14.11.2008 14:00

1925

Sr. Gunnar Árnason Æsustöðum

segir frá högum sínum að loknu guðfræðiprófi:

"Ég kom heim í september. Pyngjan var tóm. Slíku var ég vanur og lét hverjum degi nægja sína þjáningu. Þetta voru líkir tíma og Káinn kvað um:

                             Það var á yngri árum

                             þá engin sorg var til;

                             og flestir áttu ekkert

                             og allt gekk þeim í vil.

Ég var laus og liðugur og treysti því að fá eitthvað að gera. Kaus helst að komast strax út í prestsskapinn. .. Nú vissi ég ekki til að neitt brauð stæði autt. Þá hringdi Jón biskup Helgason til mín eitt kvöldið. Hann sagði að eitt brauð lægi á lausu. Það voru Bergsstaðir í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Því var þjónað frá Auðkúlu og hafði enginn sótt um það síðastliðinn fimm ár. Síðar komst ég að raun um að um hundrað ára skeið hafði enginn verið þar lengir en í tóiu ár og mudnu elstu bændur ellefu presta, áður en ég kom til sögunnar.

Í þann tíð var Svartá með öllu óbrúuð og einnig Blanda þar fremra svo að það var bundið allmiklum annmörkum og erfiði að þjóna brauðinu frá Auðkúlu og sannast sagna sagt lítið upp úr því að hafa. Auðkúluprestur vildi gjarnan losna við það. Hinsvegar fullyrti biskup að sóknarmenn hefðu jafnan reynst prestum sínum vel og kysu að fá sér prest sem fyrst.

Í þann tíð var Svartá með öllu óbrúuð og einnig Blanda þar fremra, svo að það var bundið allmiklum annmörkum og erfiði að þjóna brauðinu frá Auðkúlu og sannast sagt lítið upp úr því að hafa. Auðkúluprestur vildi gjarnan losna við það. Hins vegar fullyrti biskup, að sóknarmenn hefðu jafnan reynst prestum sínum vel og kysu að fá sér prest sem fyrst.

Prestsetrið sagði biskup að væri fast í ábúð til næstu fardaga, en bóndanum mundi skylt að ljá mér húsaskjól, og gæti varla verið agnúi á því. Annars yrði ég að ráða fram úr þeim málum sjálfur. Ég fengi aðeins launin til að byrja með. En þau voru þá rúmar tvö þúsund krónur á ári.

Ég hafði aðeins farið einu sinni ríðandi eftir Langadal. Var á suðurleið úr kaupavinnu á Reynisstað, sumarið sem ég varð stúdent. Framdalina vissi ég ekkert um, né þekkti ég nokkra manneskju á þessum slóðum. En ég vissi að Ásmundur Gíslason, móðurbróðir minn, hafði vígst að Bergsstöðum og unað þar vel, en kona kona hans síður. Ég sló til. - Til voru þeir, sem töldu það fljótræði og sjálfsskaparvíti - vísa forpokun.

Nú varð að fara á stúfana til að afla sér hempunnar. Til þess þurfti ég lán. Ekki um annað að ræða. Góðvinur minn hætti á, eftir nokkra umhugsun, að skrifa upp á 75 króna víxil. Og mikið létti mér, þegar ég síðar gat borgað hann á gjalddaga.

 Vígslan fór fram 18. október 1925. Vígsluvottar voru síra Bjarni Jónsson og síra Friðrik á Útskálum. Við höfðum ráðgert það á kirkjuþinginu í Stokkhólmi, að svo yrði, þegar til þess kæmi, fyrr eða síðar.

Stundum hefur mér dottið í hug, hvort Jóni biskupi Helgasyni, sem var allra manna nákvæmastur embættismaður, muni nokkru sinni hafa orðið á í messunni nema þegar hann vígði mig. Það kom nefnilega upp, einum eða tveimur mánuðum síðar, að honum hafði láðst að láta mig kaupa leyfisbréf, því að ég var aðeins röskra 24 ára að aldri, en ekki fullra 25, eins og lögin heimtuðu. Auðvitað var mér ekki sleppt við gjaldið.

