12.05.2016 17:38

Skáldatal við Húnaflóa II


Hreggviður á Kaldrana á skemmtilega ritaravísur, þær eru úr mansöng og mega minna okkur á skuldina við kollega hans, fræðimenn og skáld sem varðveittu orðtök, vísur og athafnir mannfólksins með því að skrá þær á blað við daufa birtu frá ljóra eða flöktandi kolu:

13. Hyggjudofa hrindi frá
heillir lands og friður
liggja og sofa lítt mun tjá
ljóðadansinn viður.

Hvergi staður brims við bú
brags má kenna lestur.
Alvaknaður er ég nú
undir penna sestur.
HE

Hreggviður stundaði sjóróðra og var kjarnyrtur í veðurlýsingum sínum:

14. Hann er úfinn, alhvítur
eldur kúfa á fjöllum;
hengir skúfa í haf niður
um háls og gljúfur él dregur.
HE

15. Hann er svartur, svipillur,
samt er partur heiður,
lítið bjartur landaustur,
ljótt er margt í útnorður.
HE

Hreggviður tók þátt í sögulegri ferð Skagstrendinga á teinæringi Schrams kaupmanns vestur á Strandir. Hann rímaði ferðasöguna og yrkir svo um móttökur Einars dannebrogsmanns í Kollafjarðarnesi:

16. Auma fæðir, dreng og drós,
dugnað veitir grönnum;
nakta klæðir, hefir hrós
hann af sveitarmönnum.
HE

Suður í Reykjavík ólst upp Bertel Ólafur Þorleifsson en fæddist út á Skaga 1857, á Keldulandi í Hofssókn. Hann flutti suður með foreldrum sínum, en missir föður sinn ungur. Ingiríður móðir hans er húsráðandi í Vaktarabænum 1870, hún var Blöndælingur, dótturdóttir séra Ólafs Tómassonar í Blöndudalshólum og hálfsystir Gísla bónda á Eyvindarstöðum Ólafssonar í hina ættina. Bertel fór í skóla, sigldi til Kaupmannahafnar og var þar í flokki Verðandimanna, Hannesar Hafstein, Gests Pálssonar og Einars H. Kvaran en Hjörleifur faðir Einars var einnig  prestur í Hólum í Blöndudal í áratug. Bertel Ólafur orti á dönsku ljóðaflokkinn Kolbrún sem oft hafa verið sungnar úr vísur tvær: Kolbrún mín einasta ástfólgna Hlín og Nú ætlarðu´ að verða þá alltaf hjá mér í þýðingu Hannesar Hafstein:

17. Valt er að treysta á vinina
og vinamál í eyra.
Þeir setja í mann sinina
og svo er það ekki meira.

Beinskeytt í vísum sínum og einlæg í þanka var Ingibjörg Blöndal, f. 1896, og stundaði versasmíð eins og fleiri frændur hennar, afkomendur Björns sýslumanns í Hvammi. Hún var ráðskona í Hindisvík hjá Sigurði Norland skáldpresti:

18. Alla læt ég eiga sig
en ósköp finnst mér leitt:
Það vita allir allt um mig
þótt engum segi ég neitt.
IB

19. Ennþá hljómar andlátsfregn.
Ekkert þjáning linar.
Það er að verða mér um megn
að minnast látins vinar.
IB

Frá Hjallalandi var Þorleifur Helgi Jónsson er bjó seinast á Blönduósi:

20.  Ást er rauð en ólund grá
         og sakleysið hvíta.
         Vonin græn og gleðin blá,
         gult má falsið líta.
ÞHJ

21. Best er að taka lífi létt.
Láta vaka kæti.
Fara á bak og fá sér sprett
en forðast svaka læti.
ÞHJ

Amma Þorleifs, hún Hjallalands-Helga, orti ung um jarpa folaldið sitt þegar það hljóp með stóðinu á Geirastöðum:

22. Litla Jörp með lipran fót 
            labbar götu þvera.
 
            Hún mun seinna á mannamót
 
            mig í söðli bera.

Hryssan jarpa var síðar seld til afsláttar:

23. Mæðan stranga mjög er skörp,
mér finnst langur skaðinn;
Ólafur svangur étur Jörp,
ég má ganga í staðinn.

Björn Björnsson bjó á Klúku í Steingrímsfirði en faðir hans Björn og föðurfaðir Hjálmar voru prestar í Tröllatungu og sátu staðinn í 72 ár. Björn á Klúku  var lengi forsöngvari og varð nær tíræður. Hann kvað:

24. Yfir nírætt eg hef þrjá.
Er það nærri vonum
að ég eigi fetin fá
að feigðartakmörkunum.
BB

25. Ég man best mitt æskuvor,
ungdómsglaum við riðinn.
Önnur flest mín ævispor
eru sem draumur liðinn.
BB

Björn á Klúku 1809-1908, bóndi og bókbindari, skráði dagbækur um fjölda ára í framhaldi af veðurdagbókum föður síns. Hann var forsöngvari í Tröllatungukirkju. Afinn, sr. Hjálmar, var fæddur 1742. Prestur orti vísu um skriftaþörf sína og rökkursvefninn:

