17.02.2009 08:31

J.Illugason - Eitt ár 1872 - hluti

                       Um Auðólfsstaðamenn 
            - úr þætti Jónasar Illugasonar - Eitt ár
Skal nú nefna fólkið á heimilinu(Finnstungu). Þá er fyrst að telja Björn Ólafsson bónda. Hann var sonur Ólafs Björnssonar á Auðólfsstöðum og albróðir séra Arnljóts á Sauðanesi. Anna kona Björns var dóttir Jóhanns bónda á Þorbrandsstöðum Jónssonar frá Brúnastöðum í Fljótum. Börn þeirra voru:

1.    Sigvaldi, síðar bóndi á Skeggsstöðum

2.    Arnljótur, fór til Ameríku og varð þar nafnkunnur bóksali meðal Íslendinga.

3.    Ólafur, síðar bóndi á Árbakka og lengi oddviti í Vindhælishreppi.

4.    Björn, fór til Ameríku og varð friðdómari í Nýja Íslandi.

5.    Ingibjörg, fór til Ameríku og giftist þar Benedikt Frímannssyni, er frægastur varð af því að komast lífs af með skipshöfn sinni úr mannskaðanum mikla 1887.

6.    Sigríður, var heilsulítil og lítilsigld. Var hjá móður sinni, meðan hún bjó, og síðan hjá Sigvalda, bróður sínum, og dó hjá honum.

7.    Rannveig, giftist ekki, átti eitt barn, varð ekki gömul.

8.    Margrét. Hún var á fyrsta ári og dó um tveggja ára gömul.  

Vinnukona var hjá þeim Birni og Önnu, sem Guðrún hét,

Jónsdóttir frá Strjúgsseli. Fleira fólk var ekki á því búi.

Þá er að nefna annað fólk á heimilinu.

Sveinn Jónsson, maður um fertugt, var þar í húsmennsku og

kona hans, Þuríður Ásmundsdóttir frá Holti í Svínadal. Hjá þeim var drengur sex ára gamall, Jónas að nafni, kenndur Einari Jakobssyni frá Engihlíð, en raunar sonur Einars Jónassonar frá Gili. Hann treystist ekki til að gangast við faðerni, því að faðir hans, Jónas á Gili Einarsson, hafði áður átt barn með sömu konu, Dagbjörtu Kráksdóttur frá Steinárgerði. Samkvæmt lögmáli þeirra tíma hefði það kostað Einar háa fésekt og jafnvel buxnafall að gangast við króganum. Þó að Sveinn teldist húsmaður, mátti hann eins kallast vinnumaður Björns að nokkru leyti, því að hann var aðalskepnuhirðir hans um veturinn, gætti bæði sauðfjár og hrossa, auk þess sem samvinna var með þeim um heyskapinn. Veit ég ekki, hvernig skipti voru með þeim, en fæði hafði Sveinn hjá sér.

          Enn fremur var í Tungu Einar Jónasson frá Gili, áður nefndur, einhleypur maður og var oft að heiman í vinnu hingað og þangað og stundum í slarki og óreglu, því að hann var drykkjumaður mikill.

          Loks er að telja foreldra mína, Illuga Jónasson frá Gili og Ingibjörgu Ólafsdóttur, systur Börns bónda. Ég rek svo lestina, átjándi maður á heimilinu.

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06