18.02.2017 18:29

GuðmKetilsson/MA-morgunsöngur

Guðm. Ketilsson orti um Gest Bjarnason sem af nokkrum var nefndur sund- eða glímu-Gestur.
  

1. Oft mig þjáir einsleg þrá
alla brestur skemmtivini
Tilber þá eg unað á
í honum Gesti Bjarnasyni.

2. Spurn og ans þess íturmanns
allt gildi krefur lengi.
Bragspil hans í lofti lands
leikur snilld á raddarstrengi.

3. Mælsku glansa getins manns
greidardrjúgum nema hæfir
Allur hans því hugardans
hátt yfir múgans buldrið gnæfir. GKet.


Úr MA-fræðum

Mi. 3. jan.´18
Norður á Blönduósi er bóka- og skjalasafn saman í húsi og hefur þar orðið gefandi menningarhús eins og Húnvetningar þekkja. Þar settist ég inn kl. 8 á miðvikudagsmorgni til að halda áfram að skrá vísur úr safni Sig. Halldórssonar frá Selhaga í Skörðum inn á vísnavefinn og fann þar leikandi skemmtivísu og hjónastöku: Vigdís frá Fljótstungu átti fyrri partinn en Halldór Helgason Ásbjarnarstöðum, eiginmaður hennar og ferðafélagi, botnaði:

Alltaf kemur brún af brún
brúnir aldrei þrjóta.
Seinast kemur tún við tún
og tungan milli fljóta.

En fleira barst mér þar í hendur á þessum skamma degi sem ég átti þar, söngbók handa MA útg. af Þorst. M Jónssyni 1931, hefst á hátíðaljóði Davíðs Stefánssonar þar sem fimmti hlutinn er Undir skólans menntamerki 3 erindi, okkar gamli skólasöngur. Heftinu lýkur með eftirmála Sigurðar skólameistara, dags. í árslok 1930 þar sem hann harmar að ekki hafi verið morgunsöngur undanfarna 2 vetur og fer um nokkrum orðum, en segir svo: Sumir nemendur í efri bekkjum skólans kveðast sakna morgunsöngs, þótt eigi væri þar af list né fjöri sungið. Fyrir því verður nú reynt að koma honum aftur á. Sökum þess er þetta litla kvæðakver út gefið. Hafa þeir stud.art. Karl Ísfeld Níelsson og stud.art. Benedikt Tómasson samkvæmt tilmælum mínum, að mestu valið í það kvæði eða kvæðakafla. Því er ekki ætlað að vera "Sýnisbók íslenskra bókmennta". Við val á kvæðunum er yfirleitt ekki farið eftir siðkenningu þeirra(nema stöku þeirra), ekki eftir því hve vænleg þau eru til uppeldisáhrifa. Hitt réð vali, hve sönghæf þau voru, líkleg til fjörgunar og skemmtunar og áttu vel við á ýmsum samkomum og við margvísleg tækifæri í skóla og nemenda sveit. Þau eru því >sitt af hverju tæi< eins og varningurinn sem afi sótti forðum, að sögn vísunnar, á Rauð sínum >eitthvað suður á bæi<

Hjónastakan: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=30500

Í Sögu MA 2. bindi segir frá morgunsöng og áhuga Sigurðar skólameistara á honum:"Löngum var fangaráð er fara skyldi í tíma að hefja upp Rammaslag, mörg erindi með hæggengu lagi, en á hvoru tveggja, ljóði og lagi, hafði Sig. mestu mætur og vildi ógjarnan stöðva. Haustið 1929 réðst til kennslu við skólann enskur maður, Cyril Jackson, hress og hljómvís. Sagði Sig.Guðm. að hann hefði fært skólalífinu "örari hljóðstilling" en áður hefði tíðkast. Jackson stýrði morgunsöng þá tvo veturn sem hann kenndi við skólann og segir svo í skólaskýrslu að hann hafði aldrei verið sunginn eins fjörlega, glatt og sterklega sem undir hans stjórn. Einnig flutti Jackson á kaffikvöldi erindi um söng, uppruna hans og sögu og skilning á honum og lék á píanó til skýringar.

