24.11.2015 22:56

Um nokkra Snæbirninga

               Frá Þönglabakka - að Grímstungu

Að segja frá afskekktum prestsetrum, hlutskipti hinna nýkomnu guðfræðinga eða þeirra sem þraukuðu gegnum móðu og mistur, gerði sr. Ágúst Sigurðsson síðast prestur á Prestsbakka í Hrútafirði að viðfangi sínu. Hann skrifaði 4 bækur þar sem reyndi á staðkunnáttu og ályktunarhæfni og þeir sem verða þessum ritum handgengnir taka ástfóstri við þau sem og stíl og orðfæri rithöfundarins.

Þáttinn um Þönglabakka í Fjörðum byrjar sr. Ágúst með vísu Látra-Bjargar: Fagurt er í Fjörðum, sem hún yrkir um heyið grænt í görðum og verstu veraldar sveit.

 http://bragi.info/ljod.php?ID=3992  

Þönglabakka- og Flateyjarsóknir eiga eina sögu af því, að þær voru löngum sérstakt prestakall, örðugt yfirsóknar og firna afskekkt segir í þættinum en á Þönglabakka hóf sr. Snæbjörn Halldórsson prestsskap. Þegar hann kynnir prestinn fyrir lesendum í Þönglabakkagarði dregur sr. Ágúst upp mynd af honum að kasta rekunum á kistu prestsekkjunnar forvera síns. Þá var árið 1771 en nokkru fyrr eða á fyrsta sunnudegi í aðventu 1767 var sr. Snæbjörn vígður til þessa afskekkta og erfiða brauðs, sem voru mikil umskipti fyrir hann, alinn upp á Staðastað og Hólum en Halldór Brynjólfsson faðir hans varð Hólabiskup, en þó löngu dáinn þegar sonurinn var vígður af Gísla biskupi Magnússyni. Ótímabær barnsfæðing hjá verðandi prestshjónum varð til þess að biskup dreif Snæbjörn prest og Sigríði konu hans Sigvaldadóttur norður í Fjörður. Þar bjuggu þau við bág skilyrði þar til í ársbyrjun 1779 er sr. Snæbjörn sagði af sér brauðinu - á miðjum vetri og ályktar sr. Ágúst að illt árferði og bjargleysi eftir stórharðindasumar og einn hinn versta vetur hafi rekið prest til þessarar ráðabreytni. "Hefur síra Snæbjörn flúið hungrið en lítil og mygluð heyin voru þrotin og skepnurnar dauðar, og leitað inn með Eyjafirði til bjargar. Nokkuð er það, að fyrir sumarmál hefur hefur hann ráðist djákn hjá síra Sigurði Stefánssyni í Möðruvallaklausturssókn. Viðbrigðin hafa verið mikil þótt kjör djáknans í Hörgárdal væri fáskrúðug og síðan þingaprestsins í móðuharðindunum." Um aðstæður sr. Snæbjarnar sem sat á Ósi segir í þætti sr. Ágústs:" Sá ljóður var á, að Möðruvallasókn var þingabrauð og til mikilla muna tekjuminna en mörg hinna stærri staðarbrauða. Ós er og ekki stórjörð, en hlunnindi samt talsverð áður í silungi og enda skammt til sjávar, ef ábúandi vildi róa til fiskjar. Jörðin á hins vegar ekki land til fjallsins og er því aðkreppt til sauðfjárbúskapar.

Og þar kemur að síra Snæbjörn og kona hans taka sig upp og fara búnaði sínum vestur að Grímstungum undir aldamótin. Voru þau bæði hátt á sextugsaldri og er bágt að greina aðrar ástæður fyrir flutningi þeirra en jarðnæðið og von um kirkjujörð til ábúðar í ellinni. Hér getur þó Sigríður frá Húsafelli hafa ráðið. Hún hafði aldrei unað af því að sjá til hafs. Staðurinn í Grímstungum er langt til fjalla frammi eins og Húsafell, og fjárjörð mikil, en lönd beggja staðanna, norðan jökla og sunnan, liggja að víðáttu hálendisins. Undu þau bæði til elli í Grímstungum með Sigvalda syni sínum, en hann var aðstoðarprestur föður síns þegar árið 1800 og þjónaði í Grímstungum í nærri hálfa öld, síðastur presta þar á staðnum."

Halldór Árnason 1672-1736 var prestur á Húsafelli frá árinu 1696 til dauðadags. Sigvaldi sonur þeirra Halldóru Illugadóttur, prestshjóna á Húsafelli, varð þar síðar prestur og tengdafaðir sr. Snæbjarnar í Grímstungu. Þrír synir Húsafellshjóna koma við sögu Húnvetninga:

1.       Bjarni Halldórsson sýslumaður í Víðidalstungu og á Þingeyrum 1703 - 1773 Stórbokki og héraðsríkur segir prófasturinn.

