01.01.2010 12:56

Langt rekið

                    Langt rekið
þáttur eftir Magnús Björnsson Syðra-Hóli

                                     

1.

          Gamalt máltæki segir, að þrír búferlaflutningar séu efnahag manna engu betri en húsbruni. Þeir vissu, hvað þeir sungu, gömlu mennirnir, því reynslan hafði kennt þeim, að gömul búsáhöld þoldu illa flutningahnjaskið. Þau færðust úr lagi, skemmdust og jafnvel ónýttust. Þeir þekktu vel óyndið í búsmalanum, er hann kom á ókunnar slóðir, og hvað það kostaði mikla fyrirhöfn að gæta hans, meðan gaddavírsgirðingar voru ókunnar.

          Mikill meirihluti bænda voru leiguliðar alla sína búskapartíð. Þeir áttu útbyggingu vofandi yfir höfði sér, og urðu margsinnis að hrekjast býla á milli. Hinir, sem betur voru megandi, fluttu sig bújarða milli, ef þeir töldu sér betra bjóðast en það sem búið var við. Bændur fluttu oftast bæja milli í sömu sveit eða héraði, þó oft kæmi fyrir, að þeir flyttu landsfjórðunga milli. Hins vegar var altítt, að prestar fluttu sig landshorna milli, er þeir höfðu brauðaskipti. Þau ferðalög tóku langan tíma, voru erfið og kostnaðarsöm.. Margir voru farartálmar, vegleysur um heiðar og fjöll og allar ár óbrúaðar. Reyndi þá mjög á hagsýni lestarmanna, þrek þeirra og þol, og þó mest á dugnað og þrautseigju hestanna, er báru allt, fólk og farangur. Þær voru ekki þægilegar, sumar klyfjarnar, er á hest voru lagðar.

          Bæði menn og hestar vöndust furðanlega ferðavolkinu. Það var óhjákvæmilegur þáttur í atvinnulífi forfeðranna. Hér verður sögð stutt saga af einum þætti búferlaflutnings fyrir nærfellt sjötíu árum.

Það þóttu ekki mikil tíðindi þá, þó menn færu um sveitir með vænan fjárhóp, jafnvel þó á útmánuðum væri. Séra Jón Ó. Magnússon frá Steiná í Svartárdal vígðist prestur að Hofi á Skagaströnd haustið 1881, hálfþrítugur að aldri, og kvæntist sama ár Steinunni Þorsteinsdóttur frá Úthlíð í Biskupstungum.

        Séra Jón var hinn vaskasti maður, kappsamur og fylginn sér. Hann var tæp þrjú ár á Hofi, því honum var veittur Hvammur í Norðurárdal og flutti þangað í fardögum 1884. Þar var hann prestur í fjögur ár. Þá gengu harðindi mikil yfir landið, fjárfellir víða og margs konar erfiðleikar. Þrátt fyrir það kom séra Jón sér upp stóru búi þau ár, sem hann bjó í Hvammi, og vegnaði þar á flestan hátt vel. Sumarið 1887 var honum veitt Mælifell, en séra Jón Sveinsson lét þar af prestsskap. En þar sem komið var að slætti, er séra Jón Magnússon fékk vitneskju um það, að hann hefði fengið Mælifellsbrauð, samdist svo, að hann sæti til næstu fardaga í Hvammi, en séra Jón Sveinsson þjónaði fyrir hann á Mælifelli. Þó mun séra Jón Magnússon hafa á einhvern hátt haft jörðina í sinni umsjá. Hann sendi mann norður til að sjá um heyskap fyrir sig, hafði hálft túnið og eitthvað af engjum, og heyjuðust þar á hans vegum um sumarið 200 hestar. Það var ætlun séra Jóns að reka fé sitt norður að úthallandi vetri, ef veður og færi leyfði. Veturinn eftir nýár var snjólétt-ur, en tíð umhleypingasöm. Enginn gat sagt fyrir, hvort áætlun séra Jóns stæðist. Það var ekki að fara til næsta bæjar að reka stóran fjárhóp frá Hvammi í Norðurárdal að Mælifelli í Skagafirði. Fjallvegir og óbrúaðar ár voru á þeirri leið. Menn settu ekki fyrir sig á þeim tímum, þó ferðir drægjust á langinn, eða víluðu fyrir sér að leggja á torleiðið.

