyrir ofan Bólstaðarhlíð, svar stigið af baki áður en lagt skyldi á brattann. Þá datt þeim í hug, þessum bjartsýnu rosknu bændum, að þeir gætu alls ekki lagt á fjallið nema fá kaffi. Þeir skyggndu glös sín og sáu að þeir mundu hafa tár út í bollann. Þá var ekki að sökum að spyrja, að Botnastöðum yrðu þeir að koma, vekja þar upp og biðja um kaffi. Ég andmælti þessu harðlega, en þeir töldu tilgangslaust að bera það undir atkvæði, þar eð ég væri einn á móti tveimur. Nú erum við staddir á hlaðinu á Botnastöðum.

Hljóðlát vornóttin hvílir yfir dalnum. Allir eru í fastasvefni á bænum, ekkert raskar þögn næturinnar utan 3 högg barin í útidyrahurð. Skjótt er gengið til dyra og ókunnur maður birtist. Hann spyr um heiti gestanna. Þeir segja nöfn sín og bera upp erindið. Það var velkomið og sjálfsagt að gefa þeim kaffi. Maðurinn segir:"Ég ætla að fara inn og vekja konuna."  - Þarna erum við þá komnir til nýfluttu hjónanna, Sólveigar ljósmóður og manns hennar, Halldórs Hjálmarssonar. Ég kenndi í brjósti um konuna, að þurfa að vakna af værum blundi til að fara að hita kaffi handa fullum körlum. Þarna við fyrstu fundi, fannst mér ég mæta góðum vinum, svo hlýjar voru viðtökurnar. Annað slagið var ég að reyna að herða á þeim, er sátu við kaffidrykkjuna og minna þá á hvar þeir væru staddir. Þeir mættu ekki halda vöku fyrir fólkinu. En nú voru þeir farnir að ræða við konuna og máttu ekki vera að hlusta á það sem ég hafði fram að færa. Þeir voru orðnir mælskir og spöruðu ekki að slá húsfreyju gullhamra og spá henni heillaspám.

Þeir sögðu, að hún væri ein allra myndarlegasta konan, er þeir hefðu séð. Gæfa myndi fylgja henni á leið hennar gegnum lífið. Heilladísir vorsins myndu ætíð halda vörð um hana. Hún ætti eftir að taka á móti mörgum vöskum sonum og fögrum meyjum dalbyggðarinnar. En hún mætti einnig búast við hörðum átökum storma og stórhríða vetrarins og beljandi vatnsflaumi ánna í vorleysingum, en hún myndi sigra alla erfiðleika, meðan hún stæði í þeirri stöðum, er hún hefði valið sér. Hvað búskapinn snerti þá væri hann erfiður frumbýlingum. Nú þyrfti að gera átök í búnaði, rækta og byggja upp bæina, sem nú væru vuða hörmulega til fara. Þeir gætu tekið undir með Hannesi Hafstein og þeim þætti gaman að lifa það, að sjá "Stritandi vélar, starfsmenn glaða og prúða, stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða." - Þannig sagðist þeim, þessum lífsreyndu bændum hina eftirminnilegu nótt á Botnastöðum fyrir nær 60 árum og urðu býsna sannspáir.

Á Botnastöðum bjuggu þessi ungu hjón aðeins eitt ár, fluttu þá að Gili, sem er næsti bær. Eftir tveggja ára búskap þar fluttu þau að Selhaga í Skörðum. Þá voru þau orðin nágrannar foreldra minna og landsetar skagfirska bóndans, sem fyrr er getið.

Úr þætti Péturs Guðmundssonar í Vatnshlíð(dags. í des. 1963) í Íslenskar ljósmæður III Ak. 1964 bls. 72-73

Flettingar í dag: 162
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569124
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 20:47:55