02.05.2010 04:41

Blanda niðri í grjóti


    Sigurður frá Brún og Blanda

"Ég veit nú að þetta var Blanda, en þá var hún mér ekkert nema undrunarefni. Svona lagað gólf eða hlað, göng eða tún hafði ég aldrei séð. Og enn luktist pokinn." Þarna er kennarinn, ferðagarpurinn og skáldið Sigurður Jónsson frá Brún að lýsa ferðalagi sínu um aldamótin 1900, en þá var hann smábarn. Hann rifjar upp ferð frá Brún í Svartárdal yfir í næsta dal og jökulelfuna Blöndu, í veislu til afa hans og ömmu á Eiðsstöðum. Barnið var sett í poka, sem hengdur var á klakk á hesti og sér heiminn út um pokaopið. Sigurður átti margar ferðir fram undan og orðkyngi hans í ferðalýsingum er við brugðið.

Unglingurinn

Sigurður lagði af stað úr Fnjóskadal til skólaveru í Kennaraskólanum um veturnætur árið 1918, fer um Tungusveit í Skagafirði þar sem hann var frændríkur "og eyddist mér tími í bæjadund, áður en mig bar að Mælifelli, sem stendur rétt við fjallveginn um Kiðaskarð, fremstu leið til byggða í Húnavatnssýslu. [...] flýtti mér næstu bæjarleiðir, því mig langaði til að tefja um stund hjá föðursystur minni sem bjó í leið minni á Barkarstöðum, hinum megin árinnar þar í dalnum. Sá ég þá hest á túni á næsta bæ austan við ána, gekk heim og bað um flutning yfir á bakkann. Var hann fúslega veittur, þótt finnanlega vildi húsráðandi heldur láta mig koma inn og þiggja fleira. Aftur taldi föðursystir mín og hennar fólk ekki úr með áframhald, en varla var ég búinn að heilsa, þegar búið var að skoða vettlinga mína, hvort þeir væru sæmilega skjóllegir og ekki var þar heldur óskoðað látið skóbragð mitt [...] vannst mér tími til að ná vestur fyrir Blöndu í björtu og tefja um stund fyrir dimmuna hjá afa mínum og móðurbróður á Guðlaugsstöðum í Blöndudal. En þangað lá leið mín næst yfir lágan háls og greiðfæran, auk Blöndu, sem að því sinni lá niðri í grjóti. Hafði ég farið hana oft á því vaði áður, en aldrei fyrr séð í henni botninn, enda ekki eftirsóknarverð sjón. Hún er eins og illmenni, því ískyggilegri sem maður sér hana betur, en líka eins og þau skaðaminni en ætla mætti þeim, sem vel þekkja." Einn á ferð og oftast ríðandi bls. 21-25

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478532
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:21:12