05.02.2016 19:34

Jónas Tryggvason Úr dagbók 1944

Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar í Finnstungu frá 1944:

Vefstjóri IHJ setti inn fyrirsagnir

Nýársdagur - lítið spilað

Nýársdagur Kyrrlátur dagur og allir heima. Pabbi hefur verið hálflasinn að undanförnu og í kvöld fékk hann köldu og háttaði strax er hann kom inn úr húsunum. Lítið varð úr spilamennsku og þess háttar þó reynt væri.

Boð í Hólum

2. jan. Við systkinin fórum fram að Hólum(Blöndudalshólum), en þar komu saman nokkrir vinir gullbrúðhjónanna frá 25. Nóvember en þá var þeirri heimsókn frestað vegna inflúensufaraldursins. Aðkomandi voru nú fimmtán manns og skemmtum við okkur ágætlega. Pabbi var nokkru betri í dag en fór þó ekki á fætur. Norðan hríðarveður hefur verið í dag og mikil snjókoma í kvöld.

Skólinn hefst í Vatnshlíð

3. jan. Betra veður en skuggalegt útlit. Hólafeðgar komu snöggvast við á leið upp að Vatnshlíð, en þar verður skólinn hálfan mánuð enn. Klemens kom með póstinn, lítinn að vöxtum eins og venjulega eftir jólin. Pabbi var á fótum i dag en fór ekkert út.

Það verður jarðlítið

4. jan. Í dag hefur verið leiðinlegt veður, fyrst suðaustan hríðarveður og í kvöld stormur með úrhellisrigningu. Ef þessu tíðarfari heldur áfram, verður mjög jarðlítið á næstunni. Í nótt var mig mikið að dreyma Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra og held ég að mig hafi ekki dreymt hann fyrr. Annars man ég sjaldan draumana mína og tek lítið mark á þeim.

Myrtur Kaj Munk og gestakomur í Tungu

5. jan. Mundi bróðir(25 ára) fór til Blönduóss í dag, en þaðan fer hann á laugardaginn áleiðis til Hveragerðis. En þar verður hann við smíðavinnu í vetur. Sex hraðferðabílar fóru norður um í gærkveldi og átta suður um í dag. Halldór Pálsson stansaði hér stundarkorn ásamt tveim námsmeyjum af kvennaskólanum og fóru með bíl til Blönduóss. Stebbi Sveins kom í rökkrinu og er enn að spila núna kl. 12(á miðnætti) Í útvarpsfréttunum í kvöld var skýrt frá því að danski presturinn og rithöfundurinn, Kaj Munk, hefði verið myrtur af Þjóðverjum. Ég veit ekki hvað kann að hafa verið markvert í stríðsfregnunum því að þetta kvöld fóru þær fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ein fregn frá nákominni frændþjóð, varpaði skugga á allt annað.

Að rota jólin!

6. jan. Við systkinin fórum fram að Brandsstöðum til þess "að rota jólin". Þangað kom líka frá Syðrakotinu og Hólum, alls ellefu manns aðkomandi. Skemmtum við okkur mjög vel fram yfir kl. tólf um kvöldið. Mamma og pabbi treystu sér ekki fram eftir, eru ekki rétt vel frísk. Þegar við lögðum af stað heimleiðis var mjög fagurt veður, himinn alheiður og hreinhvít jörð af snjó.

Norðlensk vetrarnótt í allri sinni dýrð. Þannig kvöddu þessi jól.

Hversdagslegastur allra daga

7. jan. Þessi dagur er hversdagslegastur allra daga. Síðasta kvöld jólanna er liðið og kemur aldrei aftur. Það var 15 stiga frost í dag, en vonandi er nú eitthvað að stilla til. Bjössi í Koti kom við, á leiðinni upp að Hlíð. Hann er að leggja af stað norður á Hólaskóla, úr jólaleyfinu, en það er orðið þrjár vikur.

Ófærð og hríðar

8. jan. Enn stillir lítið til. Norðaustanhríð hefur verið í dag, að vísu ekki stórhríð en mjög slæmt veður og 12 stiga frost. Það má nú heita að eitthvað snjói á hverjum sólarhring nú um tíma og er orðið mjög jarðlítið fyrir sauðfé. Hraðferðabílarnir sem komu að sunnan í gær, en fóru þá aðeins til Blönduóss, hafa ekkert komist áleiðis í dag veðurs og færðar vegna.

Hjúskaparafmæli Tunguhjóna - 29 ár -

9. jan. Það er mjög kalt í veðri í dag og komst frostið í 18 stig kl. 8 í kvöld. Blanda er óðum að fyllast og er þegar full orðin fram um ármót(Svartár og Blöndu) þótt ekki sé þar enn tryggur ís. Í dag eiga pabbi og mamma 29 ára hjúskaparafmæli.

Alþingi sett

10. jan. Enn er mjög kalt og þó nokkru minna frost en undanfarna daga. Alþingi var sett í dag, en margir þingmenn voru ókomnir til þings og var forsetakjöri og öðrum venjulegum störfum hins fyrsta fundar frestað.

Laxfoss strandaði

11. jan. Nú er austanstormur og skafhríð, en ólíkt frostminna en að undanförnu. Í dag ætluðum við að taka inn hrossin sem enn eru úti, en séra Gunnar kom og stansaði alllengi, leið dagurinn fljótt og varð ekki af hrossasmöluninni. Laxfoss strandaði í gærkveldi við Örfirisey á suðurleið. Mig dreymdi eitthvað einkennilega í nótt og setti það þá þegar í samband við ferð Munda suður, en hann var nú með Laxfossi. Nonni sagðist líka hafa fundið á sér að eitthvað óvenjulegt kæmi fyrir skipið að þessu sinni.

Blanda er komin á góðan ís

12. jan. Ofsarok af suðaustri var í nótt, eitt með verstu veðrum, sem hér koma. Þíðviðri hefur verið í dag en í kvöld er víst að frysta að nýju og verður lítið gagn að þessum blotanum. Björn á Löngumýri og Elli í Hlíð komu um sjöleytið í kvöld og sátu og röbbuðu þar til nú kl. tólf. Blanda er nú komin á góðan ís undan Stekkjarhólnum og er annars víða að fara saman.

Leifi ætlar að gista og spila kasínu

13. jan. Marka-Leifi kom í dag með tvö trippi sem Nonni og Mundi áttu, var annað þeirra selt austur í Akrahreppi. Enn vantar eitt trippi af heimilinu, rauðan fola sem Nonni á. Leifi ætlar að verða í nótt og spila kasínu

Gróði eftir kasínuspil!

14. jan. Leifi fór héðan um hádegisbilið og spilaði kasínu við hvern af öðrum alveg fram á síðustu stund. Átti að lokum dálítið í gróða, sem líka var heppilegra, það kann hann betur við. Næst segist hann koma í febrúar.

Kirkjukórsæfing á Æsustöðum

15. jan. Klemens kom með póstinn og hafði gist í Hólum. Nú hefur enn spillst allmikið til jarðar og verðum við sjálfsagt fljótlega að taka hrossin sem enn ganga. Við fórum öll út að Æsustöðum, pabbi og mamma með kaupfélagsbílnum um miðjan dag, en við systkinin gangandi um kvöldið og fórum þá með hest handa mömmu. Söngæfing skyldi verða hjá kirkjukórnum og komu þau úteftir líka, Inga og Baldur í Þverárdal, Elli í Hlíð og Ella í Hólum. Kl. að ganga fjögur var lagt af stað heimleiðis og hafði að vísu minna orðið úr söng en kannski var upphaflega ætlunin en hins vegar leið nóttin í glaumi og gleði enda var þá eftir 12 kominn afmælisdagurinn hans Stebba Sveins. Það skeði til á leiðinni úteftir um kvöldið að þar sem Svartá hafði ólgað heim að Kotstúni, fórum við ofan í og bleyttum okkur í fæturna, Nonni, Ella og ég, en Önnu vildi það til að hún sat þá á Val gamla og varð því af þessu ævintýri.


Dagbók færði Jónas Tryggvason reglulega í 15 ár, þar sem er að finna mikinn fróðleik um lífið í Blöndudalnum, starf karlakórsins, byggingu stórhýsis/íbúðarhúss í Ártúnum árin 1947 og 48, gengi Framsóknarflokksins og afstöðu ritarans til þess sem heyra mátti í útvarpinu, hvernig rafhlöður voru bornar milli bæja, um bithaga á jólaföstu og útmánuðum, umferð milli landshluta og svo má áfram telja. Foreldrar Jónasar, Guðrún J. Jónsdóttir og Tryggvi Jónasson, voru húsbændur í Finnstungu og Tungusystkinin 4 voru öll heima þessi jól, þau Jónas, Jón og Anna Margrét yngst en Guðmundur fór áleiðis suður 5. jan. og tapaði refaskinnunum sínum í Laxfoss-strandinu. Tíðar gestakomur voru í Tungu, Marka-Leifi, Hjörleifur Sigfússon hafði áður verið vinnumaður á 2 bæjum innarlega í Blöndudalnum, Bollastöðum og Guðlaugsstöðum en var nú búsettur í Skagafirði, en kom þaðan vestur og sinnti fjárskilum og hrossa framan af vetri eins og sést af dagbókinni. Klemens Guðmundsson fyrrum bóndi í Bólstaðarhlíð kom með póstinn og sinnti bréfahirðingu. Mynd af lúinni, svartri buddu sem Klemens setti burðargjaldið í situr enn í barnsminni ritarans. 

Systkinin í Finnstungu hétu:

Jónas Tryggvasons 1916 - 1983

Jón Tryggvason 1917 - 2007

Guðmundur Tryggvason 1918 - 2009

Anna Margrét Tryggvadóttir 1919 - 2007


Fórst togari og 29 manns

16. jan. Síðan 11. þ. m. hefur verið óttast um afdrif togarans Max Pemberton. Nú er fullvíst talið að hann hafi farist með allri áhöfn, 29 manns. Það manntjón, sem þjóðin hefur nú snögglega orðið fyrir við missi þessa eina skips jafngildir því að Bandaríkjamenn, miðað við íbúatölu, hefðu í einni orrustu misst 3 herfylki, 30 þús. hermanna og mundi það vissulega þykja ærið áfall og vandfyllt skarðið. En raunverulega er þó tjónið miklu tilfinnanlegra fyrir smáþjóð, sem þarf á öllu sínu að halda og þar verða áhrif þess allt önnur og meiri en með milljónaþjóðinni.

Silfurrefaskinn töpuðust 13

17. jan. Sigurjón í Hólum kom út eftir í dag og ætlar nú loksins að fást til að verða í nótt. Hann er orðinn furðu hress eftir veikindin í vetur og fjöri hans lítið brugðið. Í útvarpinu í kvöld var skýrt frá því sem raunar hafði gengið manna á milli að farþegafarangur allur sæti enn í Laxfossi þar sem hann liggur strandaður og var talið að honum mundi ekki verða náð. T. d. um tjón ýmissa farþega var sagt frá því að ungur maður hefði verið meðal þeirra og haft meðferðis ársframleiðslu sína og fjölskyldu sinnar af loðskinnum. Það er efalaust, að hér er átt við Munda bróður, því hann fór með 13 eða 14 silfurrefaskinn frá s. l. Ári. Mikið má það vera, ef ekki er einhverju ólagi um að kenna, hvernig þarna hefur tekist til með björgun farþegafarangursins.

Þegar Laxfoss strandaði: http://timarit.is/files/35214504.pdf#navpanes=1&view=FitH

Smalað hrossum

18. jan. Í dag og nótt hefur verið ofsaveður, af suðaustri fyrst og síðan suðvestri með snörpum rigningarhryðjum og éljum er fram á daginn kom og mátti heita stórhríð um kvöldið. Sigurjón hefur að sjálfsögðu ekkert farið í dag og er raunar hinn rólegasti. Hrossin, sem til þessa hafa gengið, voru nú rekin heim og verða tekin á hús. Enn er þónokkur hrossajörð, en veðurfarið er hins vegar svo slæmt að hross hafa ekki getað fyllt sig veðurs vegna undanfarið. Ungmennafélagsfundur átti að verða í kvöld, en að sjálfsögðu féll hann niður.