Ekki var um annað að ræða en fara norður með strandferðaskipi fyrst í nóvember. Sú ferð er mér minnisstæð, því ég er allra manna sjóveikastur og við hrepptum fádæma óveður. Urðum t. d. að liggja hálfan eða heilan sólarhring inni á Reykjarfirði á Ströndum sakir veðurofsa og ósjóa.
En til Blönduóss komumst við 9. nóv., skömmu eftir hádegi. Þá var komin vörubifreið á Blönduós og bílgengt fram Langadal að Auðólfsstöðum, næsta bæ fyrir utan Æsustaði. Kunnugt var um komu mína og hafði verið séð fyrir því, að ég yrði fluttur með farangri mínum upp að Holtastöðum. Búslóðin var ekki fyrirferðarmikil: Tvær ferðatöskur og tveir þrír bókakassar, eftir því sem ég man best. Raunar var ég mest og best búinn að skjólklæðnaði. Það kom til af því að vinur minn Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, hafði sagt mér, að hann hefði byrjað sinn starfsferil sem eftirlitsmaður á Fjöllum og skilið, að skjólbúningur væri hverjum íslenskum ferðamanni lífsnauðsynlegur að vetrarlagi. Sú skoðun var rétt.

Þegar hér var komið sögu, bjuggu þau Jónatan J. Líndal og Guðríður Sigurðardóttir Líndal frá Lækjarmóti á Holtastöðum. Bæði voru gagnmerk og vel menntuð. Búið stórt og íbúðarhúsið úr steinsteypu, mikið og vandað, aðeins um tíu ára gamalt. Kirkjan var eign þeirra og Guðríður bæði í sóknarnefnd og organistinn.

Mér var hlýlega tekið af þeim hjónum og leist strax vel á mig þarna. Ég fræddist óðara um að Holtastaðsókn var yzt af þrem sóknum í prestakallinu. En það náði frá Breiðavaði, sem er út undir Blönduósi, fram á fremstu bæi í Blöndudal og Svartárdal. Ennfremur tilheyrði því meginhluti Laxárdals, sem liggur að baki Langadalsfjalla og miklu hærra.

Væri farið frá Breiðavaði fram Langadal og Blöndudal, að Bollastöðum, síðan þar yfir hálsinn fram að Fossum innst í Svartárdal, þá út þann dal allan og upp Hreppa og loks sem leið lá um Laxárdal að Kirkjuskarði á ystu sóknarmörkum, var leiðin öll meira en 100 kílómetrar. Er þá sleppt öllum útúrkrókum, svo sem Skörðunum. Vatnshlíð á Vatnsskarði var austasti bærinn. Þetta töldust miklar vegalengdir, meðan enn var aðeins ferðast fótgangandi eða á hestum. Og húsvitjanir, sem þá þóttu skyldar, óneitanlega nokkuð tímafrekar.

Þegar þarna um kvöldið heyrði ég á Holtastaðahjónum, að það kynni ef til vill að verða hængur á því að ég fengi dvalarstað um veturinn til að byrja með. Ég kom söfnuðinum nokkuð á óvart og víða var lítið um húsrými. Aðeins fjögur steinhús voru í prestakallinu, en flestir torfbæir með litla upphitun, nema í baðstofunum. Það varð samt að ráði, að Jónatan skyldi ríða með mér næsta dag fram dalina og við freista þess að koma mér fyrir.

Það var stillt og fagurt veður, snjólaus jörð og friðsælt, er við Jónatan héldum fram Langadal og inn Svartárdal. Við komum við á tveim, þrem stöðum, var vel tekið en ekki léð máls á því að ég fengi þar inni. Í tunglsljósi og stjörnubirtu kvöddum við dyra á Bergsstöðum. Þar var okkur vísað inn í gamla timburstofu. Það var eina vistarveran, sem til mála gat komið, að ég fengi þarna á prestsetrinu. En enginn var ofninn og óvíst, að unnt væri að útvega hann eða koma honum fyrir. Fólkið vantaði ekki viljann, heldur ráðin.

