14.07.2015 12:12

Ábúendur í Vatnsdal áratuginn fyrir 1880 Fýsilegra að flytja til Ameríku en efna til bús í Grím

 Ingunn Jónsdóttir segir frá búendum í Vatnsdal um 1880

Ingunn var frá Melum í Hrútafirði, af sýslumannaættum og giftist prestsyninum frá Tjörn, Birni Sigfússyni og flutti til hans í Vatnsdalinn og þar bjuggu þau á Kornsá, í sýslumannshúsinu, því sem byggt var 1879.

 

Sýslumannshúsið á Kornsá: http://www.internet.is/sgt/

Vefsíða Guðrúnar dóttur hennar, skólastjóra á Siglufirði:

https://notendur.hi.is//~jtj/vefsidurnemenda/Konur/gudrunbjornsd.htm

 

Mér hefur nú, eftir meir en 50 ár, dottið í hug að minnast með fáum orðum, hvernig bændur þeir og húsfreyjur, er þá bjuggu í Vatnsdal í Húnavatnssýslu, komu mér fyrir sjónir við fyrstu kynningu, er ég kom þangað árið 1883. Það mætti segja við mig: Seint koma sælir því að margt getur breyst í huga manns og margt gleymst á skemmri tíma. Það hafa ýmsir gert sér til gamans að yrkja bændavísur um sveitunga sína, nefna nöfn þeirra og drepa á það helsta, sem einkenndi þá. En vegna þess að ég er lítt fær til skáldskapar, verð ég að hafa mínar vísur í óbundnu máli. Veit ég þó, að þetta muni verða talsverður vandi, því að mikið mannval var þá í Vatnsdal, enda var kallað, að hann væri "hjarta sýslunnar."

Ef farið er rétta boðleið um hreppinn(Áshrepp), er jafnan byrjað á Hvammi. Mun ég fylgja þeirri reglu og finnst það því sjálfsagðara, sem þar bjó þá sveitarhöfðinginn, Benedikt Blöndal, er bar nokkurn ægishjálm yfir öðrum bændum þar um slóðir. Benedikt var stór maður vexti og fríður sýnum, alvörumaður og oft heldur þurr á manninn. Nokkuð var hann vínhneigður, og hafði vínið þau áhrif á hann, að hann varð manna alúðlegastur og skemmtilegastur. Voru menn því fúsir á að veita honum vín, er hann var á ferðalagi; en ekki mun hann hafa drukkið heima, nema ef til vill, þegar vildarvinir hans heimsóttu hann. Þrátt fyrir þetta munu, er hann átti að annast, og afskipti hans af opinberum málum hafa verið í röð og reglu. Hann var umboðsmaður Þingeyraklaustursjarða, sem þá voru margar í Húnavatnssýslu. Auk þess var hann amtsráðsmaður, sýslunefndarmaður, hreppstjóri og stórbóndi. Þyrfti að senda mann til samninga við aðrar sýslur, var Benedikt jafnan valinn til þess. - Það rýrði heldur ekki álit hans, að hann var sonur hins vinsæla og virta yfirvalds, Björns Blöndals sýslumanns, og arftaki hans að jörðinni Hvammi. En á slíkum ættaróðulum, var oft eins og andi feðranna svifi yfir í fleiri liði. - Kona Benedikts var Margrét Sigvaldadóttir, prests í Grímstungu, góð kona og gáfuð, en heilsuveil, og nutu hæfileikar hennar sín því ekki að fullu, enda var staða hennar að mörgu leyti vandasöm og erfið.

