23.06.2008 13:15

2 EGbréf frá haustinu 1934

Elísabet á Gili kemur víða við í þessu bréfi sem hún fer að skrifa meðan hún bakar kökur til réttanna.

Sigurbjörg á Bergsstöðum er nýlátin og EG var mikill vinur þeirra Bergsstaðahjóna.

Bogga var 19 ára og stuttur botn bréfsins sem EG felur henni segir margt: Fyrst um annríki húsmóðurinnar, heilsufar og nýlegt dauðsfall í nágrenninu og síðast en ekki síst um góða samvinnu hjónanna og að Stefán sér um að stjórna ferð og flutningum fram í Stafnsrétt.

 Bréf 1

                                 Gili 12. sept. 1934

Elskulega systir mín!

            Þakka þér kærlega fyrir bréf snemma í sumar og allt og allt.

Það er meir en langt ég hefi sent þér línu elsku systir og er slíkt óafsakanlegt. Það hefir margt valdið því en þó mest þessi fádæma rigningartíð sem alltaf hefir svo mikil áhrif á mig.

Ég er hálfdauð þegar veðrið er vont, sísofandi og sinnulaus. Allt hefir líka verið á eftir tímanum vegna suðurferðarinnar og Bergsstaðaverunnar þar á eftir.

Ullin fór ekki fyrr en komið var langt fram á slátt og enn hefi ég ekki lokið við að taka ofan af í kembingu. Í gær var verið að binda fyrsta baggann af útheyi fyrir okkur Stefán, komust 70 hestar inn, mátti hætta kl. 8a, svo í dag var verið að binda fyrir Steina, mátti þá hætta þegar komnir voru 50 hestar, sprett af og farið heim, svo stytti upp, þá var byrjað aftur og verður haldið áfram meðan hægt er.

Þvílík vinnubrögð, þau kosta mikið, aldrei er frið að hafa, öll eru þessi hey meira og minna hrakin nema svo sem 30 hestar af há, sem verkaðist ágætlega og dálítið af töðunni, enn er óþurrkað talsvert  hjá okkur ljá sem situr á hvínandi for, viku gömul, alltaf er órakandi þó nóg sé kvenfólkið hjá mér að tölunni þá er það nú svona.

Gunna greyið er nú alltaf úti þegar Bogga er úti, þykir það svo gaman og hefir farið ótrúlega mikið fram, Jórunn er líka að reyna að raka og kemur, að ég held, til með það, pabbi hennar kom nýlega og ætlar nú að taka hana um réttir og hafa hana hjá mömmu sinni í haust á Smyrlabergi, þar eiga þær að vera tvær einar yfir sömu kvígunni og í vor, hún á þó ekki að bera fyrr en ½ mánuði eftir réttir svo vill hann nú endilega hafa hana hér í vetur.

Ég sagði honum mér þætti ekkert varið í að hafa hana svona lagað, að þau tækju hana þegar þeim dytti það í hug og svo gæti ég ekki haldið hana meðgjafarlaust, barn sem þyrfti slíka kennslu. Ef hann gæti gefið með henni í vetur sanngjarna meðgjöf og yrði í vandræðum, mætti hann þá láta hana koma aftur í þetta sinn, sagði ég honum síðast en hann bjóst við að móðir hennar vildi hafa hana hjá sér og láta hana svo á skóla en á skóla lærir hún ekki neitt, þá lendir allt í ljónagangi og kæruleysi.

            Guðm. átti að borga 40 kr. til kv.skólans á Bl.ós sem stóð eftir af meðgjöfinni með Boggu þangað en það er ógreitt enn.

            Frú Guðrún Lárusdóttir kom hingað í fyrradag, maður hennar og börn og fl. alls 8a, drakk hjá mér mjólk og kökur og fékk svo gulrófur í nestið sem er nú hæstmóðins að borða í bílum, 90 prósent bæti efni í þeim hráum en ekkert í þeim soðnum. Mér þótti gaman að sjá framan í hana, "hún er bráðgreind,"segir Jón í Stóradal en betra að fara ekki um of út í trúmál við hana. Mér þykir bara vænt um hana fyrir þessa viðkynningu í vor og ekki get ég skilið annað en ég hafi frekar gott af því en hitt að kynnast henni, minnsta kosti hvað Gunnu snertir.

