03.11.2008 13:41

sr.GÁ : Sigurður Semingsson Hvammi

Gunnar Árnason prestur á Æsustöðum meitlaði marga snjalla mannlýsingu í minningarræður sínar. Ein þeirra var eftir hetju og bónda, Sigurður Semingsson í Hvammi 1867-1949:

Eins og alkunnugt er festast sumir hversdagslegir hlutir undarlega fast í minni manns - og fyrsti samfundurinn - getur orðið ógleymanlegur.

Þannig man ég það svo vel þegar ég fyrst kynntist Sigurði Semingssyni - og sá hugblær hefur aldrei glatast mér síðan.

Ég kom myrkt nóvemberkveld að Hvammi í Laxárdal í fyrsta skiptið. Mér fannst fremur sumarlegt úti enda held ég hafi verið byrjað að rigna. Ég kem utan dalinn í minni fyrstu húsvitjunarferð - hafði farið upp Kirkjuskarð og var að keppa í náttstað í Gautsdal. Ég vildi því ógjarnan tefja nokkuð og mun m.a. hafa haft mér til afsökunar að baðskistan(?) var þá í smíðum í Hvammi - og ekki ástæða til að ég kæmi þar inn að sinni. En ég baðst fylgdar bóndans niður að Gautsdal.

Og nú er sem ég enn sjái þetta - Sigurður Semingsson kemur einhvers staðar utan úr myrkrinu fram í ljósglætuna á hlaðinu. Hann er á skyrtunni og auðsjáanlega önnum kafinn - sér ekki út yfir það sem hann þarf að sýsla. En á sömu stundu er hann án nokkurra orðlenginga reiðubúinn til þess að leggja frá sér verkið og ganga með mér eins hann stendur til næsta bæjar.  Mér finnst hann rati blindandi veginn og hann svarar spurningum mínum á leiðinni hlýlega og alúðlega. En þegar hann kemur í hlaðið á Gautsdal er kvöð hans við mig lokið og hann má ekki vera að því að tefja og kasta mæðinni þó komið sé undir náttmál. Hann snýr tafarlaust við - til þess að taka aftur upp verkin heima.

Það var þá sem mynd Sigurðar Semingssonar vistaðist í huga mér. Mynd hins mikla eljumanns sem alltaf var að verki á skyrtunni frá rismálum til .....

Mynd mannsins sem aldrei viðurkenndi fyrir sjálfum sér að hann væri lúinn eða jafnvel fullbúinn með dagsverkið.

Mynd mannsins sem var nískastur á hvíldina.

........

Hann fæddist á Skinnastöðum á Ásum 21. janúar 1867, sonur hjónanna Semings Semingssonar og Kristínar Pétursdóttir. Haustið eftir drukknaði Semingur í Blöndu. Ólst nú Sigurður upp með móður sinni til sex ára aldurs sem mér er sagt að hafi verið valkvendi en heilsuveil. Eftir að heimili móður hans leystist upp var Sigurður á ýmsum stöðum  þar til hann var fullorðinn og mun þá, eins og tíðkaðist, jafnan hafa orðið að vinna eftir getu - en aðbúðin sennilega verið nokkuð misjöfn.

Þegar honum er vaxinn fiskur um hrygg var hann bæði í vinnumennsku og lausamennsku. Kemst hann þá hér fram í dalina og sagt er að þau systkinin Margrét og hann hafi jafnvel skamma hríð verið við bú í Ytra-Tungukoti - og móðir þeirra í skjóli þeirra. Annars var Sigurður m.a. við búnaðarvinnu á þessum árum og eitthvað fór hann suður til sjóróðra.

Mun hann snemma hafa þótt iðinn og trúvirkur og ekki þurft að kvíða vistleysi þó hann skipti um verustaði.

Liðlega hálfþrítugur kvæntist Sigurður Elísabetu Jónsdóttur bónda á Leifsstöðum Magnússonar á Fjalli á Skaga. Byrjuðu þau hjón búskap í Stóradalsseli vorið 1894. Fæddist þar fyrsta barna þeirra, Ingvar er dó 13 vikna. Næsta ár bjuggu þau á Steiná. Þar urðu þau fyrir þeim skaða að missa 2 hross lamin í Svartá seinni réttadaginn - og 20 ær í fönn í miklum stórhríðarbyl er þá gerði - En þetta mátti heita allur bústofninn - og aleigan. Árið eftir bjuggu þau á Brún, síðan 4 ár á Litla-Vatnsskarði.

Það gefur að skilja að fátæktin hefir verið fylgikona Sigurðar á þessum árum.