Á Eyjólfsstöðum bjó Jónas Guðmundsson, bróðir Jóhannesar Nordal, fyrsta íshússforstjóra hér á landi. Jónas var fríður maður og góðmannlegur. Hann var meðhjálpari í Undirfellskirkju og rækti það starf með stakri nákvæmni og óeigingirni. Hagmæltur var hann vel og söngmaður góður. Kona hans, Steinunn Steinsdóttir, var hin skörulegasta húsfreyja, stillt og vinföst. - Fyrstu kynni mín af þeim hjónum, er ég var nýkomin í dalinn, voru þau, að ég var við jarðarför dóttur þeirra, er þau misstu ársgamla. Verður mér jafnan í minni stilling og jafnfram viðkvæmni Steinunnar, er hún í síðasta sinni áður en lokið var sett á kistuna, strauk yfir litla fallega andlitið, er hún átti nú ekki að sjá framar. Þó var enn meira til þess tekið, hvað þau Eyjólfsstaðahjón hefðu sýnt mikið þrek og stillingu, er þau urðu fyrir þeirri þungu sorg, að missa Sigurð, einkason sinn, á sviplegan hátt, er hann var á leið til háskólans í Kaupmannahöfn. Var hann hið besta mannval, fríður, gáfaður og gervilegur, hvers manns hugljúfi, er honum kynntist, og augasteinn foreldra sinna. Ekki munu margir hafa heyrt til þeirra æðruorð og létu þau þó stórum á sjá á skömmum tíma. Bróðurson Jónasar, Sigurð Nordal prófessor, ólu þau upp. Bætti hann þeim mikið sonarmissinn, enda voru þeir frændur taldir líkir um margt. Þó mun það sár aldrei að fullu hafa gróið.

Bakki er næsti bær Eyjólfsstaði, lítil jörð en snotur og þægileg, ef hún nýtur sín. Þar bjuggu þá fátæk hjón, Sigurður og Una. Sigurður var hinn mesti dugnaðarmaður, hvort sem var við smíðar, vefnað eða heyskap. Una var greind kona, en afar seinvirk. En allt, sem hún gerði, var prýðilega unnið. Þau hjónin komu hjálparlaust upp stórum barnahópi. - Á Bakka voru líka tvær gamlar konur, og þó að þær væru ekki taldar með búandi fólki, höfðu þær eigin eldstó og matreiðslu, og get ég þeirra því líka. Hét önnur Ingibjörg. Hún heyrði ákaflega illa. Vann hún fyrir sér við heyvinnu á sumrin, en tóskap á vetrum. - Hin hét Sigríður og átti sér kenningarnafnið "baun". Var hún því aldrei kölluð annað en Sigga baun og fyrtist hún ekki við það. En svo stóð á því nafni, að áður hafði hún verið sæmileg húsfreyja þar í dalnum, gift en barnlaus. Þau hjón áttu allgott bú og hálfa ábúðarjörð sína, Flögu. En svo tók Sigga upp á því að drekka kaffi í mesta óhófi. Allt bjargaðist þó, meðan bóndinn lifði. En þegar hann dó, hætti hún alveg að gera nokkurt handarvik, nema að hita sér kaffi og drekka það. Einhvern veginn eignaðist hún lítinn moldarkofa á Bakka og hafðist þar oftast við, en fór öðru hvoru manna á milli og bað að gefa sér kaffibaun. Af því fékk hún viðurnefnið. Öllum var meinlítið við hana, því að hún var góðlynd og talaði vel um alla, einkum þó konurnar sem gáfu henni "baun". Hún titlaði þær eftir því hvað þær væru rífar í útlátunum. "Góða" var á einum bænum, "Blessunin" á öðrum, "Dýrðin" á þeim þriðja o. s. frv. Föngin flutti hún svo heim á Bakka, því það var hennar mesta sæla að sitja þar á hlóðarsteinunum og fást við kaffið. En þó var gleðin fyrst fullkomin, ef gest bar að garði, sem gat tekið þátt í kaffidrykkjunni með henni. Jafnvel gat hún haft það til að koma hlaupandi út með rjúkandi kaffibolla, til þess að láta vini sína, sem þar fóru um, bragða kaffið sitt. En ef þröngt var í búi hjá henni, sat hún tímunum saman og saug kaffipokann, eða sauð upp "gromsið" (svo kallaði hún kaffikorginn) upp aftur og aftur. - Sigga baun þótti góð til áheita, og áskotnaðist henni því mörg baunin á þann hátt. Hún var dökkbrún á hörund, og sagði fólk, að það mundi stafa af hennar óhóflegu kaffidrykkju.. En ekki veit ég, hvort það hefir verið hennar upprunalegi hörundslitur, því að ég sá hana ekki fyrr en á gamalsaldri.