Við gistum á Barkarstöðum, handan Svartár, um nóttina. Morguninn eftir fylgdi bóndinn, Sigurður Þorkelsson, okkur úr hlaði. Hann var alkunnur hestamaður og manna skemmtilegastur. Átti ég honum og Sigurjóni Jóhannssyni í Blöndudalshólum marga fylgdina að þakka síðar. Og að vísu fleirum, þótt þeir séu her´ekki nefndir. Sigurður bauðst til að lána mér jarpan hesta til ferðalaga þennan vetur og þáði ég það með þökkum. Ég kallaði hestinn Börk eftir bænum og kvað um hann þessa vísu áður en við skildum:

                   Berki eflaust bregða má

                   um bresti af ýmsu tagi

                   en við höfum orðið vinir á

                   vondu ferðalagi.

Enn er lánið ógreitt að öðru leyti.

Þegar við Jónatan vorum komnir heim að Holtastöðum, eftir að hafa farið bónleiðir til búðar, var sest að nýju á rökstóla til að ræða um, hvar í ósköpunum ætti að hola mér niður. Kvað ég þá upp úr með það, að þau hjón yrðu að sitja með mig, ekki væri neitt annað ræða. Á það var fallist.

Þar var ég til heimilis í hálft þriðja ár og naut þar hins besta aðbúnaðar og atlætis. Og batzt þar órjúfandi vináttuböndum. Þar var mikið menningarheimili og mörgu góðu að kynnast. Ég nefni það eitt, að þar var þá próventumaður roskinn, Páll Jónsson. Einstakur maður og einfari, sem Jón rithöfundur Helgason hefur reist verðugan bautastein með bók sinni: Orð skulu standa.

Ég gerði því sannast sagt ekki skóna í upphafi að ég yrði lengi í Bergsstaðaprestakalli. Hugsaði að ég hlyti að geta fengið "annað og betra" eftir fáein ár. Ég var uppalinn á hlunnindaprestssetrum og hefði ekki slegið hendi móti slíkum, ef í boði hefðu verið, því að ég var staðráðinn í að búa. Langaði til þess og þreifaði líka áþreifanlega á því, að það var brátt áfram lífsnauðsyn. Þegar ég hafði greitt vist mína mánaðarlega á Holtastöðum, voru aðeins fáar krónur eftir af þeim launum, sem lögð voru í lófa minn. Aukatekjur voru varla teljandi. Þær bar næsta sjaldan á fjörur, svo heitið gæti, voru ákaflega lágt virtar og sumar kom ekki til mála að þiggja.

Þótt ég ætlaði ekki verða þarna jarðfastur, vildi ég fúslega að brauðið gengi betur út næst, þegar það losnaði. Ég hugsaði um, hvað hefði fælt menn frá því. Ekki var það fólkið, það gat mér ekki dulist. Veðursæld var þarna einstök, svo að hún á áreiðanlega aðeins örfáarhliðstæður á landinu. Prestssetrið að Bergsstöðum var með betri jörðum í dölunum þótt því yrði ekki jafnað við mestu stórbýlin í Langadal.

Svo stóð á, að fram yfir miðbik síðustu aldar var þarna um tvö prestaköll að ræða: Blöndudals- og Bergsstaðaprestakall. Bólstaðarhlíð var þá eina útkirkjan frá Bergsstöðum, en Holtastaðir fylgdu Blöndudalshólum. Fyrst eftir að þeir síðarnefndu voru lagði niður sem prestssetur, féllu Holtastaðir undir Höskuldsstaði, en færðust síðar til Bergsstaða. Blöndudalshólakirkja var tekin af.

Fyrir þessar sakir var prestssetrið illa sett á Bergsstöðum. Það var á enda brauðsins að kalla. Eins og samgöngum var þá háttað, þurfti presturinn, ef hann sat þar framfrá, að fara af stað á laugardögum þriðju hverju helgi, er messa bar á Holtastöðum. Var það óneitanlega hvumleitt. Þetta olli því líka, að húvitjanir voru erfiðari. Miðdepillinn var í Bólstaðarhlíð, en þá kom engum til hugar, að þar gæti hugsast aðstæður til prestseturs. Aftur á móti komst ég á snoðir um að Gísli Pálmason, sem átti Æsustaði, kynni að vera fáanlegur til að láta þá í makaskiptum fyrir Bergsstaði. Þótt þeir síðarnefndu væru betri bújörð, var lega Æsustaði miklu ákjósanlegri. Það varð úr að Jón Magnússon, forsætis- og kirkjumálaráðherra, féllst á þessi skipti og talsverða milligjöf.

