16.02.2009 12:05

Arnljótur á Bægisá

 

Arnljótur Ólafsson Sauðanesi

 

var fæddur á Auðólfsstöðum í Langadal 21. nóv. 1823.

Faðir hans Ólafur Björnsson, Guðmundssonar á Höfnum Björnssonar. Taldi Arnljótur sér það stundum til gildis í hálfgerðu gamni að hann væri kominn af Guðmundi Skagakóngi í beinan karlegg.

Móðir Arnljóts og kona Ólafs var Margrét Snæbjörnsdóttir prests í Grímstungum, Halldórssonar biskups á Hólum, Brynjólfssonar lögréttumanns Ásmundarsonar hins gamla, prófasts á Breiðabólstað á Skógarströnd. Bróðir Snæbjarnar, afa Arnljóts, var Brynjólfur gullsmiður Halldórsson, faðir Þóru, móðir Péturs biskups og þeirra bræðra.

 Í öðrum kapítula Auðfræði sinnar lýsir Arnljótur því hvernig barn þroskast:" Áfram, áfram, upp, upp, fram til frama, upp til vegs og gengis... Nú gekk hann að tilvísun gyðjunnar í musteri sönglistarinnar. Heyrði hann þar indælan samsöng hljóðfæra og englaradda. Hljómöldur raddanna streymdu inn í hjarta hans, fylltu það og fylltu húsið; hann sá í sjón, hversu hann sjálfur lyftist, frá sér numinn af fögnuði og tilbeiðslu, upp eftir himinstiga raddanna. Þaðan leiddi menntagyðja hann upp á skáldafjallið - það er fjalla hæst í hugarheimi."

Árið 1861 eru nokkurs konar tímamót í ævi Arnljóts. Hann sat þá enn á þingi en eftir þing reið hann norður með Jóni alþingismanni frá Gautlöndum og í þeirri ferð trúlofaðist hann Hólmfríði dóttur síra Þorsteins á Hálsi í Fnjóskadal Pálssonar  og Valgerðar Jónsdóttur Þorsteinssonar frá Reykjahlíð.

Sama haust tók hann fyrir guðfræðinám í prestaskólanum, vígður til Bægisár 15. nóv. 1863 (AÓ er þá fertugur). Hann varð mikill búsýslumaður, var þar prestur í 26 ár en var veitt Sauðanessprestakall 1889(AÓ er þá 66 ára). Oddviti Glæsibæjarhrepps var hann helming prestskapar síns á Bægisá og hóf hag sveitarinnar úr fjárþröng. Hann andaðist 29. okt.1904. 

 

Árið 1878 ritaði síra Arnljótur greinar í Norðling, er hann nefndi "Nokkur landsmál" og árið eftir framhald þeirra "Nokkur athugamál". Eru þar í hinar svæsnu greinar hans um þá hækkun á launum embættismanna er alþingi hafði gengið að árið 1875. Hrjóta þar mörg hörð orð í garð "hinna hálaunuði landómaga"

Páll Ólafsson orti:

Hentugt mundi Hrafnagjá

að hafa fyrir landsins kassa.

Arnljótur minn þyrfti þá

þar að vera hann að passa. PÓ

Og þetta:

                  Yfirvöldin yrðu þá

ekki rík úr landsins kassa.

Þar fær enginn gull úr gjá

sem gamli Ljótur á að passa. PÓ

 

         Björn M. Ólsen skrifaði grein um AÓ í Merka Íslandinga - Ævisögur og minningargreinar - Rv. 1947 sem greinin hér að framan er unnin úr. Björn segir þar ennfremur:"Fremur en nokkur maður, hefur síra Arnljótur auðgað bókmenntir vorar að ritum um þjóðmegunarfræði. Þegar hann kom til háskólans var sú stefna drottnandi í þjóðmegunarfræðinni sem kölluð er frjálslynda stefnan eða Manchesterskólinn, er fer í þá átt að landsstjórnin eða ríkið eigi að losa öll höft á atvinnuvegum manna og versluninni en annars láta hagi manna sem afskiptaminnsta, lofa einstaklingnum að njóta sín og gefa þeim lausan tauminn í samkeppninni. Stefna þessi átti rót sína að rekja til Adams Smith´s, hins fræga enska auðfræðings en þjóðskörungarnir Cobden og Bright höfðu einkum eflt hana og framfylgt í þjóðmálum Breta og frakkneskur maður, Fréderic Bastiat(d. 1850) hafði fært kenningar .. í vísindalegan búning í hinu fræga riti sínu Harmonies économiques. AÓ var hrifinn af þessari kenningu og með Auðfræði sinni er Bókmenntafélagið gaf út 1880 hefir hann veitt þessum menningarstraum inn í land vort því að þar fylgir hann mest Bastiat ... "

   