            Hún þvær alltaf gólfin, leirtauið þvær hún upp þegar hún er inni og skilvinduna sem er nú ný, fékk hana í sumar frá Sig. Pálmasyni á Hvammstanga, það var nú eitt stríðið í vor að skilvindan var alveg ónýt, þó sá ekkert á henni, hætti bara að skilja, þvílíkt stríð og þvílíkur skaði.

            Ekki get ég álitið það sök frú Guðrúnar þó  Gísli sonur hennar sé nasisti, við ráðum lítið við það mæðurnar hvaða stefnu börnin okkar aðhyllast, það munt þú fá að sjá ef þú lifir og börnin komast upp. Ekki meira um það.

Imma fékk í dag bréf upp á það að hún fær inntöku í Ljósmæðraskólann  og þarf hún að vera komin fyrir 1. okt. n.k. Ég kvíði nú fyrir þessum blessuðum betri á margan hátt en það eru þó ljósin sem ég elska, sem verða mér til ánægju að ég vona. Við höfum beðið í allt sumar eftir Bjarna Runólfssyni að athuga túrbínuna og alla aðstöðu hér en hann er enn ókominn. Eldiviðurinn er enginn til vetrarins, allt situr inni í húsum, hefi engu brennt í sumar nema afraki og gömlum eldivið og til eru fjórir hlaðahraukar meira og minna blautir en kannski guð gefi það verði allt nóg.

Guðmundur litli í Hlíð liggur í máttleysisveikinni en er á batavegi, var viku á spítalanum á Bl.ós og mamma hans með honum, hafði miklar kvalir og mátti tappa af honum þvagið en enn getur hann ekki sest upp. Svo kom annað tilfelli fyrir á Botnastöðum, Hallgrímur sonur hjónanna liggur síðan fyrir helgi svo veikur að yfir honum má vaka nótt og dag og svo máttlaus er hann að hann getur ekki hreyft sinn minnsta fingur, í nótt var hann með óráði, mikil tvísýni á lífi hans. Þetta er hræðilegt ef þessi ósköp koma víða fyrir eftir allt annað stríð.

Skólaskoðun barna fór hér fram á föstud., var fjöldi eins og vant er af fólki, læknir kom hér líka stuttu áður við 6. mann þar á meðal læknishjóna vestan af Flateyri, Óskar og Guðrún Snæbjarnardóttir, systir Bjarna læknis og alþingism. Snæbjarnarsonar, kom hér bara heim til að fá sér kaffi sagði ég, var í læknisferð að Barkarstöðum til Engilráðar sem er mesti aumingi. Páll Kolka er sérstaklega alúðlegur og ég hygg góður læknir. Enginn hefir skoðað börnin jafnnákvæmlega og hann.

17. sunnudaginn fórum við Stefán norður að Mælifelli á prestafund í bíl með húnvetnskum prestum og prestskonum, komum að Nautabúi, Sig. bauð okkur öllum heim, er það í fyrsta sinni sem ég hefi komið þar á ævinni; hafði gaman af að sjá þennan stað sem ég er búinn að kynnast í gegnum aðra til fl. ára, það er mikið myndarheimili og gullfallegt úti, Skagafjörður sýndi sig þann dag í sinni mestu dýrð, hann var í sannleika "skrauti búinn" daginn þann.

Bogga er nýlega búin að fara norður, Oggi kom á bíl vestur og Bogga fór með honum á hestum, ég þorði ekki að láta hana fara á bíl til þess  hefði hann orðið að bíða í Hlíð og Sigurði á Nautabúi hefði þótt þótt vænt um það. Það er allt ákaflega gott - við Bogga þarna fyrir norðan og allt í besta lagi.