Vorið 1926 komu þeir einn góðan veðurdag prófasturinn séra Jón Pálsson á Höskuldsstöðum, Björn Árnason, hreppstjóri á Ytri-Ey, og Sigvaldi Björnsson, hreppsnefndarmaður á Skeggstöðum til að taka út Æsustaði í mína hendur. Þar var þá gamall torfbær, með nýlegu framhýsi úr timbri, sem var lekt og lítt vandað. Ein stofa, svefnherbergiskytra og eldhús, sem vart gátu rúmast nema tveir í. Fjósið var að hruni komið, fjóshlaðan aldargömul. Líku máli gegndi um hesthúsið. Nýtileg fjárhús voru syðst á túninu með ágætri og rúmgóðri rétt.

Tvístæð fjarhús efst í túni skáru sig úr. Þau hafði Pálmi Sigurðsson gert fyrir um áratug eða svo, og hlaðið þau og hlöðu við með slíkum snilldarbrag, að listaverk mátti kalla. Og voru þau líkleg til langs aldurs.

Ekki var um nokkurt álag að ræða.

Eigi má gleyma, að í garði sunnan við bæinn voru nokkrar vænlegar birkiplöntur, um mjaðmarháar, og tvær eða þrjár lerkiplöntur. Hafði Gísli Pálmason gróðursett þessar plöntur eftir að þau tré sem Sigurður bróðir hans plantaði, féllu eftir frostaveturinn 1917-1918. Var þetta vísir þess garðs sem konan mín kom þarna upp síðar. Fáein tré flutti Gísli þó með sér að Bergsstöðum.

Ég man ég hafði ekki nema koffort pg kassa handa úttektarmönnum til að sitja á. Og veitingarnar voru sannarlega af skornum skammti. En strax þetta sumar heyjaði ég á Æsustöðum handa hesti og nokkrum kindum. Fékk ég fjögur kúgildi frá Bergsstöðum, sem óneitanlega voru ærið misjöfn, eins og tíðkaðist fyrr og síðar.

Ég leigði hálfa jörðina þrjú fyrstu árin, en fluttist þangað alfarinn vorið 1928, er ég kvæntist Sigríði Stefánsdóttur, prests á Auðkúlu. En það varð mér mest til hamingju um dagana.

Æsustaðir voru hvorki hlunnindajörð né stórbýli. En þeir voru vel í sveit settir og lá þjóðvegur um hlaðið. Þar var frábær veðursæld. Heyskapur erfiður meðan fjallsslægur þurfti að nýta. Útræktarskilyrði lítil í þann tíð, en jarðsælt, einkum góð hrossaganga.

Þá fékkst ekki byggt upp á prestssetrunum, nema prestarnir legðu allmikið af mörkum. Þegar íbúðarhúsið var reist og síðar fjósið, varð ég t.d. að flytja að allt innlent efni, svo sem möl og sand, og einnig kosta alla flutninga á aðkeyptu efni frá Blönduósi.

En engu fékk ég ráðið um gerð íbúðarhússins. Var svo fyrir mælt, að það væri einlyft, og á teikningunni ekki gert neitt ráð fyrir geymslu. Nú stóð svo á, að mjög djúpt var að grafa fyrir grunninum og fannst mér og smiðnum þá einsýnt, að sjálfsagt væri að hafa kjallara undir a.m.k. hálfu húsinu og yrði þar kyndiklefi og geymsla. Þegar greftrinum var lokið, gerði ég þó þáverandi kirkjumálaráðherra grein fyrir þessu. Kom þá umboðsmaður hans á staðinn og heimtaði að mokað yrði ofan í tóftina og húsið fært þannig, að hún nýttist ekki. Bauð ég þá þótt eignalaus væri, að gjalda sjálfur aukakostnaðinn við kjallarann. Þjörkuðum við um þetta lengi dags. Loks varð ég að beygja mig.

Síðar varð þó að sjálfsögðu að byggja áfasta geymslu fremur óhentuga. Og það sem kaldhæðnislegast var, að brjóta þurfti upp eldhúsgólfið og gera þar smákjallaraholu fyrir miðstöðina. Auðvitað gluggalausa. Þess skal getið að sjálft húsið var reist 1930, þegar heimskreppan var sem mest.