Á Hofi bjó Björn Sigfússon. Var hann nýlega byrjaður á búskap; hafði áður lagt stund á smíðar utanlands og innan og líka fengist nokkuð við verslunarstörf. Hafði hann undanfarin ár barist ötullega fyrir stofnun kvennaskóla í Húnavatnssýslu, sem þá var vel á veg kominn. Sneri hann sér nú að búskap og vildi koma í framkvæmd ýmsum umbótum í sveitinni. En þar var við ramman reip að draga. Stórbændurnir voru flestir íhaldssamir. Þeir höfðu ráðið lögum og lofum og kunnu því illa, að aðrir hlutuðust til um þau mál er þeim fannst sér einum tilheyra. Sögðu, að allt hefði nú komist af, þó að ekki hefði verið stofnað búnaðarfélag, keyptar kerrur, eldavélar o. s. frv. Fyrstu búskaparár sín bjó Björn með móður sinni, Sigríði Björnsdóttur Blöndals sýslumanns í Hvammi. Var hún skörungur í lund og mikilhæf kona, en þá orðin öldruð og ekki heilsuhraust.

Davíð Davíðsson bjó þá á Kötlustöðum, greindur maður, fróður og minnugur. Kona hans hét Þuríður. Þau hjón voru mjög fátæk, en áttu fjölda barna, sem öll komust vel til manns. Mun Guðmundur skógarvörður á Þingvöllum vera þeirra kunnastur. Annar var Díómedes, er lengi ferðaðist með Guðmundur Bárðarsyni og var allmikill náttúrufræðingur. Daði, elsti sonurinn, sem enn er í Vatnsdalnum, mun eiga eitt hið stærsta bókasafn, eftir því sem gerist í sveitum. Davíð var ekki við allra skap; þótti hann oft ónotalegur í tilsvörum. Mun sár fátækt, óblíð kjör og skilningsleysi samtíðarmannanna hafa gert hann beiskan í lund. Þó var hann tryggur og vinfastur þeim, er sýndu honum vinahót og velvilja. - Einu sinni kom hann á bæ, þar sem bjó efnuð kona, sem þótti berja sér heldur mikið, "berja lóminn" sem kallað var. Þar sá hann nýtt borð komið í baðstofuna. Þá varð honum að orði: "Þetta er vænt borð. Það komast nokkrir lómar á svona borð."

Davíð og Þuríður komust hátt á tíræðisaldur

Á Gilá bjuggu ung hjón, Magnús Guðlaugsson og Karólína. Þau áttu nokkur börn, öll ung. Þau hjón voru mjög dugleg og vinnugefin, en þó þótti sýnt, að þau mundur ekki komast af hjálparlaust, einkum ef börnunum héldi áfram að fjölga. Var því það ráð tekið (eða ráð), að styrkja þau til þess að komast til Ameríku. En þar var þrautalending margra á þeim tímum. Mér hefir verið sagt, að þau hafi komst vel af í Ameríku og börn þeirra orðið nýtir menn.

Oft hefir sveitastjórnum verið legið á hálsi fyrir að senda svona fólk til Ameríku. En helst munu þeir hafa láð það, sem lítt eða ekki þekktu þau neyðarkjör, sem mikill þorri þjóðarinnar átti við að búa um þær mundir, þegar Matthías kvað:

Spyr ég að norðan nísting harðan.
Neyð að vestan sögð er mesta.
Mistri er roðinn röðull í austri.
Rangárland er vorpið sandi.