Á heimleið var kennarinn en sneri við á fundinn

19. jan. Almennur sveitarfundur og búnaðarfélagsfundur er haldinn að Bólstaðarhlíð í dag og fór pabbi einn héðan. Bjarni og Jonni komu ofan frá Vatnshlíð í morgun og sneri Bjarni hér við á fundinn. Jón Baldurs kom að Hólum í dag, með bíl að vestan og verður þar í nótt. Sigurjón lagði af stað heim um hádegisbilið.

Nágrannar komu að spila

20. jan. Fundurinn í gær stóð til kl. 3 í nótt og var furðulega vel sóttur, komu þar 25 manns. Í dag fóru pabbi og mamma fram í Hóla og mamma verður þar í nótt. Alla og Emma komu í kvöld til þess að spila og verða sennilega í nótt. Áætlunarferð var frá K.H. að Bólstaðarhlíð í morgun og í kvöld fóru tveir bílar að Fjósum. Það er nú að verða ófært með bíl þangað fram.

Tryggvi í Tungu hættir stjórn búnaðarfélagsins

21. jan. Þorri heilsar vel miðað við veðraham undanfarinna vikna. Það er stillt og gott veður í dag, aðeins nokkra stund í morgun var norðaustanskafhríð og hafði snjóað talsvert í nótt. Pétur á Brandsstöðum kom hér við um hádegisbilið, á leið út að Æsustöðum, en þar er í dag stjórnarfundur í búnaðarfélaginu. Pétur var í fyrradag kosinn í stjórnina í stað pabba en að þessu sinni fór þó pabbi úteftir líka. Þetta er að vísu gangur lífsins að nýir menn komi í stað þeirra eldri, en þó skyldu menn athuga vandlega meðan þeir eru enn í sæmilegu starfsfjöri hvort það sé með öllu rétt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að þeir séu að verða óhæfir til starfa og beri því að draga sig í hlé jafnvel þótt ýmislegt kunni að hafa gengið á annan veg en þeir hefðu kosið. Lífið er barátta og í allri baráttu er uppgjöfin hættulegust.

Stella verður áfram á Eyvindarstöðum

22. jan. Stillt og bjart veður og mikið frost, 14 stig. Mamma verður í Hólum þangað til á sunnudag en þá verður þar kvenfélagsfundur. Bíll fór í dag að Brandsstöðum með vörur á bæina hér, þangað er nú gott færi. Í gær fór einnig bíll í Brandsstaði. Helga á Eyvindarstöðum fór þá alfarin til Blönduóss með tvö börnin en Stella verður eftir hjá gömlu hjónunum.

Kvenfélags- og ungmennafélagsfundur á sama degi

23. jan. Kvenfélagsfundur í Hólum kl. 1(13) og ungmennafélagsfundur í Hlíð kl. 8 (20). Var sá síðarnefndi dauflega sóttur, en þó gengu þar inn tveir nýir félagar. Úr stjórn félagsins sem alla ber að kjósa árlega gengum við Mundi bróðir, en í okkar stað komu þeir Nonni bróðir og Elli í Hlíð. Við systkinin fórum öll uppeftir og pabbi að þessu sinni líka, því mamma var enn framfrá (í Hólum) en ég er hræddur um að honum hafi verið lítil ánægja að þessum fundi, enda var þar eigi mikið aðhafst. Ládeyða eins og víðar.

Rekin hross í hagagöngu

24. jan. Í dag kom mamma heim frá Hólum og með henni Sigurjón og Inna og ætla að verða nóttina til að byrja með. Séra Gunnar skrapp fram eftir til skrafs og ráðagerða um væntanlegan sameiginlegan fund ungmennafélaganna í Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppum. Í dag var rekinn stór hrossahópur frá Guðlaugsstöðum í hagagöngu á Stóra-Búrfelli og fyrir nokkrum dögum voru rekin 18 hross frá Barkarstöðum til hagagöngu í Æsustaðafjalli.

Spilað var á bæjunum

25. jan. Pálsmessuveðrið var svo sem best varð á kosið, alheiðskírt veður og glaða sólskin, en frost mikið og komst í 18 stig um kvöldið. (9. janúar komst frostið upp í 22 stig kl. 10 sd.)Sigurjón fór héðan úr hádeginu, út að Æsustöðum og í kvöld fóru þeir Pétur á Brandsstöðum og Nonni úteftir og ætla að spila í nótt.

Það heyrðist aðeins óskýrt í hátalara

26. jan. Nonni kom heim tæplega 6 í morgun og höfðu þeir spilað út frá fram yfir kl. 5. Baldur í Þverárdal var hér í dag, að læra bassann í sálmum fyrir næstu messu. Sigurjón Ólafsson kom í kvöld með hátalarann frá útvarpstækinu í Hólum til þess að prófa hvort í honum heyrðist hér, en það heyrðist aðeins mjög óskýrt. Það er nú sagt að Páll á Guðlaugsstöðum hafi rekið um 60 hross út að Stóra-Búrfelli í fyrradag og mun þó allmargt eftir heima. Er nú að verða mjög jarðlítið á Bugnum.

Anna skrapp til Blönduóss

27. jan. Áætlunarferð að Brandsstöðum í dag, Anna fór með henni og kom aftur í kvöld. Við Nonni settum inn allmikið af heyi úr gömlu fúlgunni við Hólhúshlöðuna. Þrír Svartdælingar sem fóru með bílnum úteftir í kvöld, báðu hér fyrir tvo hesta til morguns, en skildu eftir sleða við ármótin. Hlíðarfjall er nú að verða hálfslæmt fyrir bíl vegna svellalaga.

Heilsuleysi í kindum JT

28. jan.Sigurjón kom úteftir í dag til þess að sækja Innu, en hún hefur verið hérna síðan á mánudag og virst una sér hið besta. Eitthvað verð ég að breyta til með kindurnar mínar, því heilsuleysi, af hverju sem það stafar, er að gera vart við sig í þeim. Væri ef til vill bót að því, ef skipt væri um hey að einhverju.

Fyrsta söngæfing á nýja árinu

29. jan. Söngæfing hjá karlakórnum var boðuð kl. 4 en menn komu raunar á tímanum frá 5-7, 11 félagar mættu en 6 vantaði. Þrátt fyrir þetta var reynt að syngja svo sem efni og kraftar stóðu til og nokkuð var spjallað um framtíðina enda þótt það leiddi ekki til neinnar fullnaðarniðurstöðu í því efni. Það hefur jafnan verið erfitt að halda saman þessum félagsskap og síst fara þeir erfiðleikar þverrandi. Allur félagsáhugi, á hvaða sviði sem er, virðist ganga í öldum og við erum hér vissulega á leið niður á við, hvort sem langt eða skammt er niður í öldudalinn. Tíminn sker úr því.

Stúlkur fara um dalinn

30. jan. Í dag hefur verið leiðinlegt veður, suðaustankrassi með mikilli úrkomu, krepjuslettingi og síðar rigningu. Má vera að úr þessari veðráttu verði hláka að

gagni, en það eru þó minni líkindi til þess. Anna fór fram að Eyvindarstöðum í morgun og kom aftur í kvöld. Bára á Brandsstöðum kom snöggvast í dag.

Hláka í vændum

31. jan. Svipað veður og í gær en þó minna úrfelli. Frost var í nótt og bræddi yfir allt. Má nú segja, að jarðlaust sé að verða með öllu. Anna fór yfir að Löngumýri í dag með sýrugeymi frá Syðrakoti, sem við höfum haft að láni frá því um nýár en datt á leiðinni og geymirinn brotnaði. Ég spilaði undir tóftina mína, þorði ekki annað og þó hefði sennilega verið óþarfi að vera mjög hræddur við asahláku.

Grúi nafna og persóna sópast að í hugum kunnugra þegar dagbókarfærslur Jónasar í Tungu eru lesnar, iðjað er á fjölmennum sveitaheimilum fram allan dal, tekið í spil og spjallað við gesti. Á fremsta bænum í austanverðum dalnum Bollastöðum búa Ríkey Gestdóttir og Bjarni Jónsson sem höfðu búið með börn sín ung í Kálfárdal á Skörðum, en keyptu síðar Bollastaði af Unni Pétursdóttur og Pétri fóstursyni hennar sem fluttu sig þá út í Brandsstaði.

Á Eyvindarstöðum búa Jósefína og Ólafur, fyrrum Merkurbændur ásamt börnum sínum Pálma, Helgu og Sigríði síðar húsfreyju í Ártúnum. Helga María Ólafsdóttir á Skafta Kristófersson fyrir mann og flytur til hans út á Blönduós/Hnjúkahlíð með tvo syni þeirra Ingimar og Sverri, en elsta barn þeirra, Stella, verður eftir hjá þeim Jósefínu, ömmu og afa fram á Eyvindarstöðum. 

Í Blöndudalshólum búa náfrændur þeirra Tungumanna, gamla konan er elsta systir Guðrúnar húsfreyju í Tungu, heitir Ingibjörg Sólveig Jónsdóttir, komin á níræðisaldur og hefur verið rúmliggjandi um tíma en Sigurjón, maður hennar, áratug yngri, léttur á fæti og er aufúsugestur í Tungu. Dóttir þeirra, Anna Margrét, er gift Bjarna Jónassyni kennara og eru þau aðalbændurnir í Blöndudalshólum. Börn þeirra eru Ingibjörg 18, Elín 16, Jónas 11 og Kolfinna 6, Sigurjón 2 ára(lést 1945) og þetta ár fæðist yngsta barn þeirra, Ólafur Snæbjörn 1944-2009. Einnig eru gömlu Hólahjónin foreldrar Jón S. Baldurs sem lengi stjórnaði Kaupfélagi Húnvetninga á Blönduósi.

Í vefskráningu er fjölda daga sleppt og dagbók hefst næst á afmælisdegi höfundar sem byrjar daginn á því að leiðrétta ranga dagsetningu flokksþingsins fyrr í dagbókinni.

Afmælisdagur - Jónas 28 ára

9. febrúar Það er 12. apríl en ekki 12. febrúar sem 7 flokksþing Framsóknarmanna er fyrirhugað og var raunar trúlegra. En það er annars afmælisdagurinn minn í dag og nú hringdi enginn til mín í tilefni dagsins. Frænka mín í Hólum hefur gert það frá því ég fyrst man eftir, en hún er nú rúmföst síðan í nóvember.

Einlægt gestir

10. febrúar Unnur á Brandsstöðum kom í dag og ætlar að verða í nótt. Alltaf finnst mér hún góður gestur. Sigurjón kom líka í dag og færði mér afmælisgjöf frá Imbu frænku, stækkaða mynd af afa. Þannig mundi hún afmælisdaginn minn nú.

Góð hláka

11. febrúar Alla og Dóri komu í kvöld og spiluðu. Bjarni á Bollastöðum er lagður af stað í miðsvetrarskoðun hér í dalnum og verður hér í nótt. Í dag hefur verið suðaustanþýðviðri en lítið tekið í. Má vera að úr þessu verði góð hláka, að minnsta kosti segir Bjarni það.

Skoðaðar heybirgðir

12. febrúar Bjarni skoðaði hér í dag. Hann telur féð í sæmilegu lagi og giskar á að heyin séu um 800 hestar en þau munu tæplega vera svo mikil.