Samkomu héldum við 16. sunnudag, höfðum upp undir 100 kr. fríar sem við ætlum í minningarsjóðinn hennar Sigurbjargar, lögðum til brauð flestar okkar, höfðum undir 40 kr. fyrir það, þetta var mest utansveitarfólk sem kom, þvílíkt lán yfir okkur, útlitið var ekki gott, þurrkflæsa um daginn og margir í heyi en svo kom það að vestan yfir Blöndu, margt, utan úr öllum Langadal og fjöldi norðan úr Skagafirði.

Ég hefi þá trú að Sigurbjörg geti nú hjálpað mér mikið meira en á meðan hún var hérna megin. Bogga sagði að hún hefði alltaf verið að hjálpa okkar við kaffið, þarna var Helgi sonur séra Hálfdáns og var drukkinn. Bogga sagði að hún(Sigurbj) hefði einu sinni lagt hendina á öxlina á honum og eins og hún hefði sagt "ósköp áttu bágt" og eftir það leið honum betur svo að hann hafði orð á því hvað sér liði mikið betur við Boggu. Hér lýkur bréfi EG en Bogga tekur við:

                                                Elsku frænka mín! Þakka þér fyrir allt. Mamma hefur svo mikið að gera  að ég á að slá botninn í þetta bréf - hún er að baka til réttanna, - ætlar að selja kaffi þar - Hallgrímur litli á Botnastöðum dó úr lömunarveiki á fimmtudaginn var, er afarmikil sorg. Drengnum í Hlíð er að batna.

Þú skalt reyna að fá næsta hefti sem kemur út af Morgni, þar geturðu lesið um merkilegan mann.

Ég er að leggja af stað í göngur fyrir pabba því hann þarf að flytja kökurnar fram eftir.

Ég hlakka til réttanna ég er viss um það verður gaman. Það biðja allir afar vel að heilsa þér.

                        Vertu blessuð þín einl. Bogga

 

 Bréf 2

                                                   Gili 4. nóv. 1935

                                                               Elskulega systir mín!

Þakka þér fyrir ágætt bréf í haust og allt elskulegt ævinlega. Loks tek ég mér penna í hönd til að skrifa þér nokkrar línur, finnst nú kominn tími til þess, fyrst ég kom aldrei í verk að ljúka við síðasta bréfið til þín, mér fer alltaf smátt og smátt fram.

            Ég hefi haft mjög annríkt í haust og aldrei snert á penna síðan ég skrifaði þér bréfið síðasta sem Bogga lauk við. Ég fór fram í Stafnsrétt að selja kaffi í hundaveðri svo slíkt réttaveður man enginn.

            Tveir klyfjaðir hestar voru undir tjöldum, kaffi, sykri og alls konar áhöldum og þó máttum við fá lánað stórt borð og bekki í Stafni. Ekki var hlýlegt að tjalda ofan á snjó og drullu og fyrst var að moka undan tjöldunum í stórhríðinni á miðvikudag.

7 bollar voru keyptir þá af kaffi því menn komu ekki að réttinni fyrir því að yfir fénu þurfti að standa og ekki hægt að koma því að réttinni fyrr en um miðjan dag á fimmtudag. Ekki var glæsilegt útlitið með kaffisöluna en margan bollann gaf ég daginn þann.

Á fimmtudagsnóttina vorum við 7 í tjaldinu. Við Stefán, Bogga, sem var í hálsagöngum og Steini sem kom úr göngum, Sigfús og tveir aðrir Skagfirðingar. Hríðin var svo mikil að allt nötraði og skalf, voru þó tjöldin í dilkshorni í góðu skjóli.

Þessa nótt dreymdi mig að Sigurður á Nautabúi var kominn í tjaldið til okkar, þegar ég vaknaði sagði ég Boggu drauminn og að nú væri mér óhætt, allt myndi ganga vel úr þessu, enda varð sú raunin á.

