09.04.2015 12:22

Einar prestslausi í Grímstungu eftir Þorstein frá Hamri

Einar prestlausi - frásögn Þorsteins frá Hamri, gerð fyrir Fálkann 1961 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=295493&pageId=4376869&lang=is&q=snapa%20gams

 

Á sjötta tug 18. aldar stundar nám í Hólaskóla ungur maður sem er á ýmsan hátt meiri fyrir sér en æskilegt þykir. Námsgáfur hefur hann ágætar, og er slíkt að sjálfsögðu ekki lastað; hraustari er hann og glímnari en aðrir skólasveinar, og sá eiginleiki hefur laungum verið í hávegum hafður á voru landi; og hvorttveggja þetta væri auðvitað blessunarlegasta guðsgjöf á menntasetrinu ef ekki fylgdu þau ódæmi sem raun er á; svo hrekkjóttur og illgjarn er pilturinn að einginn getur við honum séð. Og fyrst þegar við höfum sögur af honum í skólanum stundar hann það gráa gaman að kveikja í hárinu á félögum sínum meðan þeir sofa. Skólakennararnir líta að sjálfsögðu straungum augum á atferli þessa baldna nemanda, en geta þrátt fyrir allt ekki annað en viðurkennt gáfur hans og námshæfni; enda fær hann í hvívetna meðmæli þeirra í þeim efnum. En piltar hugsa honum þegjandi þörfina. Síðan líður að þeim tíma er skelmir þessi útskrifast með ágætum og býst til heimferðar: það er árið 1754. Hann fer í sín beztu klæði. Skólasveinar, félagar hans, hafa víst eitthvað í huga, því þeir leiða hann úr hlaði með mikilli viðhöfn, allir sem einn. Einn geingur á undan og teymir hest hans, en þeir leiða pilt á eftir og sýngja lofsaungva á latínu. Hann lætur sér þetta vel lynda. En við traðargarðinn er kálgarður sem veitt hefur verið í vatni, svo þar er leðja djúp; og þegar prósessían líður þar hjá sem forin er dýpst, þá verða skjót umskipti. Einn félaganna þrífur hatt stráks og varpar útí forina en hinir fylgja fast eftir og steypa kvalara sínum á kaf. Það fyrsta sem hann sér þegar höfðinu skýtur upp er það að nokkrir piltar siga hundum á reiðskjóta hans, en allur þorri þeirra stendur í röð á bakkanum og sýngur níðljóð á latínu. Og hvort sem honum líkar betur eða verr, þá er það þarna sem hann biður fyrirgefningar á brotum sínum og þykir fótur sinn fegurstur er hann sleppur burt og röltir í humátt á eftir hesti sínum.

 

Það var séra Eiríkur Hallsson í Grímstúngu, vinsæll maður og vel kynntur, sem árið 1754 tók við Einari syni sínum úr Hólaskóla. Einar hefur lítillega verið kynntur nú þegar, en eina sögu úr æsku hans mætti segja til viðbótar því hún sýnir hve krókurinn beygist snemma til þess sem síðan einkenndi hann: þegar fátæklíngar komu að Grímstúngu og báðu um matarbita, var það siður Einars að koma með matarglefsu og rétta til þeirra. En þegar hinn snauði með feginleik í augunum bjóst til að taka við bitanum, þá sagði piltur: "Ójá, maður; það er hérna." Að svo mæltu át hann matinn sjálfur. Séra Eiríkur fór þess brátt á leit við biskup að hinn nýbakaði stúdent feingi prestvígslu. Biskup var hinsvegar tregur til jáyrða. En þegar prestur hafði nauðað um þetta lánga hríð, svaraði biskup þeim orðum er síðan þóttu sannmæli: "Hempuna skal hann fá, en hrekkvís verður hann alltíð." Árið 1759 varð Einar svo aðstoðarprestur föður síns, þá rúmlega tvítugur, og þegar séra Eiríkur dó 1777, fékk Einar Grímstúngu eftir hann.

