02.07.2014 08:06

Vetur á kvennaskólanum - HP

              Hulda Pálsdóttir Höllustöðum 1908-1995

Minningar úr Kvennaskólanum á Blönduósi 1924-5

Sigríður Theódórsdóttir frá Bægisá kenndi flest bóklegu fögin og hvítsaum. Hún gekk í peysufötum alla daga og átti erfðasilfur enda af fyrirfólki komin. Þó held ég að hún hafi ekki átt glaða æsku. Einu sinni man ég, að hún lét okkur hafa sendibréf fyrir stílefni. Ég hafði ekki Kv. Bl. Kvennaskólinn Blönduósi fyrir heimilisfang, heldur skrifaði ég frá "Klaustrinu" og tíndi eitthvað til sem gerðist daglega og lét það m. a. koma fram hversu lítið var um herraheimsóknir.

Þar var aðeins gamli Mangi sem var vinnumaður í skólanum og gerði erfiðisverkin, sómakarl. Og svo kom stundum í matinn stútungs-bílstjóri innan af Blönduósi, sem þótti sparsamur og bjó einn. Hann hefir eflaust verið tungulipur, annars hefði hann ekki mætt þessari gestrisni ástæðulausri. Hann var kurteis og lét námsmeyjar afskiptalausar og hann hafði, kannski vegna aldurs, ágætan frið fyrir þeim. Eitthvað ruglaði ég meira niður á pappírinn. En þegar Sigríður sá þennan samsetning, setti að henni ótrúlega mikinn hlátur, og það gladdi mig, því hún var annars svo mikil dama.

Ég var í orgelspilatímum hjá Sigríði og líka vorum við tvær stelpur í dönskutímum hjá henni á kvöldin tvisvar í viku. Tvær aðrar voru í enskutímum hjá Kristjönu. Ekki voru tekin próf í þessum aukafögum.

HP/Einu sinni var - Afmælisrit SAHK 1988


Tengill á efnisyfirlit Stikilsíðunnar:

http://stikill.123.is/blog/2007/07/02/124393/

 

Til að byrja með var skopast bæði að kvenfélögum og kvennaskólum og þó meira að kvenfélögum, því í þá daga þóttu konur standa svo mikið að baki karla og hafa hvorki félagsþroska né vit til að vinna að opinberum málum, enda höfðu þær ekki fjárráð, ekki einu sinni yfir þeim eignum sem þær fengu í arf. Þrátt fyrir þessa trú og tíðaranda, höfðu ýmsar konur góða yfirsýn og var ósanngirnin vel ljós.

HP/Einu sinni var - Afmælisrit SAHK 1988

 

         Forstöðukona var á þessum árum frk. Kristjana Pétursdóttir frá Gautlöndum. Hún kenndi: Kjólasaum, útsaum og söng. Ég man eftir fyrsta laginu sem við æfðum. Vísurnar eru eftir Guðmund Guðmundsson og eru á þessa leið:

             Haust er á heiðum, hvílir á meiðum

þögn yfir þrastahóp.

Man ég hve sungu svanirnir ungu

áður við Austur-Hóp.

 

Heiðrænir hljómar, hugljúfu ómar

bjartra drauma brot.

Vekja mér gleði, vorþrá í geði,

undir aldurþrot.

Við æfðum með röddum og það var gaman.

Frk. Kristjana var, held ég, öllum ógleymanleg, sem kynntust henni. Hún var gædd óvenjulegum persónutöfrum. Hún var andlitsfríð og svipmikil með fallegt bros og viðfelldin málróm, hafði virðulega og fallega framkomu og engum hefði getað dottið í hug að misbjóða henni á nokkurn hátt. Andrík og skemmtileg var hún og gat talað um hvað sem var, enda fjölgáfuð og fjölhæf á allan hátt, dugleg og krafðist þess líka af öðrum. Fyrst og fremst held ég að hún hafi verið góð kona og óvenju rík af samúð og skilningi.

Húnvetningar tóku henni með fögnuði og vildu allt gera henni til hæfis, en kvöddu hana með hryggð og sárri sorg, er hún fór eftir sex ára dvöl. Sýslungar hennar lögðu fast að henni, einkum Helga Kristjánsdóttir á Laugum í Reykjadal að koma þangað austur og móta þar og stofnsetja kvennaskóla. Heyrt hefi ég að Kristjönu hafi verið þetta erfitt. Nemendur hennar gleymdu henni ekki og hugðu á endurfundi og eina konu þekkti ég, sem varð svo mikið um þegar hún frétti andlát Kristjönu, mörgum árum síðar, að henni fór ekki tár úr auga í tvær vikur. - Kristjana gerði lítið að því, a.m.k. veturinn 1924-25 að kalla okkur saman og flytja áminningarræður, enda hefur þess sennilega ekki gerst þörf, því við vorum hlýðnar og alveg eins og ljós. Annars efa ég að frk. Kristjana hafi verið mælsk, líklega hefir henni fallið betur að skrifa. Bréf á ég frá henni skrifað nokkrum árum síðar og mér finnst það vera dýrgripur.

                  HP/Einu sinni var - Afmælisrit SAHK 1988

Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478240
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 06:53:15