23.08.2008 05:04

Rödd úr héraðinu

Bjarni Jónasson Blöndudalshólum: 

                                  Rödd úr héraðinu

Niðurlag þáttarins: Harðindin 1881-1887

 

Hinn 14. mars 1883 flytur Ísafold bréfkafla úr Húnavatnssýslu, sem ég tel rétt að taka hér upp orðréttan, en þar segir svo:

          "Lífsspursmálið er að reyna að halda bjargræðisstofninum lifandi, sem nú er ásettur, því slóri hann af í bærilegu standi, þó fátt sé, skríða menn fljótt upp aftur, ef árferði batnar. Afleiðingarnar verða þyngstar næsta ár, því sáralítið verður vörumagnið til að versla með. Það ætti nú að taka upp hallærissiðinn forna að lifa á landsins gæðum og nota þau sem best. Með þeim breytingum, sem þessir tímar hafa gefið upplýsingar um, að betur má fara í búnaðinum, tel ég fyrst: að stunda túnræktina af fremsta megni og brúka fylgi við heyskapinn, setja skynsamlega á hey, spara munaðarvörukaupin, þegar kaupeyrir minnkar, fækka óþarfa hrossum, sem oft steypa öðrum skepnum í harðindum, leggja stund á veiði í ám og vötnum, lækka kaup daglaunamanna fremur en vinnufólks, því vinnukraft þurfa bændur eftir efnum, ef búnaðurinn á að þrífast. Það væri nauðsynlegt, að ritað væri í blöðin bendingar um, hver ráð væru til að draga úr afleiðingum af hallærinu, því eigi dugar að lifa af gjöfum. Menn verða að reyna að bjarga sér sjálfir. (Leturbr.ritstj.) Hreppsnefndirnar og sýslunefndirnar ættu að brýna það sem þar að lýtur fyrir sveitar og héraðsbúum.

          Búnaðarfélögin geta miklu góðu komið til leiðar, þar sem þau hafa örugga og hyggna stjórnendur. Við ákvörðun þeirra má koma mörgu til leiðar til eflingar búnaði, svo sem alls kyns jarðarbótum, byrjun sláttutíma, góðri heyverkun, skynsamlegri ásetningu og hagtæringu (svo)  áburðar, ástundun veiðiskapar m. fl. og einkum má innræta mönnum dugnað og keppni hverjum við annan og reyna að verða sjálfbjarga, sem leiðir af því áminnsta."

          Það er ánægjulegt að heyra rödd eins og þessa, meðan enn er staðið í eldinum. Hér er ekki verið að víla. Kjarkurinn er óbilaður. Það verður bara að herða róðurinn til þess að geta verið betur undir það búinn að taka á móti næstu hrinu. Það er seiglan í Íslendings-eðlinu, sem hér segir til sín, seiglan, sem jafnan hefur dugað þjóðinni best á mörgum þrautastundum og gleytt henni yfir brim og boða.

          Auðvitað höfum við heyrt hér rödd eins af forystumönnum héraðsins. Kjarkurinn hefur að vonum ekki verið jafnóbilaður hjá öllum liðsmönnum. En hver er þá höfundur bréfkaflans? Nafns hans er ekki getið í Ísafold. Ritstjórinn kallar pistilinn: "Úr Svínadal í Húnavatnssýslu". Höfundarins er því að leita í Svínavatnshreppi. Þó að ritstjórinn segi, að bréfið sé úr Svínadal, tel ég, að eins megi leita höfundarins austan Svínavatns, því að í fjarlægðinni gerðu menn almennt ekki greinarmun á Svínavatnshreppi og Svínadal. Efni bréfsins og orðalag virðist mér allt benda til þess að Erlendur Pálmason í Tungunesi sé höfundurinn. Beri menn t. d. saman bréfið og reglurnar um ásetning, sem áður hefur verið getið, sést náinn skyldleiki, en ásetningsreglurnar voru að mestu verk Erlends í Tungunesi. En hvernig færi nú, ef við ættum von á samfelldum harðindakafla? Eru ekki vökumennirnir fáir um of? Troðningar og tóftarbrot bls. 214-216

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 478245
Samtals gestir: 92128
Tölur uppfærðar: 30.3.2020 07:14:17