 

Í 135 ár höfðu forfeður hans verið prestar í Grímstúngu hver eftir annan og jafnan verið mikils virtir. En "séra Einar var ólíkur forfeðrum sínum, hjákátlegur í mörgu og sérlyndur og ekki þokkasæll af sóknarfólki sínu, hrekkjamaður og illmenni - en gáfaður var hann". Einar fékk þeirrar konu er Þóra hét, dóttir Jóns prests Sigurðssonar á Kvíabekk, væn kona. Einar var auðugur að fé. en nízkur, svo mjög að með fádæmum var. Við sjálfan sig sparaði hann ekkert, en konu, börn og hjú sín svelti hann. Af hjónabandinu er það stytzt að segja að Þóra festi ekki yndi með Einari og fór að Haukagili til ríks bónda þar, Ólafs Jónssonar, og þar andaðist hún. Í móðuharðindunum 1784-85 fór margt húngraðra förumanna um land, en kæmi einhver slíkur að Grímstúngu, var viðkvæðið hjá séra Einari: "Átt þú hér nokkurt kvígildi á leigustöðum? Nirfill í Koti, Ríki mann í Hvammi. Heimski Bjarni í Túngu, Rellu-Láfi á Haukagili, Digri Gvendur í Saurbæ, Hálfdan kolapoki og maðurinn með stóra sarpinn, þeir geta bríngt ykkur ölmusu. Farið þið til þeirra." - Þannig uppnefndi séra Einar flesta menn. Um sama leyti var það eitt sinn er prestur kom úr kirkju, að hann gekk til eldhúss, færði kjötsoðníngu upp í trog og fór burt með það. Í sömu svifum settust nokkrir flakkandi vesalíngar að pottinum og byrjuðu að drekka soðið. En klerkur var ekki leingi. Hann kom að vörmu spori með fullt næturgagn og hellti úr því í pottinn. Hann sagði um leið: "Gerið ykkur nú gott af þessu eftir því sem þig bezt getið." Það var og venja séra Einars að grýta að förumönnum er hann sá til þeirra handan Álftaskálarár. Björn Ísaksson hét maður. Hann hafði dvalið um hríð á Haukagili hjá Ólafi Jónssyni. Einsog aðrir vissu þeir um þessa siði Einars; og eitt sinn tók Björn það ráð að hann klæddist tötrum og fór suður yfir ána. Leið ekki lángt áður en prestur kom, áleit að þar færi flökkukind og tók þegar að grýta að Birni. Hann sótti þó ekki sigur í þeim stað, því Björn réðist að honum, dró niðurum hann brækurnar og lúskraði honum. Prestur stóðst ekki afl Bjarnar, og er það sögn manna að hann hafi látið af griótkastinu um hríð eftir þessa viðureign. En viðmót hans gagnvart vesalíngum var ævinlega hið sama. Hann stóð frammifyrir vergángsmönnum líkt og í æsku sinni: "Þetta étur presturinn í Grímstúngum - en þú mátt snapa gams vesalíngurinn þinn." Stundum þegar kirkjufólk var að tínast í hlaðið á Grímstungu, var prestur að bera kjöt og smjör útum allt hlað og sagði: "Þetta étur presturinn í Grímstúngum - en hvað hafið þið aumíngjarnir ykkar?" Séra Einar eldaði sjálfur allan hátíðamat, og fékk þá einginn annar að koma í eldhúsið.

 

Atferli Einars mæltist hvarvetna illa fyrir, og auðsætt þótti að þannig yrði hann ekki lángær í embættinu. Eitt sinn síðla sumars var fólk allt komið til kirkju, en ekki bólaði á presti. Meðhjálparinn, sem var Ólafur Jónsson á Haukagili, vitjaði þá um hann og var hann inni í bæ. Ólafur kallar á hann, en fékk þetta svar: "Far þú Láfi, ég kem." - Ólafur fór þá út aftur og beið drykklánga stund, en ekki kom prestur; og þegar Ólafur vitjaði hans á ný var prestur í búrinu, og enn fékk Ólafur sama svar. Hann gekk þá út og samhríngdi, vitjaði síðan enn um prest, og var hann þá kominn í eldhúsið og var að vanda um ýmislegt þar. Eftirað Ólafur hafði enn minnt hann á að koma, gekk hann út og skipaði öllu messufólki að fylgja sér burt. Prestur gekk þá út á bæjarhólinn, hrækti á eftir Ólafi og kallaði: "Svei þér og farðu." Ólafur tilkynnti nú prófastinum Jónasi Benediktssyni á Höskuldsstöðum atferli prests, þetta og ýmislegt fleira.

