14.01.2011 06:39

Bændaríma Friðgeirs í Hvammi

Bændaríma Friðgeirs Árnasonar, bændaríma yfir Bólstaðarhlíðarhrepp, kom í ljós í skjalakassa Jónasar Illugasonar í gær, 13.jan. 2011. Vísur í rímunni eru 66, nokkru fleiri en bændurnir og hefst og lýkur einnig á mansöng, sjá einnig neðst um um Unu í Sellandi og Guðm. Sig. síðar á Fossum:

1.     Eg vil ræða rétt til þín

og róminn glæða eins og svín

en láttu blæða boðnar vín

bríkin klæða í sárin mín.

2.     Margt vill ama ýtum hér

enginn gaman vekja fer

það allt saman sýnist mér

svart í framan því er ver.

3.     Enginn vogar yrkja ljóð

aldrei boga spennir þjóð

en glópa flog með heimskuhnjóð

heyrast og því brestur móð.

4.     Víki þögn og þunglyndi

það er brögnum leiðindi

hlýðum sögn úr sveit vorri

sumra fögnum búsnilli.

5.     Ærumaður ár og síð

engum skaða vekur stríð

kann að hraða kirkjusmíð

Klemens -staðar Bóls- í -hlíð.

6.     Sama staðar Magnús minn

manna glaði vinurinn

forðast skaða sérhvert sinn

sagður blaða vörðurinn.

7.     Iðinn glaður árvakur

Æsustaða Sigurður

nú án skaða nýgiftur

nóg er maður fjölvirkur

8.     Greiða hraða hreinlyndur

hreysti maður nafnkunnur

önd með glaða orðfimur

Auðólfsstaða Sigurður.

9.     Gunnsteinsstaða Hjalti hýr

hæðar maður þeygi rýr

velmenntaður skarpur skýr

skynjar það hann allvel býr.

10. Snauðum gróða gefur ein

gulls þar tróða best metin

hjartagóð og gestrisin

greinir þjóð sé Jómfrúin.

11. Jóhann stólar eflaust á

ýtum skjól og greiða ljá

frægur bóla börinn þá

bænum Hóla- stýrir sá.

12. Sinna kvöðum messu má

meður glöðum vilja sá

Halldór stöðum Strjúgs býr á

stilltur í röðum bænda þá.

13. Þá um selið suma les

síðan tel þar Jóhannes

hirðir vel um fúlgur fés

frí af þela gjálífis.

14. Jónas Gerði Grundar á

geymir ferðugt búið sá

hann er verður hrós að fá

honum sérðu dugnað hjá.

15. Eyðir kvíða örlátur

er sá lýðum geðfelldur

meiðir skíða menntaður

Mörk nú prýðir Guðmundur.

16. Í Hvammi nú er sagt að sé

syndum búið ómenni

þessum snúið frá er fé

fyrðartrúi sögunni.

17. Björn sem glæðir gestrisni

Gautsdals ræður heimili

hirðir bæði fólk og fé

fundinn gæðavefari.

18. Gæða hresstur Gautsdals þjón

gjörir flest að virða bón

hjalar mest um hey og tjón

hirðir besti sauða, Jón

19. Dyggða mestan hygg ég hal

honum flest til lista skal

Jóhann best er bræðra val

byggir hresst í Mjóadal.

    20. Eins þar glaður geymir fés
          gæðum raðar siðprýðis
         
mörgum hraðar letrið les
         
listamaður Jóhannes.
    
21. Frímann skýran finna skal
         
flestir dýran meta hal
         
bóndi nýr sem nefnum þval
         
nett sá býr í Skyttudal.
    
22. Þundur álma er mannval
         
enginn tálma þessu skal
         
byrjar sálm og bragartal
         
bóndinn Pálmi í Þverárdal.
    
23. Hlíðarseli einn býr á
         
Ólaf tel ég föng með smá
         
hann við gelur hringaná
         
honum stelur enginn frá.
    
24. Eyjólf trúan hygg ég hal
         
hans ófúið menntatal
         
hirða búið betur skal
         
bóndi nú í Kálfárdal.
    
25. Frá nú baga auðnu er
         
efni laga Gísli fer.
         
Sels í haga sá byggir
         
sína daga etur smér.

 

 

Nú er bændaríman komin langt fram í Svartárdal, til Sveins á Skottastöðum:

47.
Þetta votta þjóðin má
en þaðan brottu vík ég frá
situr glotta sínum hjá
Sveinn minn Skottastöðum á.

http://bragi.arnastofnun.is/ljodasafn.php?U=A&ID=566

Glotti í vísunni um Svein getur verið svellglotti, en fleiri kann að koma til þó lítt sjáist til þess nú 140 árum síðar.

Guðmundur í Teigakoti fær umsögn í bændarímunnu um bæjarpot og brauðþrot:

48.
Brauðs í þroti bóndjarfur
bæjarpoti þaulvanur
tignar rotin, telst óþur
Teigakoti hann Guðmundur.

Svo verður að fara að grafa upp kvennavísurnar úr bændarímunni, ein er um Björgu í Barkarstaðagerði, önnur um jómfrúna á Gunnsteinsstöðum sem gjafmild þótti. Sú þriðja er um ekkjuna Unu á Sellandi og þar ólust upp synir hennar og Guðmundur elsti á Fossum, en Sigurður faðir hans hafði titilinn fyrirvinna í manntali 1872.

55. Auðarbrú að ástandi
ókunn trúi eg mér væri,
Una sú með árvekni
annast bú í Sellandi.

Manntal 1872
5.
Selland
Una Jóhannesdóttir (48 ára)
Halldór Jóhannes Halldórsson 10 börn
Halldór Sigv. Halldórsson 9 hennar
Sigurður Guðmundsson 59 fyrirvinna
Sigríður Þorkelsdóttir 20 vinnuk.
Guðmundur Sigurðsson 20 vinnum.
Þorbergur Halldórsson 8 niðurseta

Una Jóhannesdóttir bjó ekkja í Sellandi 1864-83. Hún var talin mjög dugleg og kjarkmikil. Gekk hún að slætti með öðrum karlmannsverkum. Eftir að hún varð ekkja bjó hún við mikla fátækt. Æviskrár Austur-Húnv.(Guðm. Sig. hefur upplýs eftir Friðriki Hallgrímssyni bónda á Sunnuhvoli í Blönduhlíð)
Una var amma Sigvalda bónda í Stafni og langalangamma Sigursteins Bjarnasonar núverandi bónda í Stafni. Sigurður Guðmundsson fyrirvinna var afi Guðmundar Guðmundssonar á Fossum.


Flettingar í dag: 179
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478614
Samtals gestir: 92248
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:57:10