Síðar meir kom það í hlut Björgvins Guðmundssonar, Hermanns Stefánssonar og nemenda að stýra morgunsöngnum, en vegna þrengsla í skólanum og mannfjölda varð smám saman erfiðara að koma honum við. Lognaðist hann að mestu út af á skóladögum höfundar. Nokkrir nemendur fengu verðlaunabækur fyrir stuðning við morgunsönginn s.s. Guðni Guðmundsson, Brynjólfur Ingólfsson og Víkingur Arnórsson(afi Víkings Heiðars píanóleikara). Þorvaldur Ágústsson fékk við stúdentspróf 1943 verðlaunabók "fyrir efling söngs í sönglausum skóla."bls. 189

sjá meiri MA hér neðan við sóknarbörn 1910

Örlygur skrifar um SigGuðm.: http://admin.123.is/ManageBlogRecord.aspx?id=767421

Sóknarbörnin 1910 Bólstaðarhlíðarsókn

Höskuldsstaðasókn er fjölmennust í mt. 1910 en þá telja 3 sóknir í austursýslunni vel á fjórða hundrað sóknarbörn: Þingeyrasókn, sem nær vestur í Víðidal 323 sóknarmenn, í Blönduóssókn eru 345 manns en Blönduósbyggðin fyrir utan á heyrði til Höskuldsstaðasókn sem telur alls 354 sálir og er fjölmennust. Fámennastar eru Auðkúlusókn 104, Bergsstaðasókn 133, en Bólstaðarhlíðarsókn og Svínavatnssókn eru áþekkar með 166 og 169 manns.

Bólstaðarhlíð var prestsetur á dögum sr. Björns sem dæturnar átti sjö og þær presta sem sátu á sínum kirkjujörðum svo engin var tilbúin að taka við ættarsetrinu í Hlíð.  http://stikill.123.is/blog/2011/04/25/519100/  

Útvegsbóndinn og smiðurinn Klemens utan af Skaga kom þá til sögunnar, var fluttur að Holtastöðum og orðinn tengdasonur Þorleifs ríka í Stóradal. Systir hans, Valgerður Klemensdóttir, varð seinni kona sr. Björns, en þau barnlaus svo ekkjan var ein af erfingjunum. Sr. Björn í Bólstaðarhlíð átti Hlíðar-Halldóru(1703) fyrir ömmu, þá er stóð uppi í hárinu á Páli Vídalín og orti um hann vísuna:

Á grænum klæðum skartið skín
          skrýtilega kvað hann.
          Virðar segja Vídalín
          vera skrækrómaðan.     http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26875   

Sonarsonur hennar, séra Björn í Bólstaðarhlíð/Hofi, sendir beiðni um matföng á seðli til vinar síns og nágranna Björns í Höfnum en þar söng Hofsprestur tíðir. Björn lauk svo ljóðinu:

Allt mun þetta etið á Hofi
enginn þó að skammtinn lofi.   http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24700   

Klemens Klemensson kemst að Bólstaðarhlíð eftir daga sr. Björns, byggir þar upp glæsilega kirkju af timbri og skírir syni sína Þorleif og Guðmund yngra bróðurinn og sá erfir höfuðbólið og eignast fyrir konu Ingiríði Erlendsdóttur frá Tungunesi.

 
Garðurinn fylltist af iðandi hvítum kollum í                                    miðnætursólinni

Fimmtíu ára stúdentsafmæli okkar sextíuogsexárgangsins s.l. vor (2016) hefur kveikir löngunina til að opna menntaskólasöguna sem Gísli og Steindór fyrrum kennarar okkar sátu yfir vikur, mánuði og ár að semja og sömuleiðis Minningar úr Menntaskólanum á Akureyri.