Önnur söngæfingin stóð í nærri 8 tíma

13. febrúar Söngæfing á Eiríksstöðum kl. 5 og stóð í tæpa 8 tíma eða til kl. nærri 3 um nóttina. Voru nú allir mættir og tókst æfingin eftir ástæðum mjög vel og miklum mun betur en ég hafði leyft mér að vonast eftir. Það var nú einmitt söngurinn sjálfur, sem náði sínum góðu áhrifum á hópinn, að minnsta kosti öðru hvoru en vissulega var minna rætt um framtíðina en oft áður og ég held raunar að það hafi verið það heppilegasta þegar tillit er tekið til allra kringumstæðna. En hvernig reiðir nú þessu af næsta laugardag ef það kemur þá á daginn sem hálft í hvoru er búist við -

Kórsöngur gekk vel

20. febrúar Söngur karlakórsins gekk eftir atvikum vel og betur en ég átti von á eftir aðeins eina æfingu.(Þorrablótið var í Þinghúsinu, 70 manns frá 24 bæjum í sveitinni)

Vorinngöngudagur liðinn

22. mars Vorinngöngudagurinn var í gær og var einhver blíðasti dagurinn, sem komið hefur nú um alllangt skeið eða frá því í góubyrjun. Það er talið, að nokkrir bændur í sveitinni, séu nú svo tæpt staddir með hey, að þeir muni alls ekki þola jafn kalt vor og í fyrra.

Unga fólkið skreppur til næstu bæja

23. mars Nonni fór fram að Brandsstöðum, en í dag er afmælisdagurinn hans Péturs. Anna fór yfir að Löngumýri til þess að sækja rafgeymi, en þá var hann orðinn afhlaðinn og kom hún við svo búið, en það má sækja hann fljótlega.

Afmælisdagur Jónasar eldri í Tungu

24. mars Það er afmælisdagurinn hans afa í dag, sá áttundi síðan hann dó.Ósjálfrátt leitar hugurinn til baka og staðnæmist við fyrstu ljósu minninguna, sem ég á um afa. Ég mun þá hafa verið þriggja ára. Það var vorkvöld, sennilega seint í maí. Afi tók mig við hönd sér og leiddi mig suður túnið. Í túnjaðrinum sunnan og neðan við réttahúsið var lambær í tjóðri, tvævetla sem vildi ekki lofa lambinu að sjúga. Hún lá og jótraði þegar við komum, en lambið kom hlaupandi sunnan úr móunum, það vissi víst hvað til stóð. Ærin stóð upp, jarmaði móti lambinu og lét vel af því, en þegar það vildi sjúga, hrökk hún undan og sýndi sig þá jafnvel líklega til að berja það. En þá kallaði afi til hennar höstum rómi og sagði henni að standa kyrri - og viti menn, þetta hreif, ærin stóð kyrr og lambið saug. Við og við stillti hún sig þó ekki um að taka smákippi, sem urðu til þess að lambið missti af spenanum, en þá kallaði afi til hennar á ný og hún stóð aftur kyrr, en lambið saug. Loks hafði það fengið nægju sína og þá héldum við heimleiðis. Sólin var að hníga til viðar, en varpaði þó enn gullnum roða á hálfgrænkað túnið. Frá fjárhúsglugganum fyrir ofan bæinn köstuðust geislar hennar til okkar, þegar við gengum heim hólinn. Þetta löngu liðna vorkvöld hefur í minningunni öðlast sinn sérstæða blæ og á sér þar enga hliðstæðu. Síðan hefur mér aldrei fundist kvöldsólin skína á sama hátt og þá og síðan hefur hálfgróið heldur aldrei haft sama svip. En í hvert sinn er gluggarúður Hólhúsanna endurkasta til mín geislum kvöldsólarinnar á vorin, minnist ég þessarar stundar frá minni fyrstu bernsku.

Jónas afi Tungusystkina var fæddur 24. mars 1848 og hugur nafna hans og sonarsonar hlýnar sýnilega þegar hann minnist afa síns, þó 8 ár séu frá andláti hans, Jónas Jónsson í Finnstungu lést 19. nóvember 1936.

Dagbókafærslur frá söngferð kórsins yfir í Varmahlíð þremur árum síðar: http://stikill.123.is/blog/2009/04/28/370751/

Fóðurbirgðamál og hreppsnefndarfundur

25. mars Í dag var hreppsnefndarfundur í Hlíð og fór pabbi upp eftir um tvöleytið en kom aftur klukkan að ganga níu. Pétur á Brandsstöðum kom um hádegið með tillögur í fóðurbirgðamálunum frá nefnd sem kosin var á sveitarfundi í vetur til þess að gera tillögur um þessi mál. Skyldu þær lagðar fyrir sveitarfund síðar í vetur. Í nefndinni voru: Pétur á Brandsstöðum, Sigurður á Leifsstöðum og Haraldur í Gautsdal.

Ingibjörg í Hólum dauðvona

26. mars Sunnudagur. Jón Baldurs kom fram að Hólum í dag - ólæsilegar tvær línur um vanheilsu Ingibjargar móður hans - ólíklegt að hún haldi þetta lengi út ef ekki verður hér um breytingu til batnaðar að ræða. Þeir komu einnig fram eftir, Friðfinnur og Aggi. Þ.e. Friðfinnur hreppsstjóri á Blönduósi bróðir Ingibjargar og Jóhann Baldurs, sonur Jóns, gælunafn Aggi.

Guðlaugsstaðahrossin sótt út að Búrfelli

27. mars Það má heita blíðuveður á hverjum degi, en dálítið frost er að nóttunni. Svo að segja snjólaust er nú orðið hér að austanverðu, aðeins gaddur í dýpstu lautum. Heldur mun þó snjórinn fara vaxandi, er framar dregur og á hálsinum er enn mikill gaddur. Í vikunni sem leið sótti Páll á Guðlaugsstöðum hrossin, sem gengið hafa á Stóra-Búrfelli síðan á þorra. Guðmundur í Hólum kom í dag með skattaskýrsluna sína en Þorgrímur kom með sína í fyrradag.

Söngvasamkeppni í umsjón Páls Ísólfssonar

28. mars Afmælisdagurinn hans Nonna. Kyrrlátur dagur og allir heima, en enginn kom. Ég skrifaði Páli Ísólfssyni í gær nokkrar athugasemdir í tilefni af hinni væntanlegu söngvasamkeppni, sem hann er nú að stofna til, en ýmislegt, sem fram mun koma í dagsljósið í sambandi við hana, mun vissulega verða allmerkilegt og girnilegt til fróðleiks ef rétt er á haldið. M.a.s. mun það sýna sig, að eldra fólkið kann nú meira af sönglögum en það yngra, því að það er nú mjög algengt, að unglingar læri helst ekki önnur lög en þau dans og dægurlög, sem á hverjum tíma eru mest í tísku en hávaðinn af því samsafni getur naumast til tónlistar talist. Söngtextar þessara tónsmíða eru og oftast í samræmi við umgerðina.

Raddæfing fyrir milliraddir

29. mars Raddæfing var hér í dag fyrir milliraddirnar, voru 5 mættir, en 2 vantaði, þó varð allmikið gagn af deginum fyrir þá sem komu. Ungmennafélagsfundur verður í Hlíð í kvöld, en ég er hræddur um að hann kunni að verða hálfilla sóttur að þessu sinni og ber margt til þess.

Ungmennafélagsfundur

30. mars Pabbi fór til Blönduóss með áætlunarferð sem var að Hlíð í morgun, en í kvöld fór bíllinn að Fjósum. Á fundinum í gærkveldi voru 15 félagsmenn mættir en auk þess gekk einn í félagið, Þorbjörn á Strjúgsstöðum. Fundurinn stóð yfir í tæpa 2 tíma og var frekar daufur. Ágætt umræðuefni sem Guðmundur á Eiríksstöðum hafði framsögu í, var lítið rætt, en það var efni og uppistaða skáldsögunnar: Dagur í Bjarnardal. Fundurinn var allt of fámennur til að fjörugar umræður gætu tekist, jafnvel um góð umræðuefni svo sem þetta var.

Bíll með fisk af Skagaströnd

31. mars Pabbi fór fram að Hólum í dag. Þar er allt við sama og þó stefnir raunar alltaf í sömu áttina. Það er ætlunin að reyna að fá lækninn upp eftir á morgun með bíl sem flytur vörur hér í dalinn. Í nótt sem leið kom bíll að Hólum og Hlíð, með fisk af Skagaströnd.

Kóræfing féll niður

1. apríl Læknirinn kom að Hólum í dag. Deildafundir hjá K.H. og S.A.H voru í Engihlíð. Söngæfing hjá karlakórnum sem átti að vera hér í dag, féll niður vegna lasleika tveggja félaganna.

Kirkjukórsæfing á Æsustöðum

2. apríl Kirkjukórsæfing á Æsustöðum og voru sjö félagar mættir. Í gær og dag hefur verið feikna kalt, norðaustanstrekkingur með dálitlum fjúkslitringi, sem þó hefur ekki fest hér fyrr en í kvöld að það gránaði í rót. Hins vegar hafa fjöllin út eftir verið alhvít síðan í gærmorgun. Í dag barst fregn um að ís væri orðinn landfastur á Siglufirði, en sæist auk þess frá ýmsum stöðum við utanverðan Eyjafjörð.

Hvað sem úr verður þeirri bliku?

3.apríl Í dag hefur verið austanátt og miklum mun mildara veður en undanfarna tvo daga og seinni partinn þykknaði upp af suðaustri, hvað sem úr verður þeirri bliku. Skattanefndarfundur átti að hefjast hér í dag, en var aflýst í gær af formanni. Póstferð verður frá Reykjavík fyrir Hvalfjörð á morgun og á að fara landleiðina til Akureyrar. Er því sennilega ófær siglingaleiðin fyrir Siglunes.

Unnið við frágang á íbúðarhúsi á Höllustöðum

4. apríl Pabbi fór upp að Fjósum til þess að skrifa upp dánarbú Hjálmars heitins. Ólafur Eiríksson kom frá Höllustöðum í kvöld og ætlar með póstferðinni norður í fyrramálið. Hann hefur nú verið rúman mánuð á Höllustöðum, aðallega við múrun, en þó var hann einnig við strigaklæðningu og dúklagningu síðustu dagana.

Gaddurinn þaulsætinn norðan við bæinn

5. apríl Það er blíðviðri þessa dagana en þiðnar að vísu lítið því eitthvert frost er jafnan að nóttunni. Í dag tók upp síðasta svellglottann hér norðan við bæinn, en þar er oft gaddurinn einna þaulsætnastur á vorin, að undanteknum skaflinum í garðinum, sem aldrei tekur upp fyrr en löngu eftir að allur annar snjór er á braut hér nyrðra.

Kóræfing - sumir illa fyrir kallaðir

Skírdagur Karlakórsæfing var hér í dag og mættu nú allir nema Pétur á Höllustöðum og Daddi á Steiná. Æfingin var boðuð kl. 12, en flestir Svartdælingarnir komu ekki fyrr en 1-2 og var því tíminn afsleppur sem stundum fyrr. Ýmsir voru auk þess illa fyrirkallaðir og varð frekar takmarkað gagn af deginum.

Messað í Hlíð

Föstudagurinn langi. Messað í Hlíð og fórum við systkinin til kirkju. Um 20 manns voru við messu. Í dag hefur verið fagurt veður, stillilogn og glaðasólskin.

Fundarmenn guldu jákvæði við sameiningu

8. apríl Deildafundir K.H. og S.A.H. voru haldnir hér í dag, en vegna veikinda í Hólum gat Bjarni ekki haft þá heima hjá sér að þessu sinni. Á kaupfélagsfund-inum sem fyrst var tekinn fyrir mættu 39 félagsmenn og er það betri sókn en að undanförnu. Hins vegar sátu ekki nema 18 félagsmenn sláturfélagsfundinn og stóð hann aðeins skamma stund eða um hálfan annan tíma. Fundartími var boðaður kl. 12, en fundurinn var ekki settur fyrr en kl. 2 og þegar síðari fundinum lauk var klukkan langt gengin 12. Á kaupfélagsfundinn mættu framkvæmdastjóri félagsins, Jón S. Baldurs og formaður þess Hafsteinn Pétursson svo og stjórnarnefndarrmaðurinn Steingrímur Davíðsson. Fundurinn fór í aðalatriðum mjög friðsamlega fram og stakk að ýmsu leyti allmjög í stúf við ýmsa nýafstaðna deildafundi í héraðinu, en þar hafa meira og minna tilbúin árásarefni á félagsstjórnina verið gerð að höfuðmáli fundanna og enda víða komið fram vantraust á stjórnina. Ég fæ ekki betur séð en hér sé markvisst og ákveðið að því stefnt að auka sundrung og upplausn í félaginu og er slíkt illt verk og ósæmandi þeim sem telja sig vera í hópi samvinnumanna. Óánægjuraddir þær sem uppi voru í fyrra vegna afstöðu deildarfulltrúanna á aðalfundi K.H. í framkvæmdastjóramálinu létu nú ekki á sér bæra og sömu fulltrúarnir voru nú kosnir með 22-25 atkvæðum, en aðrir hlutu mest 3-4 atkv. Á sláturfélagsfundinum var samþykkt að viðhöfðu nafnakalli tillaga um sameiningu félaganna og guldu henni allir fundarmenn jákvæði.