Ég seldi frá því um miðjan dag á fimmtudag og þangað til á laugardagsnótt allt sem ég hafði til, voru eftir 10u eða 12 kökur, ekkert kaffi (og sykur mátti ég fá að láni). Seldi bollann á 75 aura, hafði 6 væn stykki með: tertu, marmaraköku, jólaköku, vanilluhring, vínarbrauð og pönnuköku, hafði þetta veislubrauð að gæðum. 128 kr. hafði ég heim með mér en átti útistandandi fyrir milli 20 og 30 bolla hjá Hlíðhreppingum, hefi fengið 5 kr. af því síðan, fæ líklega seint sumt af því.

Sigfús keypti  mest af öllum, jós því á báða bekki, hann er ekki húski og þar fyrir utan lét hann peninga til ýmissa sem ekki gátu borgað kaffið öðru vísi en fá það til láns. Ég hafði gaman af að njósna og komst að þessu, þeir voru alltaf að fá lán hjá honum.

Hestana sína hafði hann í húsi og heyi út í Stafni, krökkunum þar sem eru 4ur gaf hann síðan 2 kr. hverju af því Sigvaldi vildi ekki taka neitt fyrir þá. Það er gaman að hafa ráð á aurum fyrir þá sem gera öðrum gott af þeim.

Á föstud. lét Sigfús út féð úr dilknum sínum og stóð yfir því þegar aðrir létu það standa hungrað inni. Ég sannfærðist þá sem fyrr að það væri rétt  sem pabbi sagði mér forðum að Sigfús væri mikill búmaður. Efnið í þetta sem ég seldi kostaði milli 40 og 50 kr. svo ég hafði ekki neinn skaða af þessu; fyrir utan það að ég hafði svo mikla skemmtun af þessu að ég bý lengi að því, þetta var endalaus söngur og kvæðaskapur í tjöldunum hjá mér og það svo vel sungið og kveðið að slíkt hefi ég ekki heyrt í réttum. Það er svo undarlega rómantískt að vera þarna fram frá um réttirnar.

Ég var ofurþreytt eftir þetta úthald allt þegar ég kom heim svo ég bjóst eins vel við því að leggjast, var svo slæm í bakinu af gigt sem þjáði mig mikið seinni partinn í sumar en þá kom mér óvænt hjálp; Jóhann frá Skarði, þessi einkennilegi læknir kom hér, var þá á Skeggsst. að lækna barnið hennar Stínu sem var fárveikt en fékk svo góðan bata að það hefir ekki verið frískt fyrr á ævinni að heitið geti.

Ég sagði við hann að ég væri viss um að hann gæti læknað mig þó ég fengi ekki nema einu sinni straum frá honum. Þegar ég gekk frá honum syfjaði mig svo mikið, að ég lagði mig út af og meðan ég svaf var mig alltaf að dreyma Jóa, að hann var að eiga við bakið á mér, vaknaði ég ekki fyrr en systurnar vöktu mig til þess að fara yfir að Skeggsstöðum til að fá straum frá Jóa, var ég þá eins og önnur manneskja þegar ég reis upp, svo gaf hann mér strauminn þannig að hann hélt höndunum á bakinu á mér ½ tíma, var það eins og heitur bakstur væri við mig lagður. Þegar ég kom svo heim um kvöldið var ég eins og önnur manneskja  og hefi ekki fundið til á þessum bletti síðan en gigtin hefir í haust flögrað um allan minn líkama útvortis og innvortis en aldrei hefi ég fundið til þarna, stafar það bara af þreytu en nú líður mér vel af því ég er búin að hvíla mig dálítið. 

Nú er ég að missa Boggu, fer eftir nokkra daga til Sauðárkróks, þaðan til Siglufjarðar til þess að ná í Goðafoss sem fer þaðan 16. þ.m. til Rv. Imma kom henni fyrir hjá einhverri skipstjórafrú, ætlar að þjóna henni til nýárs, en læra að sauma eftir þann tíma en vinna fyrir fæði hjá henni.