Baðstofan var eitt af heitunum á vistarherbergjunum á Gömluvistum og þar var enn búið þegar norðlenskir unglingar hópuðust til Akureyrar 1961, á áliðnu hausti, margir komu líka að vestan og austan, nokkrir að sunnan, margir af Akranesi eins og Vestmanneyjum og Reykjavík. Þessir staðir koma fyrstir upp í hugann þegar þankinn hvarflar norður - til hússins aldna á brekkunni, skólameistarans og Keldhverfingsins smávaxna, Þórarins Björnssonar sem kenndi okkur af lífi og sál en við nýkomnir settumst í landsprófsdeild svo einhver ár áttu eftir að líða áður en við kynntumst kennslu Meistara Þórarins en Billa kynntumst við allir í næsta bekk, 3. bekk, hann var Skagfirðingur hét Brynjólfur Sveinsson og kenndi okkur Eglu og algebru vel og vandlega. En komum okkur aftur upp í Baðstofuna, þar var Húnvetninganýlenda og Skagfirðinga, þarna sátu m. a. álútir yfir skræðum sínum: Gísli á Frostastöðum, Pétur á Höllustöðum, Ragnar frá Hólum og Blönduósingarnir Ægir Frímann og Ólafur Hermannsson. Eftirminnilegasta bókin sem ég sá á borðum þessara bekkjarbræðra minna, var orðabók allsnjáð og fornleg með nafni Gísla Magnússonar. Sá var afi og alnafni þess Gísla sem nú bjó á Baðstofunni með félögum sínum. Sjálfur leigði ég herbergi í næstu götu, hjá sr. Birgi að Eyrarlandsvegi 16 svo stutt var að leita sér félaga.

Brímsgerði, Njörvasund, Sólheimar, Rauðará, Valhöll voru nöfn á öðrum heimvistarherbergjum, en þeim fjölgar þó að mun sé flett upp í sögum Steindórs frá tíma gagnfræðaskólans í MAsögunni s. s. Bjarmaland, Putaland Miðkot, Grásíða,  Hornbjarg, Elivogar, Náströnd, Bragarlundur auk kompu inn af kennarastofu þar sem Hjaltalín geymdi hákarl og brennivín.

Gísli Jónsson stúdent 1946 og síðar íslenskukennari við MA segir:"Hermann Stefánsson kenndi okkur íþróttir, framkomu og stundum söng en aðalsöngkennari skólans var var Björgvin Guðmundsson tónskáld. Hermann var glæsimenni að vallarsýn og prúðmenni í framgöngu og viðkynningu. Hann innleiddi blak á Íslandi og mun Meistari hafa smíðað orðið að beiðni Hermanns, en sjálfur gerði hann orðið svig um þá grein skíðaíþróttarinnar sem nefndist slalom, þegar ég var barn. Hermann lagði ríkt á við okkur að temja okkur kurteislega framkomu og afrækja allan kauðahátt og heimóttarbrag."

Gísli lýsir síðan og mærir Sigurð skólameistara og heldur áfram:"Hótel Norðurland hét dansstaður í bænum og þótt þar væri ekki vínveitingaleyfi, bannaði Meistari okkur að fara þar á dansleiki. Það þótti okkur hart og kváðum:

                            Bakkus mörgum boðar grand

                            bannað er mér þvílíkt rall.

                            Nú er horfið Norðurland

nú fer ég á sveitaball.

