25.02.2016 08:55

Til hvers karlakór?

Til hvers karlakór - flutt 24. febr. 2016 í Hæðargarði 31 af Inga Heiðmari Jónssyni      

 

U3A Reykjavík University of Third Age

 

 - fyrirlestraröðin Húnvetnsk fræði - fimmti fundur

 

Karlakór! Til hvers?

 

Við þykjumst sjá, svona á góðum stundum, hve mikil deigla mannlífið er og örðugt að sjá fyrir hvað eftir gengur þó ekkert sé til sparað í undirbúningi. Þetta kemur í hugann þegar skoða skal mannlíf á húnvetnskum dölum. Okkur býðst að velja um ýmsa glugga til að skoða fortíðina og menningarviðleitni sveitunganna fyrir tæpri öld. Góðar heimildir eru fyrir söngstarfi í sveitinni um og upp úr aldamótunum 1900, sérstaklega í útsveitinni, en Eyvindarstaðabræður, fyrstu söngstjórarnir og séra Stefán prestur á Bergsstöðum eru úr fremri hluta dalanna og sjálf Stafnsrétt, þangað sem drengir vaskir og daladrósir flykktust til, er innst í Svartárdalnum.  

 

Þeim þótti sjálfsagt kórmönnunum að ganga bæja milli og dala til að sækja æfingarnar á veturna og vorin, en þó var í frásögur var fært þegar Ágúst Andrésson, einn stofnendanna sem var fluttur úr dalnum til Blönduós, en tók sér ferð á hendur og rölti þessa 30 km sem voru fram í Finnstungu til söngæfingar. Svo þegar þangað er komið þá kom í ljós  að æfingin hafði verið flutt fram að Eiríksstöðum. Og Ágúst gekk þá þangað. Kannski tæpa 10 km til viðbótar og náði í einhvern hluta æfingarinnar. Og vonandi hefur hann fengið gistingu fremra áður en hann sneri heim til Blönduóss.

 

Þegar ég dvaldi með Lýtingum - nágrönnum Hlíðhreppinga - upp úr 1970 hitti ég þar öldunga sem höfðu sungið með frændunum Steina á Gili og Gísla á Bergsstöðum í göngunum fram á Eyvindarstaðaheiði, Þorsteinn söngstjóri hóf kveðskapinn þegar komið var í áfanga með vísunni:

                   Kveða er mér kvöl og þraut

                   kvæðin læt þó flakka

eins og þegar öskrar naut

undir moldarbakka.

Svo þegar leið á kveðskapinn gleymdist ekki að kveða:

Höldum gleði hátt á loft

helst það seður gaman

þetta skeður ekki oft

að við kveðum saman.

Eða Stafnsréttarvísuna Jóns Þorfinnssonar:

                   Nótt að beði sígur senn

sofnar gleði á vörum

við skulum kveða eina enn

áður en héðan förum.

 

Þeir Eyvindarstaðabræður, fyrstu söngstjórarnir, ólust upp með Ósk móður sinni sem var mjög músikölsk eignaðist orgel um 1895 og lánaði og spilaði á það í Bólstaðarhlíðarkirkju. Faðir bræðranna og eiginmaður Óskar, Jón Jónsson, giftist að þessu höfuðbóli en þó um skamman veg. Hann var snjall hagyrðingur, hélt sér nokkuð fram og hefur kannski fundist stundum sem hann ætti ráðríka konu, hana Ósk frænku mína. Henni man ég eftir á fyrstu árunum heima í Ártúnum meðan kalt steingólf með mottum var enn í eldhúsinu og Ósk söng við lítinn frænda: Hvað kanntu að vinna? Baggalútur minn! En hann hélt heil ósköp upp á hana og hún Ósk Gísladóttir lifði það líka - og þau bæði - að vera viðstödd vígslu Blöndubrúarinnar fremri 1951, þangað kom hún frá Blönduósi með Steina syni sínum á jeppanum hans. Þá voru þau Eyvindarstaðahjónin löngu skilin.