2.       Sigvaldi  Halldórsson prestur á Húsafelli 1706 - 1756

Dóttir Sigvalda: Sigríður Sigvaldadóttir 1744-1821 í Grímstungu frá 1798, prestsfrú á Þönglabakka 1767-1779, Möðruvallaklaustursprestakalli(Ósi í Hörgárdal) 1781-1798 og síðast Grímstungu þar sem sr. Sigvaldi Snæbjörnsson tók við brauðinu af föður sínum.

3.       Illugi Halldórsson 1711-1770 pr á Breiðabólstað 1737-1747 og á Borg á Mýrum 1747-1759. Mikilfenglegur svakamaður segir Espólín. Sonur Illuga var sr. Árni á Hofi á  Skagaströnd, faðir Jóns þjóðsagnasafnara Árnason f. 1819-1888. Jón var fæddur á Hofi, sonur Árna prests og þriðju konu hans, Steinunnar Ólafsdóttur   http://stikill.123.is/blog/yearmonth/2014/12/    og https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_%C3%81rnason_(1819)     

Margir Húnvetningar og Skagfirðingar eiga ættir að rekja til prestshjónanna í Grímstungu, stundum nefnd Snæbjarnarætt, Bjarni fræðimaður Jónasson í Blöndudalshólum er kominn í karllegg af Snæbirni yngri, Bendikt meðhjálpari og tónlistarkennari á Blönduósi til sr. Sigvalda og sama er um Jón Björnsson sögumann og sálfræðing frá Húnsstöðum.

Út af Margréti Snæbjarnardóttur sem giftist að Auðólfsstöðum eru komnir: Jói í Stapa, Flugumýrarhvamms- og Réttarholtsmenn, sr. Arnljótur Ólafsson prestur á Bægisá/Sauðanesi og baráttukona Bríet Bjarnhéðinsdóttir var komin út af Snæbirni á Gilsstöðum/Forsæludal eins og Bjarni í Hólum. Skáldið góða Sigrún Haraldsdóttir frá Litladal er af Snæbjarnarleggnum eins og Bríet og Bjarni afabróðir hennar. Enn má nefna kvæðamanninn Árna gersemi sem fæddist á Mörk á Laxárdal 1861, en afi hans var Magnús Snæbjarnarson bóndi í Héraðsdal og á Hofi í Vesturdal.

  

Snæbjörn Snæbjarnarson

Bjarni Snæbjörnsson

Jónas Benedikt Bjarnason Ásum og á Blönduósi

Bjarni Jónasson Blöndudalshólum

 

Sigvaldi Snæbjarnarson prestur í Grímstungu

Bjarni Sigvaldason prestur Stað í Steingrímsfirði

Guðrún Gróa Bjarnadóttir Blöndal

Margrét Sigríður Björnsdóttir Blöndal

Björn Blöndal Kristjánsson Húnsstöðum og Blönduósi

Jón Benedikt Björnsson sálfræðingur og rithöfundur

 

Sigvaldi Snæbjarnarson prestur í Grímstungu

Bjarni Sigvaldason prestur Stað í Steingrímsfirði

Guðrún Gróa Bjarnadóttir Blöndal Hvammi og Brúsastöðum

Benedikt Bjarni Björnsson Blöndal Brúsastöðum

Ragnheiður Guðrún Blöndal Brúsastöðum

Benedikt Blöndal Lárusson tónlistarkennari og meðhjálpari Blönduósi

 

Margrét Snæbjarnardóttir Auðólfsstöðum 1788

Margrét Ólafsdóttir 1820

Jóhann Pétur Jónsson 1849

Margrét Guðrún Jóhannsdóttir 1876

Ingibjörg Jónsdóttir 1901

Jóhann Pétur Guðmundsson 1924 Jói í Stapa

 

Margrét Snæbjarnardóttir Auðólfsstöðum 1788

Arnljótur Ólafsson Bægisá og Sauðanesi 1823

Halldóra Arnljótsdóttir

Óvína Anne Margrét Velschow

Bragi Björn Orri Hjaltason

 

Margrét Snæbjarnardóttir Auðólfsstöðum 1788

Björn Ólafsson Auðólfsstöðum, Eyhildarholti

Rögnvaldur Björnsson

Sigríður Rögnvaldsdóttir

Jóhanna Freyja Jónsdóttir

Jón Gíslason Réttarholti Blönduhlíð

Davíð Logi Jónsson 1988 Egg

 

