29.06.2008 05:19

EGbréf 4. júlí 1933

Fyrra laugardag fórum við 10u hér úr sveitinni  fram í Stafnsfell til grasa, farið var héðan á stað rétt kl. 6 í niðaþoku og súld.

Það vorum við Steini, Tryggvi og Anna í Tungu, Sigga frá Skeggstöðum sem nú er í Hólum og Anna í Hólum, Alla í Koti, stúlka frá Æsustöðum og Siggi á Skeggstöðum og Halldór frá Stafni sem þekkti hvern stein og hverja þúfu.

Þegar við stigum af hestbaki skein sólin og þokuna fór að létta og grösin voru þurr með sama, mest bagaði það mig, að ég sá þau svo illa í þurrkinum, samt tíndi ég 10 pd. af vel þurrum grösum, sem er fullur ½tunnu mjölpoki. Steini hafði ½ kg meira, Halldór tíndi á við okkur öll.

Aldrei á ævi minni hefi ég séð dýrðlegra útsýni en var þarna fram frá; Hofsjökull, Eiríksjökull og Langjökull sáust í allri sinni tign og ég álít að tindinn á Baulu höfum við séð, ég þekki ekki betur eftir allri afstöðu en svo væri, að ég ekki tala um öll vötn sem til eru vestur um allar heiðar, út um allan Laxárdal út á Húnaflóa og um allt.

Þvílíkri dýrð gleymi ég aldrei og svo sólarlagið um kvöldið og svo var loftið dýrðlegt að það var með öllum regnbogans litum meðan við erum að komast niður í byggðina aftur. Kl. hérna var að ganga 6 á sunnudagsmorguninn þegar hingað var komið, get ég ekki annað sagt en ég væri orðinn svefnþurfi en svo þurfti ég ofan kl. að ganga 10u til að mjólka kýrnar og vekja Immu því allt steinsvaf, aldrei er hvíld að hafa stundinni lengur.

Þetta var uppástunga mín á kvenfélagsfundi í vetur, að kvenfélagið færi til grasa eða einn frá hverju heimili, sem kvenfélagskona væri á svo var ekki á þetta minnst fyrr en kvöldið áður, þá hringdi ég um allt svo allt heyrðist í gegn á augabragði og allt fólkið kom hingað og héðan var lagt upp. Tryggvi vakti okkur kl. 3½ sími, svo kom hitt. ...

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478591
Samtals gestir: 92247
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:25:06