 

En fyrsti söngstjóri karlakórsins var raunar Gísli sonur hennar, 22 ára að aldri og varð bóndi i á Eyvindarstöðum en entist ekki aldur, lést aðeins 34 ára.

Enn upphaf kórins var í árslok 1924, þá ákváðu 9 félagar á norðurloftinu í Bólstaðarhlíð að stofna Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og Gísli æfði nýja kórinn þessa útmánuði því Þorsteinn bróðir hans og verðandi stjórnandi var þá norður í Skagafirði, á Hólaskóla. Þannig var Gísli söngstjóri til vors, en þá tók Þorsteinn við um fimm ára skeið en þá varð Gísli söngstjóri að nýju.

 

         Eftir andlát Gísli 1937 tók Þorsteinn við söngstjórninni en Gísli Pálmason frændi hans stjórnaði 2 ár og Jónas Tryggvason tók við 1945. Jónas hafði áður æft yfir vetrartímann meðan Þorsteinn vann við Reykjaskóla vestur í Hrútafirði, en Þorsteinn tekið við um vorið þegar hann kom heim að Gili. Jónas stjórnaði kórnum til 1952 þegar Jón bróðir hans varð söngstjóri en Jón ætlaði aðeins að taka þetta verkefni einn vetur, en þeir urðu reyndar 35. Jón var söngstjóri til 1987.

 

         Laga- og ljóðasmíðar stunduðu kórfélagarnir, söngstjórarnir og kórinn hefur sungið lög eftir 5 þeirra:

1.     Gísla Jónsson

2.     Þorstein Jónsson

3.     Guðmann Hjálmarsson

4.     Jónas Tryggvason og

5.     Gest Guðmundsson

         Jónas sinnti einnig ljóðasmíðum og orti ljóð við sum laga sinna, gaf út ljóðabók árið 1959, árið sem hann flutti til Blönduóss. Ljóð Jónasar sigraði í samkeppni um Heklusönginn 1956, Sjá glæru.

 

Með árunum fékk kórinn fjölbreyttari hlutverk, hann var kallaður til þegar héraðshátíðir voru, hann varð þátttakandi í Heklu sambandi norðlenskra karlakóra sem héldu samsöngva fjórða hvert ár, þeir gleymdu ekki að syngja fyrir sitt fólk heima í Þinghúsinu í Bólstaðarhlíð og síðar í Húnaveri og svo raddsettu söngstjórarnir sálma og sömdu lög fyrir jarðarfarir en sú hefð hefur orðið rík í Austur-Húnaþingi  að fá karlakórinn með söng að jarðarförum.

 

Frá fyrstu jarðarförinni sem kórinn söng við og var árið 1930 segir sr. Gunnar á Æsustöðum þannig:

Sr. Stefán M. Jónsson á Auðkúlu andaðist 17. júní 1930. Hann var vígður til Bergsstaðaprestakalls og hafði verið þar 10 ár. Síðan nágrannaprestur fjölda ára. Þegar hér var komið var Sigríður dóttir hans prestskona á Æsustöðum. Bæði fyrir tilmæli hennar og af ræktarsemi við þennan prestaöldung söng kórinn við jarðarför sr. Stefáns. Æfði kórinn vandlega undir þessa athöfn og þótti takst mjög vel. Mun þetta hafa verið í fyrsta sinn er hann söng við útför. Síðan hefur það verið oftar en talið verði og jafnvel við flestar jarðarfarir innan sveitar og allmargar utan hennar. Ekki hefur kórinn uppskorið að jafnaði annað en þakkir vandamanna fyrir þau ómök, -  enda ekki viljað annað þiggja. Karlakórinn annaðist að öllu leyti útför fyrsta söngstjóra síns, Gísla Jónssonar á Eyvindarstöðum, sóttu líkið norður á Sauðárkrók og fluttu að Bergsstöðum og fór jarðarförin þar fram við mikið fjölmenni. Þetta er úr söguritinu Tónar í tómstundum.

