11.11.2011 17:07

Ljóð Jónasar Tryggvasonar I


S
einni hluti ljóðabókarinnar, Harpan mín í hylnum: http://stikill.123.is/blog/2011/10/23/547953/
daddddd
d

Til æskuleiksystur

Rifjast upp í minni mínu

morgunglaðar æskustundir.

Saklaus börn með blik á augum

bláum himni léku undir.

 

Man ég einnig vetrarvöku

vorsins töfraheimi fjærri,

þar sem gnægð af gleðiföngum

gerði lága bæinn hærri.

 

Ylja mun, þótt árum fjölgi,

æskudrauma hálfgleymd saga.

Leiksystir frá liðnu vori.

Lifðu heil um ævidaga.

                    Jónas Tryggvason

    Söngur Heklu

Sambands norðlenskra karlakóra

Hefjum glaðir Heklusöng

hjartaslögin undir taka.

Júnídægrin ljós og löng

leysa sál úr vetrarþröng,

þó að væri stundum ströng

starfsins langa næturvaka.

 

Látum drengir hljóma hátt

Heklusöng á miðju vori.

Tökum hverja sorg í sátt.

Sjáum aðeins heiðið blátt

svo við getum saman átt

söng í hjarta, blóm í spori.

                     Jónas Tryggvason   

 

Við vígslu Húnavers

Sjá hásumardag

yfir dalnum og ánni.

Heyr fagnaðarlag.

Gakk til fylgdar með þránni

sem lyfti sér hátt

yfir hvers dagsins annir

fann styrk sinn og mátt

gegnum storma og fannir.

 

Því fólkið á þrá

þótt í fásinni búi.

Það langar að sjá

hvort að svanir þess fljúgi

og daganna strit

inn í dölunum þröngu

hlaut blæ sinn og lit

í þess ljóði og söngvum.

 

Þótt draumarnir þrátt

ei við dagana sættust

sveif hugurinn hátt

þegar heimarnir mættust.

Því hljómar í dag

yfir dalnum og ánni

það fagnaðarlag

sem var fóstrað af þránni.

 

Með hátíðabrag

skal nú byggð okkar skarta.

Hún hyllir í dag

þenna drauminn sinn bjarta,

sem rættist og varð

hér að vitni um samtíð

er byggði sinn garð

inn í bjartari framtíð.

Jónas Tryggvason        


 

             Við dánarfregn hins daufa

Er vorið leysti dalinn úr klakans köldu þröng

og kveðja þess til lífsins að nýju tók að óma,

en jörðin varð eitt sönglag á hörpu nýrra hljóma

þú heyrðir aðeins kliðinn af þessum frjálsa söng.

 

Af glaðværð léttra hlátra er gullu stræti og torg

í glaumi þeirrar stundar, sem framhjá örfleyg þýtur

og heillar þann með töfrum sem hennar fylgdar nýtur,

þú hreifst ei með þeim straumum, varst einn í fjöldans borg.

 

Þá hergnýr trylltra þjóða ei þyrmdi næturró

hins þjáða og vökulúna og sæng hans vætti tárum,

en myrkrið varð sem hafsjór af harmastunum sárum,

þú heyrðir fæst af þessu - en vísast kannski nóg.

 

Um alla fólksins vegi fer löngum lágsiglt skraf

sem lætur vel í eyrum við fyrstu dægurkynni

en hneppir sál í fjötra og fólkið lokar inni.

Þér heyrnarleysið frelsi frá þessum viðjum gaf.

 

Svo var þín einstigsganga um gróðurvana fjöll.

Þar gleymdust engin rök fyrir þínum skapadómi.

Að hálfu í landsins veröld, að hálfu í auðn og tómi,

þú hefir vegferð lokið og sagan þín er öll.

 

Nú hljóðna raddir sumars og blikna dalsins blóm

 er brunninn loks að skari var ævi þinnar kveikur.

Og meðan okkur hinum nú haustið kveðju leikur,

þá heyra munt þú dyninn af vorsins lúðurhljóm.

 Jónas Tryggvason    

 

Óskar Guðmundsson

Eiríksstöðum

Hljómaði harpa

á heiðum morgni

björt og himinhrein.

Sungu sólfagrir

silfurstrengir

óð hins unga vors.

 

Hljóðnuð er harpa

við hálfnað lag.

