11.04.2010 16:07

Hvammur á Laxárdal

Úttekt á Hvammi í Laxárdal

Ár 1897, 25 dag maímánaðar, vorum við undirskrifaðir af viðkomandi sýslumanni útnefndir virðingarmenn staddir að Hvammi í Laxárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi til þess að virða nefnda jörð. Virðingargjörðin fór fram með þeirri lýsingu á henni sem hér segir.

1.     Hús að lengd 16 ¼ al., breidd 5¾   ál., stafir 2¼ al. Hús þetta er notað þannig að 8¾ ál. er baðstofa með reisifjöl gólflögð, og að öðru leyti byggð sem baðstofur vanalegast gjörast. Alþiljuð, með 2 og hálfu gluggafagi(hver gluggi er með 6 rúðum). Baðstofan er þannig aðgreind með skilrúmsþili. Í næsta hluta hússins er með þverþilvegg takmarkað pláss sem sem eldamaskínuhús að lengd 3¾ ál. Að öðru leyti er húsið notað sem búr. Þessir tveir síðarnefndu hluti hússins eru með reisifjöl yfirbyggðir, ... ekki þiljaðir. Mænigluggar eru bæði á maskínuhúsinu og búrinu. Fyrir húsinu eru 2 dyrumbúningar og lagt gólf úr borðum milli þeirra. Húsið virðist að öllu leyti vel upp byggt.

2.     Eldhús. Lengd 7 ál., breidd 3¾ ál. Í húsinu eru aðeins einar sperrur á bita sem stoðir halda uppi. Frá stöfnum hússins er þver og langrept á sperrurnar. Hús þetta er gamalt en virðist að öllu leyti vel stæðilegt.

3.     Samhliða no. 1 er hús á lengd 12 ál., breidd 7½. Í fremri hluta hússins sem snýr að bæjarhlaði er alþiljuð stofa, að öllu leyti sem stofur eru byggðar, máluð, með timburstafni og 2 gluggafögum. Stofan er að rúmmáli 6 ál. á hvert horn. Inn af stofunni er geymslupláss. Af breidd hússins er afþiljaður gangur sem er til nota eins og venjuleg bæjargöng. Yfir fremri hluta hússins - stofunni og innganginum - er geymslupláss með gluggafag á framstafni og yfirbyggt með reisifjöl á venjulegum máttarviðum. Innra plássi hússins lýsir góður mænis-gluggi. Undir stofunni er kjallari. Nefnd bæjarhús eru nýleg og að öllu leyti vel byggð að undanskildu eldhúsinu sem áður er lýst.

4.     Smiðja á stærð 4¾ ál., í hvert horn, byggð sem önnur toppreist hús, með timburstafni á framkanti og viðeigandi dyraumbúningi og 2 rúða glugga.

5.     Fjós yfir 4 nautgripi. Húsið er nýlega endurreist, með jötum og öðrum góðum útbúnaði. Nautgripum verður vatnað innan húss. Frá fjósinu er gangur til heyhlöðu, sem rúmar 70 hesta af heyi. Heyhlaðan er gömul en stæðileg.

Á jörðunni standa peningshús (auk fjóssins)

1.       Fjárhús að tölu 4 yfir 150 sauðfjár

2.       Hesthús yfir 12 hross.

          Hús þessi eru sumpart nýbyggð og eiga að hinu leytinu að endurbyggjast á yfirstandandi vori.

Tún jarðarinnar er talið 12 dagsl., og gefur af sér í meðalári 160 hesta töðu. Túnið er sumpart slétt, sumpart þýft. Af núverandi ábúenda jarðarinnar hefur verið sléttað (á 9 árum) hérumbil 3 dagsl., eins og hann(ábúandinn) hefur líka byggt upp hús jarðarinnar. Engjar eru mestpart greiðfærar og heygóðar; að mestu leyti raklendar, en þó ekki svo að eigi sé vel hægt að þurrka að mestu leyti á þeim. Engjarnar eru þægilegar til afnota og gefa af sér í meðalári hér um bil 450 hesta heys.

Beitiland jarðarinnar liggur til fjalls og er talið kostagott. Jörðin hefur gott mótak. Hún liggur í harðindasveit en er í betri hluta hennar. Til næsta verslunarstaðar er áfram 6 tíma lestagangur. Til jarðarinnar sem er talin að dýrleika 11,9 hdr., hefur fyrir fáum (4) árum verið keyptur landpartur, beitiland og engjar sem ætla mætti að teljast mætti - hið minnsta 3 hdr. fyrir 300 kr.

Jörðin gekk seinast í makaskiptum, en var áður seld fyrir 1200 kr.  Með viðlögðum áðurnefndum jarðarparti og tilfærðum jarðarbótum virðist hún nú hæfilega leigð fyrir minnst 100 kr. og virt minnst 2000 kr. (húsin 700 kr., jörðin 1300 kr.)

Að virðing þessi sé gjörð eftir bestu þekkingu erum við reiðubúnir að staðfesta með eiði ef þörf gerist.

D. U. V.

Jóh. Fr. Sigvaldason Brynjólfur B. Bjarnason

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06