Hver og einn varð að bjarga sér og sínu heimili, eftir því sem best hann gat, því að ekki var þá talað um ríkisstyrk til þess að létta undir í harðærunum

Björn Guðmundsson og Þorbjörg  Helgadóttir bjuggu á Marðarnúpi. Höfðu þau flutt þangað fyrir fáum árum, en voru þó búin að byggja sér þar snotran bæ og flestöll útihús, því að allt var þar í rústum, er þau tóku jörðina. Voru þau þó lítt efnum búin. Þó höfðu þau ráðist í að senda son sinn Guðmund, síðar landlækni, í skóla. Líklega hefði þeim samt, er harðindin dundu yfir, orðið ofurefli að kosta hann til framhaldsnáms, ef góðir og velviljaðir menn, sem jafnframt voru vel efnum búnir, hefðu ekki tekið eftir hans frábæru hæfileikum og styrkt hann á margan hátt. - Björn á Marðarnúpi var friðsamur maður, blandaði sér lítt í deilur eða dægurþras, en stundaði bú sitt með mestu snilld. Allt var hjá honum í stökustu röð og reglu. Aldrei vantaði svo mikið sem tind í hrífu eða móttak á klyfbera. Oftast var dagsverkatalan í jarðabótum hæst, eða með þeim hæstu hjá honum; þó að hann hefði ekki meiri vinnukraft en margir aðrir bændur. Jafnan var hann glaður og gamansamur, bæði við gesti og heimafólk. Þorbjörg Helgadóttir var kjarkmikil kona, fljót til hjálpar og úrræða. Hún var lengi vel eina ljósmóðirin í framdalnum. Þótti henni takast vel, þótt ólærð væri(eða sjálfmenntuð í þeirri grein). Hún var mannblendin og glaðlynd. Hún heimsótti oft kunningja sína, án þess þó að vanrækja heimili sitt, því að hún var dugleg og starfsöm heim fyrir.

Guðrún Guðmundsdóttir bjó á Guðrúnarstöðum, góð kona og stillt. Hún hafði þá, eigi alls fyrir löngu, orðið fyrir þungum raunum, er skæð pest kom upp á heimili hennar, er talið var að mundi hafa verið miltisbrandur. Missti hún þá mann sinn og margt af bjargræðisgripum sínum og stóð eftir ein upp með mörg börn. Einkasonur hennar, Guðmundur, síðar bóndi í Ási og alþingismaður, var þá of ungur til þess að veita henni þá aðstoð, sem hún þurfti. En með sparsemi, óvenjulegum dugnaði og hagsýni, tókst henni að yfirstíga örðugleikana og bjó jafnan góðu búi. Hún giftist í annað sinn nokkru síðar. Hét seinni maður hennar Sigvaldi Þorkelsson, dugandi maður. - Margt varð hún enn mótdrægt að reyna. Að síðustu fékk hún krabbamein í lærið. En svo sögðu þeir, sem best þekktu til, að í hvert sinn sem verstu kvalaköstin voru afstaðin, hefði hún haft hughreystingarorð og gamanyrði á vörum til þeirra sem hjá henni voru. Þurfti mikið þrek til að bera slíkt, því að ekki voru tök til að draga úr kvölunum eins og nú er. En trúin á himnaföðurinn styrkti fólkið þá og hjálpaði því. Á þeim tímum var ekki neitt verið að reyna að veikja þá trú eða rugla menn í henni.

Í Kárdalstungu og Vöglum bjuggu Jónar tveir. Þeir bæir eru fremur afskekktir, og kynntist ég þeim eða þeirra fólki aldrei neitt, enda voru þeir ekki lengi þar, eftir að ég kom í dalinn. Ég heyrði þann Jóninn, sem bjó í Kárdalstungu nefndan Jón "tóus". En hvort það var af því, að hann var lagnari að veiða tóur en aðrir, eða það hefir bara verið háð, af því að honum hafi mistekist við þær, er mér ekki ljóst.