Ríkir þögn - og þó

leika ljúflega

frá lagi því

tónar um tregans sal.

 

Harma skal ei horfna

hörpu þína,

vinur söngs og vors.

Muna skal á meðan

minning vakir

hljóminn þann inn hreina.

 Jónas Tryggvason   

Óskar á Eiríksstöðum 1932-1954 var systursonur Þorsteins Jónsson sem JT orti erfiljóðið eftir, sjá hér neðar. Óskar lést rúmlega tvítugur, efnismaður, hneigður til tónlistar, sótti nám í Söngskóla Þjóðkirkjunnar í Reykjavík, var orðinn organisti í Bergsstaðakirkju og starfaði í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. 
                                    Sjá Stikil 4 bls. 72-4 Viðauki ritstjóra 

 

    Þorsteinn Jónsson söngstjóri

         Kveðja frá gömlum félögum

Við mættumst í söng, er morgunsins fyrsti þeyr

fór mjúklega um heimafjöll.

Og sveitin fékk annað yfirbragð þennan dag,

var orðin að tónahöll.

 

Hér bar okkur saman, óskylda um einatt margt

en alla með sömu þrá

að gætum við leyst úr álögum óskadraum

sem oftast í stónni lá.

 

Og hver okkar átti sinn eiginn boga og streng

með ólíkan hreim og lag.

Þinn strengur var jafnan sterkur, bjartur og frjáls

og stef þitt með gleðibrag.

 

Í fámennri byggð um vetrarkvöld vökulöng

er vorþránni stundum hætt.

Þá bregður ljóma á veginn hver söngfleyg sál

er sver sig í dagsins ætt.

- - -

Nú hnípir hver söngfugl. Rós er í runni bleik.

Það rökkvar um miðjan dag.

Af hljóðlátum trega vinur í síðasta sinn

við syngjum þér kveðjulag.

 

Þótt heimti nú duft þitt héðan in nakta jörð

til hvíldar í moldarsæng

mun léttfleygur andi svifinn í sólarátt

á söngvanna ljósa væng.

                                         Jónas Tryggvason

 

                III

 

Til þeirra sem héldu að ég væri skáld

Þið sögðuð, ég ætti að yrkja ljóð

og ávaxta svo mitt pund.

Og mér var sjálfum í mun að reyna.

Það mistókst þó alla stund.

 

Ég kaus mér hörpu með háum streng,

en hafði hennar lítil not.

Hún flutti aðeins einróma tóna

og undarleg stefjabrot.

 

Þá skipti ég um og lágstemmd lög

ég lék nú á streng minn, einn.

Þeim hæfði víst ekki að heyrast víða,

enda heyrði þau sjaldnast neinn.

 

Svo gafst ég upp, því engum er fært

að ætla sér þyngra en hann ber.

Ég kastaði hörpunni af hendi í dýpsta

hylinn við fætur mér.

 

Og harpan mín liggur í hylnum enn.

Þó heyri ég stundum óm

frá strengjum hennar, sem hvíslað í eyra

með hálfkæfðum sorgarróm.

 

Þá verða mér löngum ljóð á vör

og lauskveðnar hendingar,

sem fæðast við störf mín í fjósi og hlöðu,

fæðast og deyja þar.

 

Mitt ljóð er augnabliks ævintýr

í einsemd hins þögla manns.

Það geymist í dag, en er gleymt á morgun

og grafið í vitund hans.

 

Nú megið þið skilja að skáld er ég ei.

Þar skortir svo mikið á.

Og eitt er að lofa Ólaf konung

og annað að heyra hann og sjá.

                                        Jónas Tryggvason  

 

    Skilurðu vorið

 

Í hægindastól þú stritar,

stöðugt að reikna og skrifa.

Þú valdir af frjálsum vilja þitt starf

og vildir í rósemi lifa.

 

Hvort vor eða kaldur vetur

um veröld fer höndum sínum,

þú situr hér stöðugt og stimpast við

strikin úr pennanum þínum.

 

Er vetrarins köldu kyljur

kváðu sitt lag við þinn glugga,

þú breiddir þín skjöl á borðið, og sjá,

hér bar á ei nokkurn skugga.

 

En svo, þegar hækkaði sólin

og söngur varð nýr í blænum,

varð skrifstofan þröng og þungt hennar loft

og þú vildir komast úr bænum.