 

 Nokkru síðar fréttist að Grímstúngu að það væri ætlun Jónasar prófasts að sækja hann heim og myndu nokkrir prestar vera í fylgd með honum. Þá mælti séra Einar: "Ég hræðist ekki þótt hann komi, hann digri Jútur á Höskuldsstöðum, og þótt með honum verði Snerill í Bólstaðarhlíð, Soltinn Lángur í Blöndudalshólum, Bakka-Krummi, Eintrjáníngur á Auðkúlu, SteinnessGráni, Þyrilfaxi á Undirfelli og Pjakkur með honum." - En þetta voru prestar nyrðra: Digri Jútur var Jónas prófastur, og síðan í sömu röð: Björn Jónsson í Bólstaðarhlíð, Auðunn Jónsson í Blöndudalshólum, Rafn Jónsson á Hjaltabakka, Ásmundur Pálsson á Auðkúlu, Sæmundur Oddsson í Steinnesi, Guðmundur Guðmundsson á Undirfelli og Páll Bjarnason, sem þá var reyndar ekki orðinn prestur, en var síðan á Undirfelli. Þegar prófastur kom var stefnt þángað öllum sóknarbændum og stóð rannsóknin í viku. Meðal ýmiskonar afbrota kom til athugunar að í skiptum eftir Þóru konu sína hafði séra Einar dregið peníngskistil undan Mun það hafa orðið honum drjúgast til sakaráfellis. Meðan rannsókn stóð yfir messaði Jónas prófastur í Grímstúngu. Í lok messunnar mælti hann til séra Einars svo allir heyrðu: "Þér verðið nú, monsjör Einar að standa allan kostnað sem þessir menn sem með mér eru, við þurfa, þar til allt er geingið fyrir sig sem gera skal." Við þessi orð reiddist prestur ákaflega, greip hempu sína af kórbita, hljóp með hana fram á mitt kirkjugólf, vafði saman í vöndul og kastaði henni að fótum prófasts og mælti: ,,Nú skal það heita monsjör. Ykkur er bezt að taka við henni Brúnku og svei henni." Síðan gekk hann burt. Með þessu mátti segja að hann hefði þá afsalað sér hempunni en að prófasts dómi var hann dæmdur frá kjóli og kalli. Þetta var 1786. Málinu var stefnt fyrir synodus að Flugumýri, en séra Einar mætti ekki þar. Hann skrifaði þángað bréf og sagðist nýlega hafa verið lýstur faðir að barni. Eftir það þótti ekki taka því að efast um réttmæti þess að dæma hann frá. Um dómsmenn sagði Einar að þeir héngju saman á hölunum eins og Samsons refar. Eftir þetta gegndi Einar aldrei prestsskap og var kallaður Einar prestlausi. Þóra Sigurðardóttir, kona hans, hafði aðeins verið hjá honum þrjú ár, og eins og fyrr var sagt, dó hún hjá Ólafi á Haukagili eftirað hafa verið húskona þar allmörg ár. Við jarðarför hennar sagði Einar prestur þegar hann gekk frá leiðinu: "Lof sé guði vor lausn er gerð." Síðan gekk hann nokkur fet, hló þá dátt og mælti: "Létt er þeim sem lausum flakkar." Eftir þetta bjó hann um skeið með systur sinni, er Kristín hét. En barn það sem hann var lýstur faðir að meðan á málunum stóð, átti hann með vinnukonu sinni er Ingibjörg Guðmundsdóttir hét. Hana kallaði hann Imbu strympu. Síðan giftust þau, og munu siðir Einars hafa haldizt svipaðir. Þegar Einar mataðist fékk auðvitað einginn nærri að koma, og við Ingibjörgu sagði hann: Þú hefur lyktina Strympa. Um þessa giftíngu orti Einar:

        Leingi hefur lúðurinn góma

        látið fyrir erum hljóma  

        að hún vildi eignast prest,

        aldrei komst hún að þeim sóma

        af því missti meydóms blóma,

        í tómri tunnu bylur bezt.

