02.08.2016 06:31

Annríki á biskupskontór!!

Tínt

Saman

úr bréfum

frá

samtímamönnum

Jóns Árnasonar

1860 Benedikt Gröndal Jón minn góður! Mína sérlegu ánægju, sérlegt þakklæti og sérlega velþóknan yfir þeim mér sendu munum hef eg hér með þá ánægju að láta í ljósi fyrir þínu háttvirta augliti, hvar á móti ég  stórum undra mig yfir þínum staklegu önnum, sem því miður ekki leyfa þér að hripa mér eina einustu línu. Hvaða andskotans annríki getur verið á biskupskontórinu? Ja, eg er nú aldeilis hissa! Þú annað hvort ert reiður, eða þú fyrirlítur mig, Jón Árnason, Jón Árnason, Jón Árnason, Jón Árnason! I 246

1830 Jón Árnason Sjálfsævisaga Í Steinnesi leið mér vel yfir höfuð að tala (þangað kom JÁ á ellefta ári) því séra Magnús og kona hans voru mér mæta góð og hafði hann mig fyrir meðreiðarmann nálega hvert sem hann fór og vandist eg því meir við útreiðar en verklægni. Þó má eg geta þess, að í sumu var ekki sú nærgætni höfð við mig, sem hefði þurft við ungling, með ýmsa vinnu, t.d. að bera tað úr húsi á vetrum og vori, enda er það því miður of algengt við unglinga, að þeim kann að vera ofboðið. Kenni eg þetta fremur þeim, sem unnu með mér, en húsbændunum, því eg álít að ofreynsla á þessum árum sé undirrót til þess, að eg er nú orðinn handlama af óstyrk og gigt í hægri hendinni. I 11

1852 Sr. Sigurður Gunnarsson Eg sá eftir að eg fann þig ekki á Þingvelli, þó þar væri naumur tími til að skemmta sér. Eg hefi séð og lesið í skyndi ævisögu Lúters, sem þú kvað hafa samið. Eg kalla þér hafi tekist það snilldarlega að mestu leyti, Samt hefði eg viljað, að inngangurinn væri lengri um það, hvernig ástatt var í Þýskalandi fyrir siðabótina, svo alþýða hefði betur skilið sumt það, sem er í sögunni . . . Þá er eg líka mjög vel ánægður með "Ævintýrin". Þau eru sögð á fallegu máli, stutt og tilgerðarlaust. En eg hefi mætur á, að þeim sé haldið á lofti. Sú hugmynd hefir lengi vakað fyrir mér, að það væri mikilvægt að halda uppi þvílíkum gömlum sögnum þó þær séu hégómlegar. Jónas sálugi Hallgrímsson var ekki á móti þeim, en þó fannst mér honum þykja minna í það varið en ég vænti af honum I 31                      

Er ekki nöldur úr hverju horni?

1852 Jósef Skaftason læknir Hnausum Eg fyrir mitt leyti óska, að sögurnar væru vel valdar og ekki væri tekinn allur skollinn, því eigi þau að lýsa skáldskap þjóðarinnar þá verða þau að innihalda skáldlega þanka. I 32 

Nei! Þorvaldur í Hrappsey er jákvæðari

1852 Þorvaldur í Hrappsey Ævintýrasafnið líkar mér vel, verði það meira en tilferðin, því nóg má fá í framhald þeirra lengi. Suma, enda þá heldri og lærðu, hefi eg heyrt setja það helst út á þau, að þau glæddu álfa- og draugatrú, sem annars hefði nú verið í andarslitrunum, en það get eg ekki haldið. I 32 

1853 Sr. Árni Helgason Elskulegi herra studíósus . . . Ísland missti sitt fegursta blómstur þegar Egilsen dó. En drottinn hefur sagt fyrir munn síns spámanns, Gröndals gamla: Fullvaxið blóm eg nem á tækri tíð og vil að önnur vaxi út í loftið slík (eða eitthvað þessu líkt), eg læt hugsun og tilfinningu ráða mínum orðum og stíl. Mundi þetta ekki vera það gamla: Seqvi naturam? I 35 

1854 Sr. Árni Helgason  Þér minnist á minn lærisvein, Ó(laf) Stephensen; (var hann orðinn amtmaður?). Hann og Egilsen þurftu aldrei að tala saman til að skilja hvor annan. Það var eins og væri eitt hjarta í báðum. Ólafur var samt enn fljótari í gáfum en hinn, Egilsen aftur drjúgari. Guð á þá nú báða og allir viljum við vera hans eign, þó það stundum verði í klúðri. I 36 