26. Myrkurlegan löng svo var,
leiddist mér við hana.
Komið er mál að kveikja skar
og klóra staf að vana.

Einhverju sinni var sr. Hjálmar á ferðalagi síðla kvöld og kom að Kollafjarðarnesi. Húsráðendur vildu láta hann gista og sögðu að Bessi draugur myndi villa um fyrir honum. Prestur vildi halda áfram og kvað ferskeytluna:

27. Enginn Bessi mætir mér,
né mínum ferðum tálmar.
Hann gerir ekki að gamni sér
að glettast við hann Hjálmar.

Sr. Hjálmar Þorsteinsson í Tröllatungu var skáld gott og orti ýmsa kveðlinga, útfararminningar og bænir í ljóðum, líka marga gamankveðlinga og tækifærisvísur. Hann var vel að sér í lögum, náttúrufræði, sagnfræði, norrænum fræðum og lækningum, einkum útvortis segir Sighvatur Borgfirðingur í Prestaæfum.

Vísað er til:

Þórður á Strjúgi - Wikiheimild: https://is.wikisource.org/wiki/%C3%8Dslenzkar_%C3%BEj%C3%B3%C3%B0s%C3%B6gur_og_%C3%A6fint%C3%BDri/Galdras%C3%B6gur/%C3%9E%C3%B3r%C3%B0ur_Magn%C3%BAsson_%C3%A1_Strj%C3%BAgi

Páll Vídalín í wikipedíu: https://is.wikipedia.org/wiki/P%C3%A1ll_V%C3%ADdal%C3%ADn

Manntalið 1703: https://is.wikipedia.org/wiki/Manntali%C3%B0_1703

Vísur Páls Vídalín: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=p0&ID=15178

Guðmundur Bergþórsson frá Stöpum: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=15247

Kyrr kjör eftir Þórarinn Eldjárn - http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3397/5787_read-2799/categories-1370,2012/rskra-116/

Ástráður Eysteinsson skrifar um ÞE   http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3903/6066_read-18653/RSkra-116    

Sr. Björn í Bólstaðarhlíð: http://stikill.123.is/blog/2011/04/25/519100/

Studdu hann Gvend: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24700&ut=1

Hallvarður á Horni: https://is.wikipedia.org/wiki/Hallvar%C3%B0ur_Hallsson

Vísur Hallvarðs: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=h0&ID=15832

Vísur GKetilssonar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24791&ut=1

Hreggviður á Kaldrana: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=16585

Bertel Edvard Ólafur Þorleifsson: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5141&ut=1

Verðandi: https://is.wikipedia.org/wiki/Ver%C3%B0andi_(1882)

Verðandi - tímaritið: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=179175&pageId=2329210&lang=is&q=Bertel%20%FEorleifsson

Ingibjörg Blöndal: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=i0&ID=17605

Þorleifur Helgi Jónsson frá Hjallalandi: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=z2&ID=15938

Hjallalands-Helga: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=h0&ID=15312

Björn Björnsson Klúku: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=b0&ID=15678

Sr. Hjálmar Þorsteinsson Tröllatungu: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=15809

 

 

Hér kemur í eftirmáli ljóð eftir heimspekinginn og rithöfundinn Þorsteinn Gylfason prófessor 1942-2005:

1.       Þú siglir alltaf til sama lands
um svalt og úfið haf.
Þótt ef til vill sértu beggja blands
og brotsjór á milli lífs og grands,
þú kynnir að komast af.

2. Ef landið eina er landið þitt
er leiðin firna ströng.
Það marar í kafi með hrímfjall sitt
og hengingarklett og útburðarpytt.
Og saga þess sár og löng.

3. Samt skeytirðu ekki um önnur lönd
í einangrun tryggðabands.
Þótt bryddi á ísum við innstu rönd

þú siglir án afláts með seglin þönd
til sama kalda lands.

Höfundur segir:"Ég las í blaði í vor viðtal við Þórð Kristleifsson, fyrrum menntaskólakennara á Laugarvatni, þar sem hann segir að markmið allrar kennslu eigi að vera að grasið vaxi meðan bóndinn sefur. Það er engin einþykkni hér: kennarar verða að bændum og nemendur að grasi eins og ekkert sé. Daginn áður en ég las þetta tók ég sem oftar leigubíl í Háskólann, og bílstjórinn spurði: "Til sama lands?" Landið var háskólabyggingin, og þar með var bílferðin sú orðin að siglingu. Þessi bílstjóri er bersýnilega skáld. Ég veit ekki hvernig kvæðið er í heild hjá honum, en það gæti verið einhvern veginn svona: 
Þú siglir alltaf . . .
Eigum við að kalla þetta "Ættjarðarkvæði"? Það er ekki alltof mikið af þeim upp á síðkastið."

Heimild: Að hugsa á Íslensku eftir Þorstein Gylfason bls. 122

Vísað er til: https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Eorsteinn_Gylfason

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569148
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 21:19:52