Páskadagur Rólegur dagur eftir ysinn og erilinn í gær. Í dag hleypti ég út, í fyrsta sinn kindunum mínum og þó raunar ekki öllum, því að fjórða partinum hélt ég eftir og fara þær varla út á næstunni.

Annar í páskum Á morgun ætlar skattanefndin að setjast á rökstólana og verður fundur hér hér að þessu sinni. Ég hef nú skrifað upp rúml. 1100 lög, sem ég kann, þó hef ég enn ekkert tekið með af danslögum né rímnalögum.

11. apríl Fundur skattanefndarinnar hófst í dag og kom Stefán hingað í gærkveldi en séra Gunnar í morgun.

12. apríl Flokksþing Framsóknarmanna var sett í Reykjavík í dag. Nær 300 fulltrúar munu sitja þingið. Gjarnan vildi ég vera horfinn suður þessa dagana en um slíkt er nú ekki að fást . . .

Gamall nágranni kemur í kynnisferð

13. apríl Nonni fór til Blönduóss í dag með áætlunarferð, sem var að Hlíð. Skarphéðinn kom með honum í kvöld, hann er furðanlega hress svo lengi sem hann er búinn að stríða við þrálátan og mjög slæman hjartasjúkdóm. Séra Gunnar skrapp heim til sín í kvöld. Það er hæpið að skattanefndarstörfum verði lokið fyrir helgi.

Andlát Skarphéðins Einarssonar

14. apríl Þessi furðanlega dagur verður mér lengi minnisstæður. Framan af var hann í fáu frábrugðinn undanförnum dögum. Skattanefndin sat að sínum störfum sem fyrr og Nonni var alllengi dagsins að færa skýrsluna hans Munda. Þau Skarphéðinn og Anna höfðu setið við að spila síðari hluta dagsins, en rétt fyrir kl. 7 þurfti hún að víkja sér frá til þess að hjálpa mér að láta inn kindurnar. Þá var það er Skarphéðinn stóð upp frá spilunum að hann kvartaði um óvenjulega sára stingi fyrir hjartanu og sagðist ætla að leggja sig stundarkorn. Síðan gekk hann úr eldhúsinu, inn í litla herbergið og settist á rúmið þeirra pabba og mömmu. Aðeins örlítilli stundu síðar heyrði mamma, sem var fyrir framan lága stunu eða andvarp frá honum og hafði hann þá hnigið aftur á bak í rúminu. Hún kallaði þegar í stað á pabba, en er hann kom að, hafði Skarphéðinn tekið síðustu andtökin og var liðið lík. Enda þótt þessi dagur væri á yfirborðinu öðrum dögum líkur, þar til þetta gerðist, þá fannst mér hann, þegar frá byrjun hafa yfir sér sérstakan blæ, en því mun hafa valdið draumur, sem mig dreymdi í nótt, ef það var þá draumur. Ég hrökk upp og glaðvaknaði allsnemma nætur við einhvern ókennilegan háan brest, sem mér fannst alveg ganga í gegnum mig um leið og ég vaknaði. Á sömu stundu varð ég sannfærður um að Skarphéðinn væri dáinn, en ég gat ekki hreyft mig og ekkert sagt og get raunar ekki gert mér fulla grein fyrir ástandi mínu um stund, en ég komst aftur fullkomlega til sjálfs mín við að heyra hósta eða ræskingu frá Skarphéðni handan úr stofunni, sem hann svaf í. Ég reyndi að bægja frá mér hugsunum um þetta, en það gekk illa og svaf ég sem ekkert úr þessu. Þegar ég fór á fætur um morguninn, fannst mér ég hafa jafnað mig á þessu og setti þetta helst í samband við það hvað mér brá þegar ég vissi að Skarphéðinn var kominn í gærkveldi. En hugsunin um þetta vék þó varla frá mér í dag og þegar ég kom sunnan úr húsinu í kvöld og Nonni sagði mér hvað fyrir hefði komið, fannst mér næstum óviðfeldið að mér varð ekkert bilt við en þannig var það.

Tómleikinn eftir lát góðs granna

15.apríl Það hefur verið eyðilegt og tómlegt hér í dag og nóttin var ýmsum alllöng því jafnvel þó það sem gerðist í gærkveldi sé raunverulega eðlilegur og gleðilegur viðburður, að gamall maður, saddur lífdaga, fær að flytja sig á þann hægasta og besta hátt, sem við mundum óska okkur, þá veldur atburður sem þessi óhjákvæmilega miklu hugarróti og hlýtur á vissan hátt að setja hugsunina úr jafnvægi í bili. Séra Gunnar og Stefán fóru út að Æsustöðum í gærkveldi og Nonni fór þangað í morgun til að hjálpa þeim við skýrslurnar í stað pabba sem fékk sig ekki til að fara. Það barst í tal hjá Skarphéðni í gærmorgun, um þrengslin hér og óþægindin, sem hann gerði með því að fara ekki að Hólum þá um daginn, svo sem hann hafði víst hugsað sér, en hvarf aftur frá því. Ýmislegt -- í gamni og alvöru -- var sagt í sambandi við þetta, en að síðustu sagði mamma: Ég býst við því að drengirnir hafi ekkert á móti því að skjóta yfir þig skjólshúsi í herberginu sínu. Já, kannski við höfum það þannig svaraði Skarphéðinn og þar er nú verustaður hans, síðustu dagana sem hann dvelur hér á heimilinu.

Lýkur vinnu skattanefndar

16. apríl Sunnudagur. Pabbi fór í morgun út að Æsustöðum, en þeir búast við að geta gengið frá skattskránni í dag. Hér heima ber lítið til tíðinda og er heldur þungt yfir öllum. Veðrið er líka mjög leiðinlegt, sunnankaldi með snjóslitringi, var alhvítt í morgun og í dag hefur ekkert klökknað, en alltaf heldur bætt á snjóinn.

Mæðginin ein heima

17. apríl Pabbi er enn ókominn frá Æsustöðum og er líklegast, að hann komi ekki fyrr en seint í kvöld. Nonni fór upp að Hlíð og Anna yfir að Löngumýri svo við mamma erum ein heima. Ég hef sofið mjög illa undanfarnar nætur síðan á föstudagsnótt og hef áreiðanlega ekki jafnað mig eftir það, sem þá kom fyrir mig. Ég get helst líkt hugarástandi mínu nú við það hugarástand, sem ég var í fyrri hluta ferbrúar í vetur, en þá hafði mig dreymt draum, sem hafði alveg einstakan óhugnað yfir sér. En þetta jafnar sig.

18. apríl Rólegur dagur og bar ekkert til tíðinda.

Kistulagning

19. apríl Í dag var kistulagt. Þau hjónin Ósk og Guðmann komu utan að, en Inga var lasin og treysti sér ekki. Auk þeirra voru hér viðstödd: Sigurjón og Anna í Hólum og Jón á Eyvindarstöðum. Mundi bróðir kom í gærkveldi þegar við vorum í þann veginn að hátta. Sumardagsfagnaði ungmennafélagsins, sem vera átti á morgun, hefur verið aflýst. Kistan var flutt í Bólstaðarhlíðarkirkju í kvöld í kvöld. Nú hefur blessaður gamli maðurinn kvatt í síðasta sinn þetta heimili, sem svo oft og mörgum sinnum hefur orðið aðnjótandi ylsins af nærveru hans.

Kuldalegur sumardagur

Sumardagurinn fyrsti Söngæfing var á Eiríksstöðum í dag. Mættu allir nema tveir. Lasleiki hefur gengið hér að undanförnu og voru margir illa fyrirkallaðir, en þrátt fyrir það varð furðu mikið gagn að þessari æfingu. Sumardagurinn fyrsti var að þessu sinni hálf kuldalegur, norðaustanstrekkingur um morguninn og fór að snjóa þegar úr hádegi. Var komið talsvert föl þegar við komum heim í kvöld.

Lóan farin að syngja

21. apríl í dag hefur tekið upp að mestu snjóinn sem kom í gær en þó er hálfkalt og hráslagalegt og snjóar sennilega meira. Samt er lóan nú farin að syngja og hefur það alltaf sín góðu áhrif hvernig sem veðrið annars er.

Gemlingar brennimerktir

22. apríl Enn snjóaði dálítið í nótt, en hefur tekið upp að mestu aftur í dag. Það er nú rúmur hálfur mánuður síðan fé var sleppt á Eiríksstöðum og í Stafni, en annars staðar hefur hvergi verið sleppt ennþá. Í dag brennimerktum við alla gemlingana. Þeir eru nú alls 63 og hefur enn ekkert misfarist af þeim lömbum af þeim lömbum sem sett voru á vetur.

Besta kóræfingin á vetrinum

23. apríl Sunnudagur. Karlakórsæfing var hér í dag. Allir mættu nema einn og varð þetta besta æfingin á vetrinum. Það er nú ákveðið að syngja við jarðarför Skarphéðins heitins 29. þ. m., en áður hafði verið lofað söng 1. maí á Blönduósi.

Klökknar naumast

24. apríl Það hlýnar hægt í tíðinni. Í dag er einna kaldast það sem hefur verið um skeið, norðaustangola og klökknar naumast það sem fraus í nótt.

Vegafélagsfundur í Hólum

25. apríl Vegafélagsfundur var í Hólum í dag og fórum við feðgarnir allir fram eftir. Á fundinum voru mættir 14 félagar og er það ágæt sókn. Allmiklar umræður urðu um framtíðarstarfsemi félagsins, en að lokum varð samkomulag um svipaða og undanfarið hefur verið fylgt um framkvæmdir á félagssvæðinu. Pabbi átti að ganga úr stjórninni og baðst undan endurkosningu en í hans stað var Ólafur á Eyvindarstöðum kosinn í stjórnina. Fyrir voru í henni, Bjarni í Hólum, formaður og Guðmundur í Austurhlíð. Við sóttum vel að frænku minni, hún var með hressara móti í dag, en mjög hefur nú gengið á hana frá því er ég sá hana síðast, en það mun hafa 2. janúar í vetur. Þetta er vafalaust í síðasta skipti sem ég sé hana blessaða.

Slabbsamt og stórir lækir

26. apríl Mjög mikið úrfelli hefur verið í nótt og dag, framan af nóttinni snjókoma, en síðan rigning, sem hélst af og til fram um miðaftan. Er nú orðið æði slabbsamt og renna stórir lækir hér og þar. Sennilega verður þetta þó aðeins snúningur, en ekki varanleg sunnanátt.

Önnur sumarvika að byrja

27. apríl Enn snjóaði í nótt og í dag er norðanátt og kaldara. Sumrinu skilar hægt þótt nú sé að byrja önnur sumarvikan. Það lifnar samt dálítið í jörðu vegna fölsins sem skýlir nú flestar nætur fyrir frostinu. Ólafur gamli Bjarnason kom í dag og verður í nótt - að minnsta kosti. Hann er nú á leið vestur yfir Blöndu, að Syðri-Löngumýri, enda þótt hann sé að þessu sinni ekki alls kostar viss um að hann eigi þar nú hross, sem hann hefur gjarnan svo viljað vera láta hingað til, en hann fékk þaðan vitlaust hross í fyrra, segir hann.