Ekki fæ ég því með orðum lýst hvað hrædd ég verð nú um hana meðan hún er að komast þetta og svo hvað ég kvíði auðninni sem sem verður hér heima í vetur að hafa hvoruga þeirra heima fyrir utan það að þó ég yrði ekki lasin nema einn, tvo daga svo að ég gæti ekki matreitt eða mjólkað þá er allt stopp á heimilinu en kannski guð gefi að það komi ekki til.

Mig dreymdi fyrir tæpum tveimur árum að ég var á gangi niður á Blönduósi og varð þá vör við það að ég var búin að missa báða fæturna en ég fann ekkert til og stóð samt eins og áður. Ég hefi oft hugsað um þennan draum en ég held að hann sé nú að koma fram þegar ég hefi misst báðar telpurnar frá mér.

Í fyrravetur dreymdi mig að ég átti fallega skó sem hún Sigurbjörg á Bergsstöðum átti og ég mundi svo vel eftir og þeir fóru mér svo vel, ég hugsaði að ég myndi fá þessa sömu veiki og hún en þegar þetta kom til með Immu í vor sá ég að það hefði verið fyrir því að hún tæki við starfinu af henni enda sagðist Imma vita að hún hjálpaði sér með þetta, Gísli lánaði henni ljósmóðurfræðina sem kostar 15 kr. svo hún þyrfti ekki að kaupa hana en Bogga lánaði Grétu sínar skólabækur til að lesa á kvennaskólanum í staðinn, hún er þar í vetur blessað barnið, 18 ára stúlka er á Bergsstöðum í vetur, frænka Sigurbjargar, var þar í sumar líka, sú gæti ég hugsað að ætti erindi þangað eftir því sem ég hefi nú komist á snoðir um.

Mikið kveið ég nú fyrir öllu sem fyrir mér lá þegar ég kom heim úr réttaferðinni, óþveginn stórþvottur, ótekið upp úr görðunum, ófluttur inn eldiviðurinn og sem sagt allt óundirbúið fyrir sláturstíðina sem byrjaði þrem dögum eftir að ég kom heim en þá bættist eitt við sem ótalið er, að Ingibjörg frænka okkar á Botnastöðum kemur hingað daginn eftir að biðja mig að hjálpa sér að baka til jarðarfarar einkasonar síns sem dó þá stuttu áður úr lömunarveikinni. Ég bað guð að hjálpa mér, ég sá mér engan veg til að geta þetta en ekki gat ég neitað henni fremur en öðrum í þeim kringumstæðum og ég var útfrá í tvo dagparta.

Seinni daginn komu slátrin heim 40, en nú var það ekkert. Svo kom jarðarfarardagurinn eftir tvo daga og þá mátti ég yfirgefa allt slátrið og þann sama morgun fór Imma mín suður svo allt hjálpaðist að fyrir mér með óþægindin.

Við vorum öll héðan við jarðarförina. Þegar heim kom voru gestir komnir og næturgestir nóttina eftir og hverja nótt eftir það alla sláturstíðina út í gegn og oftar 2 á nóttu en 1. Aldrei hefir slíkt verið hér fyrr en til þess lágu ýmsar orsakir, fólkið vitlaust í hræðslu við veikina í Hlíð og á Botnastöðum og enginn þorði að gista á þeim bæjum og svo hefir nú ekki gist margt á Fjósum síðan Ingibjörg fór þaðan.

Þegar þetta er nú allt úti, sláturstíðin og þau störf sem haustinu fylgja, komu hríðar og frost, 16 gráður í gærmorgun á celsíus en 18 í fyrramorgun og þá hefir maður ætlað að drepast úr kulda, eldiviðurinn er svo hitalaus að ómögulegt er að hafa nokkurn hita af honum en þó er lakast að hann er svo lítill að hann verður búinn á miðjum vetri.