                            Úr íslenskum æviskrám I bls. 80-81

AÓ lærði fyrst hjá Magnúsi R Ólsen á Þingeyrum, síra Sveini Níelssyni, síðast hjá síra Halldóri Jónssyni þá í Glaumbæ, síðar að Hofi, varð óreglulegur lærisveinn í Bessastaðaskóla 1845, tekinn í annan bekk Reykjavíkurskóla 1846, skyldi verða stúdent 1850 en vegna skólauppþotsins, sem honum var að mestu kennt, var hann rekinn, fór þá til Kh og kom aftur um vorið 1851, fékk þá að taka próf hér og varð stúdent með 2.einkunn. Fór sama haust til háskólans í Kh. og lauk þar áskildum viðbúnaðarprófum, 1. lærdómspróf með 2. einkunn, 2. lærdómspróf með 1. einkunn. Nam hagfræði nokkur ár og stundaði ritstörf (var t.d. í stjórn Nýrra félagsrita) kenndi og syni Blixen-Fineckes baróns og fór með honum suður í lönd. Var með Schaffner hershöfðingja 1860 í botnrannsóknum um hafið milli Færeyja Íslands og Grænlands vegna fyrirhugaðs sæsíma. Gekk í prestaskólann 1861, próf þar 1863 með 1.einkunn. Fékk Bægisá 6. okt. 1863, vígðist 15. nóv. sama ár, Sauðanes fékk hann 26. sept 1889 og hélt til æviloka.

1859- 1867  Þingmaður Borgarfjarðar

         1877- 1879  Þingmaður Norðmýlinga

         1881-1885   Þingmaður Eyfirðinga

         1886-1891   Konungkjörinn þingmaður

         1891            Þingmaður Norður Þing en komast þá ekki til alþingis

Ritstörf:
        
1853Skírnir (með sr. Sveini Skúlasyni) og 1855-1860

Kh. 1880     Auðfræði

         1898            Landsstjórnarmálið

Eftir hann eru og ýmsar ritgerðir í Nýjum félagsritum, í Skýrslum um landshagi, Safni til sögu Íslands, Andvara, Tímar. Bmf, og mikill fjöldi greina í blöðum landsins.

         Kona (6. maí.1864) Hólmfríður Þorsteinsdóttir prests að Hálsi Pálsssonar

         Börn þeirra:

                   Þorsteinn kaupm. á Þórshöfn

                   Snæbjörn, síðast starfsm í Landsbankanum

                   Óvína dó 1887 19 ára

                   Valgerður Magnea óg.

                   Margrét Rannveig dó 1896 22 ára

                   Halldóra

                   Jóhanna, átti E. Hemmert verslunarstjóra

                   Sigríður átti Jón lækni Jónsson við Blönduós

 

 

 

Arnljótur Ólafsson (1823-1904) prestur, hagfræðingur og þingmaður.

Fæddur 21. nóvember 1823, sonur Ólafs Björnssonar á Auðólfsstöðum og Margrétar Snæbjarnardóttur. Forsprakki stúdentauppþots í Lærða skólanum í Reykjavík (pereatsins) 1850 og var rekinn úr skóla en fékk að útskrifast 1851 og nam síðar við Kaupmannahafnarháskóla, m.a. hagfræði. Lauk prófi frá Prestaskólanum í Reykjavík 1863 og var lengst af prestur á Sauðanesi og þingmaður.

Hans er minnst í íslenskri heimspekisögu fyrir að hafa fyrstur manna notað orðið rökfræði á prenti, í samnefndri grein í Tímariti hins íslenska bókmenntafélags árið 1891. Auk þess ritaði hann og þýddi greinar um siðfræðileg og stjórnspekileg efni.

Önnur rit: Auðfræði, Kaupmannahöfn, 1880

 

 

 

Bókarauglýsing: Auðfræðin var fyrsta hagfræðiritið á íslensku. Arnljótur studdist einkum við skrif franska hagfræðingsins Fréderic Bastiat. "Hitt er merkileg staðreynd að árið 1880 skuli jafn fámenn útkjálkaþjóð og Íslendingar eignast jafnágætt kynningarrit á jafnungum vísindum og fræðileg hagfræði hlaut þá að teljast", segir Gylfi Þ. Gíslason í formála.
 