Ólafur Bjarna situr um kyrrt

28. apríl Mundi fór út að Æsustöðum í morgun til þess að vinna þar eitthvað ásamt Birni Einarssyni, en hann verður þar í dag og ef til vill að einhverju leyti á morgun líka. Ólafur gamli situr um kyrrt í dag og er nú raunar hættur við að fara vestur yfir, en ætlar í þess stað fram í Brandsstaði á morgun. Mörg snilliyrði hefur hann sagt hér síðan hann kom í gær og væri gaman að skrifa eitthvað af því niður, en það verður víst að bíða betri tíma.

Jarðarför Skarphéðins

29. apríl Jarðarför Skarphéðins Einarssonar fór fram að Bólstaðarhlíð í dag að viðstöddu miklu fjölmenni, nokkuð yfir hundrað manns. Veðrið í morgun var mjög leiðinlegt., feikna úrfelli og orðið ákaflega blautt um, en um hádegi létti til og eftir það var sólskin og blíðuveður. Til jarðarfararinnar komu 3 fullskipaðir bílar af Blönduósi og utan úr sveitum og 1 norðan af Sauðárkróki. Við fórum öll uppeftir og komum heim um sjöleytið í kvöld. Ég held að líkræðan sem séra Gunnar flutti að þessu sinni hafi verið ein sú besta sem ég hef heyrt til hans og tekst honum þó vel við slík tækifæri.

Ingibjörg, móðursystir JT, fær sakramentið heima

30.apríl Unnur gisti hér í nótt á heimleið frá jarðarförinni og fylgdi Nonni henni fram eftir í morgun. Pétur rak í dag fram í hólf flestar ærnar og sleppti þeim þar. Við fórum öll fram að Hólum seinni partinn í dag, en þangað kom sr. Gunnar í kvöld eftir að hafa messað á Holtastöðum til þess að þjónusta Ingibjörgu en það er sýnt að hverju dregur með hana. Svo fór það, að enn einu sinni átti ég eftir að sjá hana, þótt ég byggist ekki við því.

Skemmtun á Blönduósi

1. maí Við fórum til Blönduóss, öll nema mamma, en Jonni í Hólum var heima hjá henni. Á Blönduósi var samankomið mikið fjölmenni. Héðan úr sveitinni munu hafa verið út frá um 40 manns. Við sungum tvisvar, kl. 6 og kl. rúmlega

10, í hvor tveggja skiptin að afloknum leiknum, sem var Ráðskona Bakkabræðra og var húsið fullskipað í bæði skiptin. Söngurinn tókst allvel. Við sungum 8 lög í hvort sinn og urðum að endurtaka helming þeirra, en að lokum sungum við 1 aukalag. Ég held að fólkið hafi verið vel ánægt með sönginn og það er fyrir mestu.

Seint komið heim úr söngferð

2. maí Við komum heim kl. 4 í nótt og var þá norðaustanstrekkingur með talsverðu frosti og dálítilli snjókomu. Nonni varð eftir á Blönduósi, en hann ætlar suður á morgun, snögga ferð. Í dag hefur verið mjög kalt og ekki tekið upp að fullu fölið sem kom í nótt.

Ekkert sumar enn

3.maí Nú var geysilegur gaddur í nótt og klökknaði seint í dag. Nú er hálfur mánuður af sumri og þó er enn ekkert sumar.

Lítið farið að vinna á

4. maí Nú hefur hlýnað í lofti, m. k. í bili og var lítið frost í nótt, en frost hefur verið allar nætur það sem af er sumrinu að undantekinni einni eða ef til vill tveimur. Enn er mjög lítið farið að vinna úti, þó hefur verið gripið í að bera á og dálítið mokað úr. Í gær fóru Brandsstaðahjónin til Reykjavíkur, koma sennilega aftur um næstu helgi. Guðmundur í Hólum er búinn að vera vikutíma fyrir sunnan að leita sér lækninga og er enn óvíst hvenær hann kemur heim.

Ólafur kominn aftur

5. maí Við systkinin fórum á kirkjukórsæfingu að Æsustöðum kl. 8 í gærkveldi og komum heim kl. rúml. 2 í nótt. Á æfinguna mættu 10 manns og varð okkur allmikið gagn að henni. Í dag kom Ólafur gamli aftur framan úr dalnum og er að hugsa um að verða í nótt fyrir það fyrsta. Nú er komin sunnanátt og þýðviðri og var sem ekkert frost í nótt.

Lambakóngurinn fæddur niður í Koti

6. maí Í dag er sunnangola og blíðviðri og er sumarið nú vonandi að koma. Óli gamli fór héðan um miðjan daginn út að Æsustöðum en þóttist mundi koma að Hlíð á morgun og kveða þar. Það er ætlunin að sumarfagnaður ungmennafélagsins sem féll niður á sumardaginn fyrsta verði þar á morgun að aflokinni messu. Í nótt fæddist lambakóngurinn hér, ær sem Nonni á í Kotinu bar, sennilega aðeins fyrir tal.

Sumarfagnaður og Ólafur Bjarnason kvað

7. maí Sunnudagur Sumarfagnaðurinn hófst með messu kl. 12 og var allmargt fólk við kirkju. Síðan voru ýmsir útileikir fram um kl. 5, en þá hófst bögglauppboð skólabarna til ágóða fyrir ferðasjóð þeirra. Mun talsverð upphæð hafa komið inn fyrir bögglana. Sameiginleg kaffidrykkja var um miðjan daginn og kvað Ólafur Bjarnason á meðan. Samkomuna sóttu alla um 70 manns.

Alhvítt og driftir

8. maí Nú var alhvítt í morgun og dálitlar driftir, sem naumast tóku til fulls upp í dag. Það virðist enn ekki vera að ræða um varanleg hlýindi, en ýmsir munu nú hafa sleppt fé undanfarna góðviðrisdaga. Niðurjöfnunarfundur hreppsnefndarinnar verður hér að þessu sinni og settist hún á rökstóla í dag.

Lambadrottningin fædd

9. maí Lambadrottningin fæddist í nótt og Nonni á hana eins og lambakónginn. Hreppsnefndin hefur að mestu lokið við niðurjöfnun útsvaranna, en þó munu þeir verða hér á morgun líka en þá hafa þeir kvatt fóðurbirgðanefndina á sinn fund.

Spóinn lét í sér heyra

10. maí Hreppsnefndarmennirnir héldu heim í kvöld. Jafnað var niður að þessu sinni nál. 22 þús. kr. en það er rúmlega 5 þús. kr. hærra en í fyrra. Hæsta útsvar var kl. 1060 á Hafsteini á Gunnsteinsstöðum. Enn er hálfhráslagalegt veðrið, en í dag heyrði ég fyrst til spóans.

Lokið við Bör Börsson

11. maí Anna og Mundi fóru til Blönduóss með áætlunarferð sem var að Hlíð í dag. Mjög kalt hefur verið í dag og fór að frjósa úr miðjum degi. Í gærkveldi lauk í útvarpinu hinni margumtöluðu sögu, Bör Börsson, sem Helgi Hjörvar hefur flutt þar síðan um áramót. Þessi saga er á vissan hátt táknræn fyrir yfirstandandi tíma. Höfuðpersóna hennar, Bör Börsson, ófágaði spjátrungurinn, sem slembilukkan hossar stöðugt hærra og hærra, að mestu án hans tilverknaðar eða verðleika, er vissulega trútt sýnishorn margra slíkra manna, sem nú vaða uppi með okkar þjóð, ef til vill í hlutfallslega stærri stíl en hjá ýmsum öðrum þjóðum. Þessir menn eru að vísu oftast sjálfum sér verstir, en þó hefur fordæmi þeirra jafnan ótrúlega djúptæk áhrif á allt umhverfi þeirra og þar í liggur höfuðhættan af tilvist þeirra.

Hret og innistaða

12. maí Hið nýbyrjaða sumar hefur aldrei verið svo fjarri sem í dag. Nú er norðaustanhríðarveður með miklu frosti svo að ekki klökknaði hið allra minnsta um hádaginn en snjókoma hefur þó verið mjög lítil hér og er í rauninni aðeins föl ennþá. Í dag hefur verið innistaða á öllu fé hér og notuðum við tímann og bólusettum lambablóðsótt, en það þarf að gerast skömmu fyrir sauðburð. Pabbi fór fram að Hólum í kvöld til viðtals við Bjarna og Pétur en þeim var á síðasta hreppsnefndarfundi falið að undirbúa tillögur í fóðurbirgðamálunum sem lagðar yrðu fyrir sveitarfundinn síðar í vor.

Gestur á norðurleið

13. maí Hingað kom í dag með póstferðinni að sunna, Guðrún Sigurðardóttir frá Sleitu-Bjarnarstöðum í Skagafirði. Hún verður hér í nótt en á morgun ætlar hún upp að Gili og þaðan norður.

Stofnað skógræktarfélag

14. maí Sunnudagur Pabbi, mamma og ég fórum til Blönduóss en Mundi og Anna ætla að gæta búsins. Kl. 4 hófst erindi skógræktarstjóra ásamt kvikmyndasýningu í sambandi við það. Að því loknu var settur stofnfundur Skógræktarfélags A-Húnvetninga og var hann sóttur af nálega hundrað manns. Þar voru samþykkt lög fyrir félagið og stjórn kosin. Í henni eiga sæti: Ágúst B. Jónsson formaður, séra Gunnar Árnason ritari, Jón S. Pálmason gjaldkeri og Steingrímur Davíðsson og Þorbjörn Björnsson meðstjórnendur. Auk þeirra sem á fundinum undirskrifuðu lögin verða þeir taldir stofnendur sem undirrita þau fram til 17. júní að þeim degi meðtöldum. Eftir það var aðalfundur K.H. settur á Hótel Blönduósi. Voru þar kjörnir embættismenn fundarins og skipað í nefndir og málum vísað til þeirra.

Handavinnusýning á kvennaskólanum

15. maí Aðalfundi K. H. var fram haldið í dag. Fyrir hádegi fluttu framkvæmdastjóri og formaður skýrslur sínar, en síðan voru nefndarfundir til kl. 7. Þá hófst fundur að nýju og stóð til kl. rúmlega 1. Fulltrúum var boðið að skoða sýningu á handavinnu námsmeyja kvennaskólans, en hún er opin í dag og á morgun. Þar var bæði mikið og margt að sjá og verður vitanlega aðeins um mjög takmarkaða yfirsýn að ræða þegar svo afskammtaður tími er fyrir hendi sem hér var. Það finnst mér sérstaklega athyglisvert við sýningu hversu stórkostlega mikil að vöxtum hún virtist vera samhliða því sem þarna voru fjölmargir kjörgripir. Sýning sem þessi er vissulega hlutaðeigendum til til hins mesta sóma.

Aðalfundi K. H. fram haldið

16. maí Aðalfundi K. H. Var enn fram haldið í morgun en í dag varð nokkurt hlé á honum vegna jarðarfarar Páls Jónssonar frá Smyrlabergi. Kl. 8 hafði fundurinn afgreitt öll mál er fyrir honum lágu að undantekinni vantraustsyfirlýsingu á félagsstjórnina sem kom fram eins og við hafði verið búist. Umræður um þá tillögu stóðu í tæpa 8 klukkutíma og voru allharðar, en þó ekki illvígar. Við atkvæðagreiðslu féll hún með jöfnum atkvæðum, 15:15 að viðhöfðu nafnakalli, en 4 greiddu ekki atkvæði og 1 var farinn af fundi áður en til atkvæða væri gengið. Svo fór með sjóferð þá. Úr stjórninni gengu þeir Pétur Pétursson og Steingrímur Davíðsson en í þeirra stað voru kosnir þeir séra Þorsteinn B. Gíslason í Steinnesi og Ingvar Pálsson. Fulltrúar á aðalfund S. Í. S. voru kosnir þeir Pétur Pétursson og Ágúst B. Jónsson.

17. maí Við komum heim kl. 8 í morgun frá Blönduósi. Það er blíðuveður í dag og hefur verið þessa viku. Sumarið loksins að fullu komið.

18. maí Uppstigningardagur . . . í dag hefur verið einmuna blíða, langsamlega besti dagurinn sem komið hefur á sumrinu . . .