Bjarni Snæbjörnsson bjó þá í Þórormstungu. Hann var af hinni gáfuðu og mikilhæfu Snæbjarnarætt, sem þá var nokkuð fjölmenn í dalnum, þó að flest af því fólki flytti skömmu síðar til Ameríku. Nokkrir ungir menn af þeirri ætt voru þar, sem þóttu bera af öðrum að fríðleik og skrautgirni. Jósef bóndi á Hjallalandi sagði svo frá, að einu sinni sem oftar, er hann var staddur í Vatnsdalsrétt, hefði hann séð þar nokkra unga, skrautklædda menn, sem ekki höfðu tekið þátt í réttarstörfum, en auðsjáanlega komið til að skemmta sér. Þar var þá líka staddur Jón Pálmason bóndi í Stóradal. Sagðist Jósef hafa gert það af glettni, þó hann þekkti þá vel, að víkja sér að Jóni og hvísla að honum:"Hvaða herrar ætli þetta séu, sem eru þarna á gangi, með hvítt hálslín og taka engan þátt í réttarstörfum?" Þá hefði Jón litið sem snöggvast upp og og sagt: "Og reykja - og það í harðindum." - Þessir ungur menn fóru skömmu síðar til Ameríku. Hafa þeir eflaust fundið þar eitthvert starf, sem betr hefur verið við þeirra hæfi, en að velkjast hér í þeim harðindum, sem þá dundu yfir landið, eða ef til vill orðið að lúta þeirri hörðu kröfu,sem lífið gerir til flestra, að haga sig eftir landssið og kringumstæðum.

Af því að ég nefndi Jón í Stóradal, get ég ekki stillt mig um að minnast dálítið meira á hann, þótt ekki væri hann Vatnsdælingur. Hann var hinn mesti búhöldur og meðan hann, ásamt þeim Erlendi í Tungunesi og Jóni Þórðarsyni prófasti á Auðkúlu, réð lögum og lofum í Svínadal, var sú sveit talin einna best stæð í sýslunni. Mun Erlendur hafa verið mestur framfaramaður og víðsýnastur þeirra en Jóni í Stóradal voru af mörgum eignaðar flestar framkvæmdirnar.

Árið 1874 var ég á hinni fjölmennu þjóðhátíð sem haldin var á Þingeyrum. Þar heyrði ég Jón nokkurn Sveinbjörnsson, skrifara Bjarna Magnússonar sýslumanns á Geitaskarði, mæla fyrir minni hans með skörulegri og skáldlegri ræðu. Og af því að ég hafði þá óskert minni, festust setningar úr henni í huga mér, er voru á þessa leið:

Hér var allt í auðn og rústum, þar til þessi geisli sannleikans sólar braust fram yfir óruddar hraunklappir heimskunnar, á gullvagni gáfnanna og silfurvagni sólarinnar. Ó, heill sé þér, Jón Pálmason, þú reginviður ríkdómsins.

En svo ég víki aftur að Bjarna í Þórormstungu, þá er hann góðmannlegur og stilltur maður, friðsamur og vel látinn. Alltaf kom hann mér svo fyrir, að hann væri ekki heilsuhraustur. Vissi ég þó ekki til, að hann hefði neinn sérstakan sjúkdóm, en ekki náði hann háum aldri. Kona hans Guðrún Guðmundsdóttir, hafði fyrr verið gift Jóni Bjarnasyni stjörnuspekingi. Hefur hans oft verið getið og hann dáður fyrir útreikninga sína á gangi himintunglanna, en hinu verið minna á loft haldið, sem var þó ekki síður gagnlegt fyrir sveit hans, að hann mun fyrstur hafa orðið til þess að innleiða þar kartöflurækt. Byggi ég þar á frásögn móður minnar. Hún sagði mér svo frá, að þegar hún var að alast upp á Helgavatni, á árunum nálægt 1840, hefði verið gerður þar kartöflugarður, sem enginn var til áður. Þá hefði Jón í Þórormstungu verið fenginn til að segja fyrir, hvernig með skyldi fara og setja kartöflurnar niður. Eitthvað þótti það verk sérviskublandað hjá honum og hefur það ef til vill verið ást hans og nákvæmni við þessa dýrmætu jurt, sem leit þannig út í augum annarra. - Jón Bjarnason gerði tilraunir með ræktun fleiri nytjajurta, t.d. hefur Sigurður Nordal sagt mér, að hann geti þess í bréfi til Björns Gunnlaugssonar (en þeir voru miklir vinir) að hann hafi fengið fullþroskuð jarðarber í garði sínum.