 

Þegar Jón Tryggvason hvarf frá söngstjórn sjötugur að aldri tók við Gestur Guðmundsson söngvari á Blönduósi og stjórnaði kórnum næstu 6 árin. Þá kom til liðs Sveinn Árnason á Víðimel og hefur stjórnað kórnum síðastliðin 23 ár. Á þessum tíma hefur kórinn gert víðreist, farið í nokkrar ferðir til Norðurlanda og nú síðastliðið sumar fór kórinn til Bandaríkjanna og Kanada, söng á Íslendingahátíðinni í Mountain í Norður Dakota og á Íslendingadeginum á Gimli ásamt kór Hólaneskirkju Skagaströnd. Kórinn varð níutíu ára á síðast ári og þetta var afmælisferð.

 

Haustið 2012 fóru Sveinn söngstjóri og útsetjari Rögnvaldur Valbergsson að útsetja lög granna síns, Geirmundar Valtýssonar, og síðan að æfa þau með kórnum og hljómsveit frá Tónlistarskóla A-Hún. Þessi nýbreytni reyndist vinsæl, kórinn gerði víðreist með þetta efni og enn einn hljómdiskurinn var tekinn upp.  Og enn héldu þeir áfram og gerðu þeir skil lögum systkinanna Ellýjar og Vilhjálms. Á fyrsta díski kórsins, sem gefinn var út meðan Jón var söngstjóri og Gestur Guðmundsson stjórnaði þar einnig nokkrum lögum og söng einsöng, en þar voru eingöngöngu sungin lög kórfélaganna, flest eftir Evindarstaðabræður og Jónas.

 

Komum við þá aftur að spurningunni: Til hvers karlakór? Ætli mönnum hafi þótt hann álitlegur pallur til þess að stíga í vænginn við heiminn - og meyjarnar, en nú eru kórmenn oftar rosknir og búnir að hlaupa af sér hornin og þá heldur fremur í þá sönggleðin, félagsskapurinn og svo ferðaþráin eins og sést frá síðustu árum kórsins þar sem þeir fara þriðja eða fjórða hvert ár í utanlandsferðir. Meðal stofnenda kórsins voru ráðsettir heimilisfeður, en ungu bræðurnir og Guðmundur tenór Sigfússon sem seinna varð mágur þeirra hafa verið áberandi í hópnum, söngur þeirra hefur glitrað í efri röddunum.

 

Áður var minnst á lagasmíð fyrstu söngstjóranna: Húnabyggð, Álftirnar kvaka, Ég skal vaka í nótt og fleiri lög voru frumflutt af kórnum og yfirleitt samin fyrir hann líka, héraðssöngurinn Húnabyggð var fyrst samin fyrir karlaraddir af einum stofnanda kórsins, Guðmanni Hjálmarssyni, en höfundur ljóðsins var héraðslæknirinn Páll Kolka. Karlakórinn var menningarstofnun sem naut velvildar og fékk kveðjur á tyllidögum frá sveitarstjórn, kaupfélaginu og gjafir, einnig frá sveitungum heima sem burtfluttum. Þeir sem hafa lesið bréf Elísabetar á Gili, tengdamóður Þorsteins söngstjóra, skynja þessa köllun að styðja við sönginn og þar með menninguna. Okkur síngjarnri samtíð finnst ótrúlegt hvernig fólk í miðri dagsins önn, sem hafði ekki handa milli meira en rétt fyrir nauðsynjum, hvað þessir aðdáendur söngsins lögðu hart að sér að stofna sjóði og gefa peninga til þeirra. Sjóðir hafa svo flestir farið hraklega.

