30.11.2008 10:33

Úr dagbók JT 1947 & 48

Margt bar til tíðinda árið 1947, hófst trjárækt á Botnastaðamó, hafin bygging íbúðarhúss í Ártúnum og niðurskurður á fé vegna mæðiveiki.
1947

20. jan. Fjórði jeppinn kom inn í sveitina nú um áramótin og fékk Ingi á Bollastöðum þenna bíl. Hann hefur verið að læra á hann að undanförnu hjá Ella í Hlíð. Nú um daginn óku þeir bílnum fram undir Bollastaðatún. Giskuðu þeir á, að um hálfs kílómeters leið hefði verið ófarin. Á síðastliðnu ári hafa þá alls komið 5 bílar inn í sveitina, 4 jeppar og 1 vörubíll. Jeppum hefur verið ekið heim á 4 bæi sem áður var ekki bílfært á, Fossa, Stafn, Eyvindarstaði og Þverárdal og nú hefur verið ekið langleiðina að Bollastöðum.

21. jan. Við Garðar litli erum einir heima í dag. Hvortveggja hjónin fóru til Blönduóss í morgun, en koma heim í kvöld. Sigurður Semingsson frá Hvammi er áttræður í dag og ætluðu pabbi og mamma að heimsækja hann í tilefni dagsins.

Við Garðar höfum haft það náðugt. Hann fór með mér suður í hús, þegar ég fór að gefa seinni gjöfina og var víst heldur smeykur við kindurnar, enda hefur hann víst ekki komið í húsin fyrr. Þegar við komum heim svæfði ég hann og nú sefur enn eftir hálfan annan tíma.

Í gær og í dag hefur verið asahláka og mikið tekið upp. Blanda er í stórflóði í dag og er svo mikið vatn í henni að það mun fágætt á þessum tíma árs.

23. jan. Marka-Leifi kom hér í gær með hross vestan úr sýslu. Í dag sótti pabbi fyrir hann vestur að Tungunesi hross, sem hann ætlar að bæta í hópinn. Hann heldur svo sjálfsagt norður á leið á morgun. Þessi kvöldin er spilað hér, hreint ekki lítið.

29. jan. Lognsnjór hefur fallið í dag og er veðurspá tvísýn. Sennilega er nú hinum einstæða hlýindakafla, sem varað hefur mestan hluta þessa mánaðar, að verða lokið. Suður í löndum eru nú kuldar meiri en menn muna dæmi til um langt skeið. Var t.d. 17 stiga frost í Englandi nú einhvern morguninn og snjóað hefur suður á Miðjarðarhafsströnd og á strönd Norður-Afríku. Á Ítalíu hafa menn orðið úti, hvað þá heldur þegar norðar dregur.

Anna systir tók ökupróf á mánudaginn var og í dag tók Ingi á Bollastöðum próf. Munu nú 9 manns hér í sveitinni hafa réttindi til að aka bifreið , en fyrir fám árum voru hér aðeins 2 menn, er höfðu slík réttindi.

27. febr. Í dag höfðum við karlakórsæfingu á Eiríksstöðum og ákváðum þar að leggja í norðurferðina þrátt fyrir slæman undirbúning og líklega lakari en við höfum nokkru sinni lagt upp með. Tvo menn vantaði á þessa æfingu og þeir sem mættu, voru flestir meira og minna eftir sig nú eftir veikindin. Æfingin mátti því teljast fremur léleg og hefði gjarnan mátt vera ögn betri sem síðasta æfing fyrir samsöng. Það voru að þessu sinni meir annarra ráð en mín að fara þessa för svo sem allt var í pottinn búið og verður nú að fara sem vill og auðið er með útkomuna.

1. mars Eftir þrjá tíma leggjum við væntanlega af stað norður yfir fjallið. Söngurinn hefur verið auglýstur kl. 10, en við förum héðan kl. 7, því sumir jepparnir þurfa að fara tvær ferðir yfir Vatnsskarðið. Í dag er einhver kaldasti dagurinn og uppgengið á norðurfjöll.

2. mars Sunnudagur. Þá erum við komnir heim úr norðurferðinni, sem gekk vel og miklu betur en ég hafði þorað að vona. Söngurinn tókst eftir ástæðum mjög sæmilega og ég held að fólkið hafi yfirleitt verið mjög ánægt með hann. Það vantaði að þrótt í allan sönginnm, en hann var hreinn og misfellulítill og svo slepptum við þá bara helstu kraftlögunum og tókum önnur mýkri í staðinn. Ég er feginn að þessu er lokið og tel okkur mega allvel við una útkomuna.

