21.03.2008 15:00

Ég trúi að við í Hlíðarhreppi eigum þessa gersemi!

 

Sveinn Hannesson frá Elivogum: Einkennilegir menn:
  Árni gersemi:

Gönguskörð eru á sýslumótum og eru vestasti hluti Skagafjarðarsýslu. Þaðan liggur leiðin um svonefnda Kamba og Víðidal vestur í Laxárdal, austustu sveitina í Húnavatnssýslu. Var það mjög fjölfarin leið um seinustu aldamót og man ég glögglega eftir eftir mörgum Húnvetningum og öðrum sem gistu á heimili foreldra minna.

Þótti okkur krökkunum gestkoman skemmtileg tilbreytni, sérstaklega þegar gestirnir voru nætursakir hjá okkur og þó helst ef þeir voru nokkuð sérkennilegir í orðum og athöfnum.

Á meðal þeirra var nokkur hluti hinir svokölluðu farandmenn og man ég að við biðum komu þeirra með eftirvæntingu, þótt hún væri misjafns eðlis eftir því hvaða vonir við gerðum um þá. Standa mér enn ljóst fyrir hugskotssjónum nokkrir þeirra svo sem Jónas blánefur, Sveinn holgóma, Sigurbjörn flækingur og Rauði-Finnur. En hlýjast er mér þó í huga til þess manns, sem hét Árni Frímann Árnason og var venjulega kallaður gersemi.

Hann var fæddur um 1859 í Austur-Húnavatnssýslu, ekki man ég á hvaða bæ en á Bólstaðarhlíðarhreppi var hann uppalinn og átti æ þann hrepp, svo að líkindi benda til þess að það hafi verið fæðingarsveit hans, því að maðurinn var óstöðugur í rásinni um ævina og mundi vart hafa unnið sér sveitfesti annars staðar eftir þágildandi sveitfesti-löggjöf.

Þegar Árni var 10-12 ára var hann niðursetningur á Bollastöðum í Blöndudal, hjá alkunnum sæmdarbónda, Guðmundi Gíslasyni, er þar bjó stórbúi um langt skeið. Var það þá, að einhver ókunnugur spurði Guðmund hver ætti þennan dreng og hann svaraði: ?Ég trúi að við í Hlíðarhreppi eigum þessa gersemi! ? Upp frá því var Árni jafnan kallaður gersemi.

Snemma þótti bera á góðri greind hjá Árna og sömuleiðis alláberandi göllum, sérstaklega hóflausri ástríðu í áfengi. Leiddi það svo aftur til vinnuhyskni og þverbresta í skapgerð. Enn fremur leiddi það til þess að drengurinn var á hrakhóli og lenti í lakari stöðum en ella hefði orðið. Má telja fullvíst að ill aðbúð hafi á ýmsan hátt átt drjúgan þátt í því að ekki varð meira úr allmiklum hæfileikum hans en raun varð á.

Árni var með stærri mönnum á vöxt og vel á sig kominn, karlmenni að burðum og myndarmaður ásýndum, bjartur á hár og skegg, bjartur yfirlitum, andlit nokkuð stórskorið, en þó eigi til lýta, svipurinn djarfur og augun greindarleg. Afkastamaður var hann til allra verka og einhver sá besti sláttumaður sem ég hefi þekkt ?þegar lag var á? sem kallað var eða með öðrum orðum þegar hann gat haldið sér frá hinni hóflausu drykkjufýsn, sem gekk svo langt að vikukaup nægði vart fyrir sunnudagsdrykkju. Var því að vonum, að lítið yrði um vetrarbjargráð, þegar sumarafli fór svo. En afleiðingin varð sú, að hann var mikið á ferðalagi eða ?flakkaði? sem kallað var.

Um 30 vetur gekk Árni milli manna en fór þó aldrei yfir stærra svæði til langdvalar en Austur-Húnavatnssýslu. Var hann sannnefndur langþurfamaður á þessum slóðum en þó ekki á þann hátt að verða hverjum manni hvimleiður, heldur hið gagnstæða því að alls staðar var hann aufúsugestur. Hann átti í fórum sínum það sem hélt honum uppi. Náttúran hafði verið svo fyrirhyggjusöm að sjá um það, að hann gæti hvarvetna verið velkominn. Hún hafði gefið honum yfirburða fagra og þróttmikla rödd sem kvæðamanni.

Ég ætla nú að reyna að draga upp sem ljósasta mynd af Árna gamla.

Það mun hafa verið um það leyti, sem ég var 6-7 ára gamall , að ég man fyrst greinilega eftir honum. Faðir minn hafði farið frá Gvendarstöðum og ætlað ofan á Sauðárkrók í vikunni fyrir jólin. Milli Gvendarstaða og Sauðárkróks er yfir Kamba að fara og mun sú leið vera því næst 15 kílómetrar. Er hún örðug að vetrarlagi og ekki mannhættulaus ef harðfenni er. Hríð hafði brostið á og frost var allhart. Ég man að við vorum kvíðafull og líðanin ekki sem best. Það logaði illa á týrunni og fönnin leitaði inngangs í bæinn gegnum gisna hurð og brotna. Glugga og baðstofumæninn alhélaði á svipstund.