        Ráðsmaður séra Jóns í Hvammi var maður sá er Bjarni hét Benediktsson. Hann hafði áður búið í Króki á Skagaströnd, en flust að Hvammi með séra Jóni. Honum fól presturinn að vera rekstrarstjóri, er féð væri rekið norður, og skyldi hann fara við þriðja mann. Þeir, sem til farar voru ráðnir með honum, voru Sigurbjörn Sigurðsson frá Dýrastöðum í Norðurárdal, ungur maður, nálægt hálf þrítugu, og Jósafat Jónsson, 16 ára gamall, sonur Jóns bónda Helgasonar í Króki í Norðurárdal. Jósafat hafði ráðist til séra Jóns vorið sem hann fermdist, og var nú vinnupiltur í Hvammi.

        Leiðarangursmenn voru árla á fótum fimmtudaginn hálfum mánuði fyrir sumar, því þá skyldi hefja norðurförina. Þeir lögðu upp frá Hvammi kl. 4 um nóttina og fóru í áfanga að Fornahvammi. Þangað höfðu verið rekin daginn áður fóðralömb og nokkrar kindur aðrar. Er þeir lögðu upp frá Fornahvammi, eftir stutta viðdvöl þar, var reksturinn 271 kind. Þar af voru 26 sauðir og hrútar og 39 gemlingar. Sinn hestinn hafði hver þeirra félaga. Stillur höfðu verið nokkra undanfarna daga og frost. Var færi því hið besta.

Í för með þeim slóst kona, er Ragnhildur hét Gísladóttir. Ferð hennar var heitið að Bólstaðarhlíð. Fylgdist hún með þeim þá leið, en annars kemur hún ekki við þessa sögu.

        Í hópnum var mórauður forystusauður. Fór hann fyrir og reyndist í ferðinni allri ötull og ótrauður. Féð var vel fóðrað og rakst vel á hjarninu. Um hádegi voru þeir komnir upp hjá Snjófjöllum. Bjart hafði verið um morguninn, en smáþyngdi í lofti og gekk í asahláku. Skipti þá skjótt um færi, því strax og klökkvaði, óð mjög í snjóinn, er mikill var á heiðinni. Sóttist þeim seint leiðin og féð tók að lýjast og letjast. Loks náðu þeir að Melum í Hrútafirði kl. 12 um kvöldið. Áin, sem rennur þar sunnan við túnið, var ófær og urðu þeir að skilja féð eftir, en sluppu sjálfir nauðuglega með hestana. Þeir tóku gisting á Melum og urðu fegnir hvíldinni, en ekki lagðist vel í þá um framhald ferðarinnar, því Hrútafjarðará var bráðófær, full af elg og krapi.

        Þó seint væri til náða gengið, voru þeir félagar árla á ferli um morguninn. Hrafryst hafði um nóttina og sigið undan. Melamenn sögðu, að áin myndi fær á ísi undan Grænumýrartungu. Þangað ráku þeir féð og gekk vel yfir. Hörkufrost var um daginn og sæmilegt færi. Ráku þeir að Staðarbakka í Miðfirði um kvöldið og gistu hjá Lárusi presti Eysteinssyni. Vel var þeim tekið þar og af mikilli gestrisni, en svo virtist þeim félögum, að nokkur skortur mundi þar í búi og margt fátæklegra, en búast mætti við á prestsetri. Séra Lárus Eysteinsson var gáfumaður og vinsæll, en í drykkfelldara lagi og fátækur.

        Ekki var hægt að hýsa féð á Staðarbakka, og var sumt rekið í eyrarhólma í ánni, þar með allir sauðirnir. Er rekstrarmenn komu á fætur snemma morguns, var eyrarhólminn auður og tómur, féð allt horfið. Jósafat brá þegar við að leita kindanna. Fann hann þær vestur á hálsi á víð og dreif, og dróst mjög í tíma að ná þeim saman. Er hann kom með kindurnar að Staðarbakka, lagði hann til, að þeir rækju féð þegar í ána, gæti þá sigið úr því meðan þeir mötuðust. Ekki vildi Bjarni heyra það, taldi ekkert vit að bleyta féð. Var það rekið að Reykjum og ferjað þaðan yfir ána.  Báturinn tók ekki nema fimm kindur og má nærri geta, hvort ekki varð tafsamt að koma öllum flotanum fyrir. Nokkrar kindur hlupu í ána, þar sem fyrir þeim var staðið við ferjustaðinn. Lét Jósafat það afskiptalaust og stillti svo til, að fleiri fóru eftir, og urðu þær alls 17. Þá varð Bjarni byrstur; þær yrðu þungar, þessar í rekstri. Loks var allt komið yfir og rekið af stað. En svo fór, að fleira blotnaði en hópurinn, sem fór í ána. Upp úr miðaftni tók að rigna, hægt í fyrstu, en seig á og sírigndi fram á nótt, en þá tók að snjóa úr logni.