Ánum sleppt

19. maí Ég sleppti ánum mínum í gær nema 5 mæðiveikum, sem ég hef ekki enn sýnt út, gemlingunum sleppi ég ekki fyrr en jafnóðum og þeir bera. Annars hefur féð legið að mestu úti undanfarnar 3 nætur og hefur nú verið sleppt . . . Í dag er enn blíðuveður og held ég að það sé álitamál hvort ekki ætti að sýna kúnum út í svona veður enda þótt gróðurinn sé lítill fyrir þær ennþá. Í kvöld er sennilegt að Nonni komi heim úr Reykjavík og hefur þá verið á þriðju viku í burtu. Á morgun hefst þjóðaratkvæðagreiðsla um um lýðveldisstofnunina og er ætlast til að hér í sveit verði henni lokið þenna fyrsta kjördag. Sennilegt má nú telja, að um 95% greiði atkvæði hér ef allt fer að óskum.

Ekki Torfi á Hóli

20. maí Fyrsti dagur þjóðaratkvæðagreiðslunnar var líkur hinum fyrri dögum þessarar viku, vorið var alls staðar nálægt, bæði úti og inni og þá ekki hvað síst í hugum fólksins, sem nú gekk að kjörborðinu til hinnar einstæðustu og um leið merkilegustu atkvæðagreiðslu sem fram hefur farið með þessari þjóð. Hér í sveitinni var áhuginn almennari hjá einstaklingum en við nokkrar kosningar aðrar, sem ég man eftir og er þá að vísu mikið sagt. Í kvöld höfðu allir er á kjörskrá stóðu og til greina gátu komið, greitt atkvæði að undanteknum tveim kjósendum, Ólafi Bjarnasyni og Torfa Sveinssyni og er þá kjörsókn orðin nær 98% . . .

Þjóðaratkvæðagreiðsla - lýðveldisstofnun og Torfi kaus

21. maí Sunnudagur. Í dag er norðanátt og heldur kaldara en síðastliðna viku og þó er ágætt veður. Nú hafa allir greitt atkvæði nema Ólafur Bjarnason, en það er álitamál hvort hann er ekki ranglega færður á kjörskrá þar sem hann á ekkert heimilisfang hvorki hér í sveit eða annars staðar. . . Nonni hjálpaði Pétri til þess að smala framfrá í dag og ráku þeir féð út eftir.

Sauðburður

22. maí Aftur er komið blíðviðri og grær nú mjög ört. Sauðburðurinn er nú að byrja fyrir alvöru það sem af er og gengur hann frekar stirt, tveim kindum var lógað í dag, annarri vegna afleiðinga lambsburðar. Hin gat ekki borið. 5 lömb hafa nú þegar farist. Vonandi gengur betur hér eftir.

Æft fyrir Heklumót

23. maí Karlakórsæfing var hér í kvöld. Allir mættu þar á meðal Pétur á Höllustöðum, en hann hefur verið sama og ekkert með okkur í vetur. Ákveðið var að reyna að fara til Akureyrar á söngmót Heklu, en það verður háð á annan hvítasunnudag, þ. e. eftir 5 daga. Undirbúningurinn er að sjálfsögðu ekki á marga fiska, en það er vonandi að árangurinn verði betri en efni standa til. Kl. 12 í kvöld lýkur þjóðaratkvæðagreiðslunni. Um 100 hreppar hafa nú náð 100% kjörsókn og 2 kjördæmi, Vestur-Skaftfellssýsla og Seyðisfjörður. Hér í sýslunni er þátttakan nú orðin 99%, en í öllum sveitakjördæmum er hú yfir 98%. Sennilega verður Reykjavík lægst með kjörsókn og er ólíklegt að hún komist mikið yfir 96% úr því sem komið er.

24. maí Aðeins 3 kjördæmi, Reykjavík, Akureyri og Ísafjörður urðu neðan við 98%. 17 kjördæmi náðu 99% og meira. 113 hreppar skiluðu 100% þátttöku. Talin hafa verið atkvæði í kaupstöðunum og eru nei um og neðan við 1%.

Kvenfélagsfundur og kirkjukórsæfing á sama degi

26. maí Aðalfundur kvenfélagsins var haldinn hér í dag. Fundinn sátu 15 af 20 félögum, hófst hann kl. 3 og stóð til 7. Kirkjukórsæfing var að fundinum loknum og mættu þar 12 manns. Æfingin stóð til kl. 12.

Ferðaþankar

27. maí Þá er nú ætlunin að leggja af stað norður á morgun. Það er vonandi að allt fari betur en mér segir hugur um, enda er ekki fullkomlega að marka þótt ég kvíði fyrir þessu ferðalagi, þar um ræður víst meira mín persónulega aðstaða en sjálfsagt ætti að vera. En við slíku verður ekki gert.

Lagt upp á Heklumótið - ferming

Hvítasunnudagur. Kaupfélagsbíllinn var kominn að Brandsstöðum kl. 2 svo sem ráð hafði verið gert fyrir og fórum við af stað hér heiman að um það leyti. Kl. 4 var fermingarmessunni á Bergsstöðum lokið og var þá haldið þaðan, en þegar farið var frá Hlíðarárbrúnni var kl. tæplega 5. Bíllinn var fullskipaður, 18 manns, einn vantaði í hópinn, Guðmund í Austurhlíð, en hann datt af baki síðastliðinn miðvikudag og meiddi sig allmikið og er raunar ekki séð fyrir endann á því. Veðrið var mjög gott, glaða sólskin og því nær logn en fremur svalt ef kulaði nokkuð. Ferðin gekk mjög greiðlega og komum við að Bakkaseli kl. 8, en þar drukkum við mjólk og kaffi sem pantað hafði verið áður en lagt var af stað og var því alveg til þegar við komum svo að þessi stans varðaðeins tæpur hálftími. Kl. 10 komum við til Akureyrar og stóð þá yfir samæfing hjá kórunum. Héldum við beint þangað og tókum þátt í æfingunni til enda. Síðan voru sungin sameiginlega af öllum kórunum tvö lög niður á Ráðhústorgi en eftir það var mönnum raðað niður til gistingar og var fyrir því öllu séð af hinni mestu prýði. En fyrrihluti nætur var víst fljótur að líða hjá ýmsum okkar og var ekki um mikinn svefn að ræða hjá sumum þessara aðfaranótt hátíðarinnar.

Heklumótsdagurinn sjálfur

Annar í hvítasunnu. Kl. hálftíu söfnuðust allir kórarnir saman, um 250 manns í svonefndum Sýslumannshvammi til myndatöku, en þaðan var haldið til kirkjunnar til samæfingar er stóð til hádegis. Kl. 1 hófst fyrsti samsöngurinn í Nýjabíói, en kl. 2 var sungið í samkomuhúsinu. Á hverjum þessara samsöngva sungu kórarnir sín 2 lögin hver í þessari röð:

1. Heimir

2. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps

3. Þrymur

4. Ásbirningar

5. Karlakór Reykdæla

6. Geysir

7. Karlakór Akureyrar

8. Karlakór Reykhverfinga

Húsfylli var í Nýja bíó í bæði skiptin, en tæplega í samkomuhúsinu. Söngnum var mjög vel tekið. Kl. 6 hófst svo samsöngur í kirkjunni. Sungu þá kórarnir fyrst sitt lagið hver, en síðan 8 lög sameiginlega, 1 undir stjórn hvers söngstjóra. Talið var að áheyrendur hefðu í kirkjunni verið nær 800. Loks voru svo sungin nokkur lög niður á Ráðhústorgi og voru þar á annað þúsund áheyrenda. Kl. 9 hófst svo kveðjusamsæti í samkomuhúsinu og sátu það yfir 300 manns. Samsætið stóð á þriðja klukkutíma við mikinn glaum og gleði. Voru þar margar ræður fluttar og þó einkum mikið sungið. Kl. 2 héldum við heimleiðis og var nú hvergi stansað, en haldið hiklaust áfram og komið að Hlíðarárbrú kl. hálfsjö og voru þá liðnir rúmlega 37 klukkutíma frá því er við lögðum þanað upp í fyrradag. Þegar hér var komið munu ýmsir hafa verið orðnir allþreyttir og slúskaðir og var það að vísu síst að undra.

30 maí Í dag hefur verið mikið sofið og lítið starfað og nenni ég nú ekkert að skrifa.

Að heyra það einu sinni enn!

31. maí Nú eru minningarnar frá norðurferðinni að byrja að mótast og fá á sig skýrari og heilsteyptari blæ en þær höfðu fyrst eftir heimkomuna. Áreiðanlega munu ýmsar þeirra verða langlífar og er að vísu ekki létt að segja fyrir um það nú hverjar þar muni lenst halda velli. Þó er ég þegar viss um að einu mun ég aldrei gleyma, en það er söngur Húsvíkinganna á einu lagi: Úti suða flugurnar. Ég hef oft orðið hrifinn, en ég efa það að ég hafi í annan tíma orðið hrifnari. Það fór þar saman, að lagið er dásamlega fallegt, en ó fannst mér einkum til um meðferðina á því og held ég að hún hafi verið snjallari og fágaðri em jafnvel á nokkru öðru lagi, sem á mótinu var sungið og var þó vissulega vel farið með ýms verkefni. Sundurlaus brot og laglínur þessarar vögguvísu hljóma nú sífellt í huga mér og rifjast smam saman upp meira og meira af laginu, en ég er þó hræddur um að ég hafi það aldrei allt að þessu sinni, en mikið vildi gefa til að heyra það einu sinni enn.

Rúningur

3. júlí Í dag smöluðum við og rúðum allmargt en þó mun fleira vera órúið af því af fénu sem takandi er af, en það er alls ekki af því sem veikt er. Féð er yfirleitt orðið vel fylgt og sennilega betra en þegar rúið var í fyrra en það er fullri viku seinna en nú. Það er til marks um hve hægt hefur tekið upp gaddinn í vor, að enn er nú dálítill skafl austan í Grensborginni hér uppi á hnjúknum. Er líklegt að talsverður gaddur sé enn framan til á heiðinni, enda hefur Blanda aldrei komist í verulegt flóð í vor.

Hafinn sláttur

4. júlí Í dag var lokið við að rýja það af fénu sem hægt var að taka af nú, en allmörgu varð að sleppa í ull niður fyrir og er það flest mæðiveikt. Mundi bar ofurlítið niður í kvöld.

Átti 50 lömb í hitt eð fyrra

5. júlí Eftir samfellda þurrka meira og minna í vor hefur nú brugðið til úrkomu og rignt mjög mikið í dag og er nú allhlýtt í veðri. Nú er búið að marka fyrir mig 35 lömb og ekki von á fleirum. Ærnar eru 25 og 7 veturgamlar svo að höldin eru eftir atvikum sæmileg þótt lakari séu þau en í fyrra og mun verri en í hitt eð fyrra, en þá átti ég 33 ær og 4 veturgamlar, en 50 lömb. Sleppa varð nú í ullinni 7 ám, sem ég átti, öllum mæðiveikum . . .

Ullin send með áætlunarbílnum

6. júlí Enn er þokuloft og talsverð rigning öðru hvoru en kólnað hefur nokkuð seinni partinn í dag. Áætlunarferð var að Brandsstöðum og var nú ullin send úteftir, en kaupfélagið lætur nú þvo ull fyrir þá félagsmenn er þess óska. Með bílnum í kvöld verður send ull frá Syðra-Koti og Brandsstöðum. Sláttur er nú almennt að byrja og er þegar nokkuð farið að slá á öllum bæjum hér að austanverðu í dalnum nema Bollastöðum.