Snæbjörn Snæbjarnarson

Bjarni Snæbjörnsson

Jónas Benedikt Bjarnason Ásum og v. Blönduósi

Ólafur Jónasson Litladal

Elín Ólafsdóttir húsfreyjar Litladal

Sigrún Ásta Haraldsdóttir skáldkona Reykjavík

 

Magnús Snæbjörnsson Héraðsdal og Hofi

Guðrún Magnúsdóttir vk víða, húsfreyja á Mörk fáein ár

Árni Frímann Árnason gersemi í Skyttudal 1861-1918

Friðgeir Árnason verkstjóri Siglufirði 1905-1984

 

Snæbjörn Snæbjarnarson

Kolfinna Snæbjarnardóttir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir Reykjavík 1856 - 1940

 

                 Umsögn um eiginmann   

"Gifting mín með Valdimar var mér mikið lán . . . og sú staða sem ég fékk við það að vera hans kona varð mér til ómetanlegs þroska. Valdimar var ágætlega gáfaður maður og sérlega vel menntaður þó það væri aðeins sjálfsmenntun. Hann var ágætur í ensku, talaði frönsku nokkuð og skildi bækur á því máli og sömuleiðis á þýsku auk Norðurlandamálanna. Hann var manna bókfróðastur á íslenskar bækur og mjög fróður í öllum íslenskum sögnum og siðum. Allra manna var hann frjálslyndastur þeirra sem eg hefi þekkt en ekki hefði flokkspólitíkin legið honum mest á hjarta. Hann var af mörgum álitinn einn af okkar fjölhæfustu og bestu blaðamönnum, fylgdist betur en flestir aðrir með nútíðarmálum og uppfundningum. Hann var venjulega á undan tímanum með tillögur sínar í ýmsum landsmálum, t.d. sjómannaskólanum o. fl. Sagði ég honum oft að hann kæmi jafnan með þær 10 árum áður en þær næðu fram að ganga. Hefði hann lifað nú á dögum mundi hann hafa fylgt gætnum sósíalistum að málum . .  auk þess var hann miklu meiri jafnréttismaður en ég. Ég var miklu meira bundin við gamlar venjur á öllum sviðum. Hann var framtíðarinnar og um leið nútíðarinnar maður" segir Briet Bjarnhéðinsdóttir um mann sinn þrjátíu árum eftir dauða hans. Strá í hreiður bls. 28

 

Kynni þeirra Valdimars eru skjalfest því þau hófust með bréfi Bríetar til hans:

                                               Hasthrip

 

Reykjavík 1. júní 1885

Herra ritstjóri!

Yður furðar víst að fá bréf frá stúlku sem þér vitið engin deili á. En vegna þess að eg hef lesið Fjallkonuna og álít yður eftir stefnu hennar að dæma sem frjálslyndan og menntaðan framfaramann, sný eg mér helst til yðar.

            Svo er mál með vexti að eg hefi ritað grein um réttindi og menntun kvenna sm eg vildi gjarna fá einhvern þann mann er eg treysti til að dæma, og ef honum þætti hún svo nýt að meira eða minna leyti þá vildi eg koma henni á framfæri í eitthvert blaðanna. Nú líka mér ekki blöðin hér nema Fjallkonan og Ísafold, en með því að Fjallkonan hefir mátt heita hinn eini talsmaður vor kvennanna síðan hún fór að koma út og með því að þér hafið öðrum fremur haldið taum þess að konum bæri að standa jafnfætis körlum, sný eg mér fremur til yðar en annarra og treysti yður betur til að dæma sanngjarnlega og hleypidómalaust um hana þótt hún sé eftir konu.

            Ef svo vel skyldi takast til að yður líkaði hún bið eg yður að gjöra svo vel að taka hana í gið heiðraða blað yðar, og það sem fyrst, með því hún kæmist líklega ekki í færri en 3-4 til að taka ekki of mikið rúm af hverju þeirra.

            Mér þætti mjög gott ef þér vilduð gjöra svo vel og lofa mér hið fyrsta að vita álit um hana. Eg bý í húsi Péturs Bjerings(gagnvart yður) [Laugavegi 6]. Ekki veit eg hvort eg setti nafn mitt við greinina þótt svo tækist til að þér tækjuð hana. Eg ímynda mér að yður væri það sama, en fyrir því að mafn mitt er svo fáheyrt þætti mér illt að láta það verða að alkunnu umtalsefni. En það er reyndar hægt að gera út um það síðar ef þess þarf við.

            Fyrirgefið hasthrip þetta.

            Virðingarfyllst

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

 

Flettingar í dag: 123
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 514033
Samtals gestir: 103947
Tölur uppfærðar: 24.11.2020 09:39:46