25.06.2008 09:18

Dagbókarþættir J. T. 1960

 

Nýársdagur

Enn læt ég dagbókaþætti mína byrja nýtt ár, líklegast hið sautjánda í röðinni.

Ég var raunar ákveðinn í hætta þeim nú um áramótin og það held ég að réttast hefði verið. En svo fer það svo þegar á á að herða að ég kveinka mér við að henda frá mér þessum um meira en hálfan annan áratug sjálfsagði þætti í önn dagsins. Gildi þessara dagbókarþátta sem slíkra verður án ef aldrei metið hátt en þeir hafa þó  með einhverjum hætti öðlast sitt ákveðna inntak á stundaskrá míns annars tilbreytingarlitla vinnudags. Ég finn að kveldi, að það er enn einhvers vant með daginn, hafi ég ekki tekið dagbókablöðin og hripað þar nokkrar línur

          Oft verður mér að hugsa, þegar ég legg frá mér blöðin eftir að hafa skrifað þar nokkur orð, að það var aðeins vani eða jafnvel eins konar skylda sem réttlætti tilvist orðanna á pappírnum enda innihald þeirra löngum samkvæmt því. Og samt get ég ekki lagt niður þennan vana. Á fyrsta kveldi enn eins nýs árs sest ég við ritvélina með nýtt blað í henni.

          Ég hef enn framlengt jólaleyfið hjá sjálfum mér og frestað burtför fram yfir helgi. Það er nú einhvern veginn svona að setjist maður og hafi það náðugt, láti það eftir sér að sofa fram á morguninn og kannski líka að vaka á kvöldin, dálítið umfram venju, ja þá vill ganga treglega að rífa sig upp úr hóglífinu á ný. Endalaust getur þetta ekki gengið og nú held ég til vinnu minnar á mánudagsmorguninn.

          2. jan.

          Í dag tók ég í fyrsta sinn upp smáverkefni sem ég stakk niður hjá mér þegar ég fór í jólafríið. Þar með er ég aftur kominn í snertingu við hversdaginn og finn raunar að það er næsta gott. Nýtt ár er framundan. Það þarf að vera mér ár mikillar vinnu.

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478532
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:21:12