25.02.2010 09:24

Á fyrsta ári Sögufélagsins

  Bréf til Húnvetninga

frá formanni Sögufélagsins

Æsustöðum 17/7 1938

Heiðraði sýslungi

9. júní þ. á. var stofnað hér í sýslunni Sögufélagið Húnvetningur með það markmið fyrir augum, að safna til sögu Húnavatnssýslu og íbúa hennar einkum á síðustu öld og varðveita allar þær söguminjar sem verulegt gildi hafa og til kunna að vera í sýslunni.

Verksvið félagsins er víðtækt og margþætt, að óhugsandi er að á næstu árum verði annað gjört en marka og draga í land sem mest af þeim sagnaviðum smáum og stórum, sem enn fljóta fyrir landi, og á hverjum tíma er hætt við að næsta alda skoli út. En hér er sú bót í máli, að þarna er raunar verkefni fyrir öll heimili sýslunnar, þar sem fjöldi manna getur lagt sinn skerf af mörkum, ef þeir vilja. Því hver bær á sína sögu, svo og hver ætt og raunar hver einstaklingur. Þetta er að vísu mjög mismerkt, en oft eru þar þeir steinar byggingarinnar, er minnst ber á, sem hún má síst án vera. Því má enginn slá því föstu að óhugsuðu máli, að hann geti þessum málum ekkert lið lagt, heldur skyldi sérhver fús til að gera það, sem í hans valdi stendur til að þetta verk, er nú er hafið, megi á sínum tíma bera oss þar vitni, að vér höfum eigi síður verið geymnir á hið forna, en fúsir til allrar framsóknar.

Á þessum miklu breytingartímum, sem vér nú lifum, er þessa hin mesta þörf að hafist sé handa að forða hinum fornu sporum frá því að sandverpast eða grasgróa.

Hvað eina sem þér teljið því að geta haft sögulegt eða almennt gildi á einhvern hátt, hafið þér möguleika og raunar skyldu til að varðveita.

Í því trausti að þér hafið á því fullan skilning og velvilja til þessa máls, leyfum vér oss að senda yður meðfylgjandi spurningar, sem vér biðjum yður að svara eigi síðar en um næstu áramót og senda svör yðar til einhvers af oss undirrituðum.

Um spurningarnar sjálfar skal þetta aðeins tekið fram:

1.               Vér leggjum ríka áherslu á að öllu sé svarað svo rétt og greinilega sem kostur er á

2.                Ef um minjar eða handrit er að ræða, sem menn vilja láta af hendi og félagið kynni að geta eignast, er sú tilætlun að slíkt verði varðveitt innan sýslunnar

3.               Stjórnin mun að sjálfsögðu virða óskir manna um þagnarskyldu viðvíkjandi einstökum atriðum í gömlum einkabréfum sem ekki eru eingöngu sögulegs eðlis.

4.               Þó spurningu sé beint til húsráðenda, er náttúrulega ekki síður ætlast til að þær séu lagðar fyrir aðra heimilismenn, að því leyti, sem þeir geta úr þeim leyst.

5.               Vér biðjum yður að gæta þess vel að sleppa eiga að svara þeim spurningum, sem þér getið og viljið svara, þó að aðrar séu þannig vaxnar að þér látið vera óleyst úr þeim.

Vinsamlegast

                Gunnar Árnason frá Skútustöðum

        Bjarni Jónasson              Jón Jónsson í Stóradal

        Magnús Björnsson          Páll V. G. Kolka

Spurningar

stjórnar Sögufélagsins Húnvetningur

1.               Gjörið svo vel að gefa oss upp ættartölu yðar og konu yðar(ef þér hafið kvongast) að því leyti sem ættin er yður kunn.

2.               Hvað vitið þér um ættmenn yðar, sem þér vilduð halda á lofti eða getur haft sögulegt gildi.

3.               Kunnið þér nokkrar sagnir um ættmenn yðar eða aðra, sem gagn eða gaman er að. Ef þær eru prentaðar eða skráðar segið þá til  hvar það er.

4.               Hvað vitið þér um jörð yðar: Er hún landnámsjörð, hverjir hafa búið þar og hvenær, hefir hún mikið gengið kaupum og sölum, orðið fyrir miklum náttúruáverkum o. fl?

5.               Eru nokkrar fornar söguminjar y[...]: rústir, dysjar, eyðibýli o. s. frv.

6.               Hafið þér ritað upp örnefni á jörð yðar, eða eruð fús til að gera það um hin merkustu, svo og um þau ummæli sem við þau kunna að vera tengd.

7.               Eigið þér nokkra gamla og merka smíðisgripi, ættargripi, listaverk eða annað slíkt sem hefur sögulegt gildi.

8.               Eigið þér nokkrar bækur sem prentaðar eru hérlendis eða erlendis fyrir árið 1850

9.               Eigið þér nokkur gömul eða ný söguleg handrit eða hafið þér haldið dagbók eða einhvers konar annála?

10.         Eigið þér ekki gömul einkabréf eða gjörninga?

11.         Eigið þér ekki gömul landamerkjabréf eða lögfestur, staðarlýsingar o. s.frv?

12.         Hvenær var bæinn yðar reistur, og getið þér, ef þér búið í nýju húsi, lýst fornum byggingum á jörð yðar, eða bent á þann, er til þess væri fær?

13.         Hve nær kom hin nýja öld í sveit yðar og á bæ yðar í búnaðarháttum, þ. e. a)hvaða verkfæri hafa fallið úr notkun og hver komið í staðinn og hvenær? b)hvenær hætt var fráfærum? c)hvenær var styttur vinnutími og hve lengi? d)hvað margt fólk almennt í heimili fyrr og nú? e)hver breyting á áhöfn á sama tíma, tala, kynbætur, aðkeypt? f)hvaða jarðabætur unnar, hvenær fyrst, hvenær mestar o. s. frv.

14.         Hvaða breytingar eru yður minnisstæðastar um klæðnað manna, reiðver o. s. frv., og hafið þér varðveitt nokkra forna muni af því tagi?

15.         Hvaða breytingar á sveitasiðum munið þér, t. d. meðferð á ómögum, gamlar veislur, kirkjusiði o. s. frv?

16.         Kunnið þér nokkrar húnvetnskar þjóðsagnir óprentaðar eða sögur um einkennilega menn, slysfarir, frægðarfarir o. s. frv.?

17.         Kunnið þér ekki húnvetnskar lausavísur eða ljóð sem óprentuð eru?

18.         Þekkið þér ekki margfrótt gamalmenni, sem vert væri að rita upp eftir.

19.         Eigið þér ekki gamlar ljósmyndir af ættmennum yðar eða öðrum og viljið þér láta þær af hendi ásamt mynd af yður og öðrum heimilismönnum yðar sem stofn að mannamyndasafni Húnavatnssýslu, sem félagið hefur í hyggju að koma á fót. Myndunum þarf að fylgja nafn og heimilisfang (og aldur myndanna sé ákveðinn ef unnt er).

Innfært 25. apríl 1970 eftir vélrituðu eintaki alllúðu.

                Bjarni Jónasson

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 99
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 569148
Samtals gestir: 125910
Tölur uppfærðar: 29.11.2021 21:19:52