13.07.2011 03:01

Kammerráðið á Ytri-Ey

                    Kammerráðið á Ytri-Ey

    Magnús á Hóli skrifar þátt um sýslumann Arnór, sem tók við af Birni Blöndal í Hvammi, Árnason f. í Belgsholti og varð sýslumaður Húnvetninga 1847. Hann sat einhverju sinni yfir hreppsstjóra og og sveitarsjóðsreikningum og "þótti sýslumanni margt athugavert um reikningshaldið og vafasamir ýmsir reikningsliðir. Hreppstjóri var hortugur og þóttist allt hafa vel gert. 
        Er þeir þjörkuðu um þetta, heyrðist reiðdynur úti og hófasláttur og riðu gestir í hlað. Sýslumaður leit út um gluggann og bar kennsl á þann sem fremstur fór. Hann sneri sér að hreppsstjóra og sagði hátalaður og fljótmæltur:"Kristján minn í Stóradal er kominn og farðu nú til fjandans með allt þitt rusl."
 
                            Magnús Björnsson Syðra-Hóli/Fortíð og fyrirburðir bls. 25-6


 

                              Holtastaða-Jóhann - þáttarlok MB

Þáttur Magnúsar Björnssonar af Holtastaða-Jóhanni er magnaður að orðfæri og lýsingum. Jóhanni lýsir hann svo:

                   Mannlýsing

Lengst af ævi barðist hann við fátækt og veittist einatt erfitt að verjast skorti. Bar margt til þess. Þó hann væri verkmaður góður, verkhagur og liðvirkur, var hann enginn eljumaður, laus við störf og gjarnt að flökta frá. Hann var risnumaður mikill og gestanauð ærin var löngum á heimili hans. Hann var og barnmargur og ómegðarmaður og mest er hann var kominn á efri ár og vinnuþrek fór dvínandi. Hann færði sig oft býla milli og hafði einatt landsnytjar litlar, því oftast var hann í fleirbýli. Síðast var fjárhag hans svo komið að hann komst ekki af hjálparlaust. Sum af yngstu börnum sínum varð hann að láta frá sér og ólust þau upp á sveitarframfæri.. Undir búskaparlokin vorið 1864, taldi hann fram 2 kýr, 8 ær með lömbum, 4 geldar, 1 gemling, 2 hross fullorðin og 1 tryppi. Má öllum vera ljóst, að allstórri fjölskyldu verður ekki framfleytt á svo litlum bústofni, jafnvel ekki á þeim dögum, er nægjusemi fólks var ótrúlega mikil og lífskröfur litlar. 

                   Búskaparsaga

 

Jóhann var við búskap full fjörutíu ár og hafði að minnsta kosti níu sinnum býlaskipti. Lengst bjó hann á Holtastöðum og í Holtastaðakoti, tuttugu ár. Mestalla búskapartíð sína bjó hann í Engihlíðarhreppi, helst í Langadal. Fáein ár var hann í Eyjarkoti í Vindhælishreppi og mátti heita að hann flosnaði þar upp harðindavorið 1859. Þá hrökklaðist hann að Eyrarlandi á Laxárdal og var þar árlangt. Vorið eftir flutti hann að Þorbrandsstöðum í Langadal og bjó þar við handarjaðar Kristjáns sýslumanns og kammerráðs Kristjánssonar.

Jóhann kunni illa við sig á Eyrarlandi og vegnaði þar lítt. Hann var orðinn maður gamall og erfitt um vinnubrögð en dagfarsprúður var hann og stilltur jafnan. Var þá oft, að hann reikaði til næstu bæja svo sem honum var títt löngum.