Guðrún Guðmundsdóttir var að eðlisfari glaðlynd og viðkvæm en margt mótdrægt hafði hún orðið að reyna. Faðir hennar var stórlyndur og hinn mesti harðstjóri við konur og börn. Hún var enn lítt af bernskuskeiði er hann gifti hana öldruðum ekkjumanni, sem að vísu var vænn og heiðarlegur maður, en þó lítt fær um að gera unga stúlku farsæla, bæði fyrir aldurs sakir og svo mun hann aldrei hafa verið neitt kvennagull.

Í Koti/nú Sunnuhlíð bjó Gísli Guðmundsson, faðir séra Þorsteins í Steinnesi; greindur maður, en hafði lítillar menntunar notið á æskuárunum. Hefði þó eflaust verið móttækilegur fyrir hana, því að alltaf hafði hann hina mestu ánægju af að tala við þá menn, sem honum fannst hann geta fræðst  eitthvað af. Fyrri kona hans, sem þá lifði, hét Sigríður. Hún var ekki hraust til heilsu og dó skömmu síðar úr krabbameini, sem var mjög tíður sjúkdómur þar í dalnum og lagðist einkum á konur.

Björn Eysteinsson bjó í Forsæludal. Er hann eini bóndinn af þeim, sem voru í Vatnsdal þegar ég kom þangað, sem enn lifir(1939), rúmlega níræður. Búskaparlag hans var æði einkennilegt. Stundum hafði hann stórbú, en stundum féllu flestar skepnur hans úr hor. Eitt vor, er hann hafði misst flest fé sitt og nautgripi, tók hann sig upp úr byggðinni og flutti fram á heiði. Þar byggði hann sér býli á svokölluðum Réttarhól og tók bærinn nafn af honum. Þar fyrstu árin þröngt í búi. Börnin voru þá ung og munu sum þeirra vera fædd þar, en furðu lítið sá á þeim og komust þau öll vel til manns. Þar er líka mörg matarholan. Nægur silungur í vötnum. Nóg af fugli og fjallagrösum. Tófur áttu þar greni í nánd og fékkst nokkuð fyrir að vinna þau og líka verð fyrir yrðlingana, enda var Björn ótrauður að nota sér öll þessi náttúrugæði. Björn var kvæntur, en bjó þegar þetta var, með seinni konu sinni, Helgu Sigurgeirsdóttur, systur þeirra Bardalsbræðra í Winnipeg. Helga var ágæt kona, fríð og gervileg. Marga hef ég heyrt halda því fram, að Björn Eysteinsson sé fyrirmynd Laxness að Bjarti í Sumarhúsum. En ólíku er þar þó saman að jafna. Ekki fyrirleit Björn það, að leggja sér eða börnum sínum til munns silunginn úr sínum eigin vötnum, né fuglakjöt eins og Bjartur gerði; enda varð útkoman eftir því. Björn varð einn ríkasti maður sýslunnar og börn hans duglegir og nýtir menn, en Bjartur verður öreigi og börn hans aumingjar.

Ég hef nú talið upp búendur austan Vatnsdalsár, en þegar vestur yfir ána kemur, er Grímstunga fremsti bærinn. Þar bjó þá fátækur bóndi, Halldór Þorláksson frá Undirfelli. Hann var kvæntur Halldóru Jónasdóttur frá Ási. Bæði voru þau hjón heilsulítil, og var því Grímstunga, sem er ein af stærstu og bestu jörðunum í Vatnsdal, þeim langt ofviða. En svo var lítil trú á landinu í þá daga, að enginn hafði orðið til að fala þar jarðnæði. Flestum þótti langtum fýsilegra að fara til Ameríku.