Og gerðum það" Og Gísli og félagar fóru í 1. maígönguna undir slagorðinu Niður með stærðfræði í máladeild. "Vakti þetta mjög mikla athygli og var langstærsti hópurinn undir þessum fána, bæði utanskólafólk og innan." Gísli var kallaður fyrir Meistara ásamt tveim félögum sínum og bjuggust við hinum hörðustu ákúrum:"Jæja drengir", sagði Meistari:"Það er ungra manna háttur að gera kröfur og vera með vorgalsa eins og folar. En kröfurnar þurfa að skynsamlegar". Og hvað nú? hugsuðum við. Þá kom á daginn að Meistari hafði látið hinn töluglögga Brynjólf Sveinsson(Billa) yfirfara vandlega allar einkunnir í máladeild síðustu tíu árin og kom þá í ljós að stærðfræðin hafði hækkað meðaleinkunnir máladeildarmanna þennan tíma. "Og þið megið fara drengir ", sagði Meistari, "en ég ætla að biðja ykkur að verða ekki skólanum og ykkur sjálfum til minnkunar með með því að bera fram heimskulegar kröfur". Og út lurfuðust þrír skólapiltar sem höfðu fullkomlega verið afvopnaðir og kveðnir í kútinn."

         Aðalgeir Kristjánsson stúdent 1947:"Engan hef ég heyrt bera brigður á að Sigurður Guðmundsson hafi unnið gagnmerkt starf sem skólamaður á Akureyri. Frakkar spyrja stundum þegar rætt er um þá sem skila merkilegu ævistarfi:"Ou la femme?" hver er konan? og eiga þá við hvaða kona hafi staðið þar að baki. Sigurði Guðmundssyni hefði ekki vafist tunga um tönn að svara þeirri spurningu. Hann dáði mjög konu sína og taldi hana uppsprettu gæfu sinnar í lífinu eins og glöggt má sjá af kvæði sem hann orti til hennar þegar kveldaði dögunum.

         Frú Halldóra var göfugrar ættar. Hún gat rakið ættir sínar til Finns biskups Jónssonar í Skálholti og Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns svo að einhverjir forfeður hennar séu nefndir. Hún hafði það við sig sem tiginborinni konu hæfði, hávaxin og bar sig sem ristigin björk eins og skólameistari orti um hana og vakti óskipta athygli hvar sem hún fór. Við fyrstu sýn virtist hún e. t. v. eilítið stíf í farmgöngu en jafnskjótt og hún fór að tala færðist fallegt bros yfir varir hennar og hýr og góðlátleg glettni tók völdin svo að öll feimni og óframfærni hvarf eins og dögg fyrir sólu og viðmælandi fann til öruggis í návist hennar."

         Hjörtur Pálsson stúdent 1961 segir: Þá var hjartastyrkjandi að skemmta sér við hringhendu eins og þessa:

                                               Salka Valka sat og spann

                                               suður á Balkanskaga.

                                               Eyrað Malkus marið fann

milli kalksteinslaga.

         Hjörtur segir frá Brúarvígsluljóði sem ýmsir vildu kveðið hafa:

                                               Brúarvörðinn ber að fá

                                               Björn á Löngumýri.

                                               Yfir brúna aðeins má

aka á fyrsta gíri.

 

Ef þeir fara á fjórða gír

fá þeir einn á trantinn.

Ei má hrekja aldnar kýr

út í vegarkantinn.

 

         Og lokavísan:

                                               Afi minn fór á honum Rauð

yfir gömlu brúna

teymdi í bandi svartan sauð

sem er dauður núna.

         Tómas Ingi Olrich stúdent 1963 segir um íslenskukennara Gísla Jónsson: Sem persóna var Gísli mér ráðgáta. Hann var mjög virðulegur og yfirvegaður. Kímnigáfan var yfirgripsmikil, allt frá góðlátlegu gamni yfir í ærið fjarstæðukennda kímnigáfu, sem ég áttaði mig seinna á að var í ætt við "absurd" hugverk og surrealískan innblástur, en var innlend að uppruna. Stundum örlaði á háði, en það var þá jafnan mjög tvírætt og mjög fágað. Það var eins og í Gísla væru ótal strengir, sem hann snart suma ekki nema endrum og eins og kom manni þá jafnan í opna skjöldu. Þrátt fyrir mjög settlegt og borgaralegt yfirbragð, bjó í honum sterkur bóhem. Ég hygg að hæfileikar hans hafi leitað í fleiri áttir en mörgum var ljóst. Hann bjó ekki síður yfir fyrirferðarmiklum veikleikum sem kröfðust síns.