                  Baslbaga 

Nokkru framar á Laxárdal en Eyrarland er Mörk, mikil jörð og góð á mælikvarða þeirra tíma. Þar bjuggu löngum efnabændur stórbúi, en nú var jörðin mjög sundurhlutuð og margbýlt mjög. Einn bænda þar um þetta bil var Ögmundur Jónsson frá Bjarnastöðum í Vatnsdal. Hann hafði byrjað búskap a parti af Holtastöðum og verið þar tvö ár áður en hann fór að Mörk, en síðan bjó hann lengi á Brandaskarði og Fjalli á Skagaströnd. Jóhann var góðkunningi Ögmundar og þeirra Merkurmanna fleiri. Nú bar svo til að Jóhann kom að Mörk og gisti þar. Mátti á honum sjá, að baslið gekk nærri honum, en þó hélt hann jafnaðargeði sínu og var léttur í máli.

Jóhanna Magnúsdóttir, kona Ögmundar, vaknaði um nóttina til að sinna ungu barni sínu. Varð hún þess vör að Jóhann vakti og sat uppi í rúmi sínu. Hann hafði tóbakspontu sína handa milli og mælti nokkuð fyrir munni sér hægt og hátíðlega. Hugði hún fyrst að hann læsi bænir eða bæðist fyrir. En er hún lagði við hlustir heyrði hún, að það var staka sem hann fór með og þuldi tvívegis, tók síðan í nefið og hallaðist að því búnu aftur á bak í rúm sitt og horfði upp í rjáfrið. En vísa sú er hann fór með var á þessa leið og mun vera gamall húsgangur:

Hrærir smára bæsing blá

beðju Nára fíflar sá.

Megnið sára, maður að slá

mikið skára Björninn sá.

Verður baga sú vart talin dýrmæti mikið í íslenskum kveðskap og varla alls kostar auðskilin alþýðu nú. Ekki verður sagt hvers vegna þessi ambögukveðskapur kom á varir Jóhanni, hinum aldna ævintýramanni, er hann lá andvaka næturgestur og vildi efalaust drepa á dreif ömurlegum hugrenningum, er að honum sóttu. Vel má vera, að hann hafi glímt við gamla uppvakninga, misjafnar minningar, er í hugann leituðu og fundið fullvel, að fátt verður þeim til bjarga sem nóttin níðist á. Og það að Jóhann greip þá ekki til trúarljóða eða þess kveðskapar, sem af andríki er gerður og háfleygum hugsunum, til að róa hugann og dreifa áhyggjum, heldur baslbögunnar, frumstæðrar og fátæklegrar, er ef til vill táknrænt fyrir hann, ævi hans, sögu og lundarlag. Hann var að upphafi settur saman af mjög ólíkum efnum og margt byltist löngum í honum, illt og gott. Tíminn og árin sniðu af smám saman ójöfnur og vankanta og lægðu allar öldur er risu innra með honum. Hann var fremur maður vitsmuna en æstra tilfinninga og hvað helst þá, er blóðið kólnaði fyrir aðsókn elli og hrörnunar.

 

                   Ævilok

Þó að Jóhann skáraði drjúgum á teigum annarra manna fyrr á tíð er óvíst, aðþað væri honum svo ríkt í hug að stæði honum fyrir svefni. Annað gat lagst þungt á skapsmuni hans, er nú var næst, að vera féþrota gamalmenni og eiga mörg börn ung, er sveitarstjórnin hafði tekiðvið til framfæris og fengið samastaði þar sem meðlag gat orðið lægst.

Jóhann þraukaði enn nokkur ár, vegnaði vonum betur á Þorbrandsstöðum og bætti enn við barnahópinn, en tólf eru þau talin, sem hann átti með síðustu konunni. Það elsta var fimmtán ára er hið yngsta fæddist.

Jóhann lést á Þorbrandsstöðum 7. Júlí 1865 og var grafinn í Holtastaðakirkjugarði viðhafnarlaust.

 MB/Hrakhólar og höfuðból bls. 114-117 - Kaflaheitum bætti síðuritari inn.

Meira frá Magnúsi á Syðra-Hóli: Um Björn á Brandsstöðum

http://stikill.123.is/blog/record/511093/

Um sr. Eggert Briem: http://stikill.123.is/blog/record/425923/

Langt rekið, Jósafat á Brandsstöðum:

 http://stikill.123.is/blog/record/424027/

Efni á Stikilssíðu: http://blogg.visir.is/iihjstikill/?page_id=18


Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06