Svo er nú enn eftir að lóga kú, kálfi og einhverju af kindum svo þá eyðist nú mikið af þessum kögglum en vel má vera að guð leggi mér eitthvað til í þessu sem öðru. Ég sagði það í vor þegar skepnurnar voru að drepast að eitthvað myndi leggjast til og sú raun varð á. Þessi styrkur upp í rafstöðina, kr. 400 borguðu í þetta sinn vexti og afborgun af rafstöðvarláninu og eitthvað meira kaffipeningarnir ennfremur. Svo á ég nú von á 240 kr. að sunnan upp í meðgjöfina með Gunnu, helmingur hennar á að greiðast fyrir lok þessa mánaðar en hitt í vor.

Ég veit nú bara ekki hvernig ég hefði komist af í haust ef ég hefði ekki haft hana, hún þvoði allt innan úr, verkaði mikið úr kalkinu, þvoði allt lundabaggaefnið, brytjaði mörinn, þvoði allt upp leirtau og skilvinduna, þvoði öll gólfin, hefir gert það síðan hún kom, tók mikið upp ur görðunum og þurrkaði kartöflurnar með mér, hjálpaði Stefáni að koma eldiviðnum inn og margt og margt. Hún er best þegar hún hefir sem mest að gera, undir öllum sviðunum fýsti hún.

Bogga hefir það fyrirtakslag á henni. Ef hún einu sinni fæst til að gera eitthvað  þá er allt gott, þá gerir hún það umtalslaust upp frá því, hún segist ætla að hjálpa mér vel þegar Bogga er farin, það munar líka minna en vera laus við allan uppþvott og gólfþvott, ekkert leiðist mér eins og uppþvottur, hann er heldur ekki svo lítill ....

Jórunn fer nú bráðum að koma, pabbi hennar hringdi í mig nýlega. Ég sagði honum að það stæði við það sem ég hefði sagt honum að hún mætti koma ef hann væri í vandræðum með hana. Það er talsverð viðbót að þjóna henni og kenna henni eins og það gengur en ég verð feginn að hafa þessar aumingja stúlkur kringum mig heldur en ekkert, er búin að fá nóg af einverunni en ekki er þroskandi að vera með þessum einfeldningum. Þessi vetur verður verður vafalaust langur fyrir mig og erfiður. Guð má vita hvort ég lifi það að komast fram úr honum.

Gleymdi að segja þér það að ekki var hægt að draga fé í almenningnum í Stafnsrétt nema á fimmtudagskvöldið fyrir drullu. Menn og skepnur sátu fastar svo á föstudagsmorguninn var byrjað á því að búa til nýja rétt á eyrinni fyrir utan dilkana, girt með vírneti álíka stór almenningur og hin réttin. Slíkt er ekki í manni minni, veður var þá yndislegt en mikill snjór á jörð þarna fram frá. Blessuð Imma mín var ein heima með Jórunni og Gunnu, gaf henni nokkrar krónur fyrir þá hjálp. Ég held að þessi réttatúr minn vegi meira í vitund minni sem skemmtiferð heldur en nokkurn tíma suðurtúrinn í vor því sannast sagt hefi ég aldrei á ævi minni verið á slíkum fundi en þú lætur þetta ekki fara lengra.

Ekkert starf, held ég, ætti eins vel við mig eins og það að vera við greiðasölu. Það er ekki mikið að hugsa um gesti ef maður hefir eitthvað fyrir framan hendurnar en mig vill stundum vanta það. Ég keypti sjálf smjörlíki til að baka úr til réttanna. Stefán var svo mikið á móti þessu að ekki gat það verra verið en ég var knúð áfram af ósýnilegu og óviðráðanlegu afli til þess að gera þetta. Mér hefir oft fundist ég ekki sjálfráð gjörða minna og svo var með þetta.

Kaffið fékk ég lánað á Fjósum 4½  pd. og svo hafði ég 1/3 hveitikorn saman við. Það lærði ég í ferð minni norður að Mælifelli í sumar að nota það. Sigurður á Nautabúi kenndi mér það, það hefir verið mér mikið hagræði  því ég þarf mikið á kaffi að halda en vandi er að brenna það. Fyrst er hveitikorn brennt, næstum eins dökkt og kaffi, látið smjör í pottinn eða brennarann svo læt ég kaffið saman við og brenni allt saman þar til kaffið er orðið mátulega brennt, bæti smjörmæri í um leið og ég læt kaffið saman við. Okkur finnst kaffið bara betra síðan, mig munaði þetta mikið við kaffisöluna.

