16.08.2016 21:17

Jón Árnason frá Hofi

Jón Árnason og nokkrar þjóðsögur

Hvenær lastu fyrstu þjóðsöguna, lesari góður, hvenær varstu kominn alla leið í draugasögurnar og sást fyrst til Djáknans frá Myrká og allrar þeirrar hirðar sem gat valdið manni andvökum kvöldum saman? Sumir hafa jafnvel heyrt fyrstu þjóðsöguna af munni sagnaþuls eða kennara síns. Ritun þessara bókmennta hófst með söfnun Jóns Árnasonar á ævintýrum, útilegumanna- og draugasögum, gátum og þulum. Þetta varð ævistarf ötuls manns, prestssonar norðan af Skaga, missti ungur föður sinn og flutti unglingur, suður til bróður síns, sr. Þórðar í Klausturhólum, sem var þá prestur í Landssveitinni.Það varð honum áfangi á leiðinni í Bessastaðaskólann þar sem Jón naut hann kennslu Sveinbjarnar Egilssonar, þess hins sama og orti við börnin sín: Fljúga hvítu fiðrildin og þýddi Heims um ból og Hómerskviður á íslenska tungu.

Félaga átti Jón í þjóðsagnasöfnuninni, sr. Magnús Grímsson síðar prest á Mosfelli og saman gáfu þeir út Íslensk ævintýri 1852. Magnúsi entist ekki aldur en þýðing hans á Mallhvíti, sem var endurútgefin fjórum sinnum á öldinni varð mjög vinsæl og greiddi söfnuninni leið. Þekktustu sögur í útgáfu þeirra félaga frá 1852 var Hellismannasaga, Nátttröllið, Gilitrutt, Sagan af púkanum og fjósamanninum og Púkablístran. 

                        Myndir frá messunni á Hofi 28.8.16 http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=13102  

Með rómantískri þjóðernishyggju á 19. öld hafði vegur þjóðsögunnar aukist, Grimmsbræðurnir þýsku, Jakob og Wilhelm, söfnuðu og gáfu út Kinder- und Hausmärchen 1812-15. Þjóðverjinn Konrad Maurer kom til landsins 1858, fór um landið, safnaði sögum og fleira þjóðfræðaefni til að þýða og gefa út á þýsku og hvatti Jón til að hefjast handa á ný, en söfnunarstarfið hafði mikið til lagst niður eftir daufar undirtektir við fyrstu útgáfunni 1852. 

Þórir Óskarsson/Saga Íslands IX  telur að Jón Árnason hafi fremur mátt teljast ritstjóri en safnari þjóðsagnanna og vitnar í Jón sjálfan:"Þegar Maurer var farinn héðan um haustið1858 tók ég mig til og skrifaði í allar áttir vinum mínum og skólabræðrum og öðrum fræðimönnum víðs vegar um landið og lét þar með fylgja yfirlit yfir það sem ég óskaði helst að safnað væri."

Á fæðingarstað Jóns, Hofi á Skaga, verður haldin guðsþjónusta sunnud. 28. ágúst kl. 14. Fyrir messuna, hálfum tíma, munu organistar; tveir sunnan úr Flóa en sá þriðji úr Vatnsdal hefja orgelspil í kirkjunni en messukaffi verður síðan eftir athöfnina í félagsheimilinu Skagabúð þar á staðnum. 

Fáeinar þjóðsögur

Við skulum tátla hrosshárið Karl var að tæja hrosshár og sonur hans með honum:"Pápi minn, er það satt að Jesús Kristur hafi stigið niður til helvítis?" "Ég veit ekki, drengur minn," segir karl, "svo segja prestarnir; við skulum ekki gefa um það; við skulum vera að tátla hrosshárið okkkar."

Allsherjarguð Kerling í Flóanum kom frá kirkju og sagði við karlinn sinn: "Mér fannst ekki til að heyra til prestsins í dag. Hann var alltaf að tala um Allsherjar guð. Það er sjálfsagt einhver nýr guð, þessi Allsherjar." "Hvurnig heldurðu það getir komið nýr guð?" segir karlinn. "Það er líkast til," segir kerlingin, "að hann hafi komið núna á Bakkaskipinu."

Farðu hvorugt Láfi litli Prestur kom á bæ að húsvitja; á bænum var fátt fyrir er við söguna koma; getið er aðeins konunnar og drengs hennar er Ólafur hét. Prestur spurði dreng og var hann fáfróður mjög og gat fáu svarað. Síðast spyr prestur hvort hann mundi heldur vilja fara til himnaríkis eða helvítis. Ólafur var hér sem fyrri seinn til svars en móðir hans greip máli fyrir og mælti:"Sittu kyrr á skák þinni og farðu hvorugt, Láfi litli."

Oddastaður Jólgeir landnámsmaður reið eitt sinn hart frá bæ sínum, Jólgeirsstöðum; þá sá hann sand í sporum hestsins. Þá sagði hann: Ekki verður þess langt að bíða að þessi jörð eyðileggist af sandfoki. Skal ég hér ekki lengur vera. Hann flutti sig þá burt með allt sitt og hét því að hann skyldi þar búa sem hann yrði staddur um sólarlag um kvöldið. Það var í Odda og þar byggði hann síðan. Þau ummæli fylgja Oddastað frá fornöld að hann skal ávallt eflast með örlæti en eyðast með nísku og segja menn að það sé reynt að örlátastir búi þar best.

Kokkurinn Sultur Mælt er að á fyrri öld hafi prestur einn í predikun sinni svo sagt:"Guð á kokk þann sem gjörir matinn sætan, hann heitir Sultur."

Prestssynirnir á Felli Prestur einn var á Felli í Mýrdal austur; hann átti tvo syni, hina mestu atorkumenn. Miðvikudag einn um föstuna þegar prestur messaði gerðu þeir sig úrkynja öðrum mönnum, skeyttu ekki messunni en fóru til sjóar og réru því hreinveður var. En er lokið var messu bráðrauk hann á norðan og rak þá undan landi í haf og hefur ekki til þeirra spurst síðan.

Hallvarður frá Horni Um bræðurna í Skjaldabjarnarvík hef ég heyrt ýmsar sögur. Hallvarður var karlmenni mikið svo fáir vissu afl hans. Það hafa gamlir menn hér sagt mér að hafi verið vani hans að fara einn á sexæring frá Horni yfir um Húnaflóa og að Höfnum á Skaga; lagði hann þá stundum upp árar á flóanum og svaf með næði en lét skipið flatreka á meðan. Þar sem hann kom að landi gat hann aleinn sett sexæringinn undan sjó og vildi ekki að aðrir hjálpuðu sér til þess. Hallvarður dó hér í Skjalda-bjarnarvík og mælti hann svo fyrir að þar skyldi grafa sig í túninu sunnanverðu. Svo hafa menn sagt mér hér að þá er hann var dáinn hafi prestur skipað að flytja lík hans og hafi bændur ætlað að gjöra svo, en þegar þeir tóku líkið og ætluðu að flytja það sjóveg, því landveg verður ekki komist með áburðarhesta, þá gjörði svo mikið ofsaveður á móti þeim að þeir urðu að halda til sama lands aftur. Gekk svo þrisvar sinnum og þá hættu þeir við að flytja kallinn.

Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 61
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478419
Samtals gestir: 92204
Tölur uppfærðar: 2.4.2020 07:36:48