1854 Þuríður Sveinbjarnardóttir . . . Eg ætla ekki að vera langorð um kaflann í bréfi yðar, hvar í yður þóknast að kalla mig skáld, en einungis geta þess, að þér getið ekki gefið mér það nafn nema einhver undarleg spélni liggi í orðum yðar og má mér það nú raunar á sama standa. En eg þykist vera svo vel viti borin, að eg viti sjálf, hvort ég er skáld eða ekki og væri eg það þætti mér engin skömm að játa það, því það er heldur prýði; en mér var það ekki gefið, því þó börn hnoði einhverri vitleysu saman. er ekki sagt þau verði skáld. Því betur sem eg fór að hafa vit á að hugsa, því betur fann eg, að sú gáfa var mér ekki gefin. En setjum nú að eg hefði verið "skáld" eftir yðar ályktun, sýndi það þá ekki heimsku að fara að breyta skáldskap eftir þvílíkan mann sem föður minn? Þó er enginn skáld sem er heimskur. Þér hafið ekki haldið að eg mundi vera "logisk"I 38 

1854 Jón Sigurðsson forseti til JÁ Forlátið mér slabb þetta. Berið kæra kveðju frúnni og börnunum (Svbj. Egilsson er látinn en JÁ býr áfram hjá ekkjunni og börnum þeirra - Mörg bréf fóru milli þeirra nafnanna á þessum árum, fjalla einkum um bókaútveganir og starf Jóns Árnasonar við uppskriftir handrita fyrir nafna sinn.) I 42 

1855 Jón Árnason til JS Háttvirti herra vinur!

Eg hef stundum að undanförnu fengið bréf frá yður og ávallt góð, eg hef líka fengið oft frá öðrum bréf og frá þeim, sem hafa látist vera vinir mínir, en enginn, en enginn hefur eins hreinskilnislega sagt mér fyrir siðunum eins og þér og minnist eg nú þess fornkveðna: "Sá er vinur sem til vamms segir." En það er hvorttveggja, að mér er ótamur fagurgali og eg ímynda mér yður ógeðfelldur, því ætla eg ekki að fara út í þetta lengra, en get þess einungis, að aldrei  hefur það komið í hug minn né hjarta að taka að mér Ingólf eða stjórnarblað nokkurt, en orðróm þann sem á hefur um þetta og sem nú erkominn fyrir löngu á hvert landshorn hér, hefur Sveinbjörn Hallgrímsson kveikt og útborið bæði munnlega og ef til vill í bréfum og víst er það, að hann hefur æði oft farið þess á leit við mig að taka blað þetta um eins árs tíma. En hvað sem þessu líður, þá vitið það fyrir víst, að eg mun ekki verða Redakteur að Ingólfi né öðru stjórnarblaði að sinni. Allt að einu eru hugvekjur yðar mér kærkomnar fyrir því, sannarlegt vinarmerki.  I 43  

Jón Árnason þakkar nafna sínum hreinskilni og vináttu og þvær hendur sínar af samneyti við stjórnarblaðið. Hann ræðir útgáfu á ritum Sveinbjarnar Egilssonar,  sem nú er að hefjast og segir fréttir af stiftsbókasafninu, sem Jón Sigurðsson studdi jafnan með ráðum og dáð.


Jón Árnason f. á Hofi 17. ágúst 1819

missti föður sinn, Árna Illugason 11. ág. 1925

Hann ólst svo upp hjá móður sinni sem varð að 

hrekjast  á sína jörðina hvert árið af þeim þrem

næstu en meðan hann var hjá henni kenndi hún

honum að stauta á bók og framan af barnalærdóms-

bókinni, 3 kapítulana.

Jón fór á ellefta ári (1829) inn að Steinnesi og varð

fylgdarmaður Magnúsar prests Árnasonar.

En sr. Þórður hálfbróðir hans tók við Jóni á 14. ári,

fór með hann austur að Skarði í Landssveit, þar var

Jón í 3 ár en fjórða veturinn kom hann honum til

sr. Ásmundar Jónssonar prófasts í Odda sem bjó 

hann undir Bessastaðaskóla frá jólaföstu og sótti 

svo um skóla, sem hann fékk og 1/2 ölmusu.

Úr fórum Jóns Árnasonar, útg. Finnur Sigmundsson Rv 1950

Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478221
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 05:46:01