31.03.2011 05:46

Um Guðmund Ketilsson

Annars var þá fjöldi hagyrðinga í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum; hjá flestum þeirra bar einna mest á níðkveðskap, sem þurfti helst að vera mergjaður, ef nokkurs átti að þykja um vert; virðist svo sem þetta hafi verið "móður" þá. Oft mátti lítið út af bera til þess að hagyrðingarnir sendu hver öðrum níðkveðlinga. Tók Guðmundur nokkurn þátt í því, en lagði það niður að mestu, er honum óx aldur og þroski segir prestsonurinn Björn Sigfússon frá Tjörn 1849-1932 í lýsingu á Guðm. Ketilssyni 1796-1859  

Hann var meðalmaður á hæð og þrekvaxinn, dökkur á hár og skegg, svipmikill og þungbúinn venjulega. Þegar hann kom til kirkju, hafði hann barðastóran hatt á höfði og lét börðin slúta; sá þá óglöggt í andlit honum. En þegar hann var kominn inn í stofu hjá föður mínum og hafði tekið ofan hattinn, kom í ljós hátt enni og hvöss augu; varð þá svipurinn glaðlegur eftir að samræður tókust með þeim. Málrómurinn var skýr og dimmur, líkt og Bólu-Hjálmars; hljómfallið þungt og hægt er hann fór með ljóðmæli sín. Flutti hann þau með svo mikilli áherslu, að þeir urðu að hlusta  sem viðstaddir voru. Hann var kirkjurækinn og mun sjaldan hafa vanrækt að hlýða messu á helgum dögum, þegar messa bar í sóknarkirkju hans á Tjörn.

Á vetrum hafði hann þann sið að koma þangað um miðjan dag og sitja á tali við föður minn það sem eftir var dags og aldrei fór hann á sunnudögum fyrr en eftir messu. Var hvort tveggja, að þetta voru hans hvíldarstundir frá heimilisvinnu og ekki síður hitt, að hann vildi fræðast um allt nýtt, sem í blöðum og bókum kom út, en presturinn var víst eini maðurinn sem keypti nýjar fræðibækur þá. Var Guðmundur óþreytandi að ræða um efni bókanna, sem hann fékk stundum að láni. Föður mínum var yndi að þessu og ljúft að leiðbeina honum í hverju sem hann gat.

Þótt mér stæði í fyrstu geigur af þessum manni, fór það svo að ég sleppti engu tækifæri til að hlusta á samræður þeirra; ég þráði að þessi gestur kæmi sem oftast.

Ósjaldan var það, að hann lofaði föður mínum að heyra ljóðmæli sín og ræddu þeir þá um þau. Gerði faðir minn þá stundum athugasemdir og fann að, ef honum þótti þess þurfa. Var Guðmundur jafnan þakklátur fyrir slíkar bendingar. Þó að hann væri sívinnandi að venjulegum heimilisverkum og auk þess að ýmsum umbótum á ábýlisjörð sinni, er mér það ljóst, að hann var einn af þeim mönnum, sem finna að "maðurinn lifir ekki af einu saman brauði;" hann hungraði og þyrsti eftir andlegu fóðri.  
                                                                                                Almanak 1929/Minningar Björns Sigfússonar Kornsá

Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 133
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 478937
Samtals gestir: 92355
Tölur uppfærðar: 7.4.2020 10:36:34