 

Þá vildirðu vorsins njóta

og verða þess aufúsugestur.

Að eignast í faðmi þess algleymisvé

varð ósk þín og draumurinn bestur.

 

En er það þá einungis vorið

sem annt þú og blærinn þess mildur,

og veistu þá ei, að veturinn er

vorinu dálítið skyldur.

 

Þeim einum gat unaður vorsins

óskiptrar gleði fengið

sem hafði í vetrarins hríðarbyl

harðfrera lífsins gengið.

 

Þú vissir svo fátt um vetur

í værðinni innan þilja

og gengur því, ef til vill, eitthvað ver

unaðssemd vorsins að skilja.

 

Því aðeins að enduðum vetri

er unnt hverju vori að fagna

og ríkti hér alltaf eilíft vor

yrði angan þess hvergi til sagna.

                             Jónas Tryggvason


            Lyrisk ástavísa

Um miðjan júní var það, þegar moldin fór að anga

og margir tóku stúdentspróf og hresstu sig á tári,

þá gekkst þú út í sólskinið með gleðibros um vanga

og geislar vorsins dönsuðu í þínu brúna hári.

Hver hreyfing þín var létt, eins og léki blær í grasi,

sem liði bára á vogi í ferskum töfrum sínum.

Og aldrei vissi ég neina svo yndislega í fasi.

Í engu fannst þér nokkur lík af stallsystrunum þínum.

Því hvar sem þú í sólskininu sumardaginn langan

fórst sviflétt, eins og vængjuðu álfabörnin forðum,

varð tilveran sem þrungin af unaðslegri angan,

sem aðeins verður skynjuð, en tæpast lýst í orðum.


Við hittumst kvölds og morgna. Þá hafði ástin völdin.

Það haustaði og snjóaði og svo var kominn vetur

og augnablikin liðu, ég sat undir þér á kvöldin

og enginn hefur nokkru sinni launað mér það betur.

En það er stundum sviplegt þegar hrynja glæstar hallir.

Nú hefur þú í bili tapað öllum sjönsum þínum

því draumarnir um þig reyndust einskis virði allir,

og önnur slær nú metin í reikningunum mínum.

Já, það var mikill ólukkans skaði að þeirri skitu,

sem skyndilega fékkstu og ekki þornað getur,

því þú varst besta kýrin mín með fjögra prósent fitu

og í fimmtán mörkum enn þótt þú bærir snemma í vetur.

                                                      Jónas Tryggvason  

 

                Flúðadrangur

Þú stendur hér aleinn í straumnum.

Þinn styrkur er samur í dag og í gær.

Þú lætur sem finnist þér fátt um

er fjörlega báran á grynningum hlær

og laugar þinn fótstall í ljóði

um leið og hún ögrandi hverfur þér fjær.

Þú stóðst hér um aldir og enginn

kann upphafs þíns sögu, né fortíðar skil.

Á aðra hönd gáskafullt grunnvatn,

sem glettist við flúðina og drekkur þér til.

Til hinnar er fossbrúnin ferleg,

sem fallöldu steypir í botnlausan hyl.


Þitt stolt er að eiga ekki afdrep

í annarra skjóli, en kunna því best

að standa þar einn af þér storminn,

sem strangast er veðrið og átök þess mest.

Og svo er sem illviðraógnin

um aldirnar hafi ekki tönn á þér fest.

Og samt - þessi síkvika bára

með sakleysi í fasi og uppgerðarhægð

ber eyðingarkraft í þeim kossi,

er kyssir hún steinriðin sorfin og fægð.

Frá upphafi dags þín til enda

hún ann ekki hvíldar og býður ei vægð.


Þótt reisn þín af sjálfglöðum sefa

í svalviðrum daganna einu sé háð

og gustillar óveðragrýlur

ei geti úr svip þínum stórlætið máð,

hin lágværa, léttstreyma alda

þó lætur að síðustu örlög þín skráð.

Svo stendur þú áfram í straumnum -

þinn styrkur er minni í dag en í gær.

Hvert augnablik andvöku þinnar

ber úrslitastundina vægðarlaust nær,

er steypistu dag einn af stalli

í straumkastsins iðu - en grunnvatnið hlær.

 Jónas Tryggvason

a
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569178
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 21:52:28