11.02.2009 05:27

Að baki blárra fjalla

Hver átti heima í dalnum

á milli fríðra fjalla

í friðsælunnar ríki?

Það var ég.

Hver hlustaði á lækina

stall af stalli falla

með straumaniði ljúfum?

Það var ég.

 

Hver þekkti dalsins hlíðar

með lautir, gil og geira

og gylltar víðiflesjur?

Það var ég.

Hver mátti um sumardagana

ljúfust ljóðin heyra

frá litlum fuglatungum?

Það var ég.

 

Hver þráði heitast vorið

þegar vetur ríkti í dalnum

og vindar naprir blésu?

Það var ég.

Hver leitaði að sóley

í bleikum blómavalnum

í bæjarvarpa heima?

Það var var ég.

 

Hver var það, sem ungur

fékk ást á heimabyggðum

og unaðssemdum dalsins?

Það var ég

Hver var það, sem fullorðinn

brást svo barnsins tryggðum

og baki snéri að öllu?

Það var ég.


- - -


Hver er það sem framandi

og friðlaus er að sveima

og finnur engin takmörk

eða veg?

Hver er það sem lítur

í anda horfna heima

hinum megin fjallsins?

Það er ég.

 

Hver er það sem stendur

að baki blárra fjalla

og bergmálsóminn skynjar?

Það er ég.

Og veit að það er dalur,

það er dalurinn að kalla -

það er dalurinn minn heima.

Það er ég.

                 Rósberg G. Snædal/Að baki blárra fjalla úr bókinni Á annarra grjóti

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06