Heimir tók rausnarlega á móti okkur og áttum við góða stund saman áður en samkoman hófst.

Það er ávallt gott að eiga vinum að mæta á leið sinni og þarna var okkur opnum örmum svo sem við værum langþráðir gestir.

Samkoman var allvel sótt, þótt oft sé fleira fólk samankomið á þessum stað. Nú var hávetur, kuldatíð og vegir víða illfærir vegna ófærðar. Fjárhagslega bar þessi söngför sig ágætlega og betur en nokkur önnur, sem við höfum farið um langt skeið.

29. mars Í morgun kl. tæplega sjö rumskaði Hekla gamla eftir að hafa sofið þyrnirósarsvefni í heila öld.

28. maí Ég var stundarkorn úti seinni partinn í dag að hjálpa bræðrunum við að moka upp í jeppakerruna, en þeir voru að bera í flagið hér fyrir sunnan. Við urðum að hætta áður en verkinu var að fullu lokið vegna þess hve mikið rigndi undir kvöldið, en þá hætti bíllinn að geta unnið í lausri moldinni.

Þótt það sé svo, að ég hálfkvíði jafnan fyrir að fara út til einhverrar vinnu sem ég er að meira eða minna leyti ófær um og gagnslítill við, þá er ég alltaf hressari þegar ég kem inn aftur og set mig niður við mitt tilbreytingarlitla starf. Í dag var það angan túnmoldarinnar, sem örlitla stund flutti mig út úr kyrrstæðu tilbreytingarleysi daganna, mörg ár aftur í tímann, til löngu liðinna stunda minnar fyrstu bernsku, þegar jörðin var enn græn og himinninn blár. Svo er nú aftur komið kvöld og öll tilveran grá og litlaus sem áður.

29. maí ....

Í dag er mikill flutningsdagur hér í sveitinni. Eyvindarstaðafólkið flutti í dag að Holti á Ásum og fóru 3 bílar, einn með nautgripi, alls 11, einn með dauða muni og einn með fólk.

Torfustaðafólkið flytur að Eyvindarstöðum í kvöld eða fyrramálið, en 2 bílar hafa í dag komið með flutning þaðan og farið með hann að Austurhlíð. Nýja fólkið að Torfustöðum er enn ókomið, en kemur næstu daga og hefur þegar flutt nokkuð af búslóð vestur.

1. júní Trinitatis. Sjötta sumarhelgin. Messað var í Bólstaðarhlíð og var fámennt við kirkjuna. Safnaðarfundur var að lokinni messu og var þar ákveðið að kaupa nýtt orgel í kirkjuna og hefjast handa um að koma upp varanlegri girðingu um kirkjugarðinn.

6. júní Í dag byrjuðum við að stinga grasrótina ofan af húsgrunninum í Ytrakoti, en við það vorum við þó aðeins tvo tíma, þar sem fara varð í vegagerð seinni partinn. Grasrótina setjum við í vegarafleggjara heim að húsinu en það er um 100 metra leið gegnum túnið og auk þess nokkrir tugir metra vestan við tún.

8. júní Sunnudagur, 7. í sumri. Almennur sveitarfundur var haldinn að Bólstaðarhlíð í gær og var allvel sóttur ..

Í dag er verið að gróðursetja um 400 plöntur á Botnastaðamó, í skógræktarbletti sem þar hefur verið undirbúinn og girtur nú nýlega. Vinnan þarna í dag er eingöngu þegnskylduvinna og mun svo framvegis verða að vera ef þessum bletti verður nægur sómi sýndur.

15. okt. Það var ömurlegt að sjá á eftir ánum í morgun þegar lagt var af stað með þær til Blönduóss. Varla mun nokkur sá, er kindur hefur átt, að hann taki ekki sárt að reka til slátrunar allar ærnar sínar, en um það má nú ekki fást. Auðir og tómlegir verða hagarnir, þegar þar sést hvergi kind og fjárhúsin verða þá ekki síður eyðileg, galtóm og köld. En maður lifir í voninni um að þetta ástand vari ekki lengi, aftur komi kindur í hagana og húsin fyllist á ný.

16. okt. Að kvöldi þessa dags, fimmtudagsins 16. október 1947 á ég enga kind.

10. nóv. Í dag er norðaustanstormur með fjúkslitringi og kulda. Í kvöld er allmikið farið að frjósa. Maður ber sig illa þegar kólnar, en tíðin hefur verið svo góð að undanförnu.

Það finnur maður æ betur, er veturinn leggst yfir, að hann, þessi vetur, verður engum öðrum líkur. Kindalaus vetur hefur til þessa aðeins verið hugtak, að vísu óhugnanlegt og ömurlegt, en þó aðeins svipur veruleikans.