Skírð Elísabet Þorsteinsdóttir - Lissý á Gili

7. júlí Í dag var féð rekið fram fyrir og gekk það allt saman vel. Pabbi og mamma fóru upp að Gili í skírnarveislu. Litla stúlkan hlaut nafnið Elísabet Enn er dumbungsveður og þó frekar útlit á að það sé að létta til. Emil Thoroddsen tónskáld andaðist í nótt. Þar mun hafa fallið í valinn einhver fjölhæfasti listamaður þjóðarinnar þó að ef til vill hafi þeir hæfileikar ekki ætíð notið sín að fullu. Sitt er hvað gæfa eða gervileiki.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er

9. júlí Sunnudagur 12. í sumri. Brandsstaða- og Hólafólk kom hingað í dag, að vísu ekki allt, 5 frá Brandsstöðum og 3 frá Hólum. Í kvöld kom í útvarpinu andlátsfregn Guðmundar Halldórssonar frá Selhaga Hann féll af hestbaki kl. 9 í gærkveldi og andaðist skömmu síðar. Guðmundur var búsettur á Akureyri. Hann var kvæntur Halldóru Karlsdóttur frá Holtastaðakoti. Við pabbi héldum til hjá þeim hjónum söngmótið í vor og áttum áblandinni gestrisni að fagna. Fyrir rúmri viku síðan voru þau á ferðalagi um átthagana hér vestra ásamt dóttur sinni. Nú hafa hér orðið skjót umskipti. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Fædd Ingibjörg í Enni/frá Torfustöðum

10. júlí Sæmilegur þurrkur hefur verið í dag og mun eitthvað verða tekið saman af heyi í kvöld. Stúlka fæddist á Fjósum í gær hjá þeim Fjólu og Jósep. Héraðssýning á hrossum fyrir Húnavatnssýslu var haldin að Þingeyrum í gær. Sýnd voru um 40 hross, þar af um 30 hestar. Heiðursverðlaun hlutu grár hestur frá Giljá og hryssa frá Rútsstöðum.

12. júlí Það hefur nú verið ákveðið að karlakórinn syngi á Varmahlíðarhátíðinni næstkomandi sunnudag. Engri æfingu verður hægt að koma við fyrir þann tíma og líst mér ekki meira en svo á þennan söng.

Hátíð í Varmahlíð

16. júlí Sunnudagur 13. í sumri. Varmahlíðarhátíðin fór fram í dag og var mjög fjölsótt að venju. Um 50 manns munu hafa farið þangað hér vestan yfir, þar á meðal skemmtiferðafólkið sem fór í gævkeldi norður að Hólsvötnum en í þeim hópi voru 21. Bíll fór með 19 en aðrir fóru ríðandi í morgun. Veður var mjög sæmilegt en þó var ekki sólskin og dálítið rigndi tvívegis um daginn. Þegar til Varmahlíðar kom varð ljóst það sem raunar alltaf mátti vita að horfurnar með sönginn hjá okkur voru allt annað en góðar, einkum var þó 1. tenór áfátt því þar vantaði mann alveg og auk þess var annar sem varla kom upp hljóði. Þá var það að gripið var til þess óyndisúrræðis að pína mig til að stjórna, en Steini söng 1. tenór. Ég veit ekki hvort nokkrum hefur verið fullkomlega ljóst hversu óskaplega hæpið þetta var þar sem ég hafði nú ekkert stjórnað í vor en auk þess aldrei stjórnað fyrr 4 af lögunum sem syngja átti. Ég skil sjálfur ekkert í því nú að ég skyldi láta tilleiðast að reyna þetta undir nokkrum kringumstæðum því tilviljun ein og hundaheppni var að þetta skyldi slampast af.

Dregið inn hey og háin farin að spretta

18. júlí Lítið varð úr sunnanáttinni og hefur nú verið glampandi sólskin og norðangola í dag og þornað mikið af heyi. Inn voru dregnir um 60 hestar og er nú fremur lítið eftir á túninu neðan götu en svo að segja ekkert hefur verið dregið inn af upptúninu og er það nokkuð óslegið enn. Sennilega verður með minna móti af túninu í fyrri slætti nú og er hæpið að það nái 300 hestum. Háin sprettur nú mjög verulega.

Hátíðaguðsþjónustur í vændum

21.júlí Kirkjukórsæfing var á Æsustöðum í kvöld. Hátíðarguðsþjónusta á að fara fram að Bólstaðarhlíð næstkomandi sunnudag í tilefni af lýðveldinsstofnuninni, en á Bergsstöðum þriðja sunnudag hér frá.

Miðásarétt

10. sept. Sunnudagur 21. í sumri. Réttað var í dag í Miðásarétt svo sem undanfarin haust. Féð sem þar kom að var með allra fæsta móti nú og mun því

einkum valda hve góð tíðin hefur verið til þessa og fé því farið að koma framan að en auk þess hefur fénu í sveitinni fækkað mjög og munar stórum frá því í fyrra. Féð virtist nú vera allvel útlítandi og til muna betra en síðastliðið haust . . .

Hefjast göngur

16. sept. Í dag er fyrsti leitardagur gangnamanna á Eyvindarstaðaheiði. Í gærmorgun lögðu tveir af stað og aðrir tveir í morgun en í fyrramálið leggja svo aðalgangna menn upp, að þessu sinni sjö. Mundi bróðir og Sigurjón í Hólum fóru í kvöld fram að Bollastöðum, áleiðis í göngurnar.

17 sept. Gangnasunnudagur Í dag var smalað hér til fyrsta kaupstaðarrekstrar og voru rekin 63 lömb. Frá þrem bæjum öðrum verður rekið hér af Tungunni, Hólum Syðra-Koti og Skeggsstöðum en næst verður svo rekið eftir hálfan mánuð.

18. sept. Nonni fór í kvöld fram að Eiríksstöðum en hann fer í fyrramálið í Kiðaskarðsgöngur og á miðvikudaginn á Oxann. Vð verðum því aðeins þrjú heima í nótt, mamma, Anna og ég. Síðastliðinn laugardag giftu sig tvenn brúðhjón í Stóradal, Hanna og Sigurgeir, Guðfinna og Jón.

19. sept. Í dag er stóðið réttað í Auðkúlurétt, Slátrað var hér af bæjunum í dag og kom sláturbíllinn fram eftir í rökkurbyrjun.

20 sept. Stóðréttardagurinn í Stafnsrétt, Veðrið hefur verið mjög ákjósanlegt, suðvestangola og bjartviðri að mestu.

Stafnsréttardagur - fjárréttin

21. sept. Fjárréttardagurinn í Stafnsrétt. Að þessu sinni hefur veðrið verið mjög gott báða réttardagana en það er mikils virði.

22. sept. Pabbi og Mundi komu heim úr réttinni seint í gærkveldi en Nonni eið eftir eftirdrætti. Féð var með fæsta móti . . .

23. sept.

Kuldinn skipti kjörum fljótt

komið er nú haust.

Fyrsti snjórinn féll í nótt

fyrirvaralaust.

Í dag hefur verið norðaustanfjúkhrakningur og er alhvítt af snjó í allan dag. Marka-Leifi gisti hér í nótt. Hann var við stóðhirðingu í Hlíð í gær og aftur í dag.

Eftirmáli: Höfundur dagbókarinnar hefði orðið 100 ára 9. febrúar 2016 og það varð tilefni að þessari skráningu dagbókar JT inn á Stikilsvefinn. Í fyrstu ætlaði vefstjóri aðeins að skrá inn janúarmánuð, en svo fannst honum að kórsagan þyrfti að koma fram, fleira kallaði á birtingu og allt í einu skaust vísa óvænt inn á síður dagbókar, - við hliðina á Marka-Leifa sem greinilega er fastagestur í Tungu.

ihjstikill@gmail.com


Ítarefni:

Úr Stikli 1 bls. 27

Þóranna Kristjánsdóttir/Anna frá Hlíð 1926-2008 húsmóðir í Bólstaðarhlíð en síðar á Sauðárkróki var í vist hjá Ingimundi Árnasyni söngstjóra karlakórsins Geysis þegar Heklumótið 1944 var á Akureyri. Faðir Þórönnu hafði komið í húsið og sagt að söngstjóri Bólhlíðinganna væri blindur en á þeim tíma þekkti Þóranna engan í kórnum.

Henni er minnisstætt hvað kórmennirnir voru fínir, í klæðskerasaumuðum fötum og með þverslaufu. Þessi kór var tiltakanlega fámennur miðað við hina. Þóranna varð síðar húsfreyja í Bólstaðarhlíð og Erlendur maður hennar sagði henni að um þetta leyti hafi klæðskeri verið á Blönduósi sem hafi saumað á þá. Oft var kalt í Þinghúsinu þar sem æft var og var olíuofninn úr kirkjunni borinn upp í húsið en Þórönnu fannst hann aðallega framkalla stybbu.

Sumir komu seint á æfingar og þá söfnuðust oft þeir er fyrstir komu saman í eldhúsinu hjá þeim Önnu og Ella þar fréttir og sögur voru sagðar.

Þegar æft var fyrir jarðarför Óskars á Eiríksstöðum va svo kalt úri í húsi að æft var inni hjá hjá þeim í Hlíð. Einhverjir Heimismenn komu þá til liðs enda voru aðstandendur í heimakórnum og gátu því ekki tekið þátt í söngnum. Synir þeirra Hlíðarhjóna sátu oft úti í Þinghúsi að hlusta á æfingarnar og lærðu öll lögin sem æfð voru. Skráð af IHJ eftir símtali við Þórönnu/Önnu Kristjánsdóttur 21/10 2004

Athugasemd: Jónas Tryggvason - blindi söngstjórinn - æfði kórinn í fjarveru Þorsteins Jónssonar söngstjóra sem kenndi söng einhverja vetur vestur á Reykjaskóla í Hrútafirði en Þorsteinn stjórnaði kórnum síðan þegar hann kom heim á vorin og það gerði hann á Heklumótinu 1944, sjá dagbók 16. júlí

Úr Stikli 1 bls. 72

Kórstarfið 1943-1944

I tenór:

Erlendur Klemensson Bólstaðarhlíð

Guðmundur Sigfússon Eiríksstöðum

Friðrik Björnsson Brún/Gili

Guðmundur Sigurðsson Leifsstöðum

Þorleifur Jóhannesson Barkarstöðum

II tenór: 

Björn Jónsson Brún/Gili

Tryggvi Jónasson Finnstungu

Jón Tryggvason s.st.

Sigmar Ólafsson Mjóadal

I bassi: 

Guðmundur Jósafatsson Austurhlíð

Jónas Tryggvason Finnstungu

Guðmundur Tryggvason Finnstungu

Guðmundur Halldórsson

Sigurjón Ólafsson Mjóadal

II bassi: 

Sigfús Eyjólfsson Eiríksstöðum

Pétur Pétursson Brandsstöðum

Pétur Pétursson Höllustöðum

Jakob Sigurðsson Steiná

Pálmi Ólafsson Eyvindarstöðum

Þórir Sigurðsson Skeggsstöðum Alls 19 kórmenn

Söngstjóri: Þorsteinn Jónsson Gili


Ferming á trinitatis 1906 í Bólstaðarhlíð

Tryggvi Jónasarson Finnstungu f. 1892

Margrét Gunnarsdóttir Ystagili f. 1891

Klemens Guðmundsson Bólstaðarhlíð f. 1892

Jón Björnsson Mörk f. 1891

Þorgrímur Jónas Stefánsson f. 1891

Þorleifur Bjarni Guðmundsson f. 1891

Elínborg Kristín Þorláksdóttir f. 1891


Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar frá 1945

23. mars Karlakórsæfing var hér í dag. Að þessu sinni vantaði aðeins einn af þeim er heima eru í sveitinni. Menn komu venju fremur stundvíslega og svo að segja allir samtímis. Tíminn notaðist því vel enda varð þessi æfing ein sú besta sem gerist hjá okkur. Pétur á Höllustöðum kom til þess að sjá framan í okkur upp á gamlan kunningsskap en hann er nú alveg guggnaður við að starfa með okkur og hefur ekki sótt í vetur. Kórnum er mikil eftirsjá að Pétri því að hann hefur eina bestu bassarödd sem kórinn hefur haft á að skipa en er auk þess ágætur félagi og er það ekki síður mikils virði. En hann á nú orðið óhægt um vik og illa heimangengt og verður ekki í allt séð.

