16.02.2009 05:42

Hjálmar er burtu og Jóhannes

1870      Hjálmar er burtu og Jóhannes

 

Langur finnst mér Langadalur

lítt um náttstaði vali get

móti mér andar andi svalur

ætlar bráðum að gera hret.

Á húsdyr bænda með hryggð er les

Hjálmar er burtu og Jóhannes.

Enga kunningja þar eg þekki,

Þorlákur prestur sést nú ekki.

Súrnar mér augum sjáldur í

sorgar úr hafi dregur ský.

Bólu-Hjálmar 1796-1875

Um Jóhannes á Gunnsteinsstöðum skrifar séra Gunnar á Æsustöðum þátt í Hlyni og hreggviði, vitnar í ljóð Hjálmars Jónssonar frá Bólu og segir þar:

"Eins og alkunnugt er, átti Bólu-Hjálmar flesta sína bestu vini í Húnavatnssýslu. Og hvergi betri en í Langadal. Eitt vitni þess er draumvísa frá efstu dögum skáldsins. Hann dreymdi að hann fór um Langadal og kvað:" Síðan kemur ljóðið hér að ofan. "Hér eru nefndir Hjálmar Loptsson á Æsustöðum, Jóhannes á Gunnsteinsstöðum og séra Þorlákur Stefánsson á Auðólfsstöðum. Engir munu hafa tekið Hjálmari alúðlegar né sem meiri höfðingja. Þeir kunnu að fagna skáldinu. Og fyrir bragðið orti Hjálmar líka margt vel til þeirra og fyrir þá."

"Ingibjörg Jónsdóttir í Blöndudalshólum lýsir Jóhannesi Guðmundssyni þannig:

"Hann var stór maður og þrekinn, svarthærður, hrokkinhærður, þunnhærður, ófriður, frekar stórskorinn, dökkleitur í andliti, ljósgráeygur . . . . Framúrskarandi dagfarshægur og stilltur."

"Jónas Illugason kveður Guðmund Hannesson hafa að nokkru minnt á Jóhannes í útliti. Hafi þó Jóhannes verið allur stærri"                                Hlynir og hreggviðir bls. 198-199, 204, 206

Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478523
Samtals gestir: 92241
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 18:46:08