Það hefur oftar en einu sinni borið við, að ég, um miðja nótt, hef hrokkið upp með andfælum með þá ísköldu staðreynd á tilfinningunni, að kindurnar mínar, sami stofninn, sem ég hef átt frá því ég fór að eiga kindur, eru horfnar og ég sé þær aldrei aftur. Það fer hrollur um mig við þessa tilhugsun, en þetta jafnar sig furðufljótt, þegar ég er glaðvaknaður. Þannig getur millibilsástand milli svefns og vöku leitt í ljós tilfinningar, sem annars eru lagðar til hliðar og hafa ekki hátt um sig.

27. des. Mig dreymdi hvítar kindur í nótt, lagðsíðar, bústnar kindur, sem verið var að taka í hús á haustdegi. Ég held að þær hafi verið 25 og sjö þeirra komust aldrei inn, en stukku til fjalls. Gunnar gamli mundi eflaust hafa ráðið þennan draum eitthvað fyrir tíðinni, en ég held að hann hafi enga slíka merkingu. Þetta er aðeins draumur um það sem var og kemur ef til vill aldrei aftur.

1948

6. febr. Í dag fórum við allir piltarnir fjórir að jarðarför á Svínavatni. Þar var verið að jarða Önnu Jónsdóttur frá Ásum og hafði karlakórinn verið beðinn að syngja. Að þessu sinni slepptum við þeim við að fara, sem lengst áttu að sækja og fórum aðeins tíu, tveir og þrír í rödd, en Steingrímur á Svínavatni spilaði á orgelið. Eftir atvikum tókst söngurinn sæmilega, en við gátum ekki komið við neinni æfingu fyrir hann.

Við Blöndælingarnir löbbuðum vestur á veginn og fórum svo í jeppann hja´Pétri á Höllustöðum en Svartdælingarnir fóru ríðandi alla leið og svo séra Gunnar, sem jarðsöngm vegna fjarveru séra Björns.

Annar í hvítasunnu:

Ferming í Bólstaðarhlíð. Fermdir voru þrír drengir: Bjarni Guðmundsson, Botnastöðum, Pétur Sigurðsson Skeggsstöðum og Stefán Gunnarsson, Æsustöðum. Um 70 manns var við kirkju, þar af allmargt utan sveitar. Veðrið í dag var mjög gott, þó var nokkur svali í golunni. Aðstandendur fermingardrengjanna höfðu tekið sig saman um félagslegar veitingar í samkomuhúsinu og drukku þar allir kirkjugestir. Við fórum fimm héðan til fermingarinnar, pabbi, Sigga og við bræðurnir en þær nöfnurnar voru heima með litlu drengina. Við komum ekki heim fyrr en á sjöunda tímanum í kvöld.

20. maí Bjössi á Leifsstöðum verður hér í þrjá daga. Í dag var verið að setja niður kartöflur og er því langt komið. Mundi lauk við yfirbyggingu jeppans hans Inga í gærkveldi og vakti síðast við að mála hann til kl. 3 í nótt. Tvö undanfarin kvöld slóðadró Mundi með jeppanum það sem hægt var hér heima á túninu.

15. júní. Í dag fluttu þau í nýja húsið, Sigga og Nonni og Heiðmar litli. Þórarinn kom í nótt og ætlar nú ætlar nú að taka til við miðstöðvarlagninguna.

4. nóv Holtshjónin komu í dag með Stellu litlu og ætla að verða hér nokkra daga. Zóphónías kom með þau og fluttu þau kvígu á bílnum, sem þau gáfu Siggu, en í dag er afmælisdagurinn hennar.

7. nóv. Afmælismessan í Bólstaðarhlíðarkirkju fór fram í dag og var milli 50 og 60 manns við kirkju, en það er fleira en nokkurn tíma á sér stað, að undanteknum fermingarmessum.

Sóknarpresturinn og prófasturinn fluttu báðir prédikun og var löng messa og mikið sungið því skírður var litli drengurinn í Bólstaðarhlíð, hlaut nafnið Kolbeinn. Að lokinni guðsþjónustunni bauð sóknarnefndin öllum kirkjugestum til sameiginlegrar kaffidrykkju heima í samkomuhúsinu, en að því loknu var aftur gengið í kirkju og þar fluttar sex ræður, en sálmar sungnir á milli. Kirkjunni bárust gjafir og heillaóskir í tilefni dagsins. Öll var samkoma þessi hin hátíðlegasta og hafði á sér sérstæðan blæ.


Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478532
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:21:12