Enn segir TIO: Gísli ók ekki bíl. Hann gekk milli heimilis og vinnustaðar, þungstígur og virðulegur í fasi. Eitt sinn eftir að ég varð samkennari hans, bauð ég honum far heim, sem hann þáði með þökkum. Á þeim árum vasaðist ég í hestamennsku og átti blæjujeppa, sem var í þetta skiptið sem endranær þakinn aur og skít. Ég tók mér því tvist í hönd og hreinsaði mesta óþverrann sem næst hurðaropinu. Gísli horfði þögull á tiltektina. Síðan greip hann til lærdóms síns og sagði alvörugefinn:"Quel raffinement" (en sú fágun!) um leið og hann smokraði sér inn í bílinn. Að lokum gerir TIO skilagóða úttekt: Þegar ég kom aftur að skólanum sjö árum eftir stúdentspróf, höfðu orðið talsverð umskipti. Þórarinn var látinn, en Steindór Steindórsson stýrði skútunni af karlmennsku í talsverðum ólgusjó. Gömul gildi höfðu verið gengisfelld í umrótinu 1968 og það blés um gamla skólann. Ölvun á skemmtunum skólans, sem Þórarinn hafði aldrei umborið, varð algeng og agi fór heldur minnkandi. Við þennan alvarlega vanda glímdi Tryggvi Gíslason fyrstu skólastjórnarár sín. Tókst honum með mikilli festu og þrautseigju og góðu samstarfi við nemendur og kennara að rétta skipið af.

         Þorvaldur Þorsteinsson stúdent 1980 segir:"Ætli ég hafi ekki byrjað í MA 5 ára gamall. Og útskrifast 25.

         Svo ég útskýri töluna fyrst má segja að ferill minn í MA hefjist um það leyti sem Jóna Lísa systir var þar að ljúka við að lesa sína latínu ásamt frægustu tvíburum fjarðarins og pípureykjandi séníum um miðjan sjöunda áratuginn. Í Hamarsstíg 27 er kjallaraíbúð þar sem nemendur í MA hafa verið hýstir frá því laust fyrir 1970. Vist kjallarabúa sem oftar en ekki urðu eins og hluti af fjöskyldunni, endaði gjarnan með því að móðir mín hélt útskriftargleðina líka. Garðurinn fylltist af iðandi hvítum kollum í miðnætursólinni og bergmálið var varla þagnað í næstu húsum þegar kurteislega var bankað upp á að hausti og sá næsti var mættur."

Enn er ónefndur er kunnasti sagnaritari Húnvetninga frá síðustu öld sem sótti feng hann sótti norður í Eyjafjörðinn.

Magnús á Syðra-Hóli sat í Gagnfræðaskólanum á Akureyri tvo vetur, fór með Sigurjóni pósti norður, lagði af stað á réttardeginum, náðu norður á fjórða degi. Bjó báða veturnar á norðurvistum, á Síberíu og í Paradís. En hann las heima þriðja veturinn, 1910-11 sökum féleysis, þá kom hart vor og ís á Húnaflóa og hindraði skipaferðir sem hann hafði bundið áætlanir sínar við að fara norður og taka þannig gagnfræðaprófið. Vonbrigðum sínum lýsir Magnús af mikilli hófstillingu:"Mér þótti það leitt þá en er frá leið lét ég mér á sama standa, þó ég hefði ekki prófstimpil og gagnfræðingsheiti."

Saga Menntaskólans á Akureyri 1880-1980 1. bindi POB 1981

Minningar úr Menntaskólanum á Akureyri Hólar 2000: GJ 1925-2001 bls. 135-6, ÞÞ 1960-2013 bls. 463-4

Feðraspor og fjörusprek Ak. 1966 sr. Gunnar Árnason: bls. 18-19

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 514005
Samtals gestir: 103947
Tölur uppfærðar: 24.11.2020 09:09:39