Hann á ekkert erfðafé og á þeim árum var seintekinn gróði í vinnumennskunni, kaupið oftast lítið annað en fæðið og fötin. Hann byrjar því að heita má með tvær hendur tómar og nær ekki fyrstu árin fótfestu á neinu býli en stendur í búferlaflutningum ár eftir ár.

En slíkt þótti litlu betra en húsbruni. Og svo kom ómegðin fljótlega til sögunnar.

Og þó var hann strax ríkur í vinnum skilningi og átti miklar sigurvonir.

Hjónaband hans var farsælt. Kunnugur maður hefur sagt mér, að hann hafi engan mann heyrt tala hlýlegar og þakklátar um konu sína en Sigurður Semingsson þegar hann leit til baka yfir sambúð þeirra og samlíf - eftir að hún var genginn inn fyrir tjaldið sem skilur leiksvið þessa lífs - og hins komandi.

Og það er mikill auður hins fátæka manns að eiga sér samboðinn og skilningsríkan vin sem er reiðubúinn til hjálpar í öllum hlutum og ævinlega - - og bregst aldrei í neinu.

Og Sigurður var að eðlisfari og eflaust að nokkru fyrir uppeldið ríkur af brennandi sjálfsbjargarhvöt og ódrepandi elju. Hann vildi komast af og vera upp á engan kominn og hafði næga skynsemd og líkamsþrek til þess að geta gert sér vonir um það.

Þótt hann fengi mikinn andbyr í fyrstu var hann staðráðinn í að berja að landi.

Og hann lét sig aldrei hrekja undan að markinu. Það sem þokaði var þó ...

Því verður varla neitað að hann vegna nauðsynjar og áhuga síns á að bjargast gerði harðar kröfur - einkum til sjálfs sín. Og í þrengd fyrstu áranna sérstaklega var hann að mér er sagt nokkuð harðbýll við búfé sitt. En hann náði landi.

Árið 1901 fluttust þau hjónin að Hvammi á Laxárdal. Og þar bjó Sigurður síðan í 26 ár en síðan var hann þar húsmaður hjá syni sínum hátt í áratug.

Og í Hvammi komu þau hjónin 9 börnum til manns - og þar var Sigurður virtur sem einn af sjálfstæðustu og traustustu bændum hreppsins.

Þar stóð hann föstum fótum - og var jafnan veitandi en ekki þurfandi.

Svo hafa kunnugir sagt að birgðirnar voru það sem auðkenndu bú Sigurðar í Hvammi þegar frá leið. Hann bjó í afskekkt og harðindum og hafði látið lærdóm liðinna kynslóða verið sér að kenningu.

...............
Vísast ætlaðist hann ekki til neinna launa af hendi mannanna - en aðeins miskunnar Drottins.

Hitt er víst að skyldir og óskyldir - börn og sveitungar - öll getum við vottað honum hér virðingu okkar því hann gróf ekki und sitt í jörðu - og átti sér mikla hetjusögu ...

Daglaunamaðurinn bíður eftir kaupi að kveldi, íslenski bóndinn bóndinn alheimtir ei daglaun að kveldi að vísu - en hann sáir alltaf í von. Hann leggur starf sitt á vöxtu í banka moldarinnar og í sjóð niðja sinna - og uppskeran bregst aldrei að fullu og getur jafnvel orðið hundraðföld.

. . .

Hann var heyfyrningamaður - og miðað við efni og aðstæður lagði hann að sínu leyti allt annað eins vel til heimilis.

Það var fátt sem nágrannana vanhagaði nauðsynlega um - að það væri ekki til í Hvammi.

Og til Sigurðar var jafnan gott að leita ef í nauðir rak. Það hefi ég fyrir satt.

Eitt er í frásögur fært um Sigurð Semingsson sem að varpar kastljósi á aðferð hans og áhuga. Hann var vefari og sat löngum í vefstólnum á vetrum - en á meðan kenndi hann börnum sínum lesturinn. Þannig féll honum ekki aðeins aldrei verk úr hendi - heldur hafði hann stundum tvö járn í eldi - og gætti beggja. Hann var iðjumaður mikill, frábær eljumaður.

Útigenginn Íslendingur

.... Sigurður stóð af sér lífsveðrin og þau stæltu þrek hans.

Honum auðnaðist að verða ágætlega sjálfbjarga og níu börnum komu þau til manns - og það orð fór af þeim systkinum að þau kynnu vel að vinna - og bjargast af eins og foreldrarnir..

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478532
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:21:12