        Klukkan eitt um nóttina komu þeir að Gauksmýri og vöktu upp. Þar bjó Jón Eiríksson faðir Sigurjóns læknis í Dalvík. Þeim var tekið af mikilli rausn og urðu fegnir að komast til hvíldar, þreyttir, votir og syfjaðir.

        Jón bóndi lét vaka yfir fénu, og er morgnaði hleypti hann út úr fjárhúsum sínum til að geta hyglað aðkomufénu. Lét hann gefa því vel. Um morguninn var hvítt út að sjá, jafndrifinn lognsnjór, er tók því í miðjan legg.

Upp úr hádegi gerði suðvestan þíðvindi; snjórinn rann í sundur og varð óskaplegur elgur. Féð var hvílt vel á Gauksmýri og ekki farið þaðan fyrr en eftir hádegi. Dagleiðin varð heldur ekki lengri en að Stóru-Borg og gist hjá Pétri Kristóferssyni. Féð lá úti um nóttina.

Kristmundur Guðmundsson, er síðar bjó lengi í Melrakkadal, var þá í Ásbjarnarnesi. Hann var tengdasonur Bjarna Benediktssonar rekstrarstjóra og bauðst til að fylgja þeim að Þingeyrum. Hópið var á ísi, en ekki þorði Bjarni að reka á það, treysti illa ísnum og rak heldur á sandrifið. Það reyndist vera verra yfirferðar en ætlað var, því það var allt þverskorið af smálænum, ísi lögðum. Urðu þeir að brjóta ísinn til að koma fénu áfram og varð svo tafsamt, að lítið miðaði, en féð varð blóðrisa um leggi á skörunum.

        Er þeir höfðu staðið í þessu í átta tíma og lítið miðað áfram var þrotin þolinmæði Jósafats. Hann sagði við Bjarna, að sér dytti ekki í hug að fást við þetta lengur, sem ekkert verklag væri. Þeir yrðu að reka ísinn, annars sneri hann við og segði skilið við þann félagsskap.

        Bjarni styggðist við, en sá þó að seint mundu þeir komast af rifinu og féllst á að reka ísinn. Taldi hann það þó vogun og hálfgildis glannaskap. Hestarnir voru teymdir fyrir og farið hratt og féð rekið eftir. Ísinn var þykkur, en farinn að meyrna og seig nokkuð undan fjárbreiðunni. Þeim gekk vel yfir og voru klukkutíma á vatninu, en víða sá blóð í fjárslóðinni eftir hnjaskið á sandinum. Þeir komu að Þingeyrum um háttatíma. Þar var tvíbýli. Annar bóndinn var Jón Ásgeirsson, víðkunnur maður á sinni tíð, skáld og nafnfrægur hestamaður. Hann var ekki heima. Á móti honum bjó Hallgrímur Hallgrímsson, er síðast bjó í Hvammi í Vatnsdal. Hann sagði að sér litist svo á rekstur þeirra, að fénu væri full þörf á hjúkrun. Hleypti hann út kindum sínum til þess að rýma fyrir aðkomufénu en með því að húsrými skorti, þó hans væru tæmd, fékk hann pilta Jóns Ásgeirssonar til að rýma svo til í fjárhúsum hans, að allt aðkomuféð fékk húsaskjól og góða gjöf. Áttu þeir félagar þar ágæta nótt og rómuðu mjög risnu Hallgríms og höfðingsskap.

Frost hafði verið um daginn, en gekk í þíðvindi um nóttina, og var hláka daginn eftir. Nú lá fyrir að komast yfir Vatnsdalsá(Hnausakvísl) og var farið með hestana á Skriðuvaði, en féð flutt á ferju. Hún tók 17 kindur í ferð. Er yfir var komið, var hlákunni lokið, áttin gengin til norðurs og frysti. Nóttina eftir snjóaði ofan í miðjar hlíðar.

