01.08.2009 06:11

Slæm hestsskil

Slæm hestsskil

Svo sagði Björn, að til fárra hefði sér þótt betra að leita, ef einhvers þurfti við, en til Ólafs á Njálsstöðum. Hann var alltaf boðinn og búinn til hjálpar, ef einhvers þurfti við. Var og svo, að Ólafur þurfti oft að sækja til Björns, svo að hvor hjálpaði öðrum. Var vinátta góð með þeim grönnum. Þó að Ólafur ætti margt brúkunarhesta var það oft, að hann þurfti fleiri en hann hafði, því það var sjaldan að öll væru brúkunarhæf, er á þurfti að halda. Björn léði honum oft hross og þótti samt ekki gott, því að skilin voru einatt ekki góð, reiðskapur úr lagi, hrossin munnsár og þvæld og þannig til reika að hestsárum manni þótti illt að sjá. Það var einn laugardag, síðla á engjaslætti, að stórbinding var hjá Ólafi á Njálsstöðum. Bauð hann út miklu liði og smalaði reiðingshestum á nágrannabæjum. Þá var reitt heim mikið hey á Njálsstöðum og verið að myrkra á milli. Morguninn eftir, er Björn kom á fætur, var hestur hans, er Ólafur fékk léðan, á bæjarhólnum með reiðing undir kvið og taumlaust á honum beislið og sjálfur var hann munnsár og leðjustorkinn eftir  íhlaup á slæmum heybandsvegi. Björn strauk hest sinn og tók af honum reiðing og beisli. Seinna um daginn, er Björn hafði lagt sig til svefns, kom Ólafur. Hann hitti Maríu húsfreyju úti við. Hún taldi slæm hafa verið skilin á lánshestinum í gærkveldi, öll útreiðin á honum hefði borið vitni um meiri hestaníðslu en forsvaranlegt væri. Varð hún nokkuð beiskyrt. Ólafur stóð álútur og þegjandi undir ávítunum, en sagði síðan með hægð:"Ég ætlaði að finna Björn" María var hreinskilin og berorð, og er hún hafði lesið Ólafi pistilinn, var henni horfin gremjan og hún bauð honum inn, sagði að Björn hefði lagt sig og skyldi hann tala við hann í baðstofu. Hún vísaði honum til sætis við höfðalag Björns og spurði hvort hún ætti að vekja hann. Ólafur kvað það ekki skyldu, Björn skyldi njóta svefnsins og hvíldarinnar, hann myndi brátt vakna. Mér er í barnsminni hvað mér sýndist Ólafur gugginn og þreytulegur, þar sem hann sat þarna á koffortinu, úfinhára gráskeggur, samansiginn og angurvær á svip og eins og hann starði út í einhverja óra fjarlægð. En nú vaknaði faðir minn, varð gestsins var og reis upp. Heilsaði hann Ólafi að gömlum hætti, hlýlega og glaðlega og sagði, að hann hefði sótt vel að sér. Við þessa kveðju var sem sólskin flæddi um andlit Ólafs, hann hófst allur í sætinu og bros kom í augu og á varir. Fór hann svo að afsaka skil sín á hestinum, hann hefði horfið sér út í myrkrið um kvöldið, reyndar hefði verið komin nótt. Og karl var léttur í máli og léttstígur er hann kvaddi og hélt heimleiðis. Magnús Björnsson Syðra-Hóli: Feðraspor og fjörusprek bls. 96-7   Heiti kaflans er komið frá ritlara IHJ

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478256
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 07:45:48