Þá kem ég að því heimilinu, sem mestur vandi er að skrifa rétt um, Kornsárheimilinu í tíð Lárusar Blöndals sýslumanns, stærsta heimilinu í dalnum, mest um talaða og misjafnast dæmda. Kona Lárusar sýslumanns var Kristín Ásgeirsdóttir Finnbogasonar, er bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi og síðar á Lundum í Stafholtstungum. Voru þau hjón flutt fyrir fáum árum að Kornsá og höfðu reist þar stórt og vandað íbúðarhús úr timbri , þrátt fyrir harðindi og óhagstæða verslun. - Lárus sýslumaður var hið mesta glæsimenni og samkvæmismaður. Hann unni öllu fögru, einkum söng, og var sönggáfu hans og raddfegurð viðbrugðið. Börn hans voru líka öll söngvin svo af bar. - Kornsárheimilið var fjölmennt í þá daga. Börnin voru tíu, sem upp komust. Þrír af bræðrunum voru í latínuskóla og hinn fjórði í Möðruvallaskóla. Vinnufólkið var margt, og auk þess skrifari sýslumannsins og barnakennari á vetrum. Og eins og eðlilegt var á jafnstóru heimili, var þar oft verkafólk, sem ekki var beinlínis heimilisfast, svo sem vefarar, spuna- og saumakonur, því mest var unnið af fatnaði heima. Þó er ótalið það, sem ef til vill setti mestan svip á heimilið og mestri fyrirhöfn olli, og það voru gestir. Svo mátti segja að þar væri aldrei mannlaust - bæði af innlendum og útlendum gestum. Margir áttu erindi við sýslumann, en þeir voru heldur ekki fáír, sem þangað komu einungis til að skemmta sér. Að sjálfsögðu lenti þetta mest á herðum húsmóðurinnar, enda hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar, þekkt nokkra konu, sem mér finnst að mundi hafa verið slíkum vanda vaxin og leyst öll þau störf af hendi með slíkri glæsimennsku, sem frú Kristín Blöndal. Og það því fremur sem efnin voru ekki mikil. Og þó fundu gestir aldrei, að neitt vantaði. Þeirri kynslóð, sem nú er að að vaxa upp, þætti það líklega ævintýri eða jafnvel lygasaga, ef maður færi að segja frá því, að á þessum stóru heimilum voru öll föt unnin í höndunum. Engar prjónavélar nema hinar iðnu hendur kvenfólksins, til að prjóna plögg á allan þennan hóp. Engar kembingarvélar eða spunavélar. Sýslumannsfrúin í hinni stóru Húnavatnssýslu, sem gekk þó að öllum innanbæjarverkum með stúlkum sínum, þvoði þvott með þeim, sá um matreiðslu og allt annað, unni sér þó ekki hvíldar, meðan hún talaði við gesti sína, heldur hafði prjóna í hverri stofu sinni til að grípa í, ef hún settist niður litla stund. - En unga fólkið var nú heldur ekki alið upp í iðjuleysi á þeim dögum og gamla fólkið sagði, að héldi maður að sér höndum, sæti maður undir sjö púkum og hampaði þeim áttunda, sem fáir vildu verða til.

            Eigi verður því neitað, að frú Kristín, sem var mjög örlynd og stórorð kona, var ekki svo varfærin í dómum um fólk sem æskilegt hefði verið, og eignaðist hún fyrir það ýmsa óvini sem reyndu að gjalda henni í sömu mynt, þó að sumt væri það að ástæðulitlu.

            Lárus Blöndal var svo vinsælt yfirvald og hverjum manni velviljaður, og mátti hið sama um hann segja og Eysteinn konungur sagði um sjálfan sig, að hann óskaði þess, að allir færu glaðir af sínum fundi. 

 IJ Gömul kynni 1946 bls. 234-235

 

Í manntali 1880 eru taldir 31 á Kornsárheimilinu

Sýslumannshjónin Lárus og Kristín 43 og 42 ára, elst barna Sigríður 15, Björn 10, Ágúst Theódór 9, Kristján Júlíus 8, Guðrún, Jósep, Ragnheiður og Jósefína Antonía eru öll kölluð Lárusbörn, einungis 2 fyrstu eru skráð með Blöndalsnafninu. Þá kemur Arndís systir húsfreyju 41, Jón tökupiltur 15, Kristján vinnumaður 43, Ólafur Stephánsson Thorarensen skrifari 22, Hjálmar 49, Guðmundur 19 og Jón 23 vinnumenn, Jón sveitarómagi 47, Margrét 47, Sólveig 32, Guðbjörg 46, Karen 45, Guðrún 58 og Guðbjörg 18 vinnukonur, þá Guðrún kaupakona 45, Guðný tökukerling 79, Ingibjörg sveitarómagi 69, Steinunn tökubarn 10, Árni 49 og Björn 23 snikkarar og Kristján 25 smíðapiltur