24. mars afmælisdagurinn hans afa og mundi hann nú hafa verið 97 ára, ef hann hefði lifað.

27. Karlakórsæfing var á Brún í dag . . ákveðið að halda 20 ára afmælisfagnað kórsins 22 apríl n.k.

28. mars Við sendum Nonna bróður skeyti í dag en hann er nú 28 ára.

15. maí Nonni bróðir kom heim í gærkveldi. Hann var með Húnunum (í Rv.stj. Ragnar Björnsson) í vetur og söng með þeim í söngför þeirra hér norður í átthagana, en þeir héldu heimleiðis í gær.

17. júní Fjölmenn sveitarhátíð var haldin að Bólstaðarhlíð í dag og sóttu hana um 150 manns, þar af 20 utansveitar . . . var þá sest að kaffidrykkju, sem tók alllangan tíma þar sem drekka varð í þrennu lagi . . . 5000 m hlaup og var hlaupið frá Æsustöðum að Bólstaðarhlíð. Þátttakendur voru 3 og sigraði Erlendur Klemensson á 22 mínútum, en næstur varð Guðmundur Tryggvason og var aðeins sjónarmunur á þeim. Þriðji var Haukur Gíslason . . . kappreiðar . . .

spretthlaup Sigurjón Ólafsson fyrstur . . . tvær ræður í kirkjunni . . . Hafsteinn oddviti fyrir minni Íslands en Jón Tryggvason fyrir minni sveitarinnar.

18. júní Enn hefur jörð lagst í eyði hér í hreppnum, Brún í Svartárdal. Ábúandinn, Björn Jónsson, fluttist að Gili hér í gærkveldi og gisti í nótt. Ég gat minna spjallað við hann en ég hefði viljað því að ég varð að fara snemma í morgun út Gunnsteinsstöðum á stjórnarnefndarfund í sjúkrasamlaginu. Ég kem heim aftur um miðjan dag og mætti þá Klemensi, sem var þá að leggja af stað héðan. Þá mætti ég einnig, hér fyrir utan túnið, ferðafólki sem kom í nótt og svaf í svefnpokum sínum úti í hlöðu. Meðal þessa fólks þekkti ég dálítið eina stúlku, Kristínu Jónsdóttur, skrifstofustúlku hjá Blindravinafélaginu og hefði ég gjarnan kosið að vera heima meðan þetta fólk stóð við. Svona getur þetta gengið til þó að ég fari ekki oft út af heimilinu.

11. okt. Settum inn það seinast af eldiviðnum í dag. Mikið hvað hann var ekki verri eftir allar úrkomurnar að undanförnu.

13. des. Gunnar gamli Bjarnason kom hingað í kvöld. Hann hefur verið á Auðólfsstöðum um mánaðartíma meðan Hannes var fyrir sunnan að læra á bíl.


Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar frá 1946

26. sept. Fjárréttardagurinn í Stafnsrétt. . . Drætti var lokið í Stafnsrétt um eða úr hádegi, enda kom nú færra fé að réttinni en nokkru sinni fyrr eða aðeins rúmlega í almenninginn einu sinni . . . Þar fremra var alhvítt af snjó og fremur kuldalegt. Í fyrsta sinn í sögunni kom nú fólk á bílum að Stafnsrétt. Voru þar tveir jeppar en hefðu eflaust verið mun fleiri ef veðrið og færið hefði verið ögn betra því ýmsir höfðu hugsað sér þangað eftir að leiðin var farin í sumar í fyrsta sinn.

29. sept. Í dag var Rugludalshólfið smalað. Pabbi fór fram eftir í dögun en hólfið er smalað af 6 mönnum. Klukkan um sjö komu þeir út að Bollastöðum og drógu þar sundur. Pabbi og Sigurjón gista á Eyvindarstöðum í nótt með féð hér utan að, sem er víst talsvert margt.

28. okt. Nonni byrjaði að kenna á Eiríksstöðum í dag en hann ætlar að kenna í stað Bjarna nú fram um áramótin a. m. k.

1. nóv. Stefán Sveinsson gisti hér í nótt. Hann er nýlega hættur í vegavinnunni og er á förum til Reykjavíkur næstu daga en þangað liggur nú straumurinn með vetrarkomunni.

2. nóv. Fyrsta æfing karlakórsins á þessu starfsári . . .

8. nóv. Ég keypti nýju útgáfuna af ljóðum Einars Ben í gær. Ekki veit ég hvers vegna ég er að kaupa bækur. En það er ástríða á mér að eignast ljóðabækur þótt ég svo aldrei geti neitt í þær litið. Ég hef víst gaman að vita af þeim í skápnum og fyrir kemur þá einnig að aðrir fletti upp í þeim.


Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar frá 1947

13. jan. Nonni fór til Blönduóss í dag með fjóra Svartdælinga. Hann er nú nýbúinn að fá kerru við jeppann og fór nú með hana. Flutti hann 1000 pund fram að Fjósum í kvöld.

Annar í hvítasunnu Karlakórsæfing átti að verða í Bólstaðarhlíð í dag en lítið varð úr henni. Menn komu seint og auk þess vantaði nærri helming söngmannanna . . . Þeir fáu menn sem alltaf mæta á tilsettum tíma hljóta smám saman að trénast upp á því þar sem ekki verður annað séð en kæruleysi sumra manna keyri nú svo úr hófi í þessu efni að því virðist jafnvel engin takmörk sett.

8. júní Í dag er verið að gróðursetja um 400 plöntur á Botnastaðamó, í skógræktarbletti sem þar hefur verið undirbúinn og girtur nú nýlega. Vinnan þarna í dag er eingöngu þegnskylduvinna og mun svo framvegis verða að vera ef þessum bletti verður nægur sómi sýndur.

7. okt. Í dag steyptum við niður sperrurnar og vorum aðeins þrír við það. Eigum við nú aðeins eftir að steypa einu sinni enn, efsta hluta skorsteinsins og utan með svölunum. (Íbúðarhúsið í Ártúnum í byggingu) Á tveim bæjum hér í sveitinni er nú verið að hefja byggingar nýrra húsa. Í Hólum er byrjað að steypa hlöðu og í Austurhlíð verður steyptur grunnur að íbúðarhúsi. Fer Mundi að Austurhlíð í fyrramálið og verður þar við steypu á morgun.

6. Bóas í Hlíð hefur verið hér þessa viku og er nú búið að múra meirihlutann af veggjum neðri hæðarinnar. Nokkrir veggir eru þó enn eftir og öll loft og gólf.

Aðfangadagskvöld Þetta sérstæðasta kvöld ársins er að þessu sinni liðið, sjálfu sér líkt að öllu inntaki þótt á yfirborðinu hafi það kannski haft annan blæ. Fjölskyldan hefur stækkað. Nú fögnuðu tíu manns komu jólanna en lengst af undanfarin ár höfum við aðeins verið sex.


Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar frá 1948

9. jan. Óli situr enn og spilar mikið lomber en les þess á milli. Á morgun ætlar hann fram í Svartárdal. Nonni fer með hann eitthvað af stað.

13. mars Á morgun ætlum við að syngja á Blönduósi . . .

14. mars Í morgun brást okkur bíllinn sem við ætluðum með til Blönduóss en Torfi ætlaði að flytja okkur. Við urðum því í morgun að drífa upp 5 jeppa til þess að flytja mannskapinn og er nú útlit á að það gangi fyrir sig.

16. Í dag var myndataka hjá karlakórnum í Bólstaðarhlíð. . . í sambandi við væntanlegt söngmót á Akureyri í vor.

17. maí Annar í hvítasunnu Ferming í Bólstaðarhlíð. Fermdir voru þrír drengir: Bjarni Guðmundsson Botnastöðum, Pétur Sigurðsson Skeggsstöðum og Stefán Gunnarsson Æsustöðum. Um 70 manns var við kirkju þar af allmargt utan sveitar. Veðrið í dag var mjög gott þó var nokkur svali í golunni. Aðstandendur fermingardrengjanna höfðu tekið sig saman um félagslegar veitingar í samkomuhúsinu og drukku þar allir kirkjugestir. Við fórum fimm héðan til fermingarinnar, pabbi, Sigga og við bræðurnir, en þær nöfnurnar voru heima með litlu drenginar. Við komum ekki heim fyrr en á sjöunda tímanum í kvöld.

15. júní Í dag fluttu þau í nýja húsið, Sigga og Nonni og Heiðmar litli. Þórarinn kom í nótt og ætlar nú að taka til við miðstöðvarlagninguna . . .

16. júní . . . Ekki veit ég hvenær ég flyt mig búferlum, en á því verður sjálfsagt nokkur dráttur. Það gengur ekki í kastinu að ég fái samastað fyrir mig og mína vinnustofu. Einu sinni var nú ætlunin að ég fengi eitthvert skot í byggingunni hér heima en af því varð þó aldrei. Nú var aftur svo til ætlast að úr þessu yrði bætt við byggingu nýja hússins niður frá og einhvern tíma kemur að því og þá er gott að taka því. Fyrst um sinn verð ég þó enn sem fyrr á hálfgerðu flakki með burstana mína. Jæja, maður er þá farinn að venjast því eftir fjórtán ár.

6. júlí Jarðarförin hennar ömmu(Margrétar í Dalsmynni/Kolviðarnesi) er ákveðin á morgun. Við ætlum að leggja af stað vestur kl. sex í fyrramálið og komum væntanlega heim aðra nótt. Bíll frá Zóphóníasi hefur verið fenginn til fararinnar og líklegast að Kiddi fari með okkur. Auk okkar fara nokkrir menn úr karlakórnum til þess að annast söng að einhverju leyti og svo séra Gunnar, sem ætlar að flytja kveðju að norðan.

8. júlí Við komum heim úr vesturferðinni á öðrum tímanum í nótt og höfðum þá verið tæpar 20 klukkustundir að heiman. Fyrir fám árum hefði það verið talin fjarstæða að hægt væri að fara heiman og heim um 260 km veg og standa við í 7 tíma á ákvörðunarstað. Við vorum alls 14, prestshjónin á Æsustöðum, Eiríksstaðafeðgar, Mundi í Austurhlíð, Leifi á Barkarstöðum, pabbi og mamma, Nonni og Sigga, við Mundi og Anna og Kiddi sem ók bílnum.

3. ágúst Í dag voru dregnir inn um 170 hestar. Var fjóshlaðan alveg fyllt í bili . . . Í dag var ég aftur á gamla staðnum mínum í tóft og hlöðu og er hálfslæptur í kvöld, en það var gaman að koma í heyið.

7. okt Ég er nú að hugsa um að fara að flytja mig ofan eftir einhvern næstu daga. Þetta er (hér gæti vantað orðið ekki miðað við framhaldið) langur eða umfangsmikill búferlaflutningur og breytingin sem honum verður samfara ætti ekki að verða mikil. Samt er það svo að ýmsar hugsanir vakna og sækja fast á í sambandi við þessa breytingu. Jafnvel þótt ekki sé farið lengra en svona og heita megi að maður sé áfram á sama blettinum þá verður samt óumflýjanlega nokkur breyting á nánasta umhverfi manns. Maður getur orðið samgróinn umhverfi sínu á skemmri tíma en þrjátíu og tveimur árum og hver ein röskun þótt smávægileg kunni að virðast í augum annarra hefur þá sín sérstöku áhrif.

11. okt Ég er farinn að hirða fjósið og lömbin. Í fjósi eru hér 9 nautgripir, fimm kýr og fjórar kvígur og svo kemur bráðum þriggja ára naut sem þeir eiga í félagi: Nonni, Bjarni í Hólum og Pétur á Brandsstöðum og sem verið hefur á Brandsstöðum að þessu. Þá verða höfuðin 10 í fjósinu eða jafn mörg og upp frá.

12. okt. Nonni er í vinnu á Brandsstöðum í dag. Ég var að aðgreina kartöflur í gær og dag, það er talsverð skemmd í þeim vegna frosts. Marka-Leifi kom hér bæði í gær og fyrradag og Óli Bjarnason kom snöggvast í dag.


Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569148
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 21:19:52