      Þennan dag var uppboð haldið á Brekku í Þingi. Þeir fóru þar um og hittu að máli uppboðsgesti. Norðanpóstur, Daníel Sigurðsson á Ásum, var staddur á uppboðsþinginu. Bjarni spurði um Blöndu, hvort fær myndi vera. Daníel sagði hana á ísi undan Æsustöðum, en veikum, og ekki fær nema frysi mikið. Hann kvaðst heim fara um kvöldið, skyldi hann hafa gát á ánni og gera þeim aðvart, ef hann teldi hana færa. Það var nú ráð Bjarna, að fara að Beinakeldu til gistingar. Féð var hýst í réttinni um nóttina, en látið í hús um morguninn og gefið vel.

        Erlendur Eysteinsson bjó á Beinakeldu, bróðir séra Lárusar á Staðarbakka og Björns í Grímstungu, risnumaður og góður heim að sækja. Féð var í húsum til kl. 4 daginn til að hvíla það sem best. Þá kom sendimaður frá Daníel á Ásum, sem sagði Blöndu verða færa daginn eftir, ef frostið héldist. Fór þeir þá með féð að Sólheimum og Ásum og skiptu því niður á bæina. Fékk það allt húsaskjól og góða gjöf. Jósafat var á Sólheimum um nóttina. Hann lét féð út snemma og stóð yfir því austur á borgunum. Þá var brunagaddur og norðaustan sveljandi. Sótti þá mjög kuldi á hann og hrollur, og barði hann sér til hita. Er lagt var af stað, bauð Ingvar bóndi Þorsteinsson í Sólheimum, að lána þeim forystusauð yfir ána. Hann var svartur, vel fullorðinn og vitskepna.

        Rekstrarmenn slógu ekki hendi móti þessu góða boði, enda þótt þeir treystu Forystu-Móra sínum fyllilega í hverjum vanda. Svartur skipaði sér þegar í fylkingarbrjóst hjarðarinnar, óþreyttur og léttur í spori. Móri virtist hissa á þessum nýja förunaut, sem kominn var í hópinn, en lét sem ekkert væri og skotraði til hans aðgætnum rannsóknaraugum og stiklaði rólegur og fótviss í fararbroddi sem áður.

        Er að ánni kom hikuðu báðir sauðirnir sem snöggvast, héldu síðan samsíða út á ísinn og litu hvort til annars eins og þeir vildu segja: "Hér er ekkert að óttast." Ísinn var hrjúfur og óháll og hestheldur. Er yfir ána kom, á grundina fyrir sunnan Æsustaði, gengu rekstrarmenn fyrir Sólheima-Svart, viku honum aftur að ánni og báðu hann heilan heim halda og þökkuðu honum góða þjónustu. Svartur skimaði yfir fjárhópinn, leit sínum greindarlegu sauðaraugum upp á mennina, sem við hann töluðu, og brokkaði síðan slóðina til baka upp hálsinn. Hefur efalaust verið fljótur að skila sér heim.

Færi var ágætt er yfir Blöndu var komið og sóttist vel leiðin. Ráku þeir, sem leið lá, upp Bólstaðarhlíðarbrekkur og austur Vatnsskarð. Sumt af fénu var rekið að Vatnshlíð og haldið áfram með langflest að Stóra-Vatnsskarði. Þar bjó Sigurður Bjarnason, faðir Stefáns hreppsstjóra á Gili í Svartárdal.

        Morguninn eftir, laugardag, sem var tíundi dagur ferðarinnar, hófst síðasti áfanginn. Þann dag náðu þeir heilu og höldnu að Mælifelli með fjárhópinn. Einn gemlingur hafði helst úr lestinni, varð eftir á Gauksmýri. Furðu lítið bar á því að féð væri eftir sig, eða því kopaði á þessum langa rekstri. Það var seigt í gamla fjárstofninum. Hann var hertur í þúsund þrautum harðæra og fellivetra.

