10.02.2009 09:52

Ólafur frá Stafni

Rósberg G. Snædal rithöfundur og kennari á Akureyri skrifar þátt um Ólaf Bjarnason, skemmtilegan og sannan en Óli Bjarna er ritstjóranum minnisstæður.

Sjálfur ólst RGSn á Laxárdalnum og kynntist Ólafi á þeim slóðum og af umtali sveitunganna.  Verða hér birtir kaflar úr þessum þætti.

 

 

 

 

 

1930

                                      Ólafur Bjarnason

frá Stafni

Ólafur Bjarnason sá er hér verðu lítillega sagt frá, var fæddur 21. júní 1867, eða eins og hann sagði sjálfur:"föstudaginn í 9. vikunni, vonda sumarið fyrra." [..]

Persónulega kynntist ég Ólafi ekki fyrr en eftir 1930. Hann var þá orðinn aldinn að árum og laus í vistum. Var mikið á faralds-fæti og í ferðalögum. Hann var hjarðmaður og átti hjörð sína einn. Það voru 10-15 stóðhross.

Hann var á hrakhólum með þennan pening sinn og raunar enginn maður til að sjá honum farborða, hvorki vetur né sumar. Þrautalending hans var því Laxárdalur, heimasveit mín. Þar voru þá ýmsar jarðir komnar í eyði og því hægt að fá þar bæði haga og heyskap fyrir lítið. Þarna hafði svo Ólafur hrossin sín í nokkur ár, og gengu þau að mestu sjálfala, því árferði var þá gott. Sjálfur var hann að baksa við heyskap á sumrum og fékk slægjur bæði í Mjóa-dal og Skyttudal, en þær jarðir voru þá í auðn.

Þótt Ólafur væri svona hrossmargur, átti hann enga drógina tamda og varð því alltaf að notast við eigin fætur, þegar hann þurfti að bera sig yfir. Hann var orðinn stirður til gangs og að sama skapi lélegur heyskaparmaður. Það sýndist mér þó, að hann mundi ekki hafa verið óliðlegur sláttumaður meðan hann var og hét. Einhverjir urðu oftast til að hjálpa honum að hirða það litla, sem hann reytti af heyi. Var það sett saman á ýmsum stöðum, ýmist í tóttarbrotum eyðijarðanna eða eða úti á víðavangi. Aldrei urðu þau hey há í loft-inu, voru illa uppborin og gegndrápu því oftast. Oft kom það líka fyrir að hrossin hans skömmtuðu sér sjálf það af þeim, sem ætilegt var, þegar harðna tók á dalnum. Brutu þau þá upp kleggjana. Ólafur leit oft til þeirra á vetrum og var hrein furða, hvað hann entist til að pjakka í frosti og fönnum.

Ekki átti Ólafur neinn verslegan auð nema hrossin og fötin sem hann gekk í. Hann seldi eitt og eitt hross fyrir nauðþurftum sínum, en var sárt um að ganga á stofninn, og sparaði við sig flestar lífsnautnir nema neftóbak. Einhvern veginn varð honum aldrei mikið við hendur fast, þótt einhleypur væri. [..]

En hvernig var Ólafur þá öðruvísi en annað fólk? Því er ekki fljótsvarað. Oft lýsti hann öðrum mönnum á þá leið að þeir væru "fálkalegir". Sjálfum verður honum naumast betur lýst með öðru orði. Hann var  fálkalegur, ör í öllum hreyfingum, augun síflökt-andi og höfuðið á sífelldum erli. Málandi hans var harður og róm-urinn nokkuð hávær - og allir voru taktar hans sérkennilegir og málflutningur hans öfgakenndur, þegar hann skeggræddi eða rök-ræddi um menn og málefni. Hann var kátlegur í háttum og tali og ólíkur öllum öðrum, án þess þó að vera fíflalegur, því fífl var Ólaf-ur Bjarnason ekki - langt í frá. Þægilegur var hann jafnan í um-gengni og reiddist ekki þó stælt væri við hann um eitthvað, sem honum virtist vera hita- og hjartans mál.