Ég varð að kosta líku til þegar ég lét reisa fjós og hlöðu. Girðingar bæði um tún og engi urðu prestar einnig að gera að miklu leyti fyrir eigið fé. Þetta var lítils metið, þegar upp var staðið. Trjágarðurinn ekki talinn eyrisvirði, enda þess ekki krafist.

Ég hef ekki lýst þessu til að segja upphaf prestssögu minnar mér til lofs eða lasts. Það skiptir mig engu. En ég álít, að það geti verið til gagns og gamans, að þeir sem nú eru vart miðaldra, hvað þá meira, fái smámynd af því, hvernig lífskjörin, presta og annarra, voru í "hinum gamla heimi", sem kalla mætti tímann fyrir síðustu heimsstyrjöld. Og á ég þá auðvitað við Ísland.

Ég hygg að margir minna stéttarbræðra, mér jafnaldra eða eldri, hafi svipaða sögu að segja. Sumir, - sem komust á höfuðból og hlunnindajarðir - betri. Einhverjir ef til vill erfiðari.

Ég fer nú að slíta þennan þráð. Samt vil ég bæta ofurlitlu við, sem ég ekki vil dyljast og mér þykir minnisvert og benda í þá áttina, að "maðurinn upphugsar sinn veg, en Drottinn stýrir hans gangi.

Ég á ekki annars en góðs að minnast á Æsustöðum, bæði af hálfu Guðs og manna. Þrátt fyrir það fannst mér ég, að vissu leyti, hafa of þröngt verksvið, og væri betur kominn annars staðar, þar sem fleira kallaði að og sumar aðstæður væru með öðrum hætti.  Þess vegna hafði ég hug á því, einkum framan af, að skipta um og fannst með ólíkindum, að ég gæti ekki komist úr brauðinu eins og fyrirrennarar mínir mann fram af manni áður. Ég sótti því öðru hvoru um prestaköll, en fékk hvarvetna fá atkvæði. Þegar ég hafði verið fimmtán ár prestur, var svo komið, að ég hugsaði ekki lengur til að sækja um önnur sveitaprestaköll. Taldi ekki borga sig að fitja að nýju upp á búskap á mér ókunnri jörð í framandi umhverfi. Ég gat þá einnig sagt sjalfum mér þau sannindi, að hverfandi líkur voru á því að ég fengi nokkurt kaupstaðarbrauð. Og enn liðu árin eitt af öðru. Í aðra röndina fannst mér samt að þrátt fyrir allt ætti ég ekki að enda daga mína á Æsustöðum. Samtímis sagði skynsemin mér, að svo hlyti að verða, hvort sem mér líkaði betur eða verr, þegar upp væri staðið.

Sumarið 1950, þegar ég var að nálgast 25 ára prestsafmælið, bar dálítið undarlegt við á miðjum slætti, sem mér gleymist aldrei. Einn daginn varð mér það, sem sjaldgæft var, að leggjast út af um nónbil og steinsofna. Þá dreymdi mig að ég var staddur í svarta myrkri og heyrði einhvern segja, ósköp blátt áfram með ókenndri karlmannsrödd:"Nú eru tvö ár eftir!" Um leið hrökk ég upp af svefninum. Þegar ég hugleiddi þetta á eftir, fannst mér að vart léki vafi á, að eitt af tvennu mundi gerast: Ég ætti aðeins tvö ár eftir að lifa, og var það óneitanlega líklegra, en hitt: að ég færi í annað brauð að tveimur árum liðnum.

          Það var þó það, sem kom á daginn. Þá flutti ég til Kópavogs.
          . . .

Með árunum hefur það orðið reynd mín svo sem margra

annarra, að við hugsum smátt, sjáum skammt og vitum lítið. En við höfum þó hugmynd um óræðan stórfengleika, vitum að við erum umlukt af óendanlegum víðáttum og höfum fyrirheit um að verða leidd í allan sannleika.

          Þess vegna er lífið sjálft mest allra ævintýra".


Úr bókinni Hugurinn flýgur víða Rv - þættir sextán fyrrverandi sóknarpresta. Rv. 1972

Flettingar í dag: 179
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478614
Samtals gestir: 92248
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:57:10