26.06.2008 09:15

Úr dagbók Bjarna í Hólum frá 1942

25/7 Lau. Norðankul, þurrt veður. Í dag fór Karlakór Ból.  vestur í Dalasýslu og á að syngja þar á héraðsmóti U. M. S. D. Zóph. Zóphóníasson flutti kórinn. Sótti okkur í morgun kl. 7 að Bergsstöðum og kl. tæpl. 9 fórum við frá Svartárbrú.

Úr flokknum vantaði Þóri á Skeggsstöðum, veikur.Auk kórsins var Stefán á Gili með. Frá Blönduósi fórum við kl. rúmlega 10 ½ og ókum þaðan viðstöðulaust í Fornahvamm(þar kl. 1 ½) og drukkum þar kaffi(kr. 57 + 1,25 símtal). Þaðan ekið svo í Dalsmynni. Þar urðum við að bíða rúma klukkustund eftir Jónasi Tryggvasyni sem ætlaði að bætast þar í hópinn sunnan úr Reykjavík en þar hafði hann dvalið í nokkra daga. þegar við höfðum heimt Jónas var ferðinni haldið áfram upp frá Dalsmynni og um Bröttubrekku og í Dali með stuttri viðdvöl í Búðardal og ekki staðnæmst fyrr en á Staðarfelli en þangað komum við kl. tæpl. 8.

Hér verður nú gist í nótt hjá Halldóri Sigurðssyni og konu hans Margréti Gísladóttur  frá Bergsstöðum. Ferðalagið gekk vel að öðru leyti en því að Pétur á Brandsstöðum meiddi sig í fæti meðan við biðum í Dalsmynni, snerist undir honum annar fóturinn og var hann orðinn töluvert bólginn í kvöld.

Enginn okkar hafði fyrr komið vestur í Dali nema bílstjórinn.

26/7 Su. Sama veður. Karlakór söng við Sælingsdalslaug. Söngurinn tókst ágætl. Margt manna, íþróttakeppni, ræða og svo söngur kórsins og dans í lokin en þá urðum við að fara. Fórum af stað kl. rúmlega 9 um kvöldið og var þá ekið viðstöðulaust að Fornahvammi og þar hresstum við okkur á mjólk og smurðu brauði. Frá Fornahvammi kl. tæpl. 1 um nóttina og þá haldið hvíldarlaust heim.

27/7 Má. Sama veður Sló suðurhluta Húsavallar.

28/7 Þri. Suðvestan. Regnskúrir. lauk við að slá Húsavöllinn. Dró inn dál. af heyi neðan af Húsavelli en varð að hætta vegna úrfellis. Byrjaði að slá upp í jarða fyrir neðan húsið suður og upp.

29/7 Mi. Sunnan hvass. Þurrkað niður á Húsavelli og dró inn úr flötu. Læknir kom í vitjun til Nonna míns. Hann hefir undanfarið verið þungt haldinn af kvefpest og hefir nú fengið lungnabólgu og er mikið veikur.

30/7 Fi. Norðan, töluverð súld. Sló í morgun sléttuna upp við girðinguna. Dró inn töluvert í Hólhústóftina. Hreppsnefndarfundur í kvöld. Kosinn oddviti Hafsteinn Pétursson, ég varaoddviti og fjallskilastjóri Tryggvi Jónasson.

31/7 Fö. Norðan, stinningsgola, ágætisþurrkur. Sló í morgun sléttuna fyrir sunnan húsið suður og upp. Bjössi sló allan daginn upp í jaðrinum og lauk við hann. Túnið allt slegið. Við heyþurrk frá hádegi.3/10

Lau. Kyrrt veður en fremur kalt. Fór út að Æsustöðum í kvöld til viðtals við sr. Gunnar Árnason um skólahaldið næsta vetur. Skólanefndarfundur var á sunnud. var en ég gat ekki mætt þar.. Nú er helst í ráði að skólinn verði á 5 stöðum: Leifsstöðum, Eiríksstöðum, Vatnshlíð, Æsustöðum og í Blh.

4/10 Su. Sama veður. Smalað. Bólusett.

5/10 Má. Norðan kul. Fjúkslitringur. Stungið út úr Hólhúsinu. Hrútasýningar á Eiríksstöðum og Auðólfsstöðum.

6/10 Þri. Austan kul, snjógangur. Kýrnar nú fyrst ekkert látnar út og eru sennilega komnar á fulla gjöf. Hrútasýning hér í Blh. og á Brandsstöðum. Ég fékk I verðlaun fyrir Þak og III verðlaun fyrir Botna og Foss. Í dómnefnd auk Halldórs Pálssonar ráðunauts voru Guðm. á Eiríksst. og Guðm. í Brattahlíð. Girti kringum fúlgurnar niður frá og byrgði hlöðuna.

7/10 Mi. Í nótt er leið brann hesthúskofinn norðan fjóssins. Sérstök heppni að ekki varð meira tjóna að. Í gær var verið að svíða svið í kofanum allan daginn og var unnið þar töluvert fram á kvöld eftir að hætt var að svíða og var þá einkis elds vart. Í nótt kl. 3 vakti svo Guðm. á Guðlaugsstöðum mig upp. Hann var þá á leið út að Löngumýri til þess að breiða yfir sement sem hann fékk þangað fram eftir en á leiðinni út eftir sá hann loga út um strompinn á kofanum. Ekki tókst að slökkva eldinn nema með því að fella kofann. Viðir eru töluv. brunnir. ef Guðm. hefði ekki séð eldinn er sennilegt að eldurinn hefði verið kominn í fjósheyið þegar komið hefði verið á fætur í morgun.

Flettingar í dag: 179
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478614
Samtals gestir: 92248
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 20:57:10