Þau Ingibjörg eignuðust son er skírður var Ólafur, en Einar kallaði hann jafnan Ólaf drelli eða Drelli Strympuson. Ólafur þessi varð mikill kvæðamaður. Ein af vinnukonum Einars hét Helga, og mælt var að hún hafi orðið þúnguð. Fóru þau þá eitt sinn saman fram á Grímstúnguheiði. og eftir það þótti þúnginn horfinn. Þegar Einar varð var við að menn hefðu orð á þessu sagði hann í spotti: "Ójá, ójá, maður, ef Sýrvatnsás kynni að tala, vissi hann af barninu hennar Helgu." - Aldrei var hann þó sakfelldur um þetta. Eitt sinn eftir að hann giftist Íngibjörgu var hann að sjóða hángikjöt í jólamatinn og bannaði öllum að stíga fæti í eldhúsið. Heimafólk allt og þar með kona hans var svángt. og var það nú ráð einnar af vinnukonum, að hún dulbjó sig einkennilega með rekkjuvoð yfir sér og mætti Einari þannig í gaungunum. Einar var myrkfælinn, hljóp til konu sinnar og sagði: "Komdu Íngibjörg, það gánga undur á frammi." Kona hans lézt þá sofa. en á meðan veiddi vinnukonan upp úr pottinum og gæddi fólkið sér á því síðar.  Kirkjusiðir Einars voru ekki allir við hæfi, meðan hann stundaði prestskap sinn. Hvort hann leyfði fólki að vera til altaris hjá sér, fór algerlega eftir duttlungum hans. Eitt sinn ætlaði gömul kona, Sesselja að nafni, að vera til altaris, en fékk neitun. Hún fór þá að gráta. Einar mýktist ekki meira en það að hann sagði: "Nei, snúðu aftur LángaSetta. Þú skalt nú snapa gams í dag." Eitt sinn þegar biskup vísiteraði kom hann til séra Einars, og þegar biskup ætlaði burt með sveinum sínum að loknum kveðjum, byrjaði prestur að sýngja hann úr hlaði einsog siður var. Hann var raddmaður mikill og saung:

Hér kom einn með hettu,

höldar til sem fréttu,

rétt af ráði sléttu

róla híngað náði.

Þýða veizlu þáði.

Graut og spað spað spað

graut og spað spað spað

graut og spað, ég greini það

gráðugt éta náði.

Síðan gekk prestur heim hlaðið og sagði: "Þetta er fullgott í hann. Þetta skal hann hafa." Eftirfarandi niðurlag á einni af stólræðum séra Einars hefur varðveitzt og bendir til ærinnar mælsku jafnframt sérkennilegri túlku á síðasta dómi: "Hvar mundi það lenda á sinum tíma, sá lifnaðarmáti sem nú yfirgeingur í þessari sýslu, svo sem hórurí, lauslæti, agg, reiði, flokkadráttur öfund, bakmælgi, lygi, þjófnaður, drykkjuskapur og annað því um líkt? Hvar mundi það lenda segi ég, þegar hann sá voldugi myrkranna konúngur kemur til að endurgjalda einum og sérhverjum þann eða þann glæp sem hver hefur með þeim eða þeim líkamans Mm framið, að endurgjalda segi eg með því hárbeittasta pínslarfæri sem hann sá voldugi myrkranna konúngur getur verst upp fundið í því díkinu, sem vellur af eldi og brennisteini, og hvar munuð þér þá standa, rauðir af blygðun ykkar andlitis og skömminni íklæddir? Amen." Ævinlega hrækti Einar á leiði Þóru, fyrri konu sinnar, þegar hann átti leið framhjá því.  Eftirað Einar missti hempuna var hann annars leingstum í húsmennsku, en á sumrin flakkaði hann og sagðist þá vera á reisu. Leingstu vist hafði hann á Akri hjá Arnbirni Árnasyni (d 1835) og konu hans, Sigurlaugu. Um veru sína þar sagði hann: "Þar er aðgerðarlaust meinleysi, ánægjulegur friður og yfirgnæfanlegt húngur." Arnbjörn bónda kallaði hann Skarnbjörn pjaka en Sigurlaugu ýmist Laungu nurtu eða Tíkina Doppu. Einar átti tík, sem hann kallaði Dimmu og hafði mikið dálæti á henni. Svo virðist sem einhverjir hafi drepið hana fyrir honum, því hann orti brag sem byrjar svo: Þeir sem drápu Dimmu kind drýgðu mikla höfuðsynd. Hann orti einnig sjálfum sér grafskrift, þótt sumir segi raunar að aðrir hafi kveðið hana undir nafni hans af skensi; en hún er svona:

Þegar dauðinn sýnir sig

og síðast ríður mér á slig

þá vil ég láta leggja mig

loks hjá minni bleyði

sem ég leingi þreyði.

Erum við þá þá þá

erum við þá sem allir sjá

undir sama leiði.

 

Á leiðinu skal liggja tré

loftskorið með E og E,

fágað allt og fagurt sé

svo finnist eingin lýti

þó krummar á það kríti.

Úti er þá þá þá

úti er þá allt eymdarstjá

og Einar kominn í Víti

og betri komin býti.

 

Einar var eitt sinn á Stóru-Giljá. Vinnumaður einn er Hrólfur hét ræddi við hann um mann sem orðið hafði vitskertur. Þá sagði Einar: "Nú, mundi ég ekki þegar ég var prestur uppi á Grímstúngu, hafa getað talað svo um fyrir þessum manni, að hann hefði orðið sáluhólpinn? "Jú, víst kann það að vera Einar minn," svaraði Hrólfur, "því Júdas gerði kraftaverk með hinum postulunum og fór þó til helvítis." "Nú, dragðu þér þá sjálfum dæmi af Júdas, skömmin þín," sagði Einar þá ævareiður. Vorið 1810 flakkaði Einar um Vatnsdal og kom að Hvammi Þar bjó Jón Jónsson hreppstjóri og Sigríður Bjarnadóttir kona hans. Einar settist á bekk í bæjardyrunum og mælti við Sigríði: "Nú er ég kominn til að deyja hjá þér." "Ekki er það víst, Einar minn," sagði húsfreyja. "Látum svo vera, en ég ætla að gista hjá þér í nótt," sagði Einar. Daginn eftir var hann veikur og var borinn í rúm í stofunni. Hann hélt þá á keyri sínu í annarri hendi en peníngapýngju í hinni, spurði um flauelsbuxurnar sínar og var að hæla keyrinu: "Þykir ykkur það ekki fallegt?" Þar lá Einar hálfan mánuð. Á þeim tíma kom þar Páll Bjarnason sem þá var prestur að Undirfelli, og heyrðist þá spurt inní rúmi: "Er Pjakkur kominn af stað?" Ekki virtist sem honum væri neitt um komu hans gefið. í annað sinn sem séra Páll kom, spurði húsfreyja Einar hvort hann vildi ekki að prestur kæmi til hans. Einar svaraði: "Hvað mun hann segja um það sem ég veit, sem verið hef prestur í 27 ár og það góður prestur, kapellán í 18 ár og prestur í 9? Ég veit allt sem hann segir og mun segja." Hann var spurður hvers vegna hann kallaði prestinn Pjakk, og svaraði: "Er ekki pjakkað með páli? Þú heldur kannski, Sigríður Bjarnadóttir, að ég sé skammlífur? En sá vísi maður Halldór prestur á Breiðabólstað fyrrum sagði að ég yrði allra höfðíngja elztur á landinu - mundi hann vita, - og ég yrði vel áttræður. Nú er eitt ár þangað til." Að skammri stundu liðinni var Einar prestlausi liðið lík. Það var 10. apríl 1810. Þess er ekki getið að hann hafi orðið nokkrum manni harmdauði, en minn- íng hans hefur fræg orðið. (Heimildir: Blanda HI.; Jón Þorkelsson: Þjóðsögur og munnmæli; Þjóðsögur Jóns Árnasonar http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=295493&pageId=4376869&lang=is&q=snapa%20gams

Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478240
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 06:53:15