Snemma á sunnudagsmorguninn lögðu þeir af stað heimleiðis vestur, Bjarni og Sigurbjörn. Þeir höfðu lokið sínu ætlunarverki, eins og fyrir þá vr lagt að koma fénu norður. Jósafat hafði ekki enn lokið því starfi, sem honum var falið, er hann fór að heiman. Hann hafði ekki látið sitt eftir liggja í fjárrekstrinum. Nú tók við það starf sem drjúgum var erfiðara og ábyrgðarmeira, að gæta fjárins í nýju heimkynni. Jósafat fékk líka að reyna það að enginn sældartími fór í hönd fyrir hann með vorinu 1888. Féð var hamslaust í óyndi svo ekki mátti augum af því líta. Vorið var vætusamt og kalt og haglendið á Mælifelli mjög ólíkt því, sem er í Hvammi. Jósafat varð að vera á sífelldum þönum að eltast við féð, því það virtist beinlínis forsmá Mælifellshaga og sótti ákaft á að komast eitthvað í burtu. Margan sólarhringinn varð því lítið um svefn og hvíld hjá smalanum.

Séra Jón Sveinsson var þá enn á Mælifelli. Þar var og tengdadóttir hans, Kristbjörg Marteinsdóttir, ekkja Jóns Jónssonar. Hún fór á þessu ári norður til átthaga sinna í Þingeyjarsýslu og giftist Sigurði Jónssyni á Ysta-Felli, þjóðkunnum manni. Á Mælifelli var og sonardóttir séra Jóns, Sólveig Eggertsdóttir, er síðar giftist Jóni Péturssyni á Nautabúi. Hún var 18 ára gömul. Það var ekki sjaldan að Jósafat kom til bæjar uppgefinn, kaldur og votur, eftir eltingaleik við féð. Þá viku þessar mætu konur jafnan góðu að drengnum, þurrkuðu föt hans og plögg og gáfu honum heitt kaffi. Og ekki spöruðu þær við hann matinn. Þeim segist Jósafat eiga mest að þakka, að hann gafst ekki upp, örmagna, við sitt örðuga og erilsama starf.

        Laugardaginn í fardögum lögðu þeir upp Árni Eiríksson, tengdasonur séra Jóns Sveinssonar og Eyjólfur Einarsson á Mælifellsá, til þess að sækja séra Jón Magnússon að Hvammi, fólk hans og búslóð. Þá sást aðeins gróðurnál í túni. Hestar til ferðarinnar voru fengnir á bæjum í sveitinni. Gekk sú ferð að óskum.

Það var ekki byrjaður sláttur á Mælifelli fyrr en föstudag í 14. viku sumars.

        Það er af fjárgeymslu Jósafats að segja, að þegar hann skilaði af sér og fé var rekið saman til að marka lömb, var engrar kindar vant. Nokkrar ær voru tvílembdar og aðeins fjórar lamblausar. Þótti hann hafa staðið vel í stöðu sinni. Fyrir það gaf séra Jón honum lamb. Það var árskaup Jósafats og hið fyrsta, er hann fékk á ævinni. Þá var talið nóg að fæða, klæða og skæða unglinga í vistum, þó komnir væru yfir fermingu, en ofrausn að ætla þeim kaup. Þrjú ár var Jósafat vinnumaður á Mælifelli og fór þaðan að Nautabúi til Árna Eggertssonar.

        Nú vill sá er þetta hefur skráð, eftir því sem Jósafat sagði frá 17. maí 1953, bæta við fáeinum orðum um hann sjálfan. Hann var snemma tápmikill og einhuga, eins og saga þessi sýnir, og varð mikill dugnaðarmaður. Hann bjó mörg ár á Brandsstöðum í Blöndudal, eignaðist þá jörð og löngum við hana kenndur. Jörð sína bætti hann mjög á margan hátt og var sína búskapartíð einn með stórtækustu jarðabótamönnum sveitar sinnar, vel efnum búinn, hygginn og farsæll bóndi. Hann var hinn mesti reglumaður og ráðdeildar í búskap sínum, og snyrtimennsku hans í umgengni allri, utan húss og innan, var við brugðið.

        Hann kvæntist ekki, en sonur hans er Guðmundur héraðsráðunautur í Austurhlíð í Blöndudal.

        Jósafat er nú á þriðja ári yfir áttrætt (fæddur 10. ágúst 1871) og á heima á Blönduósi. Hann er vel ern og gengur að vinnu á hverjum degi. Sálarkröftum og dómgreind heldur hann lítt skertum og minni hans er frábært enn sem fyrrum. Frásagnir hans eru skýrar og skilmerkilegar og hann hefur gaman af að rifja upp liðna atburði.

                    Magnús Björnsson Mannaferðir og fornar slóðir Ak. 1957 bls. 147-155

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06