Skólahald á Langanesi
-
Upphaf skólahalds á Langanesi er dálítiðið óljóst. Í skýrslu sem dr. Guðmundur Finnbogason samdi um kennslu barna og unglinga á Íslandi árin 1903-1904 kemur fram að á Þórshöfn hafi starfað barnaskóli í leiguhúsnæði á árunum 1892-1894 og 1896-1898 og fengið styrk úr landssjóði. Engar aðrar heimildir geta þessa skólahalds en eftir því sem næst verður komist var það Elín Sigurðardóttir sem annaðist þessa kennslu og fór hún líklegast fram í skemmu Jóns Benjamínssonar. Hún hafði lært hjá börnum séra Arnljóts Ólafssonar og Hólmfríðar Þorsteinsdóttur á Sauðanesi. Hins vegar eru traustar heimildir fyrir því að árið 1898 kom farkennari til starfa í hreppnum. Maður þessi hét Ásgrímur Magnússon. Hann var fæddur árið 1873 á Nautabúi í Lýtingsstaðahreppi og hafði lokið prófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1897. Hann settist að í Skoruvík og kenndi á ýmsum bæjum veturinn 1898-1899 en ekki er vitað um kennslu hans þann vetur að öðru leyti. Í Skoruvík kynntist Ásgrímur Hólmfríði Þorláksdóttur, systur Kristjáns Skoruvíkurbónda og árið 1898 gengu þau í hjónaband. Þegar hér var komið sögu var áhugi manna á föstum skóla orðinn meiri en áður. Árið 1899 hafði séra Arnljótur Ólafsson oddviti Sauðaneshrepps samband við Guðmund Hjaltason sem haldið hafði skóla bæði á Akureyri og í Laufási og bað hann um að flytjast til Þórshafnar og taka að sér skólahald þar á staðnum. Þeir þekktust því Guðmundur hafði unnið að jarðabótum fyrir séra Arnljót þegar hann var prestur á Bægisá í Eyjafirði og líka í nokkur sumur á Sauðanesi. Einnig hafði hann verið heimiliskennari hjá séra Arnljóti. Guðmundur hlýddi kallinu og kom vorið 1899 að Sauðanesi frá Skeggjastöðum með konu sinni, Hólmfríði Margréti Bjarnadóttur. Vann hann um sumarið að jarðabótum en byrjaði að kenna um haustið. Kenndi hann veturinn 1899-1900 á Þórshöfn, Ytribrekkum, Heiði og Eldjárnsstöðum.

 

Eftir því sem fólki fækkaði í Sauðaneshreppi varð stöðugt erf iðara að halda uppi kennslu. Loks fór svo árið 1968 að fræðsluyfirvöld neituðu að borga kennaranum laun en þá voru börnin sem sækja áttu skólann aðeins fimm. Komu þá foreldrarnir með þau í barnaskólann á Þórshöfn og báðu þeim vistar þangað til hrepparnir gengju til samstarfs um skólamál. Það komst á árið 1970 og var Farskólinn á Langanesi þá lagður niður með formlegum haetti. Síðasti farkennarinn var Guðrún Ólafsdóttir húsfreyja á Efralóni og hjálpuðust þau raunar að við kennsluna hjónin, hún og Sigurður Jónsson, þrjú síðustu árin sem skólinn var á Efralóni, 1965-1968.'

 

 

Sauðanes á Langanesi

Gamla prestssetrið á Sauðanesi hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1989. Það var þá mjög illa á sig komið, og var unnið að viðgerðum á því í liðlega áratug. Samningur var undirritaður árið 2002 við heimamenn um að nýta húsið í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu og var húsið formlega opnað í sumarið 2003.

Sr. Vigfús Sigurðsson (1811-1889) kom til Sauðaness 1869 og hafði áður þjónað á Svalbarði í Þistilfirði. Hann lét reisa fyrir sig íbúðarhús úr tilhöggnum steini á árunum 1879-81, eitt örfárra steinhlaðinna húsa á landinu, og önnuðust verkið þeir bræður Björgólfur snikkari og Sveinn múrsmiður Brynjólfssynir, sem þá voru búsettir á Sauðanesi. Gríðarstór tekkbolur, sem rak á Langanesfjörur, var notaður í útidyraumbúnað og hurðir. Eftir að sr. Vigfús lést tók sr. Arnljótur Ólafsson (1823-1904) við Sauðanesi og gegndi brauðinu til dauðadags. Hann var landskunnur fyrir stjórnmálaafskipti og ritstörf. Síðast var búið í gamla íbúðarhúsinu 1955 og var þá tekið í notkun nýtt prestssetur, skammt frá því gamla.

Sauðanes var áður í miðju byggðar á Langanesi, en fólksflutningar hafa verið miklir á síðustu öld. Sauðanes hefur verið annálað og eftirsótt prestssetur frá alda öðli með miklum landkostum, m.a. æðarvarpi, reka, silungs- og selveiði.Í Öldinni okkar fannst erfiljóð Matthíasar Jochumssonar eftir Arnljót Ólafsson:

Flestum varstu fremri að listum

fræðibaldur þinnar aldar!

Fæstir menn með fyllri þroska

fóru á þing með lýðmæringum.

Engan vissi ég orri tungu

unna meira né snilli kunna

(yndi þitt var allt að grunda)

orðalags á ströndu Norðra.

 

Kosti þína þekktu fæstir

þína bresti vissu flestir;

djúp að kanna mikilmenna

megnar aldrei fjöldinn þegna.

Þína sönnu sæmdarmenning

sýndi lýðum húss þíns prýði.

Yndi var á öllum fundum

orða þinna töfraforði. Matthías Jochumsson

Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 514005
Samtals gestir: 103947
Tölur uppfærðar: 24.11.2020 09:09:39