08.03.2010 15:47

Um klyfjahesta

Með tvennu móti eru hestar látnir fylgja reiðmönnum. Annað hvort eru þeir bundnir saman í langri röð þannig að hausinn á einum er tengdur með fremur löngum taumi við taglið á þeim næsta og fylgdarmaðurinn eða hjálparsveinn hans teyma síðan lestina; ellegar hestarnir eru látnir hlaupa lausir og þá sjá reiðmennirnir um að reka þá og halda þeim saman. Báðar aðferðir hafa sína kosti og galla. Í fyrra tilvikinu hefur maður betri tök á hestunum og sparar þeim alla ónauðsynlega hreyfingu; auk þess þurfa fylgdarmennirnir ekki að hafa eins náið eftirlit með þeim. Aftur á móti er ekki hægt að fara eins hratt yfir, og maður verður fyrir ýmsum óþægindum nema hestarnir séu þeim mun vanari, því að við eina snögga hreyfingu hjá sem er framarlega í röðinni getur allt farið úr skorðum. Þetta stöðuga eftirlit með lestinni er sem sagt þreytandi starfi. Í síðara tilvikinu gengur allt fljótar og þá gefst lausu hestunum tækifæri til að kroppa annað slagið og velta sér. En þá verða allir reiðmennirnir að fylgjast með klyfjahestunum og lausu hestunum. Stöðugt þarf að hleypa klárnum til hægri og vinstri yfir urðir eða foræði og hóa með svipuna á lofti til að halda þessum rásgjörnu skepnum við slóðina.

Við mættum í dag lest af svipuðu tagi og okkar. Fyrr en varði hafði hópurinn blandast og það kostaði okkur þónokkurt erfiði að finna aftur hrossin okkar. En falleg er svona lest þegar hún fer á hröðu brokki eftir þolanlegum vegi yfir gras eða sandbreiður. Það er nokkuð dæmigert fyrir skapgerð íbúanna að á Suðurlandi skuli vera algengara að teyma hestana en á Norðurlandi að reka þá. Það tengist einnig því að nyrðra eru slóðir yfirleitt einfaldar og vel troðnar en syðra eru þær fleiri hlið við hlið. Reyndar verða Norðlendingar líka stundum að teyma lestina. Og heima við bæina er það nauðsynlegt því að annars er hætt við að maður missi hrossin í túnið.   Konrad Maurer Íslandsferð 1858 bls. 36-37


Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 133
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 478935
Samtals gestir: 92355
Tölur uppfærðar: 7.4.2020 09:41:22