Ólafur hlaut kenningarnafn og var kallaður Ólafur seigi. Það var dregið af því orðatiltæki hans, að segja að þessi eða hinn væri , sem hann talaði um, væri seigur. "Hann er seigur sá," sagði hann oft. Í heimasveitinni og næsta nágrenni festist þó þetta auknefndi aldrei við hann, en ég heyri að það hefur fengið nokkra hefð í sveitum vestan Blöndu, þar sem Ólafur dvaldi nokkuð.

Ólafur hafði sérstaklega gott minni fram á efstu ár. Hann las alltaf mikið og var fljótur með hverja bók, sem hann komst yfir. Þó átti hann létt með að segja kjarna sögunnar eftir á. Það var eins og hann myndi allar bækur, sem hann hafði lesið frá blautu barnsbeini. Þegar hann las aðeins fyrir sjálfan sig, vildi hann helst lesa hálfupphátt og þannig las hann heilu síðurnar. Annað veifið gat hann ekki stillt sig um að skjóta inn athugasemdum viðvíkjandi efninu, og oft bar við, að fólk sem í námunda var, hrökk hastarlega við, þegar Ólafur kvað upp úr, eitthvað á þessa leið:"Helvískur þrællinn, sá er ögn vitlaus núna, - eða finnst þér það ekki. Jú, jú, alveg kolvitlaus, bölvaður kjóanefurinn. Það er ekki gaman að vitleysunni, nei nei, - eða finnst þér það?"

Hann var góður lesari og mun oft hafa lesið upphátt fyir heimilisfólk á vökunni, en ekki sleppti hann innskotum sínum að heldur. Ég þykist vita, að hann hafi gert þetta til gamans, því margir gátu ekki á sér setið og skelltu upp úr, þegar karlinn gerði sínar sérstæðu og meinlegu athugasemdir. A.m.k. hafði ég gaman af að ýta undir hvað þetta snerti - og oft bar það góðan árangur.

[..]

Ólafur var mjög kunnur vísnasmiður, þótt sú frægð væri kannski með nokkuð öðrum hætti en algengast var. Hann orti fjölda vísna um bændur og búalið í þeim sveitum sem hann dvaldi í. Allar vísur hans, eða nær allar, sem lifðu á vörum manna, voru ortar undir sama bragarhættinum, og aldrei heyrði ég hann bera sér annan bragarhátt í munn. Þetta var þríhenda, þannig rímuð:

 

          Gvendur púta gömlum hrúti líkur.

          Æði þrútinn er um kinn

          eins og sútað húðarskinn.

Og:

          Haraldur gamli hart um svamlar veginn.

          Út í mýri ekur sér

          eins og kýr í framan er.

Og enn kvað hann:

          Svínavatns-Jói svörtum kjóa líkur.

          Kátur og frískur karl er enn,

          kvenfólk pískrar við - og menn.

Ólafur orti allar sínar vísur í gamni og meinti ekkert ljótt með þeim, þó oft kæmist hann harla neyðarlega að orði. Ég held að hann hafi alltaf gert sínar vísur á stundinni og látið þær flakka, án þess að hefla þær eða gjörhugsa. Þetta var leikur hans til að láta aðra hlæja og stytta bæði honum og nærstöddum stundirnar. Hann tók sig ekki alvarlega sem skáld, a.m.k. ekki á seinni árum, en rím-ið lék honum laust á tungu. Ég hef heyrt sagt, að hann hafi ort alvarleg kvæði og stökur meðan hann var yngri. Því til sönnunar mætti tilfæra þessa vísu hans:

          Mittisnett og meðalhá

          megnar glettur eykur.

          Hennar sléttu herðum á

          hár í flettum leikur.

[..]

Hann kafnaði ekki undir kenningarnafninu. Hann seiglaðist langa ævi og misjafna, og gafst ekki upp á rólunum fyrr en í fulla hnefana. Síðustu æviárin taldi hann sér lengst af heimili hjá sr. Gunnari Árnasyni á Æsustöðum og átti góðu að mæta hjá þeim hjónum. Þegar þau fluttu suður í Kópavog, fór Ólafur að Skeggsstöðum í Svartárdal til frændfólks síns. Þar dó hann hinn 6. okt. 1953, rúmlega áttræður að aldri.

Rósberg G. Snædal: Skáldið frá Elivogum og fleira fólk Rv. 1973

 

 

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 133
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 478940
Samtals gestir: 92355
Tölur uppfærðar: 7.4.2020 11:10:59