 

Eyvindarstaðabræður Gísli og Þorsteinn, Tryggvi í Tungu og Eiríksstaðafeðgarnir, Sigfús og Guðmundur voru allir í stofnendahópnum 1925 og þessir frumkvöðlar eiga allir sína afkomendur í karlakórinum 2016, Guðmundur Sigfússon yngri er afkomandi alnafna síns, tenórsöngvarans og bóndans á Eiríksstöðum og sömuleiðis Eyvindarstaðamanna því Guðmunda amma hans var systir bræðranna Gísla og Þorsteins. Bændurnir Tryggvi í Ártúnum og Guðmundur yngri í Finnstungu eru afkomendur Tryggva í Tungu.

 

Eftirspil


Í hverri messu þarf að vera prelúdíum og postludíum og þann sem hér masar langar til að bæta við þessa söguþanka ofurlitlum eftirmælum um fögnuð, þessum hughrifum sem við vitum aldrei hvenær við megum vænta, kannski þegar lóan syngur dirrindí út á bæjarhólnum eða við heyrum leikin í útvarpinu menúett eftir Boccerini eins og Axel Thorsteinson spilaði fyrst laga í morgunútvarpinu um miðja öldina. Jónas frá Tungu var söngstjóri, ljóðskáld en þó fyrst og fremst sjálfbjarga höldur sem gat öðrum miðlað og vildi öðrum miðla. Jónas flutti sig búferlum í tvígang um sína daga, fyrst úr föðurgarði ásamt Jóni bróður sínum þegar þeir byggðu íbúðarhúsið í Ártúnum og fluttu þangað 1948 en rúmum áratug síðar flutti Jónas í eigið hús út við Blönduós og eftir fyrsta vetur sinn þar á nýjum slóðum ávarpar hann sveitunga sinn sjötugan, Bjarna á Bollastöðum, sem hóf ungur búskap upp í Skörðum, á kotinu í Kálfárdal en hafði þegar hér var komið sögu keypt með Ingólfi syni sínum eina af kostajörðunum sveitarinnar þar sem fjölskyldunni búnaðist vel, það var stund til að fagna og fögnuður ríkti líka í hjarta Jónasar sem hafði eignast sitt eigið ríki í nýju húsi.

 

Ljóðið er þannig:

1.

Þér féllust ei hendur, í fangið þótt hvessti,
því svalviðrið sálina hressti.

2.

Í torleiði fjallanna fannstu þig sjálfan,
heilan, en aldrei hálfan.

3.

Við fáheyrða örbirgð á örreitiskoti
þinn andi bjó ávallt í sloti.

4.

Því margur í lágsveitum lognþokudagur
við fjöllin er heiður og fagur.

5.

Þú gekkst ekki hikandi á hólminn, né tregur.
Þú vissir hvert stefndi þinn vegur.

6.

Þú ávannst þér sigur á orrustuvelli
og hann er þinn heiður í elli.

 

Í upphafi fyrirlestrarins var spilað Þú vorgyðja ljúf, lag og ljóð Jónasar Tryggvasonar, einsöng með kórnum söng Gestur Guðmundsson en á eftir Ég skal vaka, einnig eftir Jónas, en þar söng Sigfús Guðmundsson einsöng.

 

 

 

 

 

          Söngstjóraannáll

1924 Hinn 28. des sem var sunnudagur hittust á norðurloftinu í Bólstaðarhlíð nokkrir söngfélagar og ákváðu að stofna karlakór

1925 vor Gísli Jónsson Eyvindarstöðum

1925 -´29 Þorsteinn Jónsson Gili

1929 -´36 Gísli Jónsson Eyvindarstöðum

1936 -´39 Þorsteinn Jónsson Gili

1939 -´41 Gísli Pálmason Bergsstöðum

1941 -´45 Þorsteinn Jónsson Gili

1945 -´52 Jónas Tryggvason                               Finnstungu&Ártúnum

1954 -´87 Jón Tryggvason Ártúnum

1987 -´93 Gestur Guðmundsson Blönduósi

1994 -´16  Sveinn Árnason Víðimel

 

 

Af formönnum kórsins er skráning óljósari en  söng-stjóratal, en minnisstæðir eru þeir Guðmundur frá  Bergs-stöðum, Þórður á Grund og Páll á Höllustöðum, einnig sr. Birgir Snæbjörnsson, sem kom í kórinn ´53 og varð ástsæll meðal félaga sinna.