 

Á Hnjúki, sem er ysti bær í Vatnsdal að vestan, bjuggu þá öldruð hjón, Jón og Engilráð. Voru þau vel efnuð og þó fylgdi gamli maðurinn því orðtæki, "að það er ekki búmaður, sem ekki kann að berja sér," og þótti hann láta heldur illa af heimilisástæðum sínum. Setti Páll á Akri(faðir sér Bjarna í Steinnesi), sem var vel hagmæltur, saman vísur, sem áttu að vera eftir Jóns eigin orðum, þegar hann talaði um konu sína, syni og annað heimilisfólk:

 

Ég er orðinn ónýtur.

Oft vill Jóni burtu skila.

Helgi er manna heimskastur,

en "heillin" ósköp farin að bila.

 

Ingiríður er aldrað fljóð,

Ólöf mesta strákaflenna,

Hallgrímur er hyskinn nóg.

Hjálmar engu gjörir nenna.

 

Engilráð þótti hin mesta gæðakona. Var hún orðlögð fyrir góðsemi og örlæti við fátæka. Og þó að bóndi hennar nöldraði dálítið um það við hana, fór hún sínu fram. Eitt sinn hafði hún gefið fátækum nágranna þeirra, er Þorsteinn hét, heilan eldiviðarhlaða. Þegar hann kom að sækja hlaðann, segir Jón við konu sína:"Gafstu nú honum Þorsteini hlaðann?" "Já," segir hún. "Guð borgar fyrir hann Þorstein." "O, ekki á Guð að borga fyrir það. Hann Þorsteinn á að borga það sjálfur," sagði Jón.

            Kaupakona var hjá þeim hjónum, sem átti foreldra vestur í Víðidal. Einn sunnudagsmorgun kemur hún að máli við húsfreyju og biður hana leyfis að finna foreldra sína. Var það auðfengið, og segist Engilráð skuli skuli nefna það við bónda sinn, að hann ljái henni folaldshryssu, sem var þar heima við. En nú var sá galli á, að hann eins og fleiri í þá daga var því mjög mótfallinn, að kvenfólk ferðaðist nokkuð , nema þá helst til kirkju. Þegar nú Engilráð biður hann að lána stúlkunni hryssuna, tekur hann því illa og segir:"Það er af og frá, að ég láni hana; stelpan getur setið heima." "Vertu nú rólegur heillin," segir kona hans. "Þetta er nú ekki löng leið." En við stúlkuna segir hún:"Hann ætlar að lána þér hryssuna. Taktu hana og flýttu þér svo af stað." Og varð svo að vera sem hún vildi. - Þegar Jóni bónda þótti kona sín helst til örlát, hafði hann það til að segja sem svo: "Þú vilt allt gefa og öllu ráða hér á Hnjúki, og þó áttir þú varla fötin á þig, þegar þú komst til mín." "Það er nú satt," svaraði þá Engilráð með sömu hógværðinni og vant var. "En Guð hagaði því svo vel til, að láta mig koma hingað til að annast þig í ellinni, heillin mín, og gleðja marga fátæka. Efnin okkar hafa ekki orðið minni fyrir því; Guð hefur borgað fyrir þá."

 

Manntal 1880

Jón Þorsteinsson húsbóndi 82 Engilráð Stefánsdóttir kona hans 72  Helgi Jónsson sonur hjónanna 36 Hallgrímur Sveinn Jónsson sonur hjónanna 29 Jón Þorsteinsson vinnumaður 16 Anna María Gísladóttir vinnukona 19 Helga Jónsdóttir vinnukona 26 Lilja Björnsdóttir vinnukona 46 Sigurbjörg Árnadóttir dóttir hennar 15 Engilráð Sveinsdóttir sveitarómagi 3

Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 337
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 470063
Samtals gestir: 90458
Tölur uppfærðar: 25.1.2020 01:14:45