Almenn ánægja var yfir þessari sölu minni þarna fram frá, það hefir víst ekki verið oft selt svoleiðis kaffi í réttunum. Ég lét það eftir mér að fá mér gúmmískó á eftir sem ég var á í haust. Fyrir það leið mér þá betur í fótunum að slagsa í drullunni í haust sem maður sat oft fastur í þegar ég var að fara í mylluna og fjósið. 3.850 pd malaði ég fyrir aðra í sumar og 12 hundruð fyrir heimilið þar fyrir utan. Það er ekki gert annað á meðan en það er gert og talsverð viðbót við önnur störf.

Hér er feikna fönn og harðindalegt útlit svo að maður hefir ekki séð slíkt svo snemma á tíma, á Laxárdal er er allt í kafi, á Vatnsskarði og Refsstöðum eru öll hross komin inn auk heldur aðrar skepnur.

Þú hefir heyrt í útvarpinu um Sigvalda í Stafni þegar hann varð undir snjóflóðinu í hesthúsinu og lá þar fastur á fótum í milli 20 og 30 kl.tíma. Hann er mikið marinn og í rúminu síðan. Hann er bróðir Munda Halldórssonar, vinar þíns.

Stöðin hérna stoppaði á föstudagskvöldið í hríðinni en fór í lag um nóttina aftur sjálfkrafa, var svo mikið krap í læknum, hengjur svo miklar í gilinu að lífsháski er að koma upp að stíflunni, allt getur komið á einu augnabliki yfir mann. Stöðin á Bl.ós stoppaði í fleiri daga, veit ekki hvort hún er komin enn í lag, eins á Björnólfsstöðum. Snjór er svo mikill í Langadal að lítt er fært um hann að fara.

Í Stóradal voru öll haustverk ógerð nema að fénu var komið í kaupstaðinn, eldiviður úti, ekki gert í kringum hey eða troðið upp í gátt. Sveinbjörg mátti sjálf taka til handa kúnum með annarri stúlku. Jón fyrir sunnan og enginn maður á heimilinu nema Jón sonur hans sem er óhneigður fyrir allt sem að búskap lýtur. Þar er líka feikileg gestanauð og öllum veitt súkkulaði og kaffi svo Sveinbjörg veit hvað hún hefir að gera.

Þú hefir eflaust heyrt lát Ingvars Pálssonar manns Jóhönnu frá Holtastöðum, hún fær að reyna ástvinamissinn auminginn. Þorbjörn á Skarði fór suður að leita sér lækninga, er slæmur fyrir brjósti, fyrir hjartanu og víðar svo það er ekki álitlegt. Sigríður var líka til lækninga fyrir sunnan í sumar, var skorin upp, ég veit ekki við hverju.

5. nóv. Ég var að sofna ofan í bréfið í gærkveldi, er svo kvöldsvæf en uppi á morgnana, þvílíkt óeðli á mér.

Á Gunnsteinst.st. voru hjónin alein með börnin og Önnu í allt haust, stúlka í fyrstu slátrunum. Hafsteinn varð oddviti áfram og sömu mennirnir með honum og ég var kosin í skólanefndina aftur með öllum atkvæðum nema einu. Sveinn á Hóli kaus mig ekki. En nú er séra Gunnar formaður og það þótti mér gott.

Nú er yndislegt veður, frostlaust og gott, en ekki batnar jörðin við það að í snjónum bloti. Imma unir sér vel við þetta starf, hefir þetta fyrirtaksfæði en mikið að gera. Má ekki vera að lesa bréfið yfir. Kveðja til ykkar allra og að Skógum. Margblessuð elsku systir. Þín systir Beta 

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 31
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 478532
Samtals gestir: 92242
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 19:21:12