Fyrstu 20 árin var ekki formleg stjórn en Tryggvi í Finnstungu var talinn fyrir stjórninni. Meðal formanna frá seinni tímum: Runólfur í Hvammi, Sigurður Ingvi Björnsson og Þorleifur Ingvarsson í Sólheimum.

 

Annálsritara hefur kórinn notið um sína mörgu daga enda væri annars litla sögu að segja:

Guðmundur Jósafatsson Austurhlíð safnaði efni til sögu kórsins fram um 1945

Sr. Gunnar Árnason Æsustöðum skráði sögu kórsins fyrir 35 ára afmæli, Tónar í tómstundum.

Jónas Tryggvason hélt dagbækur, söngskrár, félagatal fram yfir miðja öldina.

Guðmundur Tryggvason var ritari kórsins um sína daga, skrifaði nótur betur en nokkur nærlendis og handskrifaði Tóna í tómstundum.

Tryggvi Jónsson tók við eftir GT frænda sinn að skrá í árbókina en eftir honum kom

Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum og hefur haldið vel utan um skrásetningu á starfi kórsins síðustu áratugi - í aldarfjórðung, eða allt frá 1990.

Ingi Heiðmar Jónsson safnaði efni til kvers, mest úr kórbókinni - þeirri sem Sigurður Pálmason kaupmaður á Hvammstanga gaf kórnum með góðum spjöldum - og lét prenta, þ.e. Stikill 1

 

 

3. Skínandi sumarsólin

sendir geislana hlýju.

Gjafmilda gróðurmoldin

glæðir allt líf að nýju.

Nóttlaus er norðurhjarinn, náttúran endurvakin.

Brátt verða ból og hlíðar

blómskrúði vorsins þakin.

 

 

 

4. Oft söng eg ungur drengur

einn úti í náttúrunni

ættjarðar ljóðin ljúfu

lögin ég snemma kunni.

Hvarvetna á hveli jarðar,

hver sem er litarháttur,

alls staðar ómar söngur

eilífur töframáttur.

Ljóðið var samið fyrir Ágúst Andrésson, alls 4 erindi og hann flutti kórnum á fimmtugsafmælinu, þá orðinn 76 ára en söng engu að síður einsöng með kórnum - og gekk vel.

 

Söngæfingin stóð í nærri 8 tíma - Dagb.JT

13. febrúar 1944 Söngæfing á Eiríksstöðum kl. 5 og stóð í tæpa 8 tíma eða til kl. nærri 3 um nóttina. Voru nú allir mættir og tókst æfingin eftir ástæðum mjög vel og miklum mun betur en ég hafði leyft mér að vonast eftir. Það var nú einmitt söngurinn sjálfur, sem náði sínum góðu áhrifum á hópinn, að minnsta kosti öðru hvoru en vissulega var minna rætt um framtíðina en oft áður og ég held raunar að það hafi verið það heppilegasta þegar tillit er tekið til allra kringumstæðna. En hvernig reiðir nú þessu af næsta laugardag ef það kemur þá á daginn sem hálft í hvoru er búist við - Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar

 

 

Helstu einsöngvarar kórsins

 

 

Guðmundur Sigfússon Eiríksstöðum

 

Jósef Sigfússon Torfustöðum 

 

sr. Birgir Snæbjörnsson Æsustöðum

 

Sigfús Guðmundsson Húnaveri/Blönduósi

 

Jón Guðmundsson Eiríksstöðum

 

Jóhann Már Jóhannsson Hrafnabjörgum

 

Svavar Jóhannsson Litladal

 

Sigurður Ingvi Björnsson Guðlaugsstöðum  

 

Halldór Maríusson Finnstungu  

 

Þorleifur Ingvarsson Sólheimum 

 

Guðmundur Sigfússon Blönduósi  

 

 

 

 

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478245
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 07:14:17