Má vera að mönnum finnist þetta ótrúleg og öfgafull lýsing á húsakosti til sveita. En þannig var híbýlum háttað á mörgu fjallakoti fyrir 30 árum og jafnvel þótt skemmra sé. (1932)

Bylurinn var að komast í algleyming. En þá var bæjarhurðinni hrundið upp og inn kom faðir minn með poka á baki og leiddi Árna gersemi sér við hlið, mjög drukkinn. Árni hélt á þriggja pela flösku af brennivíni í annarri hendi og hafði þumalfingur fyrir tappa í henni. Var hönd hans rauðblá og þrútin af frostinu.

Til skýringar þessu verð ég að geta þess, að úti hjá svonefndum Langakambi, sem liggur þvert yfir dalskoruna, snertispöl fyrir ofan Gvendarstaði, hafði Árni tekið upp flöskuna og misst um leið bæði tappa og vettling.

Þegar þeir komu heim varð heldur en ekki fótur og fit uppi hjá okkur krökkunum. Fyrst og fremst varð að skafa snjóinn af þeim og svo kom móðir mín með með rjúkandi kaffikönnu. Var þá drukkið vel kaffi og Árni lét drjúgum brennivín út í. Man ég, að þegar kaffið var drukkið, stendur Árni upp og hefur að kveða úr Númarímum Sigurðar Breiðfjörðs:

Svefninn býr í augum ungum

eru þau hýr, þótt felist brá,

rauður vír á vangabungum

vefur og snýr sig kringum þá.

Aldrei man ég eftir að ég hafi orðið fyrir sterkari áhrifum. Baðstofukytran með moldargólfi, kulda og myrkri, varð að dýrðlegri höll. Nú var kvæðamaðurinn ekki flakkarinn og drykkjusvolinn Árni gersemi, heldur listamaður, sem átti þúsundfaldan hróður skilið. Með því að kveða eina ferskeytlu hafði hann á svipstundu hitað og lýst umhverfi, sem áður var kalt og dauflegt.

Ég býst við því að um þetta leyti hafi Árni verið fertugur. Næstu tíu árin var hann á stöðugu ferðalagi og hélt þá uppteknum hætti með óreglu á hæsta stigi um vínnautn. En alltaf voru hljóðin jafnfögur. Þau einkenndu hann með öðru frá öðrum drykkju- og kvæðamönnum, og eins hitt, að hann fór aldrei með aðrar vísur en þær sem voru vel ortar. Kvað hann að jafnaði vísur eftir Þorstein Erlingsson og Steingrím. Þorsteinn var uppáhald hans. Þó gat það komið fyrir, þá hann var lítið drukkinn, en þó hreifur, að hann raulaði vísur sem húnvetnsk stúlka kvað um hann enda þótt gersemis-nafnið væri þar nefnt, en honum var jafnaðarlega illa við það:

Reyfður sóma og sönnum frið

sólarljóma fegri

sem vorblóma brosir við

blessað fróma gersemið.

Svo kvað hann stundum krökkunum til gamans: ?Grýla kallar á börnin sín, þegar hún fer að sjóða o. s. frv.? Var þá öllum skemmt. Margt kvað hann annað.

Þegar Árni var um fimmtugt, flaug sú frétt, er ólíkleg þótti, að hann væri trúlofaður efnilegri bóndadóttur, tvítugri að aldri. En þegjandi vottur lýgur ekki.

Árni varð á næstunni bóndi og faðir og heimilisfaðir í fyllstu merkingu þess orðs. Hann fékk á leigu kot í Bólstaðarhlíðarhreppi og þá byrjaði fyrir honum nýtt tímabil á öllum sviðum.

Efni voru engin að byrja með nema 6 ær og tvö hross, sem konan átti og svo jarðarígildin.

Þegar Árni hafði búið þarna nokkur ár, bar svo við, að leið mín lá þar nærri. Gerði ég mér þá til erindis að hitta karlinn og vildi vita hvort hann væri hættur að kveða.

Árni var að gefa kindum sínum þegar ég kom. Þetta var í góulok. Átti hann þá um 50 kindur og var ánægjulegt að sjá hvernig hann fór með skepnur sínar. Margar ærnar voru búnar að spretta frá sér og nokkurra þumlunga hornahlaup voru á lömbunum. Alinn hestur stóð við stall og vel með farnir bjargræðisgripir í fjósi.

Við gengum til baðstofu. Hún var lág og lítil ummáls en allt lýsti þar reglu og snyrtimennsku.

Þegar ég hafði fengið góðgerðir, fór Árni ofan í kommóðu, dró þar upp ?Þyrna? og hóf að kveða ?Elli sækir Grím heim?. Raddhæðin var hin sama og áður, en mýktina vantaði. Þóttist ég vita, að vantaði á strengina eitthvað sem gæti mýkt þá.

Þetta var í seinasta sinn, að ég sá Árna. Hann lést fáum árum síðar(1918). En honum gleymi ég aldrei.

Flettingar í dag: 107
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 183
Gestir í gær: 110
Samtals flettingar: